Handbækur

Handbók um síldarverkun

Í marga áratugi var síldarverkun ein mikilvægasta atvinnugrein íslensku þjóðarinnar og heilu samfélögin reiddu sig á síldina ár hvert.

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Guðmundur Stefánsson

Fagsviðsstjóri

gudmundur.stefansson@matis.is

Í marga áratugi var síldarverkun ein mikilvægasta atvinnugrein íslensku þjóðarinnar og heilu samfélögin reiddu sig á síldina ár hvert. Þó meira hafi verið fjallað um afla, risavaxnar fjárfestingar, slark, gjaldþrot, hrun og áhrif síldarinnar á mannlíf, heldur en verkkunnáttu og vöruvöndun þá var það þekkingin sem gerði útslagið um verð og stöðu á mörkuðum.

Í upphafi kom þekkingin að utan en smám saman varð til verkkunnátta sem gerði íslenska verkaða síld eftirsótta og verðmæta. Verkendur og söluaðilar pössuðu vel uppá þekkinguna og gættu þess að hún kæmist ekki í hendur erlendra samkeppnisaðila og skaðaði þar með samkeppnisstöðu íslenskra framleiðenda.

Framleiðendur voru með samræmdar framleiðsluleiðbeiningar og studdu óspart rannsóknir hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins um leið og þeir stunduðu öfluga vöruþróun og tilraunastarfsemi af ýmsu tagi. Þekkingin og kunnáttan birtist svo í ítarlegum framleiðsluleiðbeiningum sem SÚN (Síldarútvegsnefnd) gaf út og dreifði til framleiðanda vítt og breitt um landið.

Dr. Jónas Bjarnason, efnaverkfræðingur, sem starfaði hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, vann ötullega að því að miðla þekkingu til framleiðenda íslenskra sjávarafurða. Hann sá t.d. um útgáfu handbóka um saltfisk- og skreiðarverkun ásamt ýmsum ritum um mikilvæga vinnsluþætti í framleiðslu sjávarafurða.

Um 1990 hafði Dr. Jónas að mestu lokið við skrif á handbók um síldarverkun, en það þótti ekki þjóna hagsmunum heildarinnar að birta allar þessar ítarlegu upplýsingar sem Jónas hafði tekið saman og því dagaði efnið uppi í skjalakerfi Rf.

Þessi handbók sem hér birtist er að langmestu leyti byggð á efni Jónasar og það verður að játast að auðveldara var að ráðast í þetta verk með allt þetta efni við höndina, skipulega uppsett og fullt af myndum með skýringartextum.

Það hafa átt sér stað gríðarlegar breytingar í afurðasamsetningu síldarinnar frá því Jónas skrifaði sína handbók, en þá var um 2/3 útfluttra síldarafurða saltsíld, en síðustu árin er verkuð síld rétt um 1% af heildarmagninu. Þekkingin sem hér birtist er kannski enn verðmætar fyrir vikið, því mikilvægt er að halda þekkingunni til haga þó hún nýtist kannski færri aðilum en stefnt var að í upphafi.

Handbókina má nálgast hér.

IS