Skýrslur

Samanburður á pökkun ferskra fiskafurða í kassa og ker til útflutnings með skipum / Packing of fresh fish products in boxes and tubs intended for sea transport

Útgefið:

01/07/2016

Höfundar:

Magnea G. Karlsdóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Þórðarson, Björn Margeirsson, Sigurjón Arason, Aðalheiður Ólafsdóttir, Þorsteinn Ingi Víglundsson

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi (R 034‐14)

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Samanburður á pökkun ferskra fiskafurða í kassa og ker til útflutnings með skipum / Packing of fresh fish products in boxes and tubs intended for sea transport

Markmið rannsóknarinnar var að finna bestu og hagkvæmustu aðferð við pökkun ferskra fiskafurða fyrir sjóflutning með það í huga að hámarka geymsluþol vöru, sem er einn lykilþáttur í markaðssetningu á ferskum fiskafurðum.   Gerðar voru tilraunir með flutning á ferskum fiskafurðum í kerum með ískrapa og borið saman við flutning í frauðplastkössum með tilliti til hitastýringar, afurðagæða og flutningskostnaðar. Bornir voru saman mismunandi afurðahópar sem var pakkað í mismunandi umbúðir og geymdir við mismunandi geymsluhita. Tilgangur þessara tilrauna var að herma eftir umhverfisaðstæðum við flutning á ferskum fiskafurðum, með það fyrir augum að meta áhrif forkælingar fyrir pökkun og pökkunaraðferða á geymsluþol afurðanna. Niðurstöður gefa skýrt til kynna að kæling afurða fyrir pökkun sem og lágt og stöðugt geymsluhitastig eru með þeim mikilvægustu þáttum sem auka geymsluþol ferskra fiskafurða. Mismunandi pökkunarlausnir höfðu einnig áhrif á geymsluþol ferskra fiskafurða, þó voru áhrifin ekki jafn afgerandi og áhrif hitastigs.   Niðurstöðurnar gefa til kynna auknar líkur á lengra geymsluþoli ef ferskum fiskafurðum er pakkað í ker með undirkældum krapa samanborið við hefðbundna pökkun í frauðplastkassa með ís. Til að áætla nauðsynlegt magn ískrapa til að viðhalda ásættanlegu hitastigi var þróað varmaflutningslíkan. Hagræn greining á mismunandi pökkun og flutningi var framkvæmd í verkefninu og sýnir sú vinna umtalsverðan sparnað með notkun kera við flutning á ferskfiskafurðum í samanburði við frauðplastkassa. Ker geta leyst frauðplastkassa af hólmi að töluverðu leyti og verið hagkvæmur kostur fyrir sum fyrirtæki. Hagræna greiningin sýndi fram á að stærri aðilar gætu notfært sér þessa aðferð, þar sem þeir geta fyllt heila gáma til útflutnings. En aðferðin nýtist minni vinnslum ekki síður, sem ekki hafa burði til að fara í miklar fjárfestingar í búnaði til að tryggja fullnægjandi kælingu fyrir pökkun á afurðum til útflutnings á fersku hráefni. Niðurstöðurnar eru gott innlegg í umræður um ferskar fiskafurðir á erlendum mörkuðum.

The goal of the study was to find the best and most efficient method of packaging fresh fish for sea transport with the aim to maximize the storage life of the product, which is a key element in the marketing of fresh fish. Experiments were made with the transport of fresh fish in tubs with slurry ice and compared with transport in expanded polystyrene boxes with regard to temperature control, product quality and shipping cost.   Different product groups were compared, using different temperature conditions and packing methods to find the best outcome for fresh fish quality and storage life. Experimental results clearly indicate that the pre‐cooling for packaging and low and stable storage temperature play a major factor to maximize storage life of fresh fish products. Different packaging solutions are also a factor, though the effect was not as dramatic as the effects of temperature. The results indicate an increased likelihood of prolonged shelf life if fresh fish is packed in a tub with a slurry ice compared to traditional packaging in expanded polystyrene boxes with ice. In order to estimate the necessary amount of slurry ice to maintain acceptable temperature, a thermal model was developed. Economic analysis of different packaging and transport was also carried out and the results showed substantial savings with the use of tubs for the transport of fresh fish products in comparison with the styrofoam boxes.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Leiðbeiningar um kæligetu ískrapa til kælingar á fiskafurðum í kerum / Instruction for the cooling ability of slurry ice intended for chilling of fish products in fish containers

Útgefið:

01/06/2016

Höfundar:

Björn Margeirsson, Sigurjón Arason, Þorsteinn Ingi Víglundsson, Magnea G. Karlsdóttir

Styrkt af:

AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi (R 034‐14)

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Leiðbeiningar um kæligetu ískrapa til kælingar á fiskafurðum í kerum / Instruction for the cooling ability of slurry ice intended for chilling of fish products in fish containers

Markmið verkefnisins Bestun ferskfiskflutninga er að bæta meðferð ferskra fiskafurða í gámaflutningi og auka þar með geymsluþol þeirra og möguleika á frekari flutningum á sjó frá Íslandi. Í verkþætti 1 er markmiðið að áætla hæfilegt magn og gerð ískrapa til að halda fiskhitastigi í –1 °C í flutningi í kerum. Smíðuð eru varmaflutningslíkön af 340 PE og 460 PE matvælakerum frá Sæplasti til að áætla nauðsynlegt magn ískrapa til að viðhalda –1 °C innan í kerum, sem er ákjósanlegt hitastig fyrir geymslu á ferskum hvítfiskafurðum.   Forkæling fiskafurða fyrir pökkun í ker hefur afgerandi áhrif á það magn af afurðum, sem koma má fyrir í keri ef gerð er krafa um að viðhalda fiskhitanum –1 °C. Þetta skýrist af því að með hækkandi fiskhita við pökkun þarf aukið magn af ískrapa til að lækka fiskhitann í –1 °C og þar með minnkar rýmið fyrir fiskinn innan kersins. Rúmmálsnýtingu kersins, þ.e. magn af fiskafurðum í keri, þarf vitaskuld að hámarka til að lágmarka flutningskostnað og gera sjóflutning fiskafurða pökkuðum í ískrapa í ker raunhæfan valkost við sjóflutning í frauðkössum.   Þessar leiðbeiningar eiga að nýtast til að áætla það fiskafurðamagn, sem pakka má í 340 PE og 460 PE Sæplast ker. Miðað er við að pakka fiskinum í ískrapa með hitastigið  –1 °C, íshlutfallið 35% og salthlutfallið 1,2% og magn ískrapans nægi til að viðhalda –1 °C í ískrapa og fiski í fjóra daga við umhverfishita milli –1 °C og 5 °C. Taka ber fram að leiðbeiningarnar taka einungis kæliþörf með í reikninginn en ekki mögulegt, óæskilegt farg sem getur skapast á neðstu fisklögin í keri og getur mögulega valdið nýtingar‐  og gæðatapi.

The aim of the project Optimisation of fresh fish transport is to improve handling of sea transported fresh fish products, thereby improve their quality and increase the possibility of sea transport from Iceland. The aim of work package no. 1 is to estimate the suitable quantity and type of slurry ice in order to maintain the optimal fish temperature of –1 °C during transport in fish containers (tubs). Heat transfer models of 340 PE and 460 PE fish containers manufactured by Saeplast are developed for this purpose.   Precooling of fresh fish products before packing in slurry ice in containers has a dominating effect on the maximum fish quantity, which can be packed in each container assuming a maintained fish temperature of –1 °C. This is because an increased fish packing temperature increases the required amount of slurry ice in order to lower the fish temperature down to –1 °C, thereby decreasing the volume for fish within the container. The fish quantity within the container must certainly be maximized in order to minimize the transport cost and make sea transport of fresh fish products in slurry ice in containers a viable option. These guidelines should be useful to estimate the fish quantity, which can be packed in 340 PE and 460 PE Saeplast containers. The temperature, ice ratio and salinity of the slurry ice assumed are –1 °C, 35% and 1.2%, respectively. Furthermore, it is assumed that the amount of slurry ice applied is enough to maintain the slurry ice and fish at –1 °C for four days at ambient temperature between –1 °C and 5 °C.

Skoða skýrslu
IS