Fréttir

Verðmætarýrnun vegna galla í saltfiskafurðum – vinnufundur Saltfiskframleiðenda, Sf., og Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Samtök fiskvinnslustöðva og Matís ohf. boða  til vinnufundar 17. september nk., þar sem formlega verður stofnaður hagsmunahópur saltfiskframleiðanda.  Megintilgangur fundarins er ræða stöðu greinarinnar og framtíðaráherslur í þróun og samstarf saltfiskframleiðenda.

Íslenskar saltfiskafurðir hafa verið eftirsóttar og áberandi á erlendum mörkuðum.  Mikilvægt er að íslenskir framleiðendur styrki stöðu sínu með öflugu samstarfi um sameiginleg hagsmunamál.

Í ljósi þess boða Samtök fiskvinnslustöðva og Matís ohf.  til vinnufundar í september 2010, þar sem formlega verður stofnaður hagsmunahópur saltfiskframleiðanda.  Megintilgangur fundarins er ræða stöðu greinarinnar og framtíðaráherslur í þróun og samstarf saltfiskframleiðenda.

Mikil þróun hefur átt sér stað í saltfiskverkun undanfarin ár.  Saltfiskverkun hefur þróast frá því að vera stæðusöltun þar sem lakara hráefni var nýtt til framleiðslu afurða, í að vera margskiptur ferill þar sem mismunandi söltunartækni er beitt til að ná æskilegri nýtingu og sem mestum gæðum.  Kröfur til hráefnisgæða hafa einnig gjörbreyst.  Þessir þættir auk breytinga í geymsluaðstæðum og flutningsferlum hafa skilað íslenskum framleiðendum ráðandi stöðu á þeim mörkuðum sem gefa hæst verð.  Útlit, þar með talinn blær skiptir verulegu máli í verðlagningu afurða ásamt stærðarflokkun.   

Saltfiskverkun er langt framleiðsluferli þar sem afurðagallar koma oft á tíðum ekki fram fyrr en liðið er á verkunartímann.  Sem dæmi má nefna gulumyndun, sem hefur gjarnan verið tengd of háu kopar- eða járninnihaldi í salti eða notkun kopars í vinnslubúnað og aðra hluti sem komast í snertingu við fiskinn.  Mikilvægt er að bregðast skjótt við aukinni gallatíðni af völdum gulu sem getur valdið íslenskum framleiðendum miklu fjárhagslegu tjóni þar sem kaupendur krefjast hárra skaðabóta.  Þá er ekki metinn til verðmæta sá skaði sem tengist ímynd íslenskra afurða. 

Í dag er framleiðsla og sala saltfiskafurða að mestu í höndum hvers og eins framleiðanda og að sama skapi hefur upplýsingamiðlun og samræming við framleiðslu afurða minnkað samanborið við þann tíma þegar SÍF var og hét.  Formlegu samstarfi milli framleiðenda er ætlað að efla upplýsingaflæði sem snýr að sameiginlegum hagsmunamálum framleiðenda.  Það er allra hagur að íslenskar afurðir séu almennt þekktar fyrir gæði og traust milli framleiðenda og kaupenda sé styrkt enn frekar.  

Öllum framleiðendum sem hafa vinnsluleyfi til saltfiskverkunar hefur verið sent fundarboð og formleg skráning á vinnufundinn fór fram í júní, síðastliðnum.  Enn er hægt að skrá þátttakendur og fá nánari upplýsingar um fundinn sem haldinn verður hjá Matís ohf um miðjan september.  

Nánari upplýsingar veitir Kristín A. Þórarinsdóttir, s: 422-5081, tölvupóstfang: kristin.a.thorarinsdottir@matis.is.

AVS­-Verknr.:  R 09065-09
Matís-Verknr.:  200-1963