Fréttir

Sjávarútvegsbókasafnið tekur breytingum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tómlegt er nú um að litast á bókasafninu sem er til húsa í Sjávarútvegshúsinu. Miklar breytingar hafa staðið þar yfir síðan um mitt síðasta ár og sem stendur eru flest rit safnsins niðurpökkuð í kassa.

Eitt best varðveitta leyndarmál í Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4, er Sjávarútvegsbókasafnið sem þar er til húsa á þriðju hæð. Safnið er eign Hafrannsóknastofnunnar og Rf og er sérfræðisafn á sviði haf- og fiskifræða auk matvælafræði, með sérstaka áherslu á fisk. Margir vísindamenn og nemendur hafa notfært sér safnið á liðnum árum og einnig er safnið opið almenningi, þó bækur séu þar ekki til útláns.

Breytingarnar fela m.a. í sér að hluti af húsnæði safnsins var tekinn undir starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem starfræktur hefur verið í Sjávarútvegshúsinu frá stofnun skólans árið 1998.  Hefur fjöldi nemenda skólans aukist jafnt og þétt frá stofnun og því þótti nauðsynlegt að bæta við þá aðstöðu sem nemendur skólans hafa haft til umráða.

Að sögn Eiríks Einarssonar, bókasafnsfræðings, er tímafrekt að pakka heilu bókasafni saman og koma því upp aftur, en stefnt sé að því að starf safnsins verði komið í eðlilegt horf í byrjun mars n.k..

IS