Skýrslur

Saltfiskkræsingar: Saltfiskmánuður

Útgefið:

29/08/2024

Höfundar:

Kolbrún Sveinsdóttir, Aðalheiður Ólafsdóttir, Þóra Valsdóttir, Eva Margrét Jónudóttir

Styrkt af:

AG Fisk (Arbejdsgruppen for Fiskerisamarbejdet), NORA

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Til að styrkja stöðu saltfisksins, með sína löngu hefð, sögu og tengsl við norræn lífsviðurværi, er mikilvægt að efla virðiskeðjuna í heild sinni, frá framleiðendum og smásöluaðilum, til matreiðslufólks og neytenda. Markmið verkefnisins „Saltfiskkræsingar“ er að þróa nýja eða bætta tilbúna rétti sem byggja á hefðbundum saltfiski, og 16 þátttakendur frá Íslandi, Noregi og Færeyjum taka þátt í því. Hópurinn samanstendur af sérfræðingum í saltfiskvinnslu og gæðum, matreiðslu, matvælaframleiðslu, miðlun og ferðaiðnaði.

Í kjölfar vinnustofu verkefnisins sem haldin var haustið 2022 var unnið áfram með hugmyndir að saltfiskréttum og saltfiskvörum í samstarfi Gríms Kokks, Matís, Menntaskólans í Kópavogi, Íslenskra saltfiskframleiðenda, Klúbbs Matreiðslumeistara og Íslandsstofu, með það að markmiði að kynna saltfiskinn betur með áherslu á matvöruverslanir.

Þróaðar voru vörur úr saltfiski og uppskriftir að saltfiskréttum innan verkefnisins og í samstarfi við Krónuna, voru vörurnar settar í sölu og uppskriftir að saltfiskréttum birtar á uppskriftasíðu Krónunnar í mars 2024. Niðurstöður voru svo kynntar á vinnustofu verkefnisins í Færeyjum í maí 2024. Bæði saltfiskvörur og uppskriftir fengu mjög jákvæðar viðtökur, og vonir standa til að hægt verði að bjóða upp á saltfiskkræsingar í íslenskum matvöruverslunum til frambúðar. Það er þó á brattann að sækja, þar sem baráttan um hillupláss matvöruverslana er hörð, og erfitt getur verið fyrir smærri framleiðendur að fjárfesta í fullverkuðum saltfisk í því magni sem þeim hefur staðið til boða hingað til. Nauðsynlegt er að auka sveigjanleika og efla samvinnu innan saltfiskkeðjunnar til brautargengis saltfisksins innanlands, umbylta ímynd hans og orðspori.

Skoða skýrslu