Neytendakönnun um saltfisk
Löng hefð er fyrir vinnslu saltfisks hér á landi en áður fyrr var öðru fremur notast við saltið til að lengja geymsluþol fiskins. Í dag telst saltfiskur sælkeravara sem nýtur mikilla vinsælda víða um heim, ekki síst í Suður-Evrópu, þar sem hefðir og gæði íslenska saltfisksins leika stórt hlutverk. Matís stóð fyrir vinnustofum með saltfiskframleiðendum og matreiðslumönnum í apríl og maí 2019. Markmiðið með þeim var meðal annars að meta stöðu saltfisks á heimamarkaði. Þar kom fram að afla þyrfti upplýsinga um sýn Íslendinga á saltfiski til að meta betur tækifærin hérlendis. Byggt á niðurstöðum vinnustofanna var framkvæmd vefkönnun með það að markmiði að rannsaka ímynd saltfiskafurða í hugum Íslendinga, almenna þekkingu á saltfiski og sögu hans, og upplifun á saltfiski. Einnig var könnuð neyslutíðni á saltfiski, léttsöltuðum fiski og nætursöltuðum fiski, sem og viðhorf til saltfisks samanborið við léttsaltaðan- og nætursaltaðan fisk. Könnunin var framkvæmd í maí 2019 og birtist 17.000 notendum Facebook, 18 ára og eldri. Alls luku 505 manns könnuninni.
Mikill munur var á svörum þátttakenda eftir aldri. Niðurstöðurnar sýna að neysla á bæði fiski og saltfiski fer minnkandi með lækkandi aldri. Einungis um 29% þátttakenda á aldrinum 18-29 ára borða saltfisk einu sinni á ári eða oftar en samsvarandi hlutfall fyrir elsta hópinn, 60-70 ára, er um 94%. Helsta ástæða þess að þátttakendur borða ekki saltfisk er að þeim finnst hann ekki góður. Aðrar orsakir eru að hann er of saltur, skortur á framboði, að það sé lítil hefð fyrir saltfiski, og að ferskur fiskur sé frekar valinn. Almennt voru viðhorf til saltfisks nokkuð jákvæð og upplifun þeirra sem hafa keypt saltfisk á veitingastað, fiskbúð og matvöruverslun góð. Hins vegar eru yngri þátttakendur almennt neikvæðari fyrir saltfiski og líklegri til að finnast bragð af saltfiski vont en þeim sem eldri eru. Þekking og áhugi á saltfiski minnkar einnig með lækkandi aldri og á það sama við um kauptíðni á saltfiski, léttsöltuðum fiski og nætursöltuðum fiski. Niðurstöður gefa til kynna að mismunandi smekkur sé eftir aldri á því hversu saltur saltfiskur á að vera. Eldri þátttakendur eru líklegri til að vilja hafa saltfisk vel saltan og finnst hann sjaldnar of saltur en þeim sem yngri eru.
Saltfiskurinn hefur verið samofinn sögu Íslendinga og matarmenningu í árhundruð. Niðurstöður úr þessari könnun sýna hins vegar minnkandi þekkingu, áhuga og neyslu á saltfiski í yngri aldurshópum. Þessi þróun getur skýrst af auknu úrvali matvara, breyttum smekk, viðhorfum og venjum. Líklegt er að ímynd saltfisks sem gæðavöru eigi undir högg að sækja og að miklar breytingar séu að verða á neyslu saltfisks meðal Íslendinga. Til að ýta undir neyslu á saltfiski þarf að kynna hann betur og gera sýnilegri, ekki síst meðal yngri aldurshópa, hvort heldur sem er í mötuneytum, matvöruverslunum, fiskbúðum eða veitingastöðum.