Fréttir

Blekkingar í viðskiptum með sjávarfang – málstofa hjá Matís

Á undanförnum árum hafa komið upp fjöldi tilvika þar sem milliliðir og neytendur eru blekktir í viðskiptum með sjávarfang. Dæmi um slíkar blekkingar eru þegar ódýrar tegundir eru seldar sem dýrari, frystar afurðir seldar sem ferskar, aukaefnum bætt í afurðir til að auka þyngd, breyta útliti, lengja líftíma eða fela að varan sé skemmd, tegundir í útrýmingarhættu eru seldar undir fölsku flaggi o.s.frv.

Matís stendur fyrir málstofu um hvernig erfðatækni geti nýst við að tryggja heilindi í viðskiptum með sjávar- og fiskeldisafurðir. Málstofunni er skipt upp í fjóra hluta. Hver hluti hefst með stuttum inngangi um hvert umfjöllunarefni og í framhaldi verða svo almennar umræður.

  1. Aðferðir til að fylgjast með og sannreyna innihald fóðurs fyrir fiskeldi.
  2. Aðferðir til að greina óæskilegar örverur í sjávarfangi.
  3. Erfðafræðilegar aðferðir til að tegundagreina og rekja uppruna.
  4. Kröfur markaða og hagnýting erfðaupplýsinga með tilliti til regluverks og efnahagslegra áhrifaþátta.

Staður: Matís, Vínlandsleið 12, 113 RVK. Fundarherbergi 312 – Súlur.
Stund: 16. mars 2016, kl. 9:00 – 12:00.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku til Guðbjargar Ólafsdóttur, gudbjorg@matis.is.

Allar nánari upplýsingar má sjá í einblöðungi um málstofuna.

Fréttir

Útskriftir frá UNU-FTP

Stór og öflugur hópur nemenda við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP) útskrifaðist frá skólanum núna á mánudaginn eftir sex mánaða sérnám á Íslandi. UNU-FTP er mikilvægur hlekkur í þróunarsamvinnu Íslendinga en þetta er í 18. skiptið sem skólinn útskrifar nemendur.

Skólinn er samstarfsverkefni fjögurra stofnana/fyrirtækja: Hafrannsóknastofnunar, Matís, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, en auk þess kemur Háskólinn á Hólum að samstarfinu og fer skólastarfið fram góðu samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki um allt land. Daglegur rekstur skólans heyrir undir Hafrannsóknastofnun og er Tumi Tómasson forstöðumaður skólans. 


Nemendurnir sem voru í náminu hjá Matís ásamt nokkrum starfsmönnum fyrirtækisins

Hjá Matís hafa allir nemendur skólans fengið kennslu í grunnáfanga um gæði og vinnslu fisks og í beinu framhaldi hafa nemendur á gæðalínu skólans fengið kennslu og verklega þjálfun. Nemendurnir vinna verkefni sín að jafnaði með þarfir í eigin heimalandi í huga.

Nánari upplýsingar um UNU-FTP og útskriftina þetta árið má finna á vef sjávarútvegsháskólans.

Fréttir

Tilnefningar til FÍT verðlauna

Efni sem Kontor Reykjavík bjó til fyrir Matís hlaut tvær tilnefningar til hinna árlegu FÍT-verðlauna, sem veitt eru af Félagi íslenskra teiknara, en verðlaunin verða afhent næstkomandi miðvikudag, 9. mars. FÍT verðlaunin eru veitt ár hvert fyrir þau verk sem skara fram úr á sviði grafískrar hönnunar og myndskreytingar.

Önnur tilnefningin var vegna myndbands sem fjallar um þær jákvæðu breytingar sem átt hafa sér stað síðastliðna áratugi í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn hefur tekið stórstígum framförum á þessum tíma í virðisaukningu afla m.a. vegna aukinnar áherslu greinarinnar á rannsóknir og þróun og hafa Matís og fyrirrennarar, t.d. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf,) verið mikilvægur samstarfsaðili margra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í þeim rannsóknum.

Value Creation in the Icelandic Fishing Industry

Hin tilnefningin kom vegna myndar, teiknimyndar, sem gerð var til þess að varpa ljósi á lífhagkerfið og hvernig lífhagkerfið spilar stórt hlutverk í lífi fólks á hverjum einasta degi. Myndin var upphaflega einungis hugsuð fyrir sjávarútveg og tengdist stóru verkefni sem Matís stjórnar innan rannsóknaráætlun Evrópu (MareFrame) en sú mynd var svo vel gerð að ákveðið var að útfæra hana fyrir landbúnaðinn einnig, enda er lífhagkerfið alls staðar.

Smelltu á Bioeconomy til að skoða myndina, en hún er einnig sem smámynd við þessa frétt.

Um FÍT verðlaunin

Í ár er bryddað upp á þeirri nýj­ung að birta til­nefn­ing­ar til verðlaun­anna, en dóm­nefnd­ina skip­ar breiður hóp­ur fag­manna á sviði graf­ískr­ar hönn­un­ar. Til­nefnt er í 17 flokk­um og ná þeir yfir helstu und­ir­flokka graf­ískr­ar hönn­un­ar, svo sem skjágrafík, vef­hönn­un, prent­verk, aug­lýs­inga­hönn­un og myndskreyt­ing­ar.

Til­nefn­ing­arn­ar má sjá í heild sinni má finna á vef Morgunblaðsins.

Fréttir

Hvað má læra af Orkneyingum? – korn og áfengir drykkir

Matís og Þoran ehf munu halda kynningarfund fyrir bruggmeistara og aðra áhugamenn um möltun og bruggun miðvikudaginn 9. mars í höfuðstöðvum Matís á Vínlandsleið 12 og mun fundurinn standa frá 15:00 til 16:15.

Um þessar mundir stýrir Matís verkefni um hagnýtingu korns til matvælaframleiðslu og er það styrkt af Norðurslóðaáætluninni (e. Northern Periphery and Arctic Programme). Fyrirtækið Þoran á aðild að verkefninu. Þátttakendur koma frá löndunum við norðanvert Atlantshaf; Íslandi, Noregi, Færeyjum, Orkneyjum og Nýfundnalandi í Kanada. Nú er lokið fyrsta tímabili verkefnisins og voru upplýsingar og áform tekin saman á ráðstefnu í Orkneyjum í lok síðasta árs. Meginhlutverk verkefnisins er flutningur þekkingar milli landa og efling atvinnulífs á norðurslóðum. Meðal þátttakenda standa Orkneyingar fremst í að nýta korn af norðurslóðum við framleiðslu áfengra drykkja og á ráðstefnunni miðluðu þeir af þeirri þekkingu, þ.e. ræktun byggs og möltun þess fyrir framleiðslu á viskíi og bjór. Hlutverk Matís er að miðla þessari þekkingu til fyrirtækja á Íslandi. Á fundinum verða leiðbeiningar frá Orkneyingum kynntar svo og möguleikar kynnir á að afla upplýsinga frá sérfræðingum í Orkneyjum. Þess má geta að fulltrúi Þoran sótti ráðstefnuna í Orkneyjum og fékk starfsþjálfun hjá maltgerð og viskíframleiðanda og mun hann tala um veru sína þar á fundinum.

Víða erlendis hefur áhugi á svæðisbundnum matvælum vaxið mikið. Fjölgun ferðamanna skiptir einnig máli í þessu sambandi. Á Íslandi er áhugi á að nýta þessi atriði til að auka tekjur af framleiðslu áfengra drykkja. Þá skiptir máli hvernig og hvort hægt er að framleiða malt úr íslenska bygginu. Einnig er ástæða til að beina athyglinni að humlunum en Norðmenn hafa um árabil rannsakað afbrigði af humlum sem henta við norðlægar aðstæður og þeir hafa einnig rannsakað kryddjurtir sem hægt er að nýta til að gefa nýjum bjórtegundum sérstöðu. Niðurstöður Norðmannanna verða kynntar á fræðslufundinum.

Kornrækt og drykkjarvöruframleiðsla á Orkneyjum á sér djúpar rætur. Hægt er að rekja kornrækt í Orkneyjum aftur til 3000 fyrir Krist. Drykkjarvöruiðnaðurinn skiptir nú miklu máli fyrir fjárhag eyjanna. Tvö fyrirtæki sem framleiða viskí eru mjög þekkt alþjóðlega en þau eru Highland Park Distillery og Scapa Distillery. Einnig starfa brugghúsin Orkney Brewery og Swannay Brewery á Orkneyjum. Mikill áhugi er á að nýta hið forna byggafbrigði Bere til að gefa vörum sterka ímyndar sérstöðu. Bruichladdich viskíframleiðandinn hefur í nokkur ár framleitt viskí úr Bere byggi með góðum árangri og má um þessar mundir finna flöskur af því m.a. á Keflavíkurflugvelli. Einnig hefur Arran viskíframleiðandinn fengið Bere bygg frá Orkneyjum til að brugga úr. Á Hjaltlandseyjum norðan Orkneyja er Valhalla Brewery sem framleiðir bjórinn Island Bere. Markaðssetning Orkneyinga byggir oft á arfleifð víkinganna og eru dæmi um afar velheppnaðar markaðssetningar.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal hjá Matís.

Fréttir

Skemmtileg heimsókn frá Háskólafélagi Suðurlands

Fyrir stuttu komu nemendur Matvælabrúarinnar frá Háskólafélagi Suðurlands í heimsókn í Matís og dvöldust hér daglangt á námskeiði í skynmati. Kennarar voru Kolbrún Sveinsdóttir og Aðalheiður Ólafsdóttir.

Í námskeiðinu fengu nemendur yfirsýn yfir hvað skynmat er og hvernig það er notað í matvælaframleiðslu, og gæðaeftirliti.

Kennslan var bæði bókleg og verkleg, nemendur lærðu að þekkja grunnbragðefni, nota lyktarskyn og kynntust ólíkum aðferðum við skynmat. Að auki var nemendum kynnt hvernig prófanir á bragði, lykt og áferð vöru eru notaðar við neytendakannanir og mismunandi aðferðir við neytendakannanir. Niðurstöður verklegu æfinganna voru teknar saman með sömu aðferðum og beitt er við rannsóknir Matís og urðu umræður fjörugar og fróðlegar.

Nánari upplýsingar veita Kolbrún Sveinsdóttir og Aðalheiður Ólafsdóttir hjá Matís og Ingunn Jónsdóttir hjá Háskólafélagi Suðurlands.

Frétt unnin upp úr texta á vef hfsu.is.

Fréttir

Matís á sjávarútvegssýningunni í Boston

Sjávarútvegssýningin í Boston fer fram 6.-8. mars nk. Fjöldi íslenskra fyrirtækja verður á sýningunni, þar á meðal Martak, Skaginn/3X, Fjarðarlax, HB Grandi, Sæplast, Marel og Matís, svo fáein séu nafngreind.

Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í Suður-, Mið- og Norður-Ameríku og er þessi vettvangur mikilvægur mörgum íslenskum fyrirtækjum við að færa út kvíarnar og auka samstarf.

Matís verður í sameiginlegum bás með Íslandsstofu og fleiri fyrirtækjum og er básinn númer 2555.

Nánari upplýsingar veita Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

HACCP og framleiðsla sjávarfangs

HACCP – bókin sem nú birtist á vefnum er ætluð sem stuðningsefni fyrir þá sem vilja kynna sér HACCP og uppsetningu slíks kerfis í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þetta fræðsluefni er liður í því að koma á framfæri þekkingu til þeirra sem bera ábyrgð á öruggri matvælaframleiðslu.

Það er ekki einfalt mál að tryggja öryggi neytenda og sjá til þess að allir geti verið vissir um að maturinn sem er á boðstólum sé öruggur. Á hverju ári deyja þúsundir í hinum stóra heimi vegna neyslu matar sem ekki var í lagi. Hafa verður í huga að sumir hópar neytenda eru viðkvæmari en aðrir, svo sem ung börn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Því verður að fara yfir allt ferli hverrar framleiðslu og sjá til þess með öllum tiltækum ráðum að neytendur matar verði ekki fyrir skaða vegna þess að ekki var rétt að verki staðið einhvers staðar í framleiðsluferlinu. Það er og verður ábyrgðarhlutur að framleiða matvæli og því er nauðsynlegt að setja skýran ramma utan um alla þætti matvælavinnslu og að leiðarljósi verður að hafa almannahagsmuni og öryggi neytenda.

Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur, vann texta og setti upp handbókina, Margeir Gissurarson, matvælafræðingur, var með í skipulagningu á efni, las yfir allt efnið og miðlaði af sinni þekkingu og reynslu.

Gerð þessarar handbókar var fjármögnuð af Matís með góðum stuðningi frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins.

Hjá Matís er hægt að nálgast mikinn fróðleik um flest allt sem viðkemur sjávarafurðum og allir starfsmenn fyrirtækisins eru boðnir og búnir til að gera gott betra í samvinnu við íslenskan sjávarútveg.

Fréttir

Margildi komið í “Glass of fame”

Í húsakynnum Matís að Vínlandsleið 12 er glerskápur sem lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að inn í skápnum er að finna fjöldann allan af vörum sem samstarfsaðilar Matís hafa þróað og komið í neytendapakkningar. Auðvitað er plássið lítið í svona skáp og ekki allar vörur samstarfsaðila sem komast þar fyrir.

GlerskapurinnÍ skápnum góða má núna finna rabarbarakaramellu frá Löngumýri á Skeiðum, skyrkonfekt frá Rjómabúinu á Erpsstöðum, UNA húðvörur úr þörungum, reyktan fisk frá Reykhöll Gunnu á Rifi, birkisíróp frá Holt og Heiðum í Hallormsstað, sælkera sinnep frá Sólakri, mysudrykkur frá Íslandus, kaldhreinsað lýsi með gamalli aðferð frá TrueWestfjords og byggþarapasta svo fátt eitt sé nefnt. Margildi var að bætast í hópinn með vörulínu sína en framleiðsla þeirra er á lýsi úr loðnu, síld og makríl.

Stærri tæki og lausnir sem Matís hefur unnið að í gegnum samstarf sitt við sjávarútveginn komast ekki fyrir í þessum skáp enda sum þessara tækja mjög stór og þung og í einhverjum tilfellum heilar verksmiðjur!

En skápurinn hefur fengið nafnið Glerskápurinn og má með sanni segja að hann sé svona “Glass of fame” hérna hjá okkur í Matís.

Fréttir

Matís – stórt hlutverk í fjölmörgum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum

Matís hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki á meðal fyrirtækja í sjávarútvegi. Að hluta til má segja það saman varðandi landbúnaðinn þá sérstaklega undanfarið þegar kemur að smáframleiðslu matvæla, og eru matarsmiðjur Matís mikilvægur hlekkur í því.

Hlutverk Matís í rannsóknum og nýsköpun innan sjávarútvegsins er síst að minnka enda framþróun í greininni mikil og fyrirtæki og einstaklingar innan sjávarútvegsins að gera vel í að fullnýta allt sem veitt er og fá sem best verð fyrir allt sem fer á markað með því að bjóða upp á fyrsta flokks hráefni og afurðir úr hafinu umhverfis Ísland.

En það eru mun færri sem vita um velgengi Matís í alþjóðlegu rannsókna- og nýsköpunarstarfi. Á þeim vettvangi hefur Matís sýnt getu og hæfileika til að vera öflugur þátttakandi í rannsóknaverkefnum og hefur í mörgum tilfella stjórnað eða leitt áfram stór alþjóðleg verkefni, einkum verkefni sem hafa snúið að fiski og fiskveiðum. Dæmi um slík verkefni eru EcoFishManMareFrameDiscardLess og PrimeFish.

 MareFrame_project_meeting_webFrá verkefnafundi MareFrame verkefnisins í Rúmeníu.

Heilmikill ávinningur er af þessum verkefnum hvað Matís og Íslendinga alla varðar en auk umtalsverðra fjármuna sem skila sér í aukinni atvinnuþátttöku rannsóknaaðila á Íslandi, skapast þekking í þessum verkefnum sem skilar sér beint inn í íslenskt rannsókna- og atvinnulíf.

Nánari upplýsingar um verkefnaþátttöku Matís má finna á einblöðungnum International Cooperation & Research Projects og á www.horizon2020.is.

Fréttir

Níunda alþjóðaráðstefna Samtaka um landbúnað á Norðurslóðum

Samtök um landbúnað á Norðurslóðum (e. Circumpolar Agricultural Association, CAA) eru samtök einstaklinga í öllum löndum á Norðurslóðum. Ráðstefnur samtakanna eru haldnar á þriggja ára fresti og verður níunda ráðstefnan haldin í Reykjavík dagana 6. til 8. október 2016.

Viðfangsefni ráðstefnunnar verður:

Hlutverk landbúnaðarins í lífhagkerfi Norðurslóða

Lífhagkerfið (e. Bioeconomy) er byggt á lífrænum auðlindum og hefur athyglin beinst í æ ríkara mæli að þessari nálgun á síðustu árum. Landbúnaðurinn þarf að nýta sér þá athygli sem lífhagkerfið fær því græna lífhagkerfið snýst fyrst og fremst um landbúnað og afurðir hans.

Á ráðstefnunni verður fjallað um svæðisbundna framleiðslu sem styrkir dreifðar byggðir, matvælaframleiðslu á Norðurslóðum, ferðamennsku og nýsköpun sem bregst við breyttum aðstæðum. Sérstök áhersla verður lögð á að að kynna góðan árangur sem hefur náðst á einu svæði og aðrir geta notið góðs af.

Matvælasýning á vegum lokaráðstefnu NordBio áætlunarinnar verður felld inn í dagskrána. Þann 8. október verður farin skoðunarferð þar sem gestir kynnast íslenskum landbúnaði.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu rástefnunnar: www.caa2016.com og upplýsingar má líka finna á Facebook síðu ráðstefnunnar.

Ráðstefnan hefur einu sinni áður verið haldin á Íslandi en það var árið 2001. Þá bar ráðstefnan heitið „Legacy and Vision in Northern Agriculture“ og var ætlað að beina athygli að samspili sögu og menningar við undirstöðu landbúnaðarins.

Mynd_Tjorvi_BI_web

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal hjá Matís.

IS