Fréttir

Próteinfyrirtæki Rf flytur á Sauðárkrók

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Eins og greint var frá í fréttum í vikunni, hefur Rf flutt próteinfyrirtæki sitt, Iceprotein ehf, til Sauðárkróks. Fyrirtækið, sem stofnað var árið 2005, er þróunar-, framleiðslu- og markaðsfyrirtæki sem þróar, framleiðir og mun selja blautprótein fyrir fiskiðnað á Íslandi og þurrkuð prótein fyrir heilsu- og fæðubótarmarkaðinn.

Markmiðið með stofnun Iceprotein ehf var að þróa, framleiða og selja próteinafurðir úr uppsjávarfiski og afskurði af bolfiski í fiskafurðir og í heilsuvörur. Fyrirækið var til að byrja með staðsett á Akranesi, en fljótlega kom í ljós að finna þurfti hentugri aðstöðu fyrir fyrirtækið, sérstaklega m.t.t. matvælaframleiðslu. Á endanum var ákveðið að Iceprótein ehf fengi inni í húsnæði FISK Seafood á Sauðárkróki.

Tilkynnt var um flutninginn þegar Verið, Þróunarsetur Hólaskóla var formlega opnað þ. 7.mars í sama húsnæði FISK Seafood við höfnina á Sauðárkróki.  Þróunarsetrið er samstarfsverkefni Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins, Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, FISK Seafood og Hólaskóla og leggja iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið samtals 9,6 milljónir króna til verkefnisins.  Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, undirrituðu samning þess efnis við athöfnina í Verinu þ. 7. mars.

Iceprótein ehf er þó fjarri því að vera eini vettvangur próteinrannsókna á Rf.  Má t.d. nefna að Rf stýrir Propephealth-hlutanum í SEAFOODplus, stóru evrópsku vísindaverkefni, þar sem m.a. er rannsakað hvort að það séu einhver önnur efni í fiskinum en ómegafitusýrur sem hafi jákvæð áhrif á heilsu manna. Ákveðnar vísbendingar eru um að svo sé og beinast rannsóknirnar einkum að próteinum og peptíðum sem finna má í uppsjávarfiskum, loðnu, síld og kolmunna.

Þá má nefna rannsóknir á því hvort nýta megi vannýtt prótein úr frárennsli frá fiskvinnslum í landi, jafnvel til manneldis, en venjulega eru próteinin nýtt í fóður eða þau tapast út í umhverfið.  Verkefnið mun stuðla að hreinni framleiðslutækni, auka verðmæti þess afla sem berst að landi og stuðla að þróun á tæknilegum íblöndunarefnum úr vannýttu hráefni. 

Þá má nefna verkefni um notkun fiskpróteina við flakavinnslu, en þar er tilgangurinn sá að geta notað próteinafurðir sem náttúruleg hjálparefni til að bæta stöðugleika og nýtingu afurða. Einnig má nefna verkefni um notkun fiskpróteina sem fæðubótaefnis þar sem markmiðið er að er að vinna lyktar- og bragðlaus og vatnsleysanleg prótein með hátt næringargildi úr fiski sem hægt.er að nota sem  fæðubótarefni.

Samningur iðanaðar/sjávarútvegsráðherra

Fylgiskjal með samning