Kjöt

Þjónustuflokkur – Kjöt

Markmið rannsókna- og þróunarverkefna um kjöt er að styrkja innlenda kjötframleiðslu og efla verðmætasköpun á landsbyggðinni í samstarfi við framleiðendur og aðra hagaðila. Áhersla hefur verið lögð á mælingar á næringargildi, nýtingu, kjötgæði, geymsluþol og dýravelferð til að sýna fram að sérstöðu íslenskra afurða.

Í sauðfjárræktinni er áherslan á áhrif kynbóta, sláturaðferða og áhrif meðferðar fyrir og eftir slátrun á gæði lambakjöts. Einnig hafa gæði íslensks lambakjöts verið borin saman við gæði erlends lambakjöts. Í hrossakjötinu hefur áhersla verið á sérstöðu í næringargildi og meyrni en einnig á upplýsingar um nýtingu kjötskrokka, geymsluþol og vöruþróun. Birtar hafa verið skýrslur um áhrif Evrópumats á nýtingu og verðmæti nautgripaskrokka og um gæði kjöts af galtargrísum. Einnig hafa verið unnin verkefni um nýtingu og næringargildi alifugla- og svínakjöts. Á undanförnum árum hafa þrjú verkefni með áherslu á að auka framleiðslu geitfjárafurða verið unnin í nánu samstarfi við Geitfjárræktarfélagið.

Erfðafræðilegum aðferðum hefur verið beitt til að efla kynbótastarf og auka rekjanleika afurða. Unnið hefur verið að þróun á faðernisprófi fyrir íslenskt sauðfé en slík próf hafa áður verið þróuð á Matís fyrir hross og nautgripi. Mikilvægt er að geta staðfest faðerni sauðfjár, sérstaklega til að útrýma arfgengum erfðagöllum. Einnig hefur verið unnið að þróun á nýrri erfðafræðilegri aðferðafræði til upprunagreininga á nautakjöti. Með þessari aðferðafræði er hægt að rekja nautakjötsafurðir til einstakra nautgripa. Enn fremur er hægt að nýta aðferðina til að staðfesta hvort nautakjöt hafi verið framleitt á Íslandi eða sé innflutt.