Skýrslur

Vinnsla á þurrkuðum sölvum til manneldis. Gæðaþættir og gæðaviðmið / Processing of dried dulse for consumption. Quality parameters and requirements.

Útgefið:

01/06/2011

Höfundar:

Þóra Valsdóttir, Karl Gunnarsson

Styrkt af:

AVS

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Vinnsla á þurrkuðum sölvum til manneldis. Gæðaþættir og gæðaviðmið / Processing of dried dulse for consumption. Quality parameters and requirements.

Að mörgu þarf að huga þegar skal afla og vinna söl og aðra þörunga til manneldis. Mismunandi kröfur og viðmið eru meðal vinnsluaðila, kaupenda og neytenda varðandi hvernig söl eiga að vera og hver æskileg gæði þeirra eru. Í þessari skýrslu er upplýsingum safnað saman um opinberar kröfur og þekkt viðmið um vinnslu á þurrkuðum sölvum til manneldis sem vinnsluaðilar og kaupendur geta nýtt sér til að setja vöru- og gæðaviðmið fyrir þessar vörur. Þrátt fyrir að um hefðbundna vöru sé að ræða er enn mikið verk óunnið til að öðlast fullnægjandi þekkingu á mörgum þáttum í framleiðslu á þurrkuðum sölvum og hvernig best er að stýra þeim (s.s. varðandi geymslu á fersku hráefni). Leiðbeiningar um vinnslu á þurrkuðum sölvum munu því halda áfram að þróast og breytast eftir því sem þekkingu fleygir fram.

Many things need to be considered when collecting and processing dulse and other seaweed for human consumption. Requirements on how dried dulse should be and their required quality, vary between buyers and consumers. Information was collected on official requirements and known paradigms on the processing of dried dulse. Despite being a traditional product, extended knowledge on the influence of different processing parameters on the properties of dried dulse and how they can be controlled, is needed. Instructions on processing of dried dulse will therefore continue to develop as knowledge on the matter extends.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Afurðir úr matþörungum. Hugmyndir að vörum / Food products from seaweed

Útgefið:

01/06/2011

Höfundar:

Þóra Valsdóttir, Karl Gunnarsson

Styrkt af:

AVS

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Afurðir úr matþörungum. Hugmyndir að vörum / Food products from seaweed

Í dag eru þeir stórþörungar sem nýttir eru til matar hér við land einkum seldir þurrkaðir og verkaðir. Lítil þróun hefur verið í vinnslu og verkun þeirra til dagsins í dag. Í því markmiði að hvetja til aukinnar nýtingar og nýsköpunar á þessu sviði var upplýsingum safnað um afurðir úr stórþörungum á markaði í öðrum löndum. Það sem einkum hamlar vexti markaðar með matþörunga hér á Íslandi og í nágrannalöndunum er hvað hefðin fyrir notkun þeirra hefur verið takmörkuð við litla og afmarkaða þjóðfélagshópa. Það eru því fjölmargir neytendur sem þekkja lítið til notkunar matþörunga og hafa oftar en ekki neikvætt viðhorf til þeirra. Yfirfærsla fleiri hefðbundinna vinnsluaðferða á grænmeti yfir á þörunga og blöndun í þekktar, almennar, vörur s.s. pasta og hrísgrjón eða í tilbúna rétti getur verið leið til þess að kynna matþörunga fyrir stærri hópi neytenda.

Today seaweed exploited for food production in Iceland is mainly sold dried and/or cured according to tradition. With the aim to stimulate utilisation and innovation in the sector, information was collected on seaweed products in several countries.

Skoða skýrslu

Fréttir

Íslenskt bygg er of gott til að nota ekki til manneldis

Um 20 manns á námskeiði um vinnslu korns til manneldis sem Matís ohf. stóð fyrir í Verinu vísindagörðum á Sauðárkróki í samstarfi við Leiðbeiningamiðstöðina með stuðningi starfsmenntaráðs.

Eyfirðingar, Húnvetningar og Skagfirðingar fræddust um meðhöndlun korns, sýnt var fram á fjölbreytilegt notagildi íslensks korns og farið yfir nýleg dæmi um þróun á nýjum vörum úr íslensku korni. Þá gæddu gestir sér á gæða brauði úr skagfirsku byggi sem og brauð til hvers skagfirskt hveiti var nýtt við baksturinn. Áhugasamur kornræktandi kom með sýnishorn af sinni framleiðslu, hafrar, bygg og hveiti, hvort tveggja heilt og malað. Ólafur Reykdal verkefnisstjóri hjá Matís flutti erindið fræddi viðstadda og svaraði spurningum.

Innlent korn til manneldis Ólafur Reykdal

Nánari upplýsingar veita Arnljótur Bjarki Bergsson og Ólafur Reykdal.

Fréttir

Þrávirk lífræn efni í íslenska þorskinum

Miðvikudaginn 1. júní heldur Vordís Baldursdóttir meistaravörn sína á sviði líftækni. Vörnin fer fram kl. 10:00 og verður í stofu M101 á Sólborg.

Meistaravörn við Auðlindadeild Viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 1. júní heldur Vordís Baldursdóttir meistaravörn  sína á sviði líftækni. Vörnin fer fram kl. 10:00 og verður í stofu M101 á Sólborg. Verkefni Vordísar ber heitið: „Occurrence of different persistent organic pollutants in Atlantic cod (Gadus morhua L.) in Icelandic waters”.

Verkefni Vordísar var samstarfsverkefni Matís ohf., Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Verkefnið var hluti af verkefninu, „Grandskoðum þann Gula frá miðum í maga – rannsókn á þáttum sem hafa áhrif á verðmæti þorskafla“, sem m.a. var styrkt af AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Meistaranám Vordísar var ennfremur styrkt af Matís ohf. og BYR Sparisjóði.

Í ritgerðinni fjallar Vordís um þrávirk lífræn efni í íslenska þorskinum. Skoðað var magn og breytileiki þrávirkra lífrænna efna og hvort þættir á borð við kyn, aldur, kynþroska, fiskimið og árstíma hefðu áhrif á magn efnanna. Einnig hvort þær mæliaðferðir sem þróaðar hafa verið á tækjabúnað Matís ohf. á Akureyri til mælinga á þrávirkum lífrænum efnum í fiskafurðum væru sambærilegar við þær aðferðir sem beitt er annarsstaðar. Mæld voru nokkur þrávirk lífræn efni í holdi 64 þorska og lifrum 38 þeirra. Lítið magn þrávirkra lífrænna efna greindist í þorskinum. Magn sem mældist í lifrum var u.þ.b. 300 sinnum meira en í holdi, en efnin fylgja fitunni og þorskvöðvi er afar fitulítill. Sú mæliaðferð sem notast var við stenst fullkomlega samanburð við þær aðferðir sem verið er að nota annarsstaðar, og virðist aðferðin ennfremur  nýtanleg til að greina sömu efni í kjúklingi.

Vordís Baldursdóttir lauk bakkalár (B.Sc) prófi í líftækni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008 og hóf störf sem sérfræðingur hjá Matís ohf. vorið 2010. Hún hefur unnið að rannsóknavinnunni og ritgerðarskrifum síðustu þrjú ár.

Aðalleiðbeinandi var Dr. Kristín Ólafsdóttir, deildarstjóri eiturefnadeildar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands.

Meðleiðbeinendur voru Dr. Rannveig Björnsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri Matís ohf. svo og Dr. Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri Matís ohf. og Dr. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, verkefnastjóri  Matís ohf., sem jafnframt voru umsjónaraðilar verkefnisins.

Andmælandi er Dr. Stefán Einarsson, sérfræðingur um loftslagsmál og hnattræn mengunarmál hjá Umhverfisráðuneytinu. Stefán hefur m.a. starfað við þróun aðferða fyrir greiningar á þrávirkum lífrænum efnum og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi vegna Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni, m.a. við að semja leiðbeiningar um bestu fáanlega tækni til að takmarka losun þrávirkra lífrænna efna út í umhverfið.

Fréttir

Alþjóðleg sjávarútvegsráðstefna í Ancona á Ítalíu – Matís tekur þátt og kynnir EcoFishMan verkefnið

Alþjóðleg sjávarútvegsráðstefna er nú haldin í Ancona á Ítalíu en þetta er í 71. skiptið sem þessi ráðstefna er haldin. Matís tekur þátt í þessar ráðstefnu og mun kynna EcoFishMan verkefnið og hvernig bæta megi fiskveiðistjórnunarkerfið sem notast er við innan landa Evrópusambandsins (ESB).

Matís er sérstaklega boðið á þessa ráðstefnu af Marche Regional authority á Ítalíu og er tilgangurinn m.a. annars að kynna Ecofishman fjölþjóða verkefnið sem Matís stýrir. Á fundinum verður t.a.m. farið í  opnar umræður með hagsmunaaðilum um aðkomu þeirra að EcoFishMan verkefninu en verkefnið snýst um þróun á nýju fiskveiðistjórnunarkerfi innan ESB.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðum Matís, t.d. hér og hér.

Nánari upplýsingar um þennan fund/ráðstefnu má finna hér.

Fréttir

Matís gefur………blóð!

Fyrir nokkur mætti Blóðbankabíllinn til Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík.  Starfsfólk Matís tók vel við sér og tæplega helmingur starfsamanna í Reykjavík (28 einstaklingar) gaf blóð þennan morguninn.

  • Blóðbankinn, sem er eina sérhæfða stofnunin á sínu sviði í landinu, tekur við blóði heilbrigðra einstaklinga til hjálpar sjúkum.
  • Þeir sem koma til greina sem blóðgjafar eru á aldrinum 18 til 60 ára, yfir 50 kíló, heilsuhraustir og lyfjalausir.
  • Blóðbankinn er opinn alla virka daga og hefur hann einnig yfir að ráða blóðsöfnunarbíl sem safnar blóði á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum

Fjöldi fólks gefur blóð í Blóðbankann en framlagið er ómissandi fyrir ýmsa starfsemi á sjúkrahúsum. Þá getur fólk fyllt út kort vegna líffæragjafa eftir andlát og gengið frá lífsskrá, skjali sem geymir óskir fólks varðandi lífslok.

Fréttir

Arsen er vel þekkt eiturefni sem og krabbameinsvaldandi efni

Nú fyrir stuttu birtist grein í ritrýndu vísindariti þar sem starfsmenn Matísar eru meðhöfundar.

Arsen er vel þekkt eiturefni sem og krabbameinsvaldandi efni, þó er eiturvirkni arsens háð á hvaða efnaformi það er. Arsenólípíð hafa hingað til fengið sáralitla athygli samanborið við önnur efnaform arsens, þrátt fyrir að geta verið umtalsverður hluti af heildararseni í sjávarfangi. Margt leikur enn á huldu, bæði um efnaformúlur og byggingar, sem og um eiturvirkni þessara arsensambanda. Greinin sýnir hvernig auðkenna má og magngreina arsenólípíð án þess að hafa sérstaka arsenólípíð staðla við höndina. Með því að nota merki frá ICP massagreini, fyrir þekktan arsenstaðal, mátti reikna út sérstakan viðbragðsfaktor. Þennan viðbragðsfaktor mátti síðan nýta til að magngreina óþekkt efnaform arsenólípíða. Meðal annars fannst ein fitusýra (C24H38AsO3) sem var auðkennd í fyrsta sinn. Hún er með sléttan fjölda kolefna, sem er óvenjulegt því allar áður fundnar arsenfitusýrur, hafa haft oddatölu fjölda af kolefnum.

Krækja í vísindagrein (hér).

Nánari upplýsingar veitir Ásta Heiðrún Pétursdóttir hjá Matís í síma 422-5000.

Fréttir

Norræna nýsköpunarmiðstöðin – nýsköpun í sjávarútvegi, 2. og 3. hluti

Norræna nýsköpunarmiðstöðin fyrir hönd norrænna samstarfsaðila í verkefninu „Innovation in the Nordic marine sector” auglýsir eftir verkefnaumsóknum í 2. og 3. hluta áætlunarinnar.

2. hluti
Verkefni í 2. hluta skulu stuðla að:
1. Nýjum og nýskapandi ráðningarferlum,
2. Nýjum og nýskapandi lausnum til að bæta og auka öryggi í starfsumhverfi,
3. Samræmingu og auknu gagnsæi fyrir sjávarafurðir og tengda þjónustu á norrænum markaði.

Dæmi um þátttakendur í verkefnahópi eru: Norræn sjávarútvegsfyrirtæki, þjónustaðilar við sjávarútveginn (sem selja tækni, þjónustu og/eða þekkingu), iðnaðarsamtök, nýsköpunar- og rannsóknastofnanir, opinberir aðilar, bæði svæðisbundnir og á landsvísu, og fyrirtæki sem búa yfir sérþekkingu á sviði markaðssetningar og almannatengsla.

Heildarupphæð til ráðstöfunar í þessum hluta er 6 milljónir norskra króna. Umsóknafrestur er til 8. ágúst 2011.Frekari upplýsingar er að finna hér: Hjá Sigríði Þormóðsdóttur, s.thormodsdottir@nordicinnovation.org.

3. hluti
Í þessu umsóknakalli er lögð áhersla á aðferðafræði notendadrifinnar nýsköpunar (user driven innovation) og samstarf milli fyrirtækja, fyrirtækja og rannsóknaraðila og fyrirtækja og notenda/neytenda.

Verkefni í 3. hluta skulu stuðla að a.m.k. einum af þremur þáttum:
1. Sjálfbærni í sjávarútvegi,
2. Meiri gæði úr sjávarafurðum og hráefni
3. Fjölbreytni sjávarfangs og afurða.

Dæmi um þátttakendur í verkefnahópi eru: Norræn sjávarútvegsfyrirtæki, þjónustaðilar við sjávarútveginn (sem selja tækni, þjónustu og/eða þekkingu), iðnaðarsamtök, nýsköpunar- og rannsóknastofnanir, opinberir aðilar, bæði svæðisbundnir og á landsvísu, og aðrir aðilar sem búa yfir sérþekkingu á sviðinu.

Heildarupphæð til ráðstöfunar í þessum hluta er 24 milljónir norskra króna. Umsóknafrestur er til 8. ágúst 2011.

Frekari upplýsingar er að finna hér: Hjá Sigríði Þormóðsdóttur, s.thormodsdottir@nordicinnovation.org.

Fréttir

Ný heimasíða Norrænu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar

Nú nýverið tók Norræna Nýsköpunarmiðstöðin nýja heimasíðu í gagnið (www.nordicinnovation.org). Miðstöðin vinnur að því að efla nýsköpun á Norðurlöndum með samstarfi nýskapandi aðila, bæði innan og utan heimshlutans.

Matís hefur átt í mjög góðu samstarfi við Norrænu Nýsköpunarmiðstöðina en hún er vettvangur norræna ríkja og fyrirtækja og stofnanna í ríkjunum við að þróa vistkerfi nýsköpunar í heimsgæðaflokki til þess að styðja við vöxt viðskiptalífsins og samkeppishæfni Norðurlanda til lengri tíma litið.

Vel starfandi og samhæfð vistkerfi nýsköpunar eru nauðsynleg til þess að geta hlúð að og stutt við þróun nýrrar viðskiptastarfsemi á Norðurlöndum. Skilvirk vistkerfi nýsköpunar þurfa að vera samræmd markaðsþörfum til þess að tryggja öflugan og samkeppnishæfan vöxt. Þróun fyrirtækja og iðngreina eru nauðsynleg forsenda þess að viðhalda samkeppnishæfi á komandi árum. Öflug vistkerfi nýsköpunar gegna auk þess lykilhlutverki í því að gera samfélagið sjálfbærara um leið og þau hafa fram að færa mikilsverða viðskiptamöguleika í því að skapa ný «græn» fyrirtæki.

Norræna Nýsköpunarmiðstöðin hafur staðið fyrir mörgum rannsóknum á stefnumörkun um nýsköpun og opinberar nýsköpunaráætlanir á Norðurlöndum.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Þormóðsdóttir, s.thormodsdottir@nordicinnovation.org.

Fréttir

Ert þú með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar?

Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnulegum nýsköpunarhugmyndum, sem veita á viðurkenningu fyrir á næstu ráðstefnu vettvangsins. Markmiðið er að hugmyndirnar séu framsæknar og frumlegar og skapi umræðugrundvöll eða nýja hugsun.

Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2011

Það sem þarf að hafa í huga

Framúrstefnuhugmynd skal setja fram á hnitmiðaðan hátt þar sem fram kemur lýsing á hugmynd, tillaga að framkvæmd, væntanlegur afrakstur og áhrif til góðs fyrir ímynd íslenskra afurða (hámark 2 bls). Einstaklingar geta sent inn eigin hugmyndir og /eða tilnefnt hugmyndir annarra í umboði þeirra. Allar hugmyndir þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Hugmyndin er framúrstefnuleg
  • Hugmyndin er raunhæf

Tímafrestur

Frestur til að skila inn umsóknum er 23. maí 2011.

Hvert á að senda hugmyndina?

Eingöngu er gert ráð fyrir að frammúrstefnuhugmyndin verði send inn rafrænt. Sendið hugmyndina sem viðhengi (word eða pdf skjal) á tölvupóstfang ráðstefnunnar: info@sjavarutvegsradstefnan.is Bíðið eftir staðfestingu um móttöku og ef hún berst ekki innan sólahrings, hringið þá í síma 695 2269.

Mat á hugmynd

Við mat á hugmyndum verður m.a. litið til eftirfarandi þátta: Frumleika, virðisauka, sjálfbærni, og ímyndar landsins eða greinarinnar út á við.

Í matsnefnd sitja: Ásgeir Ásgeirsson, Guðrún Ólafsdóttir, Lúðvík Börkur Jónsson, Hjálmar Sigurþórsson og Halldór Ármannsson. Varðandi vanhæfi er stuðst við reglur RANNÍS sem eru að finna Hér.

Verðlaun og kynning

Veitt verður verðlaunafé að upphæð kr. 400 þús., en auk þess fá hugmyndirnar kynningu og sérstaka viðurkenningu á Sjávarútvegsráðstefnunni 13.-14. október 2011.

Nánari upplýsingar á www.sjavarutvegsradstefnan.is.

IS