Þörungar

Þörungar

Á Íslandi eru stórþörungar vannýttur lífmassi sem nota má á sjálfbæran hátt til verðmætasköpunar. Áhugi innlendra aðila á nýtingu stórþörunga fer vaxandi og leita þeir í auknum mæli eftir stuðningi og samstarfi við Matís.

Matís hefur um árabil lagt áherslu á rannsóknir á stórþörungum og unnið að hagnýtingu þeirra. Í því sambandi má nefna: 

  • Matís hefur unnið að því að koma á sameiginlegum gæðaviðmiðum fyrir uppskeru og vinnslu þangs og þara (brúnþörunga) til þess að stuðla að hámarksnýtingu, verðmætasköpun og tryggja sjálfbærni.
  • Matís hefur komið að uppbyggingu þekkingargrunns innihaldsefna valinna tegunda með tilliti til árstíðasveiflna og breytileika eftir uppskerusvæðum.
  • Stórþörungar innihalda snefilefni sem eru mikilvæg mannslíkamanum en geta reynst hættuleg ef styrkur þeirra í matvælum eða fóðri er hár. Joð innihald mismunandi þangtegunda hefur verið magngreint og aðferðir þróaðar til að draga úr styrk joðíðs í þanglífmassa fyrir framleiðslu matvæla og fóðurs.
  • Möguleikar þangs sem fóðurbætir fyrir mjólkurkýr og nautgripi hafa verið rannsakaðir með það fyrir augum að draga úr losun metans í andrúmsloftið.
  • Matís hefur þróað aðferðir til að gerja þang og nýta súrþangið sem heilsubætandi fóðurbæti í fiskeldi.
  • Matís hefur unnið var að þróun heilsusamlegra bragðefna úr þörungum í matvæli með það að markmiði að bæta lýðheilsu.
  • Einnig hefur Matís komið að þróun andoxunarefna úr stórþörungum og nýtingu þeirra í snyrtivörur.
  • Matís hefur um árabil stundað rannsóknir og þróun á ensímum og frumusmiðjum sem umbreyta flóknum þangsykrum í ýmis konar verðmæt efni, t.d. lyfjavirk/lífvirk efni, eldsneyti fyrir ökutæki og lífplast fyrir t.d. matvæli.

Öllum þessum verkefnum er ætlað að stuðla að nýsköpun og hjálpa matvæla-, fóður, og líftæknifyrirtækjum að koma nýjum vörum á markað og öðlast sess í íslensku atvinnulífi.

Mikill áhugi hefur skapast á eldi smáþörunga hér á landi enda nýtir það auðlindir sem Ísland er þekkt fyrir samanber umhverfisvæna orku og hreint vatn. Smáþörunga er hægt að nýta á ýmsan hátt. Þeir geta verið uppspretta próteina, olíu, litarefna, vítamína og lífvirkra efna. Matís hefur um árabil rannsakað og ræktað þörunga úr íslensku umhverfi. Undanfarið hefur Matís aðstoðað ung of framsækin fyrirtæki á sviði smáþörungaræktunar við þróun og vinnslu afurða fyrir fæðu og fóður.