Fréttir

Fiskmarkaðir fyrir almenning

Því ekki fiskmarkaði, rétt eins og grænmetismarkaði og bændamarkaði? Matur, saga, menning 25. mars kl. 17.

Ísland er þekkt fyrir frábæran fisk og góð fiskimið, en einhverra hluta
vegna tíðkast ekki hér á landi að almenningur geti keypt ferskan fisk á
hafnarbakkanum eða á fiskmarkaði. Þótt margir hafi sýnt hugmyndinni um
fiskmarkað áhuga, hefur henni ekki verið fylgt eftir í framkvæmd hingað
til. Nú lítur út fyrir að hreyfing sé að komast á málið bæði í Reykjavík
og víðar, og að þess sé ekki lagt að bíða að gestir og gangandi geti
nálgast ferskan fisk á þennan lifandi og skemmtilega hátt.

Þær Þóra Valsdóttir, matvælafræðingur hjá Matís ohf og Brynhildur
Pálsdóttir, matarhönnuður hjá Listaháskóla Íslands, kynna áhugaverða
samantekt um möguleika fiskmarkaða á Íslandi á fundi félagsins Matur saga
menning, fimmtudaginn 25. mars kl 17.00 í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar,
Hringbraut  121, 4. hæð.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Á undan fundinum, þ.e. frá kl 16.30-17.00 verður aðalfundur
félagsins haldinn samkvæmt áður boðaðri dagskrá.

Fréttir

Matís á sænska orkuþinginu í Stokkhólmi

Matís hefur verið virkt nú um nokkurt skeið í orkulíftækni og hefur sviðið Líftækni og Lífefni hjá Matís fengið styrki frá ýmsum aðilum til að leita að sérstökum ensímum og örverum sem nýta má í orkulíftækni.

Nú eru í gangi verkefni styrkt af Tækniþróunarsjóði og Nordic-Energy sjóðnum til að finna og endurbæta hitakærar örverur með erfðatækni til framleiðslu á etanóli úr lífmassa.  Lífmassinn inniheldur fjölsykrur eins og sellulósa og xylan sem hefðbundnar gerjunarbakteríur er ekki færar um að nýta en slíkur lífmassi fellur til í iðnaði og landbúnaði í miklum mæli og er vannýttur í dag.  Hitakærar örverur get brotið og gerjað slíkan lífmassa niður og markmiðið með vefefninu er að gera þær öflugri, m.ö. o. arðbærar.

Í byrjun þessa árs fékk Matís og Háskólinn í Lundi stóran styrk frá sænska rannsóknasjóðnum FORMAS til viðbótar áðurnefndum styrkjum til að þessa verkefnis.  Í framhaldi af því var Matís boðið að kynna verkefnið á sænska orkuþinginu

Þingið er árlegur viðburður í Svíþjóð með yfir 500 fyrirlestrum sem snerta öll svið orkunýtingar og öflunar.  Verkefni Matís fékk  góð viðbrögð og þess má geta að bás FORMAS skartaði meðal annar stórri mynd af hverasvæði sem var eins konar tilvitnun í verkefni Matís.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson, gudmundur.o.hreggvidsson@matis.is.

Fréttir

Háskóli Íslands og Matís undirrita samstarfssamning

Markmiðið að vera í fararbroddi í nýsköpun í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni.

Háskóli Íslands og Matís ohf. undirrituðu í gær samning um að efla verklega kennslu og vísindastarf á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis.  Hugmyndin með samningnum er að efla fræðilega og verklega menntun nemenda Háskóla Íslands og auka rannsóknir á framangreindum sviðum. Þá er markmiðið að nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna en Háskólinn og Matís hyggjast kaupa og reka sameiginlega ýmiskonar búnað til rannsókna.

Háskóli Íslands og Matís ætla sér með samstarfinu að vera í fararbroddi í nýsköpun á þeim fræðasviðum sem tengjast matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggi. Með samningnum mun verkleg leiðbeining meistara- og doktorsnema Háskóla Íslands fara fram hjá Matís en hugmyndin er að tryggja að gæði rannsókna hjá HÍ og Matís séu sambærileg við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi á framangreindum fræðasviðum.

Með samstarfinu á einnig að tryggja faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi. Þá er ætlunin er að fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni.

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni.  Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við HÍ að kennslu og þjálfun nemenda.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2011, þar sem lögð er áhersla á uppbyggingu doktorsnáms, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki  eins og Matís. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Í gær varð Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, jafnframt gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og var samningur þess efnis undirritaður. Markmið samningsins er að styrkja kennslu og rannsóknir í matvælafræði.

Meðfylgjandi er mynd frá undirskrift samningana í gær

Háskóli Íslands og Matís undirrita samstarfssamning: Markmiðið að vera í fararbroddi í nýsköpun í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni

Fremri röð frá vinstri: Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís og gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Aftari röð frá vinstri: Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þórður Kristinsson, sviðsstjóri Kennslusviðs Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu Háskóla Íslands, Ingibjörg Gunnarsdóttir, varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands, Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís, Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís, Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísindasviðs Háskóla Íslands.

Fréttir

Eru heilsufarsfullyrðingar um matvæli ofmetnar?

Nú fyrir stuttu bárust fréttir af niðurstöðum könnunnar en þar kemur fram að sumir neytendur telja að matvæli sem fullyrt er um heilsusamlega eiginleika séu ekki eins náttúruleg, bragðist ekki eins vel og séu ekki eins áhugverður kostur og þau matvæli sem ekki bera heilsufarsfullyrðingar.

Emilía Martinsdóttir, fagstjóri hjá Matís, stóð að könnun ásamt öðru fagfólki frá Norðurlöndum. Niðurstöður úr könnuninni voru helst þær að neytendum hættir til að þykja fullyrðingar, t.d. á umbúðum, um heilsusamlega ávinning ekki eins mikilvægar og upplýsingar um hvað efnin í vörunni gera fyrir líkamann í raun og veru. Því má skilja þetta sem svo að neytendur vilji fá vitneskju um vísindalegar staðreyndir málsins frekar en fallegar yfirlýsingar um hvað varan sem slík gerir.

Dæmi: “Vara X lækkar blóðþrýsting” myndi ekki gefa vöruframleiðanda eins mikið og að segja “Vara X inniheldur efni Y sem niðurstöður rannsókna benda til að geti haft jákvæð áhrif á heilsu”.

Nánari upplýsingar má finna hér og einnig hjá Emilíu Martinsdóttur, emilia.martinsdottir@matis.is.

Fréttir

Ekkert annað kjöt en nautakjöt er að finna í íslensku nautahakki sem selt er í búðum

Gagnstæðar fullyrðingar hafa því ekki við rök að styðjast. Þetta er niðurstaða gæðakönnunar sem Matís gerði fyrir Neytendasamtökin og Landsamband kúabænda. Sagt er frá könnuninni og niðurstöðum hennar á vefsíðu Neytendasamtakanna.

Í framhaldi af umræðum um gæði á nautahakki ákváðu Landssamband kúabænda og Neytendasamtökin að gera gæðakönnun á þessari vöru. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðneytið styrkti verkefnið að hluta. Matís sá um framkvæmd könnunarinnar, sem náði til átta tegunda nautahakks.

Skýrsluna og niðurstöður könnunarinnar má í heild sinni finna hér.

Nánari upplýsingar veita Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is og Óli Þ. Hilmarsson, oli.th.hilmarsson@matis.is.

Fréttir

Útskrift Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna

Þriðjudaginn 9. mars sl. luku 18 nemendur námi sínu frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna og er þetta 12. árgangurinn sem hefur lokið sex mánaða námi við skólann.

Skólinn er samstarfsverkefni fjögurra stofnana/fyrirtækja: Hafrannsóknastofnunar, Matís, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, en auk þess kemur  Hólaskóli að samstarfinu. Daglegur rekstur skólans heyrir undir Hafrannsóknastofnun og er Tumi Tómasson forstöðumaður skólans.  

Hjá Matís hafa allir nemendur skólans fengið kennslu í grunnáfanga um gæði og vinnslu fisks og í beinu framhaldi hafa nemendur á gæðalínu skólans, sem í ár voru fimm, fengið kennslu og verklega þjálfun. Fjórir af þessum fimm nemendum hafa unnið lokaverkefni sín hjá Matís í Reykjavík. Í ár fjölluðu verkefnin um gerð gæðastuðulsskala (QIM) fyrir makríl, áhrif sorbats, chitosans á geymsluþol makríls, kennsluefni fyrir gerð HACCP kerfis til notkunar í fiskiðnaði í Norður-Kóreu og uppsetningu kerfis rekjanleika sem myndi henta á innanlandsmarkaði í Kína. Nemendurnir vinna að jafnaði verkefni með þarfir í eigin heimalandi í huga.

Hér að neðan eru talin upp þessi verkefni, höfundar og leiðbeinendur.

Gæðastjórnum við meðferð fisks og fiskvinnslu:

Patricia J. Nobre leite Miranda Alfama – Cape Verde

UNU-FTP Project title: Quality Index Method (QIM) for frozen-thawed Atlantic mackerel (Scomber scombus) stored in ice: development and application in a shelf life study
Supervisor: Emilía Martinsdóttir, Matís and Kolbrún Sveinsdóttir, Matís
Specialist line: Quality Management of Fish Handling and Processing
Lanlan Pan – China
UNU-FTP Project title: A Model of traceability of fish products for the domestic market in China based on traceability studies in Iceland and China
Supervisor: Margeir Gissurarson, Matís
Specialist line: Quality Management of Fish Handling and Processing

Mun Hyok Ho – DPR Korea
UNU-FTP Project title: The effect of dipping treatments on preservation of fish (mackerel) using chitosan, sorbate and acetic acid.
Supervisor: Heiða Pálmadóttir, Matís , Irek Klonowski, Ingibjörg Rósa Þorvaldsdóttur and Páll Steinþórsson, Matís
Specialist line: Quality Management of Fish Handling and Processing

Kwang Bok Jo – DPR Korea
UNU-FTP Project title: The understanding of the HACCP and the application method of the HACCP system in DPR of Korea
Supervisor: Margeir Gissurarson, Matís
Specialist line: Quality Management of Fish Handling and Processing

Nánari upplýsingar um útskriftina og skólann má finna hér

Fréttir

Tilkynning frá Matís vegna umfjöllunar um skýrslu sem félagið vann nýlega fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið

Vegna umfjöllunar um skýrslu sem Matís vann nýlega fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, og birst hefur á vef- og fréttamiðlum undanfarna daga, vill Matís taka skýrt fram að í skýrslunni er ekki tekin afstaða til eins útgerðarforms á kostnað annars. 

Skýrslunni er ætlað að draga fram staðreyndir um nýtingu hráefnis í íslenskum sjávarútvegi, svo mögulegt væri að móta skynsamlega stefnu um nýtingu sjávarafla til framtíðar og hvernig skapa megi sem mest verðmæti úr honum.

Það er lykilmál fyrir aukna verðmætasköpun á Íslandi að nýting sjávarafla verði með sem besta móti.  Það eru á hinn bóginn ýmsir aðrir þættir en nýting sem skipta máli varðandi verðmætasköpun, svo sem meðferð afla, val á vinnsluleiðum og afurðum, aðgengi að markaði og viðskiptasambönd.  Þá má ljóst vera að líta þarf til kostnaðar, til jafns við tekjur, enda er það arðsemi af veiðum, vinnslu og markaðssetningu sem standa þarf undir nauðsynlegri framtíðarfjárfestingu, t.a.m. vegna rannsókna og þróunar.

Íslenskur sjávarútvegur stendur vel á alþjóðlega vísu þegar kemur að samanburði á arðsemi og nýtingu afla.  Það er ánægjuefni að skýrslu Matís sé sýndur áhugi og hvet ég alla til að kynna sér efni hennar.  Það er von mín að í framhaldinu muni fara fram opin og heiðarleg umræða um þær leiðir sem mögulegar eru til að auka nýtingu, verðmætasköpun og arðsemi enn frekar.

Skýrsluna má nálgast hér: Bætt nýting sjávarafla, 2. útgáfa

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Fréttir

Norræn ráðstefna á Íslandi um mat – Matís skipuleggur

Matís skipuleggur ráðstefnu um skynmat 20. og 21. maí nk. á Hilton Reykjavík Nordica Hotel. Ráðstefnan fjallar um samskipti ólíkra hópa eins og matvælaframleiðenda, veitingamanna, markaðsfólks, vísindafólks og neytenda.

Meðal annars verður lögð áhersla á hvernig matvælafyrirtæki og veitingahús geta nálgast eða talað við sína viðskiptavini og neytendur og komast að því hvað þau vilja. Einnig verður fjallað um innri samskipti í fyrirtækjum, svo sem milli vöruþróunar- og markaðsfólksins.

Í umræðunni verða gæði matvæla mæld með skynmati, neytendarannsóknir og þýðing þeirra fyrir matvælafyrirtæki og veitingamenn.

Meðal fyrirlesara er Ulf Larsson frá Háskólanum í Örebro í Svíþjóð og hann mun fjalla um hversu miklu máli lýsing á mat getur skipt t.d. á matseðlum. Peter Kreiner frá NOMA Restaurant í Kaupmannahöfn mun tala um hvernig hægt er að koma norrænum gildum í matargerðarlist á framfæri. Valdimar Sigurðsson frá Háskólanum í Reykjavík ætlar að segja frá hegðun neytenda og hvernig markaðssetningu er háttað í verslunum. Johan Unuger frá Saltå Kvarn sem mun fjalla um hvernig hægt sé að nota fjölmiðla í samskiptum við neytendur. Nokkrir fyrirlesarar koma frá stórum norrænum fyrirtækjum, eins og Arla Foods og Valio og finnska markaðsrannsóknafyrirtækinu Taloustutkimus.

Ef fyrirtæki hafa á því áhuga þá er boðið upp á lógó-merkingar fyrirtækja á efni ráðstefnunnar þeim að kostnaðarlausu.

Nánari upplýsingar um dagskrá, skráningu, ofl. má finna á ensku síðu Matís, www.matis.is/nsw2010.

Fréttir

Matís, ásamt fleirum, skoðar viðhorf neytenda til heilsufarsfullyrðinga um matvæli

Á Íslandi má einungis nota fullyrðingar um innihaldsefni matvæla ef það er heimilað í viðeigandi reglugerðum eða að leyfi fyrir slíku hafi fengist hjá Matvælastofnun (MAST).

Áður en fyrirtæki/einstaklingar dreifa matvælum sem merkt eru með fullyrðingum, t.d. fitusnautt, kólesterólfrítt, hitaeiningasnautt eða öðrum fullyrðingum, skal athuga hvort slíkt sé heimilt. Ef heimild er ekki að finna innan reglugerðarinnar þarf að sækja um fullyrðinguna til Matvælastofnunar á sérstökum eyðublöðum sem finna má á heimasíðu stofnunarinnar, www.mast.is. Leyfi hafa fengist fyrir nokkrum fullyrðingum hér á landi sem einnig má sjá á heimasíðu MAST.  

Matís tók þátt í norrænu verkefni þar sem markmiðið var að að Norðurlöndin kæmu fram með sameignlega skoðun á hvers konar merkingar yrðu leyfðar sem “jákvæðar merkingar”. Viðhorfskönnun var gerð meðal norrænna neytenda um heilsufullyrðingar, hvernig neytendur skilja þær og um merkingar matvæla og hvernig áhrif þær hafa í markaðssetningu.

Matís framkvæmdi könnunina á Íslandi og túlkaði niðurstöður ásamt því að halda  fundi með hagsmunaaðilum fulltrúum matvælafyrirtækja og neytendasamtaka. Í haust kom út ritrýnd grein sem skýrir frá niðurstöðum neytendarannsóknanna. Greinin nefnist  Perception of Health Claims Among Nordic Consumers og er birt í tímaritinu Journal  of Consumer PolicyGreinina má nálgast hér. 

Nú var að koma út önnur grein úr þessari rannsókn í tímaritið Food Policy sem nefnist Impact of helath-related claims on the perception of other product attributes. Greinina má nálgast hér.

Fréttir

Búnaðarþing 2010 – hátíðarræða Sjafnar Sigurgísladóttur forstjóra Matís

Búnaðarþing var sett við hátíðlega athöfn í Bændahöllinni í dag. Þar héldu ávörp Haraldur Benediktsson formaður BÍ, Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Brita Skallerud annar tveggja varaformanna norsku bændasamtakanna Norges bondelag og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís.

Einnig voru veitt landbúnaðarverðlaun sem ábúendurnir á bæjunum Hraun á Skaga og Grænhóli í Ölfusi hlutu að þessu sinni. Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi kom sá og sigraði með hressilega fiðlutóna.

Niðurstöður úr skoðanakönnun Capacent:
Framtíð íslensks landbúnaðar hefur áhrif á afstöðu fólks til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, en 55,9% landsmanna eru andvígir inngöngu landsins í Evrópusambandið en 33,3% hlynntir aðild. Hátt í 60% landsmanna segjast ekki bera neitt eða lítið traust til sttjórnvalda þegar kemur að því að gæta hagsmuna þjóðarinnar í umsóknarferli um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta kom fram í ræðu Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, við setningu Búnaðarþings 2010 fyrr í dag, en yfirskrift búnaðarþingsins  er „Aftur kemur vor í dal”.

Í ræðu sinni skýrði Haraldur frá niðurstöðum nýlegrar könnunar sem Capacent vann fyrir Bændasamtökin. Um var að ræða fimm spurningar í spurningavagni Capacent. Niðurstöður könnunarinnar undirstrikar mikilvægi íslensks landúnaðar og neikvæða afstöðu til aðildar Íslendinga að Evrópusambandinu.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru:

  • 95,7% svarenda telja að það skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar.
  • 84,3% telja að það skipti miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir.
  • 55,9% aðspurðra eru andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu, 33,3% eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu og 10,8% óákveðin.
  • 62,8% segja að framtíð íslensks landbúnaðar hafi mikil eða nokkur áhrif á afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
  • 57,9% svarenda segist treysta íslenskum stjórnvöldum illa eða alls ekki til að gæta hagsmunum þjóðarinnar í umsóknarferlinum um aðild Íslands að Evrópusambandinu, aðeins 26,8% segjast treysta stjórnvöldum vel eða að öllu leyti.
IS