Fréttir

Matís er þátttakandi á Landsmóti hestamanna 2012 sem haldið er í Reykjavík

Tuttugasta landsmótið fer fram í Reykjavík að þessu sinni. Matís kynnir starfsemi sína á mótinu en hjá fyrirtækinu er unnið með hesta- og hundaeigendum t.a.m. að með foreldragreiningum á hundum og hestum með erfðarannsóknum.

Matís býður gesti og gangandi velkomna á bás fyrirtækisins þá daga sem landsmótið stendur yfir.

Um foreldragreiningar Matís
Verkefnin felast m.a.í erfðagreiningum á nytjastofnum og villtum stofnum og úrvinnslu gagna ásamt raðgreiningum á erfðaefni lífvera og leit að nýjum erfðamörkum og þróun á erfðagreiningarsettum.

DNA greiningar eru m.a. notaðar í fiskeldi til að velja saman fiska til undaneldis. Þetta getur hraðað kynbótum og aukið varðveislu erfðabreytileikans. Á villtum stofnum eru erfðagreiningar notaðar til rannsókna á stofnum og stofneiningum. Má þar nefna lax, þorsk, leturhumar, síld, sandhverfu, langreyði o.fl. tegundir. Nota má erfðagreiningar við rekjanleikarannsóknir og tegundagreiningar hvort sem um er að ræða egg, seiði, flak úr búðarborði eða niðursoðinn matvæli.

Erfðagreiningar hafa verið notaðar í mannerfðafræði undanfarna áratugi en þessari tækni er nú í vaxandi mæli beitt í dýrafræði og sér í lagi er hún mikilvæg við rannsóknir á villtum sjávarstofnum. Þá er einnig mikilvægt markmið að þróa svipgerðartengd erfðamörk en góð erfðamörk eru grundvöllur árangursríkra rannsókna af þessu tagi.

Matís er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur markvisst byggt upp erfðagreiningar á dýrum.

Nánar hér.


Um landsmótið (af www.landsmot.is)

Saga Landsmótanna nær aftur til 1950 þegar fyrsta Landsmótið var haldið á Þingvöllum. Þar voru sýnd 133 hross, kynbótahross, gæðingar og kappreiðahross. Á þeim tíma var aðeins keppt í einum flokki gæðinga sem var flokkur alhliða gæðinga, auk kappreiða og kynbótasýninga.

Eftir það voru haldin Landsmót á fjögurra ára fresti, allt þar til að á ársþingi Landssambands Hestamannafélaga 1995 var samþykkt að halda Landsmót á tveggja ára fresti. Fyrsta mótið sem haldið var eftir þeim reglum, þ.e. á tveggja ára fresti var Landsmót í Reykjavík árið 2000.

Mótin hafa vaxið gríðarlega að umfangi sérstaklega hvað keppnishlutann varðar og fjölda hrossa. Það er þó áhugavert að á fyrsta Landsmót hestamanna á Þingvöllum árið 1950 sóttu um 10.000 gestir mótið. Aðsóknarmet var slegið á Gaddstaðaflötum árið 2008 þar sem hátt í 14.000 gestir, knapar, starfsmenn og sjálfboðaliðar komu saman.  

Landsmót hestamanna hefur verið stærsti íþróttaviðburður landsins frá upphafi, enda er Landssamband hestamannafélaga þriðja stærsta sérsambandið innan ÍSÍ, með rúmlega 11.000 félagsmenn.

Fréttir

Sjálfbær framleiðsla hjá Matís

Á svölum höfuðstöðva Matís fer fram áhugaverð framleiðsla. Þar eru gróðurkassar sem í er ræktað er ýmislegt girnilegt. Nú síðast var uppskera á spínati og graslaukurinn verður nýttur von bráðar.

Starfsmenn sem voru í hádegismat daginn sem uppskeran var matreidd fengu því í kroppinn ferskasta grænmeti sem um ræðir enda spínatið með endemum bragðmikið og stútfullt af vítamínum og steinefnum.

Hér má sjá nokkrar myndir úr kössunum og úr mötuneytinu og er óhætt að segja að þær tali sínu máli.

Svalir - Ræktunarkassar
Svalir - Uppskera

Fréttir

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefur út reglugerð um kælingu fisks og annarra matvæla

Fiskur er með allra viðkvæmustu matvælum og því lögð mikil áhersla á að varðveita ferskleika hans og forðast skemmdir. Óumdeilt er mikilvægi þess að að kæla fisk vandlega strax eftir að hann er veiddur.

Matvælalöggjöfin hefur að geyma margvísleg ákvæði um kælingu fiskjar og annarra matvæla. Í henni er kveðið skýrt á um að halda beri órofinni kælikeðju frá veiðum, til og við vinnslu matvæla og þau kæld eins fljótt og auðið er.

Kannanir hér á landi hafa leitt í ljós að kæling landaðs botnfiskafla er ónóg í mörgum tilvikum og mörg dæmi þess að fiski sé landað illa ísuðum eða jafnvel óísuðum. Á þetta einkum við um afla úr veiðiferðum sem vara skemur en 24 klukkustundir.  Þá er of  algengt að fiskur sem geymdur er utandyra sé ekki varinn fyrir sól og utanaðkomandi mengun eins og góðir framleiðsluhættir kveða á um.

Því hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefið út reglugerð til þess að taka af öll tvímæli um það hvaða reglur gilda í þessum efnum.  Reglugerðin tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2012 til þess að gefa þeim aðilum sem eru vanbúnir að fylgja ákvæðum hennar svigrúm til þess að koma sér upp nauðsynlegum búnaði í samræmi við það sem reglugerðin kveður á um.

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, auk áorðinna breytinga.


Fréttin birtist fyrst á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytis, www.sjavarutvegsraduneyti.is.

Fréttir

Kynningarfundur Matís á sunnanverðum Vestfjörðum

Í dag 18. júní verður haldinn kynningarfundur á starfsemi Matís og nýrri starfsstöð fyrirtækisins. Fundurinn fer fram í félagsheimilinu á Bíldudal og hefst kl. 17.

Sérfræðingar frá Matís í Reykjavík, Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum verða á staðnum til að kynna starfsemina og þá möguleika sem felast í opnun starfsstöðvar Matís á sunnanverðum Vestfjörðum og á Snæfellsnesi

Allir sem áhuga hafa eru boðnir velkomnir á fundinn til að kynna sér starfsemi Matís og hvaða möguleikar eru í boði á rannsóknum og aðstoð Matís við uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.  Matís er þekkingar- og rannsóknafyrirtæki sem vinnur að þróun og nýsköpun i matvælaiðnaði, líftækni og matvælaöryggi. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla.

Matís mun vinna með fyrirtækjum, sveitastjórnum og einstaklingum á svæðinu sem munu geta nýtt sér sérfræðiþekkingu Matís til uppbyggingar sinnar eigin starfsemi. Starfsemi Matís við Breiðafjörð byggir á traustu og öflugu samstarfi við heimamenn enda hafa þeir haft frumkvæði að þeirri uppbyggingu sem Matís ræðst nú í.

Mikil tækifæri eru til aukinnar verðmætasköpunar á svæðinu. Sjávarútvegur er lykilatvinnugrein í stöðugri þróun en auk þess liggja sóknarfæri í uppbyggingu fiskeldis og nýtingu annarra hráefna á svæðinu. Á sunnanverðum Vestfjörðum er mikil gróska í fiskeldi og kröftug uppbygging á því sviði. Starfsemi Matís mun styðja við nauðsynlega rannsókna- og þróunaruppbyggingu í tengslum við fiskeldi, en horft er til þess að þjónusta við eldistengda starfsemi verði eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu.  Þar sem stærsti kostnaðarliður fiskeldis liggur í fóðri og fóðrun er ekki hvað síst horft til þróunar er lýtur að lágmörkun fóðurkostnaðar.

Efling matvælaframleiðslu mun gegna lykilhlutverki í aukinni verðmætasköpun á sunnanverðum Vestfjörðum og við Breiðafjörðinn. Einstaklingar og fyrirtæki sem áhuga hafa á framleiðslu á matvælum úr hráefni af svæðinu eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn til að kynna sér starf Matís og þau tækifæri sem það hefur upp á að bjóða til frekari vöruþróunar og framleiðslu. Fullvinnsla afurða skapar verðmæta vöru og aukna tekjumöguleika ásamt fjölbreyttara atvinnulífi og meira vöruúrvali. Sunnanverðir Vestfirðir hafa mikla möguleika á meiri úrvinnslu úr því hráefni sem hér er framleitt til sjós og lands og án efa eru margar hugmyndir hjá íbúum svæðisins sem eru vel þess virði að hrinda í framkvæmd.

Starfsfólk Matís hvetur alla áhugasama til að koma og kynna sér starfsemina, hitta starfsfólkið og ræða málin. Við hlökkum til að takast á við komandi verkefni með sveitarfélögunum á svæðinu, fyrirtækjum og heimamönnum öllum og bjóðum ykkur velkomin á fundinn.

Matís, Vínlandsleið 12, Reykjavík, 422-5000, matis@matis.is og starfsfólk Matís á sunnanverðum Vestfjörðum.

Nánari upplýsingar veita:
Lilja Magnúsdóttir, 858-5085, liljam@matis.is
Hólmgeir Reynisson, 867-4553, holmgeir@matis.is

Fréttir

Varsha A. Kale doktorsnemandi við HÍ og Matís hlýtur styrk

Tveir doktorsnemar í lyfjafræði við Háskóla Íslands, Indverjarnir Varsha A. Kale hjá Matís og Vivek S. Gaware, fengu styrk úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala í gær, mánudaginn 4. júní. Rannsóknir þeirra hafa þegar leitt til nýrrar þekkingar í lyfjafræði.

Þetta er í sjöunda sinn sem viðurkenningar eru veittar úr sjóðnum til doktorsnema í lyfjafræði við Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 700.000 krónur og hlýtur hvor styrkhafi 350.000 krónur.

Rannsóknaverkefni Vörshu A. Kale  miðar að því að einangra brjósksykrur úr íslenskum sæbjúgum og ákvarða sameindabyggingu þeirra. Einnig hefur hún ræktað sjávarbakteríur sem framleiða sykrukljúfandi lífhvata.  Varsha hefur nú þegar einangrað þrjár mismunandi gerðir slíkra sykra og sýnt fram á ónæmisstýrandi virkni. Hagnýting verkefnisins felst í framleiðslu nýrra lífvirkra sykra og  lífhvata. Verkefnið er unnið í samstarfi við Matís.  Varsha er fædd á Indlandi árið 1985 og lauk meistaraprófi í lyfjaefnafræði árið 2004 frá S.R.T.M. háskólanum í Nanded á Indlandi. Hún hóf doktorsnám í lyfjavísindum við  Háskóla Íslands árið 2009 og aðalleiðbeinandi hennar er Sesselja S. Ómarsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild, en meðleiðbeinandi Guðmundur Óli Hreggviðsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild og fagstjóri hjá Matís.

Í doktorsverkefni sínu þróar Vivek S. Gaware sérstök nanóefni sem hægt er að örva með ljósi og eyða þannig krabbameinsæxlum. Verkefnið er unnið í samstarf við vísindamenn við Radium hospital í Ósló og fyrirtækið PCI Biotech.  Vivek hefur nú þegar tekist að  smíða og skilgreina vel á fimmta tug nýrra efna í þessu verkefni. Niðurstöður prófana í Noregi hafa gefið góða raun og benda til þess að efnin séu mjög virk gegn krabbameini. Vivek er einnig fæddur á Indlandi, árið 1981, og hann lauk meistaraprófi  í lífrænni efnafræði frá Háskólanum í Pune í heimalandi sínu árið 2004. Vivek hóf doktorsnám í lyfjavísindum við Háskóla Íslands árið 2008 og aðalleiðbeinandi hans er Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild.Um Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala var stofnaður árið 2001. Markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði. Það var Bent Scheving Thorsteinsson sem stofnaði sjóðinn til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson.

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar er einn þriggja sjóða sem Bent hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það markmið að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti. Samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með fjárframlagi til sjóðanna þriggja.

Nánari upplýsingar veita Varsha og Guðmundur Óli Hreggviðsson hjá Matís.

Grein þessi birtist fyrst á vef Háskóla Íslands (www.hi.is/frettir/doktorsnemar_i_lyfjafraedi_hljota_styrk).

Fréttir

Stórt skref í bættri heilsu þjóðarinnar?

Krónan og Matís eiga í samstarfi til að hjálpa Íslendingum að minnka óhóflega neyslu á sælgæti á svokölluðum nammibörum.

Fyrirtækin hafa í sameiningu látið útbúa veggspjald sem komið hefur verið upp í nokkrum Krónubúðum. Á veggspjaldinu er að finna upplýsingar um hóflegt magn af laugardagsnammi og byggir magnið á meðalgildum fyrir daglega orkuþörf nokkurra aldursskeiða. Meðalgildin úr efnagreiningunum má finna í íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla (ÍSGEM).

Eins og flestir vita borða Íslendingar of mikið af viðbættum sykri. Þetta er ekki hvað síst vegna mikillar neyslu á sælgæti frá svokölluðum nammibörum í verslunum, sem helst er sótt í á laugardögum. Þó ekki sé nauðsynlegt að neyta sælgætis, þá er hægt að láta nammidag „passa“ inn í heilbrigðan lífsstíl svo framarlega að ákveðins hófs sé gætt þegar kemur að magninu sem neytt er. Flestir borða of mikið nammi á laugardögum og eru leiðbeiningarnar sem finna má á veggspjaldinu settar fram til þess að aðstoða neytendur við að velja sér hóflegt magn.

Heilbrigður lífsstíll með fjölbreyttu mataræði og hóflegri hreyfingu er undirstaða andlegrar og líkamlegrar vellíðunar. Matís hefur hlutverki að gegna í lýðheilsu þjóðarinnar og heldur auk þess utan um ÍSGEM.

Krónan hefur beitt sér fyrir því að Íslendingar velji sér holla lífshætti og eru t.d. starfsræktir ávaxtabarir í Krónubúðum. Auk þess er Krónan iðulega með tilboð á hollum og góðum matvælum til þess að hvetja neytendur til að velja hollari vörur.

Samstarfið er tilraun sem sett er af stað í nokkrum búðum Krónunnar. Það eru svo viðbrögð viðskiptavina Krónunnar og annarra neytenda sem munu ráða hvort leiðbeiningar verði settar upp í fleiri búðum. Hægt verður að bera saman heildarþyngd sælgætis sem selt hefur verið áður en veggspjöldin voru sett upp og svo heildarþyngd eftir að veggspjöldin voru sett upp. Með þessum hætti verður hægt að sjá hvort veggspjaldið skipti máli þegar kemur að magninu sem selt er í hverri verslun á hverjum laugardegi.

Veggspjaldið má sjá hér.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís og Berglind Ósk Ólafsdóttir, markaðsstjóri Kaupás.

Fréttir

Matís óskar sjómönnum til hamingju með daginn

Sjómannadagurinn 2012 er genginn í garð en dagurinn var í upphafi stofnaður til þess að efla samstöðu á meðal sjómanna, bæði til að gleðjast og til að minnast látinna sjómanna.  Markmið dagsins er einnig að kynna þjóðinni hve þýðingarmikið starf stéttin vinnur í þágu þjóðfélagsins.

Matvælaframleiðsla er ein af mikilvægustu atvinnugreinum okkar Íslendinga. Vegur þáttur sjávarútvegs og fiskvinnslu þar þyngst. Sama grundvallarlögmál gildir í öllum greinum matvælaframleiðslu, það er að gæði afurðanna fara eftir gæðum hráefnisins sem þær eru unnar úr. Sjómenn og aðrir sem koma að sjávarútveginum vita hversu mikilvæg góð meðhöndlun á fiski er.

Fyrstu handbrögð eru sérlega mikilvæg þegar tryggja á hámarksgæði fiskafla. Slíkt tryggir að neytendur fá í hendur bestu mögulegu vöruna og á sama tíma er oftast tryggt að virðisaukningin sé hvað mest.

Kæling – hvers vegna?
Kæling hægir á starfsemi skemmdargerla, lengir tímann sem fiskurinn er í dauðastirðnun og minnkar þannig los í fiskholdinu, eykur blóðrennsli úr háræðum eftir blóðgun og gerir holdið þ.a.l. hvítara. Síðast en ekki síst dregur kæling úr rýrnun.

Matís hefur lengi unnið með sjómönnum  í að stuðla að réttum handbrögðum þegar verðmæti úr hafinu eru meðhöndluð og þekkir vel til vandaðra vinnubragða sem víða eru iðkuð í þeim efnum. Því er það engum til framdráttar, allra síst sjómönnum, þegar myndir eru af afla við óviðunandi aðstæður eru dregnar fram, líkt og gert var í hamingjuóskum Íslandsbanka til sjómanna í fjölmiðlum í gær.

Sjómenn: Tökum höndum saman og tryggjum hámarksverðmætasköpun með góðri umgengni um afla.

Rétt meðferð afla er öllum mikilvæg til að tryggja hámarksgæði og hámarksverðmæti afla
Nauðsynlegt hefði verið að ísa fiskinn sem hér sést til að tryggja að sem best sé farið með verðmætin. Góð kæling hægir á örveruvexti og lengir tímann sem fiskur er í dauðastirðnun. Mikilvægt er því að ná hitastigi í fiskholdinu niður í u.þ.b. 0 °C á sem skemmstum tíma og viðhalda svo órofinni kælikeðju allt til neytenda.

Nánari upplýsingar veita Sveinn Margeirsson og Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Ítarefni: www.kaeligatt.isMikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski (bæklingur), Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski (einblöðungur) ofl. bæklingar og einblöðungar.

Fréttir

Einn fremsti vísindamaður á sviðið þróunar, stofnerfðafræði og verndunarlífræði á Íslandi

Fred W. Allendorf, Regents Professor í líffræði við University of Montana, Bandaríkjunum og Professorial Research Fellow við Victoria University of Wellington, New Zealand, heimsótti Matís 29. maí sl.

Fred skoðaði m.a. erfðarannsóknastofu Matís og fundaði með erfðafræðingum fyrirtækisins og Hafrannsóknastofnunarinnar. Hann hefur birt yfir tvö hundruð vísindagreinar um þróun, stofnerfðafræði og verndunarlífræði og er einn fremsti vísindamaður í heiminum á sínu sviði. Hann hefur meðal annars unnið að því að þróa aðferðir við að innleiða erfðatækni til vöktunar fiskistofna og stjórnun fiskveiða.

Fred W. Allendorf
Fred W. Allendorf fyrir miðju

Nánari upplýsingar veitir Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri Öryggi, umhverfis og erfða hjá Matís.

Fréttir

Afmælisdagskrá Háskólans á Akureyri

Starfsmaður Matís, Sarah Helyar, verður með erindi í Háskólanum á Akureyri um erfðafræði fiska og þýðingu þess í fiskveiðistjórnun.


Ráðstefnan

Conservation biology: Towards sustainable management of natural resources
Staðsetning: föstudagurinn 1. júní frá kl. 9:00 – 17:00 í Sólborg stofu M-102

Fyrirlestur Sarah Helyar: Of Fish and SNP s: The Potential of Genetics for
Traceability In European Fisheries Management

Nánari upplýsingar hér.

Fréttir

Mikilvægt samstarf við Færeyjar

Þrír starfsmenn Matís voru á ferð í Færeyjum fyrir skömmu. Þar fræddust þeir um matvælaframleiðslu og rannsóknir í eyjunum og kynntu jafnframt starfsemi Matís fyrir heimamönnum.

Haldin var fundur með hagsmunaaðilum í uppsjávarveiðum og vinnslu þar sem fjallað var meðal annars um rannsóknir Matís á þeim sviðum. Mikill áhugi var fyrir fundinum, en þar fræddust „frændur okkar“ um þróun veiða og vinnslu makríls hér á landi og þau verkefni Matís er snúa að uppsjávartegundum. Þátttakendur á fundinum voru sérstaklega áhugasamir um þá vinnu sem fram hefur farið varðandi kortlagningu stofneininga mismunandi fisktegunda með erfðafræðilegum aðferðum, sér í lagi síldar og makríls. Áhugi kom fram á meðal þátttakenda að taka meiri þátt í þeirri vinnu í framtíðinni, enda um mikla hagsmuni að tefla þar sem mögulegt er að nota erfðarannsóknir til greiningar og vöktunar stofneininga og til grundvallar skiptingu veiðiheimilda milli landa. Jafnframt  til að koma í veg fyrir blekkingar í markaðssetningu á sjávarafurðum.

Starfsmenn Matís héldu einnig fund með fulltrúum ráðuneyta, stofnana, bæjarfulltrúa og rannsóknasjóða, þar sem matarsmiðjur Matís voru m.a. kynntar. Færeyingar hyggja á stofnun nýsköpunarmiðstöðva í eyjunum og voru áhugasamir um að fræðast um reynslu Matís af rekstri matarsmiðjanna, sem starfræktar eru í Reykjavík, Hornafirði og Flúðum.
Starfsmenn Matís höfðu mikið gagn og gaman af þessari heimsókn til Færeyja og vænta þess að hún geti aukið enn á það góða samstarf sem fyrirtækið á við þarlenda aðila.

Faereyjar_5.2012
Frá fundi í Færeyjum

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

IS