Botnfiskur

Botnfiskur

Botnfisktegundir hafa gegnum tíðina verið mikilvægur hluti af rannsóknum Matís og forvera þess, enda eru þessar tegundir mikilvægar við verðmætasköpun íslensks sjávarútvegs og þar syndir þorskurinn fremstur í flokki.

Rannsóknarverkefni Matís í virðiskeðju botnfisktegunda hafa verið fjölbreytt, allt frá veiðistjórnun, fyrstu meðhöndlun og alla leið á disk neytenda. Þessi verkefni hafa ávallt verið unnin í nánu samstarfi við fyrirtæki í sjávarútvegi. Undanfarin ár hafa verkefnin m.a. snúið að frekari nýtingu vannýttra hráefna og að bæta ferla innan virðiskeðjunnar.

Mikil aukning á útflutningi ferskra fiskafurða undanfarna áratugi hefur kallað á bætta ferla, ekki síst á vettvangi meðhöndlunar afla, vinnslu, pökkunnar og hitastýringar í flutningum. Áframhaldandi þróun hefur verið á tækni við meðhöndlun ferskfisks um borð í vinnsluskipum, í átt að frekari sjálfvirknivæðingu. Þessi verkefni hafa skilað sér í bættum gæðum botnfiskafla, betri nýtingu og auknum stöðuleika afurða. Aftar í keðjunni hafa rannsóknir snúið að möguleikum til virðisaukningar, m.a. með auknum sýnileika gagna og upplýsingagjöf í virðiskeðju botnfisks til aðgreiningar á markaði. Hagnýting þessa felst í því að virkja þær tæknilausnir sem fyrir eru á markaðinum eða þróa nýjar og spennandi lausnir með það að markmiði að auka gagnafæði innan virðiskeðjunnar, alla leið til neytenda.

Viðvarandi viðfangsefni Matís eru að bæta nýtingu og auka verðmætasköpun úr hliðarhráefnum bolfiskvinnslu. Fullyrða má að mikill árangur hafi náðst í átt að betri nýtingu hráefna, markvissri vöruþróun og frekari manneldisvinnslu hliðarafurða. Nýleg verkefni á þessum vettvangi hafa stuðlað að aukinni nýtingu próteina, bæði úr ýmsum hliðarhráefnum hvítfiskvinnslu sem og próteina sem hægt er að vinna úr vatni sem notað er við fiskvinnslu. Niðurstöður þessara verkefna benda til þess að enn liggi mikil tækifæri í að fanga verðmæti úr vannýttum hráefnum bolfiskvinnslna með tiltölulega einföldum og hagkvæmum aðferðum.