Fréttir

Vitinn – vísar veginn

Aukin verðmæti gagna – verkefni styrkt af AVS. Markmið verkefnisins er að hanna og setja upp miðlægt vörulýsingarkerfi fyrir íslenskar sjávarafurðir, sem gefur mun meiri möguleika á nákvæmri greiningu útflutnings en tollskrárkerfið eitt og sér getur boðið upp á.

Verkefnið er leitt af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Matís ohf, en einnig eru með í verkefninu Tollstjóraembættið, Hagstofa Íslands, Icelandic Group, Iceland Seafood International, Ögurvík hf, Brim hf og Markó Partners.

Það hefur í gegnum tíðina reynst erfitt að leggja mat á útflutningsmagn og verðmæti einstakra tegunda þar sem mörg tollskrárnúmer innihalda orðin „annar“, „annað“ eða „önnur“ og gefa þar af leiðandi ekki til kynna hvaða fisktegund er um að ræða. Verðmæti þessara afurða voru ríflega 20 milljarðar á árinu 2014 og þriðja verðmætasta „tegundin“ á eftir þorsk- og makrílafurðum.
 
Vitinn mun m.a. leysa þetta og tryggja áreiðanleg gögn um sjálfbæra nýtingu og verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi. Vörulýsingar framleiðanda verða staðlaðar og byggðar í grunninn á „Hugtakasafni fiskiðnaðarins“. Vörulýsingar verða tengdar tollskrá og einfaldara verður því val á réttu tollskrárnúmeri þegar að útflutningi kemur.
 
Vitinn gerir það mögulegt að einfalda tollskránna um leið og nýjar vöru sjást strax í útflutningsgögnum. Vitinn mun gera fyrirtækjum mögulegt að greina betur eigin stöðu, tækifæri til verðmætasköpunar o.m.fl.
 
Starfsmenn Vitans eru tölvufræðingarnir: Daníel Agnarsson og Friðrik Valdimarsson, þeir hafa aðsetur hjá SFS og hafa netfangið: vitinn@sfs.is
 
Verkefnisstjóri Vitans er Ingvi Georgsson hjá SFS ( ingvi@sfs.is )
 
Verkefnisstjóri hjá Matís er Páll Gunnar Pálsson ( pallp@matis.is )

Vitinn_SFS_Matis

Fréttir

Ekkert slor!

Marel og Matís kynna nýtt myndband sem sýnir hvernig nútímatækni hefur gjörbreytt vinnsluaðferðum í fiskvinnslu og gert Ísland að þungamiðju þróunar og nýsköpunar í greininni.

Kröfur um gæði, rekjanleika og vinnsluhraða skipta miklu máli í fiskvinnslu. Marel vinnur náið með fyrirtækjum í sjávarútvegi og hefur þróað fjölbreyttar lausnir í samvinnu við framsæknustu fiskframleiðendur á Íslandi, stóra sem smáa. Þessar tækja- og hugbúnaðarlausnir gera framleiðendum kleift að hámarka nýtingu, afköst og arðsemi.

Innan Marel starfar rannsóknahópur sem vinnur að því að auka þekkingu á nýrri tækni í samstarfi við fjölda fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnana á Íslandi og erlendis. Með stöðuga nýsköpun að leiðarljósi hefur Marel umbreyst úr sprotafyrirtæki í heimsleiðtoga á sínu sviði.

From the Sea to Supermarket

Um Marel og Matís

Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til fiskvinnslu. Hjá Marel starfa yfir 4.700 manns um allan heim. 

Matís veitir ráðgjöf og þjónustu um allan heim til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu.  Matís vinnur að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki með hagnýtingu vísinda og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla.

Fréttir

Afar fróðleg grein um mófugla í Icelandic Agricultural Sciences

Ný grein var að koma út í hefti 29/2016 af vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences og hægt er að nálgast hana á slóðinni http://www.ias.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/key2/bsinaawuad.html

Greinin nefnist „Avian abundance and communities in areas revegetated with exotic versus native plant species“ og er eftir Brynju Davíðsdóttur, Tómas Grétar Gunnarsson, Guðmund Halldórsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson.

Höfundar rannsökuðu áhrif mismunandi landgræðsluaðgerða á þéttleika og tegundasamsetningu fugla og á fjölda smádýra. Á 26 stöðum á landinu voru borin saman; a) óuppgrædd svæði, b) endurheimt mólendi og c) land sem hafði verið grætt upp með alaskalúpínu. Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna. 

Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundum sem er að hnigna á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi, en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu. Þéttleiki sumra fuglategunda virtist vera háður framvindustigi landgræðslusvæða. Þessi rannsókn sýnir að landgræðsla eykur líffræðilega fjölbreytni dýrategunda, en mismunandi landgræðsluaðgerðir leiða til mismunandi þróunar vistkerfanna.

Fréttir

3X Technology og Matís tilnefnd til Sviföldunnar 2016

3X Technology og Matís, í samstarfi við fyrirtæki á Íslandi (SkaginnFISK Seafood og Iceprotein), í Noregi (Grieg Seafood), Finnlandi (Hätälä) og Danmörku (Norway Seafood), hafa nú í töluverðan tíma unnið að rannsóknum á ofurkælingu og áhrifum hennar á vinnslu og gæði sjávarafurða. 3X og Matís eru í hópi þriggja aðila sem hafa hlotið tilnefningu til Sviföldunnar 2016, Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar, en úrslit verða kunngjörð á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin verður í þessari viku í Hörpu. 

Sjávarútvegsráðstefna er haldin á hverju ári og er búin að festa sig í sessi sem helsti samskiptavettvangur allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Tilnefningin hverju sinni er mikill heiður en Gunnar Þórðarson, ráðgjafi hjá Matís og stöðvarstjóri fyrirtækisins á Vestfjörðum, hefur borið hitann og þungann innan Matís í kringum þetta rannsóknarverkefni.

Svifaldan 2016 – af vef Sjávarútvegsráðstefnunnar

Ofurkæling

Umsækjendur hafa undanfarið hálft annað ár stundað rannsóknir á ofurkælingu í samstarfi við aðila á Íslandi, Noregi, Finnlandi og Danmörku m.a. með stuðningi Norrænu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar Nordic Innovation, sem liður í Nordic Marine Innovation 2.0. Um er að ræða fyrirtæki sem stunda rannsóknir, veiðar, eldi, vinnslu og áframvinnslu fyrir neytandamarkað. Verkefninu mun ljúka um næstu áramót og er það markmið þess að koma öllum niðurstöðum til atvinnugreina í sjávarútvegi og eldisframleiðslu á Norðurlöndum eins fljótt og vel og mögulegt er.

Matis_Gunnar_ThordarsonGunnar Þórðarson, ráðgjafi hjá Matís og stöðvarstjóri fyrirtækisins á Vestfjörðum 

Umtalsverðar rannsóknir hafa verið gerðar um áhrif ofurkælingar á vinnslu og afurðargæði í sjávarútveg og eldisframleiðslu og eru niðurstöður afgerandi. Með ofurkælingu er átt við að færa kæliorku inn í fiskvöðvann strax eftir veiðar/slátrun, þar sem innan við 20% af vatnsinnihaldi er fryst. Í botnfiski er miðað við að kæla niður í -0,7 °C og -1,5 °C í laxi, sem er feitari og því er frystimark hans lægra. Í báðum tilfellum er um fasaskipti að ræða við þessi hitastig og þarf töluverða orku til að fara niður fyrir þau. Miklar rannsóknir hafa verið gerða á ofurkælingu og hefur verið sýnt fram á að engar skemmdir verða á frumum vegna ískristallamyndunar svo framarlega sem kæling er innan skilgreiningar. Mikil tækifæri geta legið í flutningi á ofurkældum ferskum fiski (lax/bolfiskur) þar sem mikið sparast við að losna við ís í flutningskeðju, sérstaklega með flugi. Um 10% af þyngd á hefðbundnum afurðum við flutning er ís og því bæði fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur með aðferðinni. Lækkun á sótspori við framleiðslu og flutning á fiskafurðum er mikilvægt markaðstæki til framtíðar.

Staða hugmyndar: Rannsóknarverkefni

Tengiliðir Gunnar Þórðarson, Matís og Albert Högnason, 3X Technology

Nánar á vef Sjávarútvegsráðstefnunnar

Fréttir

Viltu taka þátt í alþjóðlegu sjávarútvegsráðstefnunni – World Seafood Congress

Hafin er móttaka á útdráttum (abströktum) fyrir erindi og veggspjaldakynningar fyrir allar málstofur World Seafood Congress sem haldin verður í Reykjavík dagana 10.-13. september 2017.

Skilyrði

Útdrættir verða að tengjast viðkomandi málstofu, útskýra þarf veggspjaldið eða framlag kynningarinnar til aukinnar þekkingar, umræðu eða vitundarvakningar varðandi umfjöllunarefni ráðstefnunnar í heild sinni eða einstaka málstofa.

Hvernig á að leggja fram útdrátt?

Sendið útdrætti á netfangið wsc2017@matis.is  þar sem eftirfarandi kemur fram (afritið og límið neðangreind átta atriði í tölvuskeytið og fyllið inn það sem við á):

  1. Heiti málstofu, dagsetning og tími þar sem óskað er eftir kynningu eða sem veggspjald tengist (sjá nánar í ráðstefnudagskrá The World Seafood Congress theme sessions).
  2. Tillaga að heiti veggspjalds eða kynningar (mest 80 stafir)
  3. Samtök/samband
  4. Heiti ræðumanns eða höfunda(r) veggspjalds
  5. Tengiliður (ef sá er annar en ræðumaður)
  6. 150 orða útdráttur
  7. Ljósmynd og stutt æviágrip ræðumanns eða aðalhöfundar veggspjalds
  8. Sérstakar kröfur ef einhverjar eru

Tekið verður á móti útdráttum til og með 15. desember 2016.

Vísindanefnd WSC 2017 mun hafa fjölbreytni að leiðarljósi við val á ræðumönnum/-konum og horfa þá til bakgrunns þeirra, sambönd, þjóðerni og kyn.

WSC 2017 áskilur sér rétt til að samþykkja eða hafna einum
eða öllum útdráttum er kunna að berast.

Nánari upplýsingar: http://www.wsc2017.com/contact

Fréttir

Kæling hefur áhrif á dauðastirðnun fisks

Skaginn/3X Technology í samstarfi við Matís og vestfirsk fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi og fiskeldi, þ.e.a.s. Arnarlax og Íslandssaga, með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi, hafa rannsakað áhrif ofurkælingar á dauðastirðnun í laxi og þorski.

Staðbundið samstarf um verkefni sem hefur áhrif

Niðurstöður verkefnisins geta nýst til að auka þekkingu á dauðastirðnun fisks og verið þannig innlegg í umræðu um aukin gæði afurða. Það er vel þekkt að fiskur stífnar við upphaf dauðastirðnunar og er oftar en ekki meðhöndlaður í slíku ástandi, færður á milli kara eftir löndun ásamt því að vera slægður og umísaður. Við mikinn og kröftugan samdrátt í dauðastirðnun getur myndast los í flökum sem skerðir gæði hráefnisins. Mikilvægt er að aðlaga vinnslu að dauðastirðnun og stýra ferlinu til að koma í veg fyrir gæðatap, t.d. los og lakari áferð (e. texture).

Samanburður hefðbundinnar kælingar og ofurkælingar

Tilgangur rannsóknarinnar var annars vegar að rannsaka áhrif ofurkælingar á dauðastirðnun og bera saman við hefðbundna kælingu. Ofurkæling er skilgreind sem kæling undir 0°C, en þó ekki þannig að ískristallar myndist sem geta skemmt frumur í hráefninu. Annar tilgangur verkefnisins var að útbúa kynningarefni sem hægt væri að nota til að kynna fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi mikilvægi þess að stýra dauðastirðnunarferlinu. Hingað til hefur dauðastirðnun verið lýst með ljósmyndum og teikningum en í þessu verkefni var stefnt að því að hagnýta ný tækifæri til miðlunar þekkingar s.s. myndbönd.

Rannsóknin

Rannsókn var gerð á þorski og laxi og hún framkvæmd á tveimur mismunandi árstímum fyrir þorsk, en mikill munur getur verið á ástandi hráefnis eftir því hvenær fiskur er veiddur. Rannsóknin var tvíþætt þar sem annars vegar var aflað gagna um áhrif kælingar á dauðastirðnunarferlið þar sem hóparnir voru bornir saman; ofurkældur og hefðbundinn og hins vegar var kynningarefni útbúið.

Ofurkæling í þorski er miðuð við kælingu niður í -0,8°C og laxi í -1,5°C en hefðbundin kæling er miðuð við 0°C fyrir báðar tegundir. Bæði var skoðaður mismunur milli hópa ásamt því að bera saman mismun innan hópa. Lítill munur, staðalfrávik, innan hópa bendir til nákvæmari niðurstöðu.

Ofurkaeling_Picture_samanSamanburður á gæðum fjögurra daga gömlum laxaflökum, hefðbundin vinstramegin og ofurkæld hægra megin

Niðurstöður

Niðurstöður sýna að mikill munur er á samdrætti við dauðastirðnunarferlið eftir því hvort fiskur er ofurkældur eða notast við hefðbundna kælingu. Draga má þá ályktun að ávinningur sé af notkun ofurkælingar fyrir dauðastirðnun, sem dregur úr samdrætti og þar af leiðandi úr spennu milli vöðva og beinagarðs í ferlinu.

Niðurstöður verkefnisins sýna vel hvaða áhrif aukin kæling hefur á dauðastirðnunarferlið og myndefni getur nýst vel sem kennsluefni og til notkunar á fundum og ráðstefnum. Myndbönd af dauðastirðnunarferli í laxi og þorski voru sett á netið til að dreifa þeim eins vel og mögulegt er.

https://www.youtube.com/watch?v=0mKYQ_CFC_A
https://www.youtube.com/watch?v=0mKYQ_CFC_A
https://www.youtube.com/watch?v=NE8JNG8esWA
https://www.youtube.com/watch?v=NE8JNG8esWA
https://www.youtube.com/watch?v=k2U3RYDAFic
https://www.youtube.com/watch?v=k2U3RYDAFic
https://www.youtube.com/watch?v=IYPbtkRogJ4
https://www.youtube.com/watch?v=IYPbtkRogJ4

Umræða

Í ljósi þess að flak, sem skorið er af hrygg fyrir dauðastirðnun, styttist umtalsvert umfram flakið sem er á hryggnum í gegnum ferlið, þarf að svara þeirri spurningu hvort sú stytting hafi einhver áhrif á gæði afurða. Þekkt er að eldisfiskur sé flakaður strax eftir slátrun fyrir dauðstirðnunarferlið og því mikilvægt að þekkja áhrif á bragð og áferð. Einnig er mikilvægt að hægt sé að mæla tímasetningu á því hvenær dauðastirðnunarferli lýkur en til þess þarf að beita nákvæmum mælingum sem voru utan sviðs þessarar rannsóknar.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Þórðarson, ráðgjafi hjá Matís og stöðvarstjóri fyrirtækisins á Vestfjörðum.

Verkefni: Áhrif dauðastirðnunar á gæði fiskflaka – (R 16 014-16)

Fréttir

Frábær árangur Matís og Háskóla Íslands í rannsóknastarfi Evrópu, Horizon2020

Ráðstöfun fjármuna til rannsókna- og nýsköpunar eykst og er þessi þróun í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs. Alþjóðlegt rannsókna og nýsköpunar samstarf gegnir lykilhlutverki fyrir kraftmikið rannsókna- og þróunarstarf hér á landi þar sem fyrirtæki og vísindasamfélag vinna saman að því að efla og endurnýja atvinnulífið. Erlent fjármagn stendur undir um fjórðungi af rannsókna- og nýsköpunarstarfi hér á landi. Evrópskt samstarf um rannsóknir og nýsköpun er Íslendingum mikilvægt.

Matis_Horizon2020_Innova.se_1Matís og Horizon2020 skv. Vinnova 

Íslendingar, íslensk fyrirtæki og íslenskir háskólar, hafa aukið ráðstöfun fjármuna til rannsókna- og nýköpunarstarf. Rannsóknir og þróun búa í haginn fyrir öflugt atvinnulíf til framtíðar. Samstarf um rannsóknir og þróun er mikilvægt. Mkilvægt er að hámarka áhrif fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun. Mikilvægt er að fyrir hendi séu traustir og öflugir innviðir til rannsókna og nýsköpunar.

Í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs hefur ráðstöfun fjármuna til rannsókna og nýsköpunar aukist. Stefna Vísinda og tækniráðs er að hlutfall rannsókna og þróunar nemi um 3% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar má geta þess að í Japan gengið út frá því að hið opinbera leggi 1% af landsframleiðslu til rannsókna og þróunar og einkaaðilar leggi 3% af landsframleiðslu til rannsókna og þróunar, eins og fram kom nýlega. Eins og Hagstofa Íslands greindi frá 11. október sl. og bent var sérstaklega á í fréttaskýringu Kjarnans sem og leiðara Morgunblaðsins 12. okróber s.l. hafa umsvif rannsókna og þróunarstarfs aukist hér á landi. Árið 2013 var hlutfallið 1,76%, árið 2014 var hlutfallið 2,01% og í fyrra voru útgjöld til rannsókna og þróunarstafs um 2,19% af landsframleiðslu. Aukin umsvif nýsköpunar má að vissu leiti rekja til stefnumörkunar Vísinda og Tækniráðs og eftirfylgni þeirrar stefnu en án áframhaldandi rannsókna og þróunarvinnu þeirra stoða sem fyrir voru hefði aukningin varla komið fram í hagtölum.

Fyrirtæki, Matís þ.m.t., hafa aukið mjög ráðstöfun fjármuna til rannsókna og þróunarstarfs. Fyrirtæki vörðu 12,7 milljörðum meira til nýsköpunarstarfs árið 2015 en 2013 munar þar mestu um 6,2 milljörðum meiri útgjöld sem erlendir einkaaðilar lögðu til, nam árið 2015 samtals 9,8 milljörðum, og 6,1 milljarði meira sem innlendir einkaaðilar lögðu til, nam árið 2015 samtals 17 ½ milljarði kr. Þá má leiða að því líkum að nærri 700 milljón kr. aukning opinberrar innlendrar fjármögnunar til nýsköpunarstarfs fyrirtækja megi rekja til stefnu vísinda og tækniráðs. Hlutur fyrirtækja í rannsóknum og þróun hefur vaxið úr 56% árið 2013 í 65% árið 2015.

Matis_Horizon2020_Innova.se_2Skipting á milli áherslna – Matís og Horizon2020
skv. Vinnova 

Háskólastofnanir vörðu 2,3 milljörðum meira í rannsókna og nýsköpunarstarf 2015 en 2013, fjármögnun einkaaðila við þá starfsemi drógst saman um nærri 400 milljónir, aukningin var borin uppi af opinberum innlendum framlögum u.þ.b. 2,6 milljörðum hærri 2015 en 2013.

Aðrar opinberar stofnanir vörðu 78 milljónum hærri fjárhæðum til nýsköpunarstarfs 2015 en 2013, sú aukning skýrist af því að fjármögnun erlendra einkaaðila jókst um 280 milljónir, og framlög innlendra einkaaðila ukust um nærri 30 milljónir á sama tíma og opinber innlend fjármögnun drógst saman um 140 milljónir og opinber erlend fjármögnun drógst saman um 90 milljónir.

Hagtölurnar benda til þess að viðþolslaus fjármagnsskortur hafi ekki eytt allri þolinmæði fjárfesta og fjármagns. Ávöxtun fjárfestinga í rannsóknum og þróun er í besta falli óviss við upphaf nýsköpunar og þarfnast þolinmæði. Þolinmótt fjármagn er varla helber goðsögn þó fjárhæðirnar þurfi að aukast um 17,9 milljarða til að ná 3% af landsframleiðslu. Augljóst er að hluti þeirra fjármuna sem einkaaðilar leggja af mörkum ratar að einhverjuleiti til rekstrar rannsókna- og þróunaraðila.

Matis_Horizon2020_Innova.se_3Matís og Rannsóknaáætlun Evrópu (RÁ) frá upphafi – Matís innsti hringur, þá lönd samstarfaðila og yst eru fyrirtækin, stofnanirnar og allir þeir aðilar sem Matís hefur átt í samstarf við. -skv. Vinnova

Alþjóðlegt rannsókna og nýsköpunar samstarf gegnir lykilhlutverki fyrir kraftmikið rannsókna- og þróunarstarf hér á landi þar sem fyrirtæki og vísindasamfélag vinna saman að því að efla og endurnýja atvinnulífið. Erlent fjármagn stendur undir um fjórðungi af rannsókna og nýsköpunar starfi hér á landi. Samkeppnishæfni lands og þjóðar byggir að verulegu leiti á fjárfestingum í rannsóknum og nýsköpun. Til að byggja undir samkeppnishæfni landsins er mikilvægt að búa að öflugum innviðum til rannsókna og nýsköpunar sem sambærilegum erlendum aðilum á sporði. Nýungar og fjölbreytini er liður í slagkrafti straumbreyta (e. Trendsetters). Með alþjóðlegu samstarfi eykst hæfni Íslendinga til að tileinka sér nýja hluti. Matís hefur á undanförnum árum kappkostað vandað rannsókna- og þróunarsamstarf sem stendur í vaxandi mæli undir starfsemi félagsins. Sú þróun skilar sér inn í hagtölurnar, sem erlend fjármögnun íslensks rannsókna og nýsköpunarstarfs. Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, heldur utan um einn stærsta einstaka vettvang alþjóðlegs rannsókna og nýsköpunarsamstarfs sem Íslendingar taka þátt í þ.e. rammaáætlanir um rannsóknir og nýsköpun í Evrópu, sem í dag nefnist Horizon 2020, sá vettvangur hefur verið einkar mikilvægur fyrir þróunarstarf hjá Matís.

Matis_Horizon2020Þátttaka Íslands í Horizon 2020 verkefnum fram að október 2016. Birt með leyfi Rannís.

Samkvæmt upplýsingum Rannís, hefur Íslendingum gengið vel að fjármagna rannsókna og þróunarsamstarf með stuðningi í gegnum Horizon2020. Matís hefur ásamt Háskóla Íslands verið framarlega í því ötula alþjóðlega samstarfi hæfra íslenskra vísindamanna sem unnið er með stuðningi Horizon2020. Í því samhengi má nefna að Matís tekur þátt í 12 af þeim 67 verkefnum sem Íslendingar eiga hlutdeild innan Horizon2020 sama fjölda og Háskóli Íslands, þessar tvær grunnstoðir rannsókna og þróunarstarfs á Íslandi hafa með áberandi hætti náð góðum árangri fyrir Íslands hönd á þessum vettvangi (Hallgrímur Jónasson, Rannís október 2016). Árið 2015 voru Horizon 2020 styrkir sem Matís aflaði um 13% of opinberri erlendri fjármögnun til rannsókna og þróunarstarfs á vettvangi fyrirtækja hér á landi.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur B. Bergsson sviðsstjóri innleiðingar og áhrifa. Upplýsingar um Horizon2020 verkefni og þátttöku Matís má finna hér: www.horizon2020.is

Grafíkin í þessari frétt: sænska Nýsköpunarstofnunin (Vinnova)

Fréttir

Vel gengur að vinna lýsi úr uppsjávarfiski

Margildi sérhæfir sig í fullvinnslu lýsis og Omega-3 til manneldis með áherslu á afurðir sem unnar eru úr loðnu, síld og makríl. Fyrirtækið fékk styrk frá AVS sjóðnum til þess að sinna markaðsmálum á lýsi úr uppsjávarfiski í samvinnu við Matís, Háskólann á Akureyri og HB Granda.

Mikið hefur gerst í verkefninu „Markaðssetning á Marlýsi“ og er sú vinna að renna frekari stoðum undir starfsemi Margildis. Mike O´Shea hefur verið ráðinn sölu- og markaðsstjóri hjá fyrirtækinu. Hann hefur ríflega 25 ára alþjóðlega reynslu á sviði sölu- og markaðsstjórnunar, vöru- og viðskiptaþróunar á sviði lýsis og Omega-3.

Margildi_Conference_LoResMargildi á einni ráðstefnu 

Margildi hefur verið að kynna framleiðslu sína á erlendum sýningum undafarin misseri og ber þar hæst sýningarnar VitaFoods í Genf og Supplyside West í Las Vegas. Einnig tók Margildi þátt í  sýningunni Matur og Nýsköpun í Sjávarklasanum og að auki í Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn er af Verkmenntaskóla Austurlands og Austurbrú.

Margildi hefur þróað nýja aðferð til að fullvinna lýsi úr ofangreindum fisktegundum,
svokallaða hraðkaldhreinsitækni, sem er einkaleyfisvarin.

Margildi hefur útbúið kynningarefni fyrir sýningar í samstarfi við Matís og er Háskólinn á Akureyri nú að vinna að markaðsgreiningu á lýsismarkaðnum fyrir Margildi sem mun nýtast fyrirtækinu við markaðsstarfið.

Framundan er svo neytandakannanir fyrir Marlýsið í samstarfi við Matís og hefur nú þegar verið framleitt lýsi sem notað verður við þá vinnu.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Margildis.

Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um HACCP og framleiðslu sjávarfangs

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Stefnumótandi sérfræðingur

margeir.gissurarson@matis.is

Það er ekki einfalt mál að tryggja öryggi neytenda og sjá til þess að allir geti verið vissir um að maturinn sem er á boðstólum sé öruggur. Á hverju ári deyja þúsundir í hinum stóra heimi vegna neyslu matar sem ekki var öruggur. Hafa verður í huga að sumir hópar neytenda eru viðkvæmari en aðrir, svo sem ung börn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Því verður að fara yfir allt ferli hverrar framleiðslu og sjá til þess með öllum tiltækum ráðum að neytendur matar verði ekki fyrir skaða vegna þess að ekki var rétt að verki staðið einhvers staðar í framleiðsluferlinu.

Það er og verður ábyrgðarhlutur að framleiða matvæli og því er nauðsynlegt að setja skýran ramma utan um alla þætti matvælavinnslu og að leiðarljósi verður að hafa almannahagsmuni og öryggi neytenda.

HACCP bókin er liður í því að koma á framfæri þekkingu til þeirra sem bera ábyrgð á öruggri matvælaframleiðslu. Í ríflega tvo áratugi hefur HACCP verið fastur liður í framleiðslu sjávarfangs á Íslandi og nú á enginn að hafa framleiðsluleyfi nema að vottað HACCP kerfi sé til staðar.

Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur, vann texta og setti upp handbókina. Margeir Gissurarson, matvælafræðingur, var með í skipulagningu á efni, las yfir allt efnið og var ósínkur á að miðla af sinni þekkingu og reynslu.

  • Við gerð þessa efnis var stuðst við:
  • Fish and Fishery Products Hazards and Controls Guidance
  • Hazard Analysis and Critical Control Point – Training Curriculum
  • Code of practice for fish and fishery products

Matís fjármagnaði gerð þessarar handbókar með stuðningi Rannsóknasjóðs síldarútvegsins.

Handbókina má nálgast hér:

HACCP bókin – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um HACCP og framleiðslu sjávarfangs (PDF)

Fréttir

Frysting og þíðing – mikilvæg fyrir gæði sjávarafurða

Enn á ný sendir Matís frá sér fræðsluefni til eflingar íslensks sjávarútvegs. Að þessu sinni er það samantekt um frystingu og þíðingu sjávarafurða.

Frystar afurðir hafa skipt gríðarlega miklu máli frá því frysting sjávarafurða hófst í alvöru hér á landi á árunum 1930-1940. Í hverri byggð voru reist a.m.k. eitt frystihús allt í kringum landið og ekki þurfti lengur að stóla eingöngu á söltun, þurrkun eða siglingar með hráefni. Frystingin bauð upp á ný tækifræi og nýja markaði, nú var hægt að selja verðmætar vertíðarafurðir allt árið út um allan heim.

Hver sá sem vinnur með frystar afurðir þarf að þekkja alla keðjuna frá veiðum á borð neytenda. Í þessu riti er farið vel í gegnum þessa keðju og hnykkt á öllu því helsta sem máli skiptir.

Frysting og þíðing – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um frystingu og þíðingu sjávarfangs

Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur, vann texta og setti upp handbókina, Margeir Gissurarson, matvælafræðingur og Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur, voru með í skipulagningu á efni, lásu yfir allt efnið og miðluðu af sinni þekkingu og reynslu.

Gerð þessarar handbókar var fjármögnuð af Matís með góðum stuðningi frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins.

Hjá Matís er hægt að nálgast mikinn fróðleik um flest allt sem viðkemur sjávarafurðum og allir starfsmenn fyrirtækisins eru boðnir og búnir til að gera gott betra í samvinnu við íslenskan sjávarútveg.   

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar.

IS