Fréttir

Verkefnið “Bætibakteríur – hin hliðin” var eitt þeirra verkefna sem tilnefnt var til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2009

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2008 og var unnið af Hugrúnu Lísu Heimisdóttur, nemanda sem lokið hafði fyrsta ári í líftækni á auðlindasviði við Háskólann á Akureyri. Verkefni nemanda var hluti af stærra verkefni, “Bætibakteríur í lúðueldi”, sem unnið var í samstarfi Matís ohf., Háskólans á Akureyri, Fiskey hf og Háskólans á Hólum með styrk úr Tækniþróunarsjóði (2006-2008).

Markmið verkefnisins í heild sinni var að leita hugsanlegra bætibaktería í lúðueldi Fiskey hf. og sem síðan væri hægt að bæta út í umhverfið hjá lúðulirfum í þeim tilgangi að bæta vöxt og afkomu lirfanna.

Fyrstu vikurnar eru megin flöskuháls við eldi lúðu og annarra sjávarfiska en þá nærast lirfurnar á lifandi fóðurdýrum. Fóðurdýrunum fylgir mikill fjöldi baktería auk þess sem lirfurnar þurfa á þessu þroskastigi að reiða sig eingöngu á ósérhæfða ónæmissvörun. Mikill áhugi er því fyrir notkun bætibaktería í því markmiði að stjórna samsetningu bakteríuflóru í umhverfi og meltingarvegi lirfa og gera hana jákvæðari fyrir lirfurnar.

Meðhöndlun með blöndu þriggja tegunda hugsanlegra bætibaktería reyndist gefa marktækt betri afkomu lúðulirfa á fyrstu stigum eldisins og í verkefni nemandans var sjónum því beint að hinni hlið bætibakteríanna, þ.e. þeirri hlið sem snýr að þeim eiginleikum bakteríanna sem unnt er að rannsaka og mæla á rannsóknastofunni. Eitt af einkennum öflugra bætibaktería er að hamla vexti óæskilegra baktería og rannsakaði nemandi þessa og ýmsa aðra eiginleika bakteríanna. Einnig er mikilvægt að leita hagkvæmra leiða til þess að framleiða bakteríurnar í miklu magni og geyma þær og flytja án þess að þær missi eiginleika sína. Frostþurrkun er hentug og æskileg leið til þess að geyma og flytja bakteríur og skoðaði nemandinn vöxt bakteríanna og vaxtarhamlandi áhrif þeirra í bæði ferskum og frostþurrkuðum ræktum.

Helstu niðurstöður verkefnisins sýndu að bætibakteríurnar höfðu hamlandi áhrif á vöxt ríkjandi baktería í hluta sýna en lítil sem engin áhrif á vöxt ríkjandi baktería í öðrum sýnum. Þetta gæti bent til þess að í hluta lirfa ríki bakteríuflóra sem náð hefur þar góðri fótfestu og því erfitt að hafa áhrif á vöxt bakteríanna. Því er mikilvægt að meðhöndla með bætibakteríum snemma í eldisferlinu til þess að æskilegar bakteríur nái þar fótfestu. Niðurstöður gáfu jafnframt vísbendingar um að bætibakteríustofnarnir þrír vaxi betur í návist hvors annars en einir og sér.

Því má segja að verkefni nemanda hafi varpað skýru ljósi á eiginleika bætibakteríanna og hentugustu aðferðir við framleiðslu þeirra til notkunar á fyrstu stigum lúðueldis.

Verkefnið var unnið undir leiðsögn Rannveigar Björnsdóttur lektors við HA og annarra sérfræðinga Matís ohf. á Akureyri. Nánari upplýsingar veitir Rannveig í síma 422-5108.