Fréttir

Matís auglýsir eftir starfsfólki á Vestfjörðum og í Reykjavík

Matís auglýsir eftir nokkrum starfsmönnum á Vestfjörðum og í Reykjavík. Á Vestfjörðum er auglýst eftir verkefnastjóra Aflakaupabanka, sérfræðingi við sértækar mælingar og verkefnastjóra á sviði vinnslutækni.

Þá er einnig auglýst eftir tveimur aðstoðarmönnum á örverurannsóknarstofu og efnarannsóknarstofu.

Nánari upplýsingar um störfin er að finna hér.

Fréttir

Lifandi humrar frá Íslandi vekja athygli á sjávarútvegssýningunni í Brussel

Nokkur hundruð lifandi leturhumrar frá Íslandi, sem fluttir voru á sjávarútvegssýninguna European Seafood Exposition í Brussel í Belgíu, vöktu mikla athygli sýningargesta.

Humrarnir, sem voru veiddir á Hornarfjarðardjúpi, voru fluttir fyrst á humarhótelið, sem er rekið á vegum Matís (Matvælarannsókna Íslands) og Frumkvöðlaseturs Austurlands. Þar voru þeir kældir áður en þeir voru fluttir út með Icelandair Cargo til Brussel. Humrarnir voru svo fluttir á bás fyrirtækisins OOJEE. Humranir þykja vænir að stærð en þeir eru um 100 gr. að þyngd að meðaltali.

Veiðar og flutningur á lifandi humri frá Hornafirði er hluti af tilraunaverkefni Matís, Frumkvöðlasetus Austurlands og Skinney Þinganess. Það er styrkt af AVS rannsóknasjóðnum.

European Seafood Exposition sýningin í Brussel hófst sl. þriðjudag og lýkur í dag, 26. apríl. Í raun er um að ræða tvær sýningar á sama stað: European Seafood Exposition, þar sem sýndar eru sjávarafurðir og Seafood Processing Europe með vélum, tækjum, þjónustu og öðrum búnaði fyrir sjávarútveg.

Á myndinni eru f.v.: Guðmundur Gunnarsson, Matís, Ari Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Austurlands, og Karl Jóhannesson, OOJEE.

Fréttir

Verið Vísindagarðar á Sauðárkróki tekur til starfa

Í gær var fyrirtækið Verið Vísindagarðar ehf. kynnt á opnum fundi á Sauðárkróki. Eitt af meginmarkmiðum Versins er að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs, efla rannsóknir og námsframboð og auka verðmætasköpun í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu.

Á kynningarfundinum sagði sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, að Verið Vísindagarðar væri farsæl leið til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu, einkum í matvælaiðnaði. Hann sagði að ráðuneytið hafði lagt sig fram um að fjölga sérfræðistörfum hjá stofnunum ráðuneytisins á landsbyggðinni, en þeim hefði fjölgað um 25 síðustu misseri og álíka fjöldi hið minnsta væri fyrirsjáanlegur. Í ræðu sinni lagði ráðherrann áherslu á mikilvægi þess að fjölga atvinnutækifærum fyrir háskólamenntað fólk á landsbyggðinni og sömuleiðis námsmöguleikum og sagði að stofnun Versins Vísindagarða væri liður í því.

Fyrirtækið Verið Vísindagarðar ehf var stofnað fyrr á þessu ári og mun annast rekstur kennslu og rannsóknaraðstöðu í formi vísindagarða í tengslum við Háskólann á Hólum, Matís (Matvælarannsóknir Íslands), FISK Seafood og fleiri aðila. Félagið stefnir að enn frekari uppbyggingu á því sviði með því að skapa aðstöðu og vettvang til aukins samstarfs atvinnulífs, innlendra og erlendra háskóla og rannsóknaraðila.

Verið Vísindagarðar eru í dag reknir í um 1.500 fermetra húsnæði að Háeyri 1, en þar er Háskólinn á Hólum með aðstöðu fyrir kennslu og rannsóknir í fiskeldi, fiskalíffræði, sjávar- og vatnalíffræði. Þá er Matís með starfsemi þar fyrir fyrirtækið Iceprotein, sem framleiðir prótein úr fiskafskurði. Sjávarútvegsráðherra sagði á kynningarfundinum að þátttaka Matís í rannsóknar- og þróunarstarfi í Verinu hefði það m.a. að markmiði að búa í haginn fyrir atvinnulífið og stuðla að frekari fjárfestingu og atvinnusköpun. Það sama ætti einnig við um starfsemi rannsóknastofnana sem heyrðu undir sjávarútvegsráðuneytið víða um landið.

Vísindagarðar, eins og þeir sem hafa verið teknir í notkun á Sauðárkróki, hafa verið stofnaðir við fjölmarga háskóla erlendis því reynslan sýnir að slík starfssemi sé öflug leið til að efla byggðir og samfélög með víðtæku háskólastarfi í nánu samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög.

Vegna mikils áhuga þeirra sem koma að Verinu og fleiri þá eru þegar uppi áform um bæta verulega við núverandi húsnæði; svo sem rannsóknaraðstöðu og frekari vinnuaðstöðu fyrir kennara, nemendur og rannsóknarfólk.

Gísli Svan Einarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Versins, en hann starfaði áður sem útgerðarstjóri hjá FISK Seafood á Sauðárkróki. Gísli veitir allar nánari upplýsingar í síma: 825 4409.

Fréttir

Kynningarfundur um tækni og vísindi í Skagafirði

Miðvikudaginn 25. apríl milli kl. 16-18 verður opið hús í Verinu-Þróunarsetrinu v/höfnina á Sauðárkróki þar sem ýmis nýsköpunarverkefni, sem unnið er að á svæðinu verða kynnt. Tilefnið er stofnun nýs fyrirtækis sem nefnist Verið Vísindagarðar ehf.

Verið var formlega opnað þ. 7. mars í fyrra í húsnæði FISK Seafood við höfnina á Sauðárkróki. Þróunarsetrið er samstarfsverkefni Matís, Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, FISK Seafood og Hólaskóla og lögðu iðnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin sameiginlega tæpl. 10 milljónir króna til verkefnisins við opnun þróunarsetursins.

Nú hefur verið stofnað sérstakt fyrirtæki Verið Vísindagarðar ehf til þess að annast kennslu- og rannsóknaraðstöðu í þróunarsetrinu.

Auglýsing frá Verinu

Fréttir

Ábrystir, beinakæfa, grjúpán, selabaggi? – Nei, takk!

Flest áhugafólk um matargerð kannast við Nouvelle cuisine eða Haute cuisine sem öðlaðist vinsældir í Frakklandi á 8. áratug síðustu aldar, þar sem áhersla var lögð á léttan og hollan mat, t.d. mikið af grænmeti og léttar sósur í stað hinnar hefðbundnu, þungu frönsku matargerðar með hveitisósum og tilheyrandi rjómanotkun. Nú er komið að norrænni matargerð að ganga í endurnýjun lífdaga.

Verkefnið Ný norræn matvæli, matargerð, matur var sett á fót af Norrænu ráðherranefndinni haustið 2006 og er markmið þess að efla norræna matarmenningu og gera hana sýnilegri. Verkefnið á að skapa sameiginlegan skilning á norrænum hráefnum og sýn fyrir þróun í norrænni matarmenningu. Verkefnið á að styrkja sýnina og skapa hefð um vörumerkið “Ný norræn matvæli” sem byggir á hollum og margvíslegum norrænum hráefnum.

Að sumu leyti má segja að “Ný norræn matargerð” byggi á svipuðum grunni og nouvelle cuisine, þ.e. að þróa norræn gildi innan norrænnar matarmenningar og hefða, matargerðar, hráefna, ferðamennsku, heilsu og hollustu, atvinnusköpunar, hönnunar og verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu.

Skapa á samvinnu milli norrænu landanna um starfsemi sem viðkemur norrænum mat og matarmenningu. Með verkefninu vill Norræna ráðherranefndin styðja alls konar starfssemi sem hjálpar til við jákvæða þróun norrænna matvæla.Sérstakur stýrihópur var stofnaður til að vinna verkefninu brautargengi og af hálfu Íslands sitja í honum Emilía Martinsdóttir frá Matís og Laufey Haraldsdóttir frá ferðamáladeild Hólaskóla.

Að sögn Emilíu hefur m.a. verið rætt innan stýrihópsins um aðgerðir til að auka útflutning matvæla og styðja innlenda matvælaframleiðslu og einnig að skilgeina þurfi ”Ný norræn matvæli” með tilliti til ólíkra matvælahefða hinna einstöku Norðurlanda og skapa jákvæða ímynd meðal Norðurlandabúa. Þá þurfi að hvetja til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og stuðla að framleiðslu heima í héraði sem byggir á hráefni á hverjum stað. NNM þýðir ”ný norræn matvæli” bæði sem hversdagsmatur, veislumatur og útflutningur á matvælum. Auglýst verður eftir verkefnum á sviði norrænnar matvælaframleiðslu m.t.t matargerðar og norrænnar hönnunar og ferðamennsku.

Norræna ráðherranefndin hefur nú auglýst eftir fyrstu styrkumsóknum eða tillögum í verkefni sem NNM styður á árinu 2007. Verkefni sem NNM styður eru til eins árs í senn og tekið er fram að NNM styður ekki rannsóknir. Umsóknarfrestur fyrir verkefnishugmyndir er til 11. maí. Styrkir á bilinu 100.000-500.000 DKK verða veittir sem þýðir að alls verða veittir styrkir í 8-10 verkefni árið 2007.

Áherslan er á sýnileika og samvinnu í formi tengslaneta. Áherslusvið í þessum fyrstu verkefnum eru staðbundin framleiðsla og dreifing, matreiðsla og matargerð og norræn hönnun tengd matvælum Styrkur verður veittur fyrir 50% af heildarkostnaði verkefna og styrkur verður greiddur vegna til útlagðs kostnaðar en ekki til launa eða yfir stjórnunarkostnaðar. Þátttakendur þurfa að vera frá a.m.k. þremur Norðurlandanna.

Meiri upplýsingar á vef Norrænu ráðherranefndarinnar

Fréttir

Að borða eldisfisk er samviskuspurning

Umræða um velferð dýra og umhverfisvæna matvælaframleiðslu hefur færst í aukana á undanförnum árum. Umræðan tekur á sig ýmsar myndir og blandast þar inn í ólíkustu baráttumál, eins og nýlegar fréttir frá Bretlandi um þrýsting hvalveiðiandstæðinga á verslanakeðjur um að selja ekki fisk frá ákveðnum íslenskum fyrirtækjum vitnar t.d. um.

Þessi umræða er reyndar dálítið afstæð þar sem stór hluti mannkyns hefur ekki efni á því að velta vöngum yfir því hvort þau dýr sem lögð eru til munns hafi þjáðst eða ekki fyrir slátrun. Slíkar samviskuspurningar eru því fyrst og fremst munaður ríkra þjóða. En þessar vangaveltur eru staðreynd engu að síður og munu trúlega hafa sífellt meiri áhrif á neysluhegðun á mikilvægum mörkuðum Íslendinga á komandi árum.

Í fiskeldi hefur verið lögð áhersla á að koma á ýmsum reglugerðum varðandi eldið og eitt af þeim sjónarmiðum sem hafa verið í umræðunni er einmitt dýravelferð í eldisframleiðslu. Það er því mikilvægt að kanna hvort mismunandi meðferð á fiski í tengslum við dýravelferð hafi í raun áhrif á gæði afurðarinnar. Ef sú er raunin gæti það haft áhrif á neytendur.

Haustið 2006 fór fram viðamikil rannsóknin sem var hluti af þátttöku Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (nú Matís, ohf) í SEAFOODplus verkefninu sem styrkt er af ESB. Markmiðið var að kanna hvort eldisþorskur, sem framleiddur var með sérstöku tilliti til dýravelferðar annarsvegar, og hinsvegar framleiddur á hefðbundinn hátt, hefðu mismunandi gæðaeinkenni. Einnig var gerð neytendakönnun til að kanna hvort neytendur hefðu mismunandi smekk fyrir þessum afurðum og hvort mismunandi upplýsingar um eldið hefðu áhrif á það hvernig neytendum hugnaðist afurðirnar.

Í nýjasta tbl. Rannísblaðsins fjölluðu tveir af aðstandendum rannsóknarinnar, þær Emilía Martinsdóttir og Kolbrún Sveinsdóttir um rannsóknina. Í stuttu máli má segja að niðurstöðurnar bendi til að ef neytendur vissu ekki hvort eldisfiskurinn hafði verið alinn með sérstöku tilliti til velferðar fisksins eða ekki, þá hafi þeim frekar geðjast eldisþorskur sem alinn var á hefðbundinn hátt.

Það sýndi sig hins vegar að þegar neytendur fengu upplýsingar um eldisaðferðirnar þá kusu þeir heldur þann fisk sem alinn var m.t.t. velferðar fisksins og fannst eðlilegt að fiskur sem alinn væri við slíkar aðstæður væri dýrari en hefðbundinn eldisfiskur.

Þessar niðurstöður benda til að merkingar matvæla og hvaða upplýsingar eru gefnar á umbúðum skipti máli fyrir neytendur. Þær benda einnig til þess að fólk noti ekki eingöngu hefðbundin skynfæri er það metur fæðuna, heldur borðar einnig “með hjartanu.”

Nýlega var einnig umfjöllun um þetta efni á vef SEAFOODplus

Grein í Rannísblaðinu

Fréttir

Sérfræðingur óskast til starfa á Akureyri

Matís ohf. (Matvælarannsóknir Íslands) óskar eftir að ráða drífandi og duglegan sérfræðing til starfa hjá fyrirtækinu á Akureyri. Umsóknarfrestur er til 30. apríl.

Starfssvið:
Starfið felst í umsjón með rannsóknum á varnarefnum í matvælum og ýmsum öðrum efnarannsóknum sem gerðar eru hjá fyrirtækinu.

Hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun á raunvísindasviði
  • Æskilegt er að umsækjendur hafi starfsreynslu við efnarannsóknir
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Lipurð í mannlegum samskiptum
  • Metnaður til að ná árangri í starfi

    Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla, skal senda til Matís ohf., Skúlagötu 4, 101 Reykjavík. Einnig má skila umsóknum á tölvupóstfangið matis@matis.is

    Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2007. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

    Nánari upplýsingar veita Helga Gunnlaugsdóttir og Ásta Ásmundsdóttir í síma 422 5000.

Fréttir

Staða verkefnastjóra Matís í Vestmannaeyjum er laus

Matís ohf. auglýsir eftir verkefnastjóra í Vestmannaeyjum. Hlutverk verkefnistjórans er að stjórna og vinna að verkefnum á vegum Matís ohf. í Vestmannaeyjum. Æskilegt er að umsækjendur að hafi tækni- eða háskólapróf í raunvísindum eða verkfræði.

Helstu verkefni:

– umsjón með daglegum rekstri, öflun verkefna og áætlanagerð

– samstarf við fyrirtæki og einstaklinga um verkefni

– vinna við verkefni er tengjast rannsóknum og þróun á sviði matvæla

– kortlagning á tækifærum

– kynna verkefni og tækifæri í umhverfinu

Umsækjendur þurfa að hafa frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott vald á ensku og íslensku og lipurð í mannlegum samskiptum. Æskilegt er að umsækjendur að hafi tækni- eða háskólapróf í raunvísindum eða verkfræði.

Umsóknum með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla sendist til Matís ohf, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

Umsóknafrestur er til 2. maí 2007. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. júní 2007.

Nánari upplýsingar veita Guðjón Þorkelsson, gudjon.thorkelsson@matis.is, og Ragnar Jóhannsson, ragnar.johannsson@matis.is.

Matís ohf er nýtt hlutafélag í eigu ríkisins sem hefur tekið við starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (MATRA) og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Tilgangur félagsins er að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

Fréttir

Fundið fé í bolfiskvinnslu

Mikill fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur felst í því að nýta fiskhold eða prótein sem tapast í bolfiskvinnslu. Verðmæti geta numið hundruð milljóna króna miðað við það 60 þúsund tonna ársframleiðslu af ferskum og frosnum bolfiskafurðum. Þá fer minna af lífrænum efnum út í umhverfið með því að nýta fiskhold eða prótein í vinnslunni, að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands), Brims og Toppfisks.

Í rannsókninni, sem nefnist “Vannýtt prótein í frárennslisvatni frá fiskvinnslum” er lýst úttekt á vatnsnotkun og próteintapi við flökun og roðflettingu í bolfiskvinnslu. Þar segir að ef gert er ráð fyrir að um 1% af hráefnisþyngd tapist við flökun og roðflettingu samsvarar það um 1.200 tonnum af flakaafurðum miðað við 60 þús. tonna ársframleiðslu af ferskum og frosnum bolfiskafurðum. Verðmæti geta því numið um 120-500 milljónum króna á ári, eftir því hvort fiskmassinn er verðlagður sem marningur eða verðmætari afurðir til manneldis. Rétt er að benda á að ýmsir þættir geta haft áhrif á tap fiskholds við vinnslu, s.s. ástand hráefnis og vinnslubúnaðar en ekki var lagt mat á breytileika m.t.t. þess.

Í rannsókninni kom í ljós að vatnsnotkun var um 0,5 l/kg afurðar við flökun og sambærileg vatnsnotkun við roðdrátt ef miðað var við vinnslu á 2 kg af fiski og 50% vinnslunýtingu. Vatnið var síað með nokkrum sigtum af mismunandi grófleika (0,25-1mm). Með grófri síun (1mm) mátti skilja mestan hluta blóðtægja og beina frá en eftir því sem að síun var fínni því hvítari og einsleitari varð fiskmassinn. Með því að einangra þurrefni úr frárennslisvatni er hægt að auka verðmæti og bæta nýtingu sjávarfangs en jafnframt stuðla að umhverfisvænni framleiðsluháttum. Vissulega þarf að leggja í nokkurn kostnað til að einangra próteinin en með tiltölulega einföldum síunarbúnaði mætti ná umtalsverðu magni þeirra próteina sem nú fara forgörðum í frárennsli fiskvinnslustöðva.

Flök af þorski metin

Verkefnið var unnið af sérfræðingum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (nú Matís ohf) í samvinnu við Brim og Toppfisk styrkt af AVS sjóðnum.

Fréttir

Hamingjusamir eldisfiskar – Matís tekur þátt í alþjóðlegu verkefni um velferð fiska

Matvælarannsóknir Íslands (Matís) og Háskólinn á Hólum taka þátt í umfangsmiklu Evrópuverkefni sem felst í því að rannsaka velferð fiska í eldi.

Markmiðið er að skilgreina hvað veldur streitu og vanlíðan fiska. 60 rannsóknahópar frá yfir 20 löndum taka þátt í verkefninu sem stendur í 5 ár. Rannsóknarverkefnið er hluti COST áætlunar Evrópusambandsins en sú áætlun leggur til um 10 milljarða króna til rannsókna. Verkefnastjóri rannsóknaverkefnisins er prófessor Anders Kiessling við Háskólann í Ási í Noregi.

Dr. Þorleifur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Matís, og Dr. Helgi Thorarensen, hjá Háskólanum á Hólum, sitja í stjórn verkefnisins. Þorleifur segir að nýjar rannsóknir bendi til þess að fiskar upplifi sársauka líkt og fuglar og spendýr þó svo að ekki sé ljóst hvort að um sambærilega sársaukatilfinningu sé að ræða og hjá æðri hryggdýrum. Hann segir að til þess að rannsaka hvernig fiskar upplifi umhverfi sitt þurfi að kalla fram líffræðilega svörun með áreiti og rannsaka áhrifin.

“Þar sem fiskar hafa ekki möguleika á að gefa til kynna sársauka eða vanlíðan með hljóðum og/eða svipbrigðum þá hefur einkum verið stuðst við breytingar í atferli ásamt því að reyna að meta stressviðbrögð.”

Mengunarefni hafa áhrif á streitu

Þorleifur segir að áreiti sem veldur stressi sé miðlað um taugar sem tengjast sjón, heyrn, lyktarskyni og skynfærum sem skynja breytingar í vatnsþrýstingi. Umhverfi eða aðstæður sem fiskar þola illa, svo sem of mikill þéttleiki, of hátt/lágt súrefnisstig, óhagstætt seltustig, hár styrkur koltvíildis (áhrif á sýrustig í blóði) hafa einnig áhrif á taugaboð sem berast heilanum og valda streitu. Mengunarefni (náttúruleg eða af mannavöldum) hafa einnig mjög mikil streituáhrif á fiska.

Eldisþorskur

“Stress í fiskum er því ákaflega flókið fyrirbrigði en í stuttu máli má segja að lífeðlisfræðileg breyting eigi sér stað hjá stressuðum fiskum úr því að vera í örum vexti við góða heilsu yfir í að vera sjúkur fiskur með litlar lífslíkur,” segir Þorleifur.

Þorleifur segir að ljóst sé að í fiskeldi bíði mörg vandamál úrlausnar sem tengjast rannsóknum á velferð fiska. “Mjög mikilvægt er að efla slíkar rannsóknir, ekki síst á Íslandi þar sem þorskeldi er í örum vexti, því að aðstæður þær sem hér eru af náttúrunnar hendi eru gjörólíkar þeim er þekkjast í nágrannalöndunum – íslenskar aðstæður þurfa því íslenskar úrlausnir.”

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins: www.fishwelfare.com

IS