Fréttir

Heimsókn LHÍ til Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nemendur á öðru ári í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands komu í heimsókn í Matís á dögunum til að kynna sér starfsemina og verkefnin sem hér eru unnin en þau lögðu sérstaka áherslu á það hvernig matvæli munu líta út í framtíðinni.

Í vöruhönnunarnáminu hljóta nemendur meðal annars þjálfun í að vinna hönnunarverkefni í samstarfi við félög, fyrirtæki og stofnanir í samfélaginu á borð við Matís. Þóra Valsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, kynnti fyrir þeim starfsemina og þau fjölbreyttu verkefni sem hér hafa verið unnin áður en hún fylgdi þeim svo um húsið þar sem þau gátu litið á aðstöðuna sem Matís hefur uppá að bjóða. Eftir það gafst nemendum tækifæri á að skoða VR myndbönd úr verkefninu Future Kitchen í sýndarveruleikagleraugum þar sem möguleikar fyrir eldhús framtíðarinnar eru skoðaðir.

Myndböndin eru aðgengileg á Youtube rás Matís hér:

Future Kitchen VR

Nemendurnir voru í fylgd fagstjóra vöruhönnunar, Elínar Margot, sem leggur áherslu á að annars árs nemar læri um matarhönnun og einbeiti sér sérstaklega að því hvernig matvæli og menningin í kringum þau munu líta út í framtíðinni með aðferðafræði getgátuhönnunar (e.speculative design).

Nemendurnir spurðu út í alls kyns fjölbreytt verkefni og því verður áhugavert að sjá hvað þau munu taka sér fyrir hendur í náminu og á komandi árum.