Fréttir

Áhrifaþættir á gæði lambakjöts

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hafa á síðustu árum unnið saman að verkefnum um gæði íslensks lambakjöts. Rit LbhÍ nr. 120 Áhrifaþættir á gæði lambakjöts eftir þau Guðjón Þorkelsson, Emmu Eyþórsdóttur og Eyþór Einarsson, er komið út. Ritið fjallar um niðurstöður rannsóknaverkefnis um áhrif meðferðar og kynbóta á gæði íslensks lambakjöt en verkefni var unnið í samvinnu Matís, LbhÍ og RML.

Tekin voru sýni af tæplega 800 kjötskrokkum í fjórum sláturhúsum og gerðar margvíslegar mælingar bæði í sláturhúsunum og á kjötsýnunum. Markmiðið var að meta stöðu íslensks lambakjöts út frá gæðamælingum og gera tillögur um áherslur í kynbótum fyrir kjötgæðum og um rétta meðferð fyrir og eftir slátrun. Jafnframt var safnað vefjasýnum til greininga á erfðaefni í mögulegum framhaldsrannsóknum.

Í ritinu er einnig yfirlit um gæðamælingar á lambakjöti niðurstöður þeirra rannsóknum bæði hérlendis og erlendis.

  • Helstu niðurstöður voru m.a. eftirfarandi:
  • Hlutfall kjötskrokka með sýrustig yfir mörkum fyrir svokallað streitukjöt var um 10% sem er of hátt. Úr þessu má bæta með ráðgjöf og eftirliti um meðferð sláturlamba.
  • Raförvun sem beitt er til að flýta dauðastirðnun eftir slátrun virkar misvel og þarf að stilla tæki og þjálfa vinnubrögð við notkun raförvunar.
  • Hlutfall fitu í hryggvöðva var mjög lágt eða um 1,8 % að meðaltali. Lagt er til að kannað verði hvort auka megi innanvöðvafitu með kynbótum án þess að yfirborðsfita á skrokkum aukist.
  • Skurðkraftur, sem er mælikvarði á seigju mældist hærri en í fyrri rannsóknum. Of mörg sýni mældust með há gildi sem gefa til kynna seigt kjöt. Orsaka er að leita í meðferð skrokka í sláturhúsum en ræktun fyrir auknum vöðva er einnig mögulegur áhrifaþáttur.
  • Bráðabirgðamat á arfgengi bendir til þess að kjötgæðaeiginleika megi bæta með kynbótum. Með tilkomu erfðamengjaúrvals sem byggir á greiningum erfðaefnisins skapast nýir möguleikar á þessu sviði.

Ritið má nálgast hér.

Bæklingurinn „Frá fjalli að gæðamatvöru – um meðferð sláturlamba og lambakjöts“ sem kom út hjá Matís fyrr á þessu ári byggir m.a. á niðurstöðum verkefnisins.

IS