Grænmeti og korn
Rannsóknir á grænmeti beinast að gæðamálum og hollustu. Með rannsóknum á gæðum grænmetis er hægt að finna leiðir til að hámarka geymsluþol og draga þannig úr sóun.
Hægt er að auka grænmetisframleiðslu umtalsvert á Íslandi og er lykilatriði að varðveita gæði í allri virðiskeðjunni frá framleiðendum til neytenda. Með samanburði við innflutt grænmeti er leitast við að benda á styrkleika íslensks grænmetis en jafnframt að finna tækifæri fyrir nýbreytni og aukna framleiðslu. Leitast er við að ná til grænmetisframleiðslu um allt land. Mælingar hafa verið gerðar á næringarefnum í íslensku grænmeti og andoxunarefni hafa verið mæld í fyrsta sinn.
Verkefni um íslenskt bygg hafa verið unnin á undanförnum árum og hefur áherslan verið á að auka virði innlendu framleiðslunnar með því að nýta hluta hennar til matvælaframleiðslu. Einnig er aukin sjálfbærni lykilatriði þegar innlent bygg er nýtt í stað innflutnings. Unnið er að hagnýtingu íslensks byggs til framleiðslu á áfengum drykkjum og til vöruþróunar í bökunariðnaði.Margar samantektir um hagnýtingu byggs hafa verið gerðar aðgengilegar á formi einblöðunga, skýrslna og fræðigreina. Á síðustu árum hefur áhugi á ræktun hafra á Íslandi aukist og hefur Matís komið til móts við þá þróun með gæðarannsóknum og vöruþróun.