Fréttir

Útflutningsverðmæti grásleppuafurða aukast um 300 milljónir

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ný reglugerð um grásleppu kallaði á nýja markaði og vinnsluaðferðir sem hafa skilað talsverðum arði og verið atvinnuskapandi. Nýtingin hefur líka batnað til muna en hér á landi voru einungis hrognin nýtt sem nemur um 30% af heildarþyngd fisksins.

Árið 2010 gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út reglugerð nr 1083/2010, en með henni var sjómönnum gert skylt að koma með allan grásleppuafla að landi eftir árið 2011. En fram að því höfðu öllu jafnan, einungis hrognin verið hirt og restinni fleygt í sjóinn. Áður en lögin tóku gildi var ljóst að ekki var stór markaður hérlendis fyrir grásleppu. En með miklu frumkvöðlaframtaki síðastliðna ára hafði tekist að byggja upp markað fyrir grásleppu í Kína þar sem Landssamband smábátaeigenda og útflutningsfyrirtækið Triton spiluðu lykilhlutverk.

Verð á grásleppu fer hækkandi

Til að bæta við þekkingu á þessari vannýttu tegund sótti Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði ásamt Matís um styrk til AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi fyrir verkefnið „Bætt nýting grásleppuafurða“. Í verkefninu voru tekin sýni frá veiðisvæðum frá Skjálfanda og vestur og suður úr alla leið í Faxaflóa. Þannig fékkst samanburður á grásleppu frá ólíkum veiðisvæðum og eins upplýsingar um efna- og næringarinnihald ásamt upplýsingum um aðskotaefni eins og þungmálma. Þetta eru grundvallarupplýsingar til að selja vöru og finna henni nýja og spennandi markaði. Rannsóknir voru unnar hjá rannsóknarstofum Matís við Vínlandsleið í Reykjavík.

Kína er góður markaður fyrir grásleppu, þar sem hún er flutt þangað með hvelju og öllu saman en í því samhengi er rétt að taka fram að hrognin eru um 30% af þyngd grásleppu en hveljan með haus og hala um 55% og þar af eru flökin aðeins 14% af heildarþyngd hennar. Slæging  fyrir Kínamarkað er þó ólík hefðbundinni slægingu og kallar á flóknari handbrögð og betri vinnuaðstæður en almennt eru fyrir hendi í litlum fiskibátum. Veiðar og vinnsla fyrir Kínamarkað hafa skilað verðmætum og ný tækifæri skapast í mörgum sjávarbyggðum við framleiðslu og útflutning auk þess sem að breyttar aðferðir við slægingu kalla á vinnslu í landi sem hefur verið atvinnuskapandi. Það er aðdáunarvert hvað sjómenn hafa tekið þessum breytingum vel með því að yfirfæra vinnubrögð til áratuga og aðlaga sig að breytingum. Verð fyrir grásleppuna hefur farið hækkandi og er góð búbót fyrir grásleppusjómenn og skapar verðmæti í sjávarbyggðum.

Önnum ekki eftirspurn

Landssamband smábátaeigenda hefur allt frá árinu 1989 verið í samstarfi við áhugasama útflytjendur, vinnsluaðila og síðast en ekki síst Matís við að þróa vinnsluaðferðir og leita markaða fyrir grásleppuafurðir. Grásleppukarlar hafa fylgst með á hliðarlínunni með jákvæðu viðmóti, m.a. greiðslu í þróunar- og markaðssjóð LS sem notaður var vegna þessara mála. Jarðvegur fyrir breytingum var því frjór og uppskeran ríkuleg eins og sjá má á yfirstandandi vertíð með 300 milljóna auknu aflaverðmæti af grásleppuveiðum, sem skýrist aðallega af útflutningi á söltuðum grásleppuhrognum. Útflutningsverðmæti ársins 2012 námu rúmlega 2.3 milljörðum, og má því gera ráð fyrir því að grásleppan skili rúmlega 2.6 milljörðum í þjóðarbúið 2013. Markaðsaðstæður eru ágætar og horfur góðar þar sem enn er ekki hægt að anna eftirspurn Kínamarkaðar.