Mjólkurvörur
Nokkur verkefni voru unnin á árinu þar sem lögð var áhersla á þróun nýrra vara og vinnsluferla tengdum mjólkur-vörum, einkum úr mysu og skyri. Verkefnin voru unnin með góðum hópi samstarfsaðila. Þróuð var leið til að þurrka skyr sem er afbragðs leið til að auka geymsluþol þess.
Hægt er að líta á a.m.k. tvö verkefni utan Matís sem afsprengi þessarar vinnu. Alls falla til um 60 milljónir lítra af mysu í osta- og skyrframleiðslu á Íslandi á ári og því mikilvægt að þróa leiðir til að nýta þessa verðmætu auðlind. Má þar nefna þróun á kremi úr efnisþáttum mysu og þróun á aðferð til að umbreyta mjólkursykurvökva (laktósa) úr mysu í etanól. Örverur geta nýst til að umbreyta mjólkursykursvökva í etanól og sýndu rannsóknir Matís að langvirkasta örveran til þess var gersveppur sem hafði áður verið einangraður úr skyri og var varðveittur í stofnasafni Matís. Hefur gerillinn mikla virkni bæði í hlutlausu umhverfi ostamysunnar og súru umhverfi skyrmysunnar. Gerillinn umbreytir laktósanum að fullu í etanól og hefur þessi öflugi stofn fengið naf-nið Kluyveromyces marxianus Islandicus. Vænta má mikillar verðmætasköpunar með framleiðslu á etanólinu þegar búið verður að koma því í íslenskar áfengisvörur á markaði en þær eru nú framleiddar með innfluttum spíra. Þannig geta vörurnar verið að fullu framleiddar með íslensku hráefni. Að auki gefur þetta vonir um að hægt verði að bjóða erlendum samstarfsaðilum í skyrframleiðslu upp á heildarlausn með því að framleiða etanól úr hliðarafurð skyrfram-leiðslunnar, auka þannig virði framleiðslunnar og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.