Fréttir

Plastrannsóknir ,,Það þurfa öll lönd að gyrða sig í brók, fara að mæla þetta og segja stopp”

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Undanfarin ár hafa verið unnin ýmis verkefni hjá Matís sem viðkoma plasti á einn eða annan hátt. Sophie Jensen, verkefnastjóri í faghópi sem fæst við lífefni hefur unnið að flestum þeim verkefnum en þar er til dæmis um að ræða verkefnin NordMar Plastic og verkefni um kemísk efni í veðruðu örplasti í sjónum sem styrkt voru af Norrænu ráðherranefndinni, LuLam Wrap og verkefni um áskoranir við pökkun grænmetis sem styrkt voru af Matvælasjóði.

Brýn þörf er á því að þróa nýjar, umhverfisvænar lausnir þegar kemur að pökkunarefnum fyrir matvæli til þess að leysa plastið af hólmi og Matís hefur unnið með frumkvöðlum og rannsóknaraðilum innanlands og utan að því að finna heppilega staðgengla. Einnig hafa verið unnin almennari verkefni um plast t.d. til þess að skilgreina, rannsaka og fylgjast með plasti í umhverfinu með það fyrir augum að auka umhverfisvitund fólks og draga úr plastnotkun.

Á vef Landverndar og á vefsíðu átaksins Plastlaus september er spurningunni Hvað er plast? svarað og þar kemur fram að plast þyki mörgum vera undraefni því það er auðvelt að móta það, það er slitsterkt og endingargott. Plast hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar það með tímanum í smærri og smærri einingar eða agnir. Til framleiðslu á plasti þarf jarðefnaeldsneyti, þ.e. olíu og gas en þær auðlindir eru ekki endurnýjanlegar sem þýðir einfaldlega að á endanum munu þær klárast.

Vandamálið við plast er í raun ekki plastið sjálft heldur hvernig það er notað. Hver Íslendingur notar að meðaltali 40 kg af umbúðaplasti árlega, að megninu til einnota plastvörur. Mikið af þessu plasti endar í sjónum þar sem það veldur skaða á lífríki náttúrunnar.

Verkefni sem Matís hefur unnið að og tengjast plasti eru fjölbreytt. NordMar Plastic verkefnið var afar metnaðarfullt verkefni sem ráðist var í árið 2019 og stefnan var að setja upp norrænt netverk af sérfræðingum í plasti með sérstaka áherslu á örplast. Það hafði þá vantað staðal eða staðlaðar aðferðir til þess að mæla og greina örplast í umhverfinu. Áhersla var lögð á norðurlöndin því þar hefur vantað upplýsingar t.d. um hvar örplastið er að finna, í hve miklum mæli o.s.frv. Markmiðið var að samhæfa aðgerðir í þessum málum á svæðinu og skoða hvað þarf að gera og hvernig.

Annað stórt markmið var að vekja einfaldlega athygli á plast vandanum í samfélaginu. Í dag er fólk farið að átta sig á því að stórir plast hlutir í sjónum á borð við einnota borðbúnað, plastumbúðir, veiðarfæri og fleira eru vandamál en við sjáum örplast ekki og áttum okkur því ekki jafn vel á því hve stórt vandamálið í kringum það er. Örplast verður til annars vegar þegar stærri plasteiningar brotna niður með tímanum og hinsvegar er það framleitt sérstaklega og notað í ýmsar vörur eins og hreinsiefni, málningu, fatnað og fleira.

Örplast má finna í öllu mögulegu. Í vatni, á jöklum og í andrúmsloftinu. Sýnt hefur verið fram á að við mannfólkið innbyrðum því sem jafngildir einu greiðslukorti á viku vegna plastmengunar.

Haldnir voru allskyns viðburðir og vinnustofur um allt land í samstarfi við Landvernd, Oceans missions og fleiri samtök þar sem markmiðið var að vekja athygli á plasti. Einnig var útbúið kennsluefni um plast í hafinu fyrir grunnskóla sem unnið er með í mörgum íslenskum skólum í dag. Ráðstefnan Arctic Plastic symposium sem haldin hefur verið í Hörpu undanfarin ár er einnig afrakstur NordMar Plastic verkefnisins.

Ein afurð verkefnisins var Instagramsíða og þangað inn voru sett stutt en afar fróðleg og nytsamleg myndbönd um það hvernig þú getur minnkað plastnotkun í mismunandi herbergjum á heimilinu þínu. Það eru ýmsar lausnir til nú þegar.

Í verkefninu um kemísk efni í veðruðu örplasti í sjónum var kannað hvort og í hversu miklu magni efnin sem eru í plasti og eru skaðleg skila sér út í sjávarumhverfið. Tvær gerðir af plasti voru hakkaðar niður í örlitlar agnir og settar í netapoka út í sjóinn í fjóra mánuði. Gerðar voru efnamælingar bæði áður en plastið var sett í sjóinn og eftir að það var tekið upp aftur og þá var hægt að sjá muninn á því hve mikið af plastefnunum hafði losnað.

Einnig var framkvæmt áhættumat þar sem lítið er vitað um það nákvæmlega hvaða efni eru notuð í mismunandi tegundir plasts. Vegna skorts á reglugerðum um plast eru ekki gerðar kröfur á plastframleiðendur um að gefa þær upplýsingar sérstaklega upp.

Efnin sem fundust og höfðu losnað úr plastinu voru mörg hver krabbameinsvaldandi eða hafa hormónaáhrif, t.d. á estrógen og þar með á frjósemi fólks. Ekki var hægt að draga neinar ályktanir út frá þessari rannsókn en mikilvægt þótti að vekja athygli á því að þessi efni eru að losna út í sjóinn og þarna er tilefni til frekari rannsókna.

Í verkefninu um áskoranir við pökkun grænmetis tók Sophie saman hvernig staðan er í dag hvað matvælaumbúðir varðar en plastið hefur vissulega ýmsa eftirsóknarverða eiginleika þegar kemur að því að varðveita matvæli. Aftur á móti er mikilvægt að vega þá kosti og meta á móti neikvæðum áhrifum plastnotkunar. Í samantektinni var munur á hefðbundnu plasti, lífrænu plasti og  lífbrjótanlegu plasti skoðaður og ýmsir kostir og gallar metnir. Umbúðir úr lífplasti teljast umhverfisvænar og hafa þær komið sterkt inn sem staðgengill plastumbúða.

Í lokaskýrslu verkefnisins kemur fram að ýmsar framtíðarlausnir fyrir umhverfisvænar umbúðir séu við sjóndeildarhringinn og mikið þróunarstaf á þessu sviði hefur verið unnið bæði á Íslandi og erlendis. Umbúðir úr íslensku hráefni og þekkingu á efnisvinnslu fyrir þær hefur skort, en nokkur nýsköpunarverkefni eru þó í farvatninu. Einnig er mikil nýsköpun erlendis tengd umbúðum úr hreinu frumhráefni og má þar nefna má þróun á umbúðum úr stoðvef plantna og þörungum. Því er rétt að fylgjast vel með nýjungum sem líta dagsins ljós.

Sophie Jensen var viðmælandi í nýjum þætti af Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Í viðtalinu fór hún vel yfir öll helstu plastverkefni sem Matís hefur unnið að undanfarin ár, sagði frá því sem er að gerast í rannsóknum á plasti í heiminum og gaf hlustendum allskyns góð ráð við að minnka plastnotkun á heimilunum.

Hlustið á hlaðvarpsþáttinn hér: Plastrannsóknir – ,,Það þurfa öll lönd að gyrða sig í brók, fara að mæla þetta og segja stopp!”

IS