Fréttir

Svarta hermannaflugan í fiskeldi?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís ohf. í samvinnu við Íslenska matorku ehf. og Háskóla Íslands hefur sett í gang tilraunaræktun á hryggleysingjum til að framleiða ódýr prótein til fóðurgerðar fyrir fiskeldi. Um ræðir lirfu svörtu hermannaflugunnar (e. Black Soldier Fly).

Verkefnið er liður í því að auka samkeppnishæfni fiskeldis á Íslandi með því að nýta vannýtt hráefni og orku til að framleiða ódýr gæðaprótein.

Víða fellur til lífrænn úrgangur og grot sem stundum er urðað með tilheyrandi kostnaði en væri hægt að nýta sem æti fyrir tilteknar lirfur í náttúrulegu hringferli. Egg lirfunnar voru innflutt úr tilraunaræktun samstarfsaðila frá þýskalandi.

Flugurnar lifa við hátt hitastig og munu ekki geta þrifist utandyra hér á landi vegna lágs hitastigs. Þá er líffræði flugunnar með þeim hætti að flugan sjálf hefur ekki munn og nærist ekki og er heldur ekki búin neinum broddi sem stungið geta aðrar lífverur. Eini tilgangur fullorðinnar flugu er að fjölga sér. Lirfan er mjög næringarrík og inniheldur um 42% prótein og 35% fitu sem gerir hana hentuga sem fóðurhráefni.

Rannsóknir hafa sýnt fram á mikla matarlyst þessara lirfa en minnkun ætis þeirra er á bilinu 50-95%. Tilraunin sem sérfræðingar Matís hafa umsjón með er komin rúmar tvær vikur á veg og styttist í að lirfurnar séu komnar á púpustig, sem er lokastigið áður en þær verða nýttar sem fóðurhráefni. En til að viðhalda hringferlinu verður nokkrum púpum leyft að umbreytast í flugur til að verpa eggjum. Allt fer þetta fram í einangrun við stýrðar aðstæður. Að lokum stendur til að gera tilraunir með fóðrun lirfumjöls á bleikju.

Nánari upplýsingar veita Jón Árnason og Stefán Freyr Björnsson hjá Matís.