Fréttir

Námskeið – innra eftirlit og gerð gæðahandbókar

Matís mun standa fyrir námskeiðum í innra eftirliti og gerð gæðahandbókar í matvælafyrirtækjum dagana 17.-18. október næstkomandi

Innra eftirlit – 17.10, kl. 10:00 – 17:00
Innra eftirlit er kerfisbundin aðferð matvæla- fyrirtækja sem hefur þann tilgang að tryggja öryggi, gæði og hollustu (heilnæmi) matvæla. Öll matvælafyrirtæki eiga að vera með innra eftirlit. Með innra eftirliti á að vera hægt að sýna hvað er gert til að tryggja að þau matvæli sem eru framleidd séu örugg til neyslu. Til að ná árangri er mikilvægt að allt starfsfólk taki virkan þátt í innra eftirliti og hafi skilning á tilgangi, markmiðum og ávinningi þess. 

Gerð gæðahandbókar – 18.10., kl. 09:00 – 16:00
Gæðahandbók er eitt af þeim skilyrðum sem framleiðendur þurfa að uppfylla til þess að geta fengið framleiðsluleyfi fyrir sína framleiðslu. Farið verður í vöru- og framleiðslulýsingar, hættu- greiningu og viðbrögð, sýnatökuáætlun og húsnæði.
 
Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem vinna í matvælafyrirtækjum eða hafa hug á slíku!

Verð fyrir hvert námskeið fyrir sig er 25.000 kr og verða haldin í Nýheimum á Höfn í Hornafirði.

Bent er á á starfsmenntunarasjóðir endurgreida kostnað vegna námskeiðahalds til einstaklinga og fyrirtækja allt ad 75%. Sjá nánari upplýsingar um starfsmenntasjóði og úthlutunarreglur hér:

www.starfsafl.is – www.landsmennt.is – www.starfsmennt.is

Nánari upplýsingar og skráning í síma 858-5136 og vigfus.th.asbjornsson@matis.is

Fréttir

Matís opnar kjötbók á netinu

Ókeypis aðgangur að upplýsingaveitu um íslenskt kjöt. Nýr upplýsingavefur um kjöt var opnaður fyrir skömmu á vefslóðinni www.kjotbokin.is.

Það var Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, sem opnaði vefinn formlega þegar hann hringdi í  höfuðstöðvar Matís ofan af Holtavörðuheiði en þar var hann í göngum ásamt fleiri Borgfirðingum. Vefbókin var kynnt
á opnu húsi hjá Matís, sem er útgefandi kjötbókarinnar.

Vefrit í stað gömlu bókarinnar Í kjötbókinni, sem er ítarlegt vefrit um kjöt, verður til að byrja með einungis að finna upplýsingar um lambakjöt en aðrar kjöttegundir munu koma í kjölfarið ef áætlanir útgefanda ganga upp. Vefritinu er ætlað að koma í  staðinn fyrir gömlu kjötbókina sem gefin var út árið 1994. Markhópur bókarinnar er fjölbreyttur en víst er að nýja útgáfan
mun koma sér vel í kjötvinnslum, hjá sláturhúsum, nemendum, bændum og ekki síst kjötkaupendum sem vilja fræðast um kjötvörurnar. Aðgangur að kjötbókinni er ókeypis og ekki er fyrirhugað að selja aðgang að vefnum í framtíðinni. Vandaðar myndir og fjölbreyttar upplýsingar Í nýju bókinni eru vandaðar myndir af kjötinu, upplýsingar um kjötmat og það hvaðan úr skrokk einstakir vöðvar eru teknir, stærð og þyngd stykkja ásamt öllum heitum þeirra. Hægt er að prenta út upplýsingaspjöld um hvern bita og nálgast margskonar efni sem tengist kjöti, m.a. um prótein-, fitu- og kolvetnainnihald. Númerakerfi sem m.a. er notað í erlendri markaðssetningu á lambakjöti nær yfir alla bita en það gerir samskipti á milli kjötkaupenda og seljenda auðveldari en áður.

Auðvelt að uppfæra
Að sögn Óla Þórs Hilmarssonar, kjötiðnaðarmeistara hjá Matís og eins af höfundum bókarinnar, verður auðvelt að bæta við  efni í vefbókina eftir því sem tímar líða. „Það opnast á ýmsar tengingar í gegnum vefinn í framtíðinni. Í nágrannalöndum okkar eru svona vefir tengdir beint við fyrirtækin sem setja þar inn ýmsar upplýsingar um sínar vörur, m.a. efnainnihald og næringargildi,“ segir Óli Þór.

Kjötbókin

Það eru þau Guðjón Þorkelsson, Óli Þór Hilmarsson og Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís sem eiga veg og vanda af gerð bókarinnar en verkefnið hlaut meðal annars stuðning hjá Markaðsráði kindakjöts. Vefritið er í raun sett upp eins og hefðbundin bók á Netinu en grafísk hönnun var á hendi Port hönnunar, vefinn forritaði Einar Birgir Einarsson og Odd Stefán ljósmyndari tók flestar ljósmyndir.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.


Ofangreind frétt birtist fyrst í Bændablaðinu 15. september sl.

Fréttir

Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands – forstjóri Matís stjórnar fundi 18. október nk!

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) boðar til Matvæladags MNÍ þriðjudaginn 18. október næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica hóteli. Matvæladagurinn er árviss viðburður sem haldinn hefur verið frá árinu 1993 og er nú haldinn í nítjánda sinn. 

Matís tekur stóran þátt í deginum en þess má geta að auk fundarstjórnar munu margir starfsmenn Matís halda erindi. Auk þess er markaðsstjóri Matís í undirbúningsnefnd Matvæladags. Dagskrá Matvæladags 2011 má finna hér.

Matvæladagur MNÍ 2011 ber yfirskriftina Heilsutengd matvæli og markfæði.  Megininntak dagsins þetta árið er vöruþróun, framleiðsla, rannsóknir og markaðssetning á heilsutengdum matvælum og markfæði úr íslensku hráefni. Flutt verða fjórtán stutt erindi sem gefa innsýn í umfjöllunarefnið. Meðal annars verður fjallað um íslenskt morgunkorn, lýsi, próteindrykki, sósur úr fiskroði, notkun þangs í matvælaframleiðslu, heilsufullyrðingar á matvælum og D-vítamínbætingu matvæla.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, mun setja ráðstefnuna og fundarstjóri er Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Matvæladagur 2011

Við setningu ráðstefnunnar mun Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, afhenda Fjöregg MNÍ, en það er verðlaunagripur sem veittur er fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins. Tilnefningar til Fjöreggs MNÍ árið 2011 má finna á heimasíðu MNÍ, www.mni.is. Nánari upplýsingar um tilnefningarnar veitir Borghildur Sigurbergsdóttir, borghildurs(at)gmail.com, gsm 896-1302.

Þátttöku á ráðstefnuna þarf að tilkynna á vefsíðu MNÍ, www.mni.is, en skráningu lýkur kl. 13:00, mánudaginn 17. október. Almennt þátttökugjald er 4.500 kr., en nemar þurfa aðeins að greiða 3.000 kr. Ef skráning á sér stað eftir 14. október hækkar þátttökugjald um 1000 kr. Ráðstefnugögn og léttar veitingar eru innifaldar í verði en dagskráin stendur frá kl. 12:00 til 18:00 og er birt á heimasíðu MNÍ en þar birtast einnig fréttir af ráðstefnunni þegar nær dregur svo og listi yfir þá sem kynna munu sínar vörur og rannsóknir á þessu sviði.

Matvæladagurinn er opinn almenningi og er áhugafólk um matvæli og næringu hvatt til að mæta.

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, 898-8798, frida@isport.is.

Fréttir

Matís tekur þátt í sýningunni Matur-inn á Akureyri

Sýningin MATUR-INN 2011 í Íþróttahöllinni á Akureyri er um komandi helgi. Búist er við þúsundum gesta á sýninguna – sölusýning með á fjórða tug þátttakenda – fag- og leikmannakeppnir í matreiðslu – ókeypis aðgangur!

Sýningin MATUR-INN verður haldin á Akureyri í fimmta sinn um komandi helgi. Sýningin hefur verið haldin á tveggja ára fresti og var hún síðast haldin árið 2009. Þá voru gestir 12-14  þúsund og er búist við öðru eins í ár. Sýningarbásar eru fleiri en á síðustu sýningu og sýningasvæðið enn stærra. Sem fyrr er aðgangur ókeypis og undirstrikað að um er að ræða sölusýningu og því hægt er að gera góð kaup hjá sýnendum. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, mun opna sýninguna formlega en hún verður opin kl. 11-17 á laugardag og sunnudag.

Mikil fjölbreytni
Óhætt er að segja að MATUR-INN 2011 sé hápunktur í norðlenskri matarmenningu. Sýningin er haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Þingeyska matarbúrið og Matarkistuna Skagafjörð. Að baki þessum félögum standa matvælaframleiðendur stórir sem smáir, veitingaaðilar, ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir- og þjónustufyrirtæki – allt aðilar sem eiga það sammerkt að matur kemur við sögu í þeirra starfi. Á fjórða tug aðila tekur þátt í sýningunni MATUR-INN 2011 og verður fjölbreytni mikil. 

Skemmtilegar matreiðslukeppnir og haustmarkaður
Keppt verður í matreiðslu á eldhússvæði sýningarinnar. Til að mynda munu þjóðþekktir einstaklingar spreyta sig á laxaréttum, matreiðslumenn munu keppa um besta makrílréttinn, bakarar glíma við eftirrétti og loks munu veitingahús keppa í flatbökugerð.

Á sýningunni verða sýningarbásar fyrirtækja og matarmenningarfélaga, markaðstorg þar sem t.d. hægt verður að kaupa ferska haustuppskeru og sultur margs konar.

Samhliða sýningunni verður húsbúnaðarsýning í anddyri Íþróttahallarinnar og á laugardaginn verður kveikt upp í risagrilli útifyrir þar sem hefst sólarhringsgrillun á nautsskrokk. Hann verður síðan tilbúinn á sunnudag og gefst þá gestum tækifæri til að bragða á herlegheitunum.

Á sunnudag verða einnig afhent frumkvöðlaverðlaun félagsins Matar úr Eyjafirði en þau hafa verið fastur liður á sýningum félagsins hingað til.

Í tilefni af sýningunni verða átta veitingahús á Akureyri með sérréttamatseðil þessa viku þar sem þau útfæra hvert með sínum hætti hráefni úr héraði. Þannig má segja að matur og matarævintýri verði þema Eyjafjarðar og Norðurlands alla þessa viku og nái hápunkti um helgina.

Dagskrá

Laugardagur 1. október
kl. 11 – Sýningin opnar
kl. 11:30  – Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, opnar sýninguna formlega
kl. 13-14 – Matreiðslumenn keppa um besta makrílréttinn
kl. 15  – Þjóðþekktir einstaklingar keppa í matreiðslu á laxi
kl. 17  – Sýningin lokar

Sunnudagur 2. október
kl 11 – Sýningin opnar
kl. 13 – Bakarar keppa í eftirréttagerð
kl. 14 – Flatbökukeppni veitingastaðanna
kl. 15 – Uppboð á varningi frá sýnendum – ágóði rennur til Hetjanna – aðstandendafélags langveikra barna á Norðurlandi
kl. 15:30 – Frumkvöðlaverðlaun félagsins Matar úr héraði veitt.
kl. 17  – Sýningin lokarÞátttakendur í MATUR-INN 2011
Í sýningarbásum: 

  • Bautinn, Akureyri
  • Beint frá býli – framleiðendur
  • Brauðgerð Kr. Jónssonar, Akureyri
  • Darri – Eyjabiti, Grenivík
  • Ektafiskur, Hauganesi
  • Greifinn, Akureyri
  • Nýja kaffibrennslan, Akureyri
  • Kexsmiðjan Akureyri
  • Kjarnafæði, Akureyri
  • Kung Fu, Akureyri
  • Laufabrauðssetrið, Akureyri
  • Lostæti, Akureyri
  • Matarkistan Skagafjjörður, framleiðendur og fyrirtæki í Skagafirði
  • Matís, Akureyri
  • MS Akureyri
  • Norðlenska, Akureyri
  • Purity Herbs, Akureyri
  • Strikið, Akureyri
  • Urtasmiðjan, Svalbarðsströnd
  • Þingeyska matborðið, framleiðendur og fyrirtæki í Þingeyjarsýslu

Á vínkynningarsvæði:

  • Brugghúsið Gæðingur, Skagafirði
  • Bruggsmiðjan, Árskógssandi

Á markaðstorgi:

  • Júlíus Júlíusson, Dalvík
  • Ósk Sigríður Jónsdóttir, Svarfaðardal
  • Reykir II, Fnjóskadal
  • Holt og heiðar ehf., Hallormsstað

 Húsbúnaðarsýning í anddyri:

  • Laufabrauðssetrið
  • Mímósa

Nánari upplýsingar veitir Jóhann Ólafur s. 899-9865

Fréttir

Kokkakeppni – búðu til stuttmynd

Búðu til stuttmynd með símanum eða annari myndbandstökuvél eða búðu til albúm með ljósmyndum. Þú getur unnið ferð til Washington, DC.

Þú getur, meðal annars: Hjálpað til við að búa til mat fyrir 30.000 nemendur í skólum í Washington, unnið með færum leiðbeinendum, aukið færni þína sem kokkur, matreitt á einum af norrænu sendiráðunum í Washington og fengið að búa til mat á einum af  betri veitingastað Washingtonborgar.

Ef að þú ert á aldrinum 18 og 24 ára og getur ferðast á tímabilinu 21-28. október, gætir þú unnið allt þetta. Nánari upplýsingar á www.nordicinnovation.org/is/verkefni/kokkakeppni-buou-til-stuttmynd/

Að taka þátt
Búðu til stuttmynd með símanum eða annari myndbandstökuvél eða búðu til albúm með ljósmyndum. Þú átt að matreiða bragðgóða máltíð úr norrænum hráefnum, og sem auðvelt væri að búa til í skólaeldhúsum í Bandaríkjunum. Þá þarf að vera mögulegt að nálgast hráefnin á auðveldan hátt í Bandaríkjunum. Rétturinn á að vera hollur, bragðgóður og auðveldur fyrir ungt fólk að matreiða. Þú átt að sýna okkur uppskriftina og kynna sjálfan þig þar sem þú segir okkur af hverju þú ættir að vera einn af þeim sem vinnur ferð til Washington.

Umsóknirnar eiga að vera á ensku eða einu af skandinavísku tungumálunum

Myndböndin og ljósmyndirnar munu verða birtar á heimasíðu Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Dómnefnd mun meta allar umsóknirnar og velja fimm bestu. Dómnefndin mun ekki bara einblína á uppskriftina heldur á umsækjendurnar og hvernig þeir koma hollum Norrænum mat á framfæri.

Umsóknir verða að hafa borist okkur fyrir lok dags 3. október 2011.

Fyrir frekar upplýsingar um keppnina og umsóknir, hafið samband við Elisabeth Smith (e.smith@nordicinnovation.org) hjá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni.

Fréttir

Staða mengunar þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið – ný skýrsla Matís

Mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið (hér)

Styrkur kadmíns í íslenskum kræklingi er hinsvegar hærri en almennt gerist í kræklingi frá hafsvæðum Evrópu og Ameríku.

Frá árinu 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Matís ohf. Umhverfisstofnun er umsýsluaðili verkefnisins.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Mengandi efni berast með loft- og sjávarstraumum frá meginlandi Evrópu og Ameríku auk mengunar frá Íslandi. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, bæði í umhverfi og lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið saman stöðu lífríkis hafsins í kringum Ísland við ástandið í öðrum löndum, ekki síst vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Í skýrslu Matís (skýrsla 24-11 á vef Matís) eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2009 og 2010. Í rannsókninni eru mæld snefilefnin blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, arsen og selen, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, trans-nonachlor, toxaphen, DDT og PBDE. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi bæði á innlendum og erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er svæðisbundinn og talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Niðurstöður sýna breytingar í mynstri styrks klórlífrænna efna í  kræklingi sem safnað var nálægt Hvalstöðinni í Hvalfirði í september 2009, ekki voru sýnilegar breytingar í styrk þessara efna á söfnunarstað kræklings við Hvammsvík í Hvalfirði né á neinum öðrum söfnunarstað í kringum landið sem rannsakaður var 2009. Mikilvægt er að fylgjast með þessum breytingum í mynstri styrks klórlífrænna efna í kræklingi í vöktunarverkefninu  á næstu árum til að sjá hvort þær eru enn til staðar. Ítarleg tölfræðigreiningu á gögnunum er í gangi þ.a. hægt sé að meta með vísindalegum aðferðum aukningu eða minnkun mengandi efna í lífríki sjávar hér við land.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Fullt hús matar á Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi?

Matís tekur þátt í Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi 22.-24. sept. nk. Á bás Matís, nr. C50, verður margt um að vera og má þar nefna kynningu á skyri með lífvirkum þara sem einu innihaldsefna og þar með öllum þeim andoxunareiginleikum sem þari hefur að geyma, bragðmikinn heitreyktan makríl og ljúffenga humarsúpu.

Dagskrá kynninga hjá Matís er eftirfarandi:

  • Fimmtudagur 22. sept. kl. 16:30-17:30: Heitreyktur makríll
  • Föstudagur 23. sept. kl. 16:00-17:30: Humarsúpa frá Höfn
  • Laugardagur 24. sept. kl. 13:00-15:00: Þaraskyr úr lífrænni mjólk og þara úr Breiðafirði

Ekki missa af þessu!

Þess má geta að þaraskyrið er á leiðinni í úrslitakeppni  Ecotrophelia Europe, sem vænlegasta og vistvænasta nýsköpunarhugmyndin á matvælasviði árið 2011?

Nánari upplýsingar veitir markaðsstjóri Matís, Steinar B. Aðalbjörnsson, 858-5111.

Fréttir

Sjávarskyr? Íslendingar fá fyrstir að bragða!

Vinnur ný alíslensk skyrafurð til verðlauna á Ecotrophelia Europe, sem vænlegasta og vistvænasta nýsköpunarhugmyndin á matvælasviði árið 2011?

Í samstarfi við Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fleiri aðila hafa Jón Trausti Kárason, Kjartan Trauner, Jökull Vilhjálmsson og Andri Freyr Þórðarson þróað vöru sem sigraði í íslensku Ecotrophelia keppninni og eru þeir félagar því á leið í stóru keppnina sem fram fer í Köln 9. og 10. október nk.

Varan sem um ræðir er skyr sem inniheldur þara af tegundinni Marínkjarni úr Breiðafirði, en við hugmyndavinnu vöruþróunarinnar var þari útgangspunkturinn.

Auk Marínkjarnans inniheldur varan lífræna mjólk frá BioBú, íslensk aðalbláber, lífrænt blómahunang og ennfremur inniheldur hún engan viðbættan sykur né aukefni!

Öll vitum við um kosti skyrneyslu. Með þeim hráefnum sem nú eru sett í skyrið fær varan á sig alveg nýja hollustumynd. Andoxunareiginleikar bláberja eru þekktir og eins inniheldur þari fullt af vítamínum og steinefnum auk fjöldann allan af andoxunarefnum. Lífræna blómahunangið gefur vörunni svo mátulega sætan keim.

Skyrið verður kynnt og fólk getur smakkað á Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi laugardaginn 24. september, kl. 13-15.

Ekki missa af þessu tækifæri!

Nánari upplýsingar veitir Jón Trausti Kárason í síma 663-7904 eða jon.trausti@matis.isGuðjón Þorkelsson eða Steinar B. Aðalbjörnsson.

Fréttir

EcoFishMan fundar með hagsmunaaðilum í Kaupmannahöfn

Matís fer með stjórn í Evrópuverkefninu EcoFishMan, sem ætlað er að þróa nýa aðferðafræði sem nýtast mun við umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi Evrópusambandsins.

Verkefnið er þverfaglegt og nýtir upplýsingum um vistfræðilega-, félagslega-, hagfræðilega- og stjórnunarlega þætti fiskveiðistjórnunar, en markmiðið með verkefninu er að gera mönnum kleift að meta og bregðast við áðurnefndum þáttum við útfærslu á fiskveiðistjórnun. Mikil áhersla er lögð á samstarf við hagsmunaaðila á öllum stigum verkefnisins og sem partur af því ferli funduðu þátttakendur í verkefninu með hagsmunaaðilum frá veiðum, vinnslu, rannsóknastofnunum, neytendasamtökum og umhverfisverndarsamtökum víðsvegar að í Evrópu þann 8 september. Fundurinn fór fram í Kaupmannahöfn og var verkefnið þar kynnt fyrir hagsmunaaðilunum og leitað eftir framlagi frá þeim inn í áframhaldandi vinnu. Þátttakendur EcoFishMan héldu erindi til að skýra margvíslega þætti verkefnisins og síðan voru umræður um erindin. Í EcoFisMan verða fjögur mismunandi fiskveiðikerfi notuð sem sýnidæmi (case studies) við þróun kerfisins þ.e. íslenskar botnfiskveiðar, portúgalskar botnvörpuveiðarnar á krabbadýrum, botnvörpuveiðar í Norðursjónum og botnvörpuveiðar við Miðjarðarhafið. 

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu Matís (EcoFishMan) og á vefsíðu verkefnisins, EU_EcoFishMan.

Fréttir

Gæði strandveiðiafla 2011

Sumarið 2011 var þriðja sumarið sem frjálsar handfæraveiðar með takmörkunum á heildarmagni, svokallaðar strandveiðar, voru heimilaðar. Í pottinum voru 8.500 tonn og í heildina tóku 685 bátar þátt í veiðunum.

Gæði strandveiðiafla hafa nokkuð verið til umræðu á síðustu misserum og því óskaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eftir því við Matís, Matvælastofnun og Fiskistofu að gerð yrði úttekt á gæðum strandveiðiaflans. Margvíslegum gögnum var safnað við framkvæmd úttektarinnar og má þar meðal annars nefna:

  • Mælingar á hitastigi í afla við löndun víðsvegar um land, alls um 2.500 mælingar.
  • Mælingar fiskmarkaðanna á hitastigi afla í sumar, alls um 10.000 mælingar.
  • Vettvangskannanir þ.s. farið var um borð í 405 strandveiðibáta til að kanna ýmis atriði er snúa að meðferð afla.
  • Viðtöl við þá aðila sem höndla mest með afla strandveiðibáta þ.e. kaupendur, seljendur, fiskmarkaðir, slægingarþjónustur, flutningsaðilar, fiskverkendur o.fl. alls um 30 manns.
  • Heimsóknir í fiskmarkaði víðsvegar um land til að kanna verklag, auk þess sem rætt var við fulltrúa fiskmarkaða.

Niðurstöður úttektarinnar sýna að strandveiðifiskur er mjög misjafn að gæðum. Strandveiðibátar stunda sínar veiðar yfir heitasta árstímann þegar fiskur er í slæmu ástandi af náttúrulegum orsökum, þeir halda sig gjarnan nærri landi þar sem fiskur er smár, meira er um orm og liturinn á roðinu er dekkri (svokallaðir þaraþyrsklingar); þeir landa jafnan óslægðum afla og stærðardreifing er mikil. Aðgengi að ís er takmarkað í sumum höfnum, slægingarþjónusta er almennt ekki lengur fyrir hendi og flutningur á óslægðum afla milli landshluta á þessum árstíma getur farið illa með hráefnið ef aflameðferð hefur ekki verið fullnægjandi. Það er því ýmsum vandkvæðum bundið fyrir strandveiðiflotann að tryggja gæði aflans og sérstaklega mikilvægt að aflameðferð sé til fyrirmyndar.

Í úttektinni er farið yfir þau atriði sem helst hafa áhrif á gæði afla, kannað er hvernig strandveiðiaflinn kom út í sumar varðandi þau atriði í samanburði við aðra dagróðrabáta og loks eru settar fram tillögur um hvernig stuðla megi að úrbótum.

Sá áhrifaþáttur sem hefur hvað mest að segja um gæði strandveiðiafla er kæling. Almennt má segja að strandveiðiflotinn komi vel út í samanburði við hina hefðbundnu dagróðrabáta hvað kælingu varðar og er ekki hægt að greina marktækan mun á milli þessara útgerðaflokka. Einnig benda niðurstöður úttektarinnar til að kæling strandveiðiafla hafi batnað mikið frá fyrra ári. Þess ber þó að gæta að þörf er á að bæta kælingu enn frekar, bæði hjá strandveiðibátum og öðrum dagróðrabátum, til að fullnægja kröfum sem settar eru fram í reglugerðum þ.e. að hitastig í afla sé komið undir 4°C innan 6 klst. eftir veiði.

Aðstaða til blóðgunar er takmörkuð um borð í strandveiðibátum þ.e. aflanum er yfirleitt látið blæða út í ís eða krapa í þeim kerum sem hann berst í land í. En þar sem handfærafiskur er jafnan mjög sprækur þegar hann er dregin um borð gengur blóðtæming betur en ella og því eru kaupendur yfirleitt sáttir við blóðgun aflans. Forsvarsmenn fiskmarkaðanna segjast aldrei hafa fengið kvörtun vegna slælegrar blóðgunar og því má draga þá ályktun að blóðgun sé ekki teljandi vandamál hjá strandveiðiflotanum.

Flokkun og slæging eru einnig atriði sem áhrif hafa á gæði strandveiðiafla. Mikilvægt er að fiskmarkaðir og viðskiptavinir þeirra finni ásættanlegar leiðir til að tryggja að kaupendur fái afhenta þá stærð af fiski sem þeir telja sig vera að kaupa, en talsvert hefur borið á því í sumar að kaupendur hafi verið ósáttir við stærðarflokkun. Þetta er hins vegar vandi sem tengist sérstaklega fjarsölunum, enda getur verið erfitt að upplýsa um flokkun afla sem ekki hefur enn verið landað. Slæging á afla dagróðrabáta hefur einnig verið nokkuð til vandræða í sumar og er mælst til að yfirvöld hugi að breytingum á reglugerðum um slægingu fyrir upphaf næsta strandveiðitímabils.

Hvað varðar aðra þætti sem áhrif hafa á gæði strandveiðiafla þá er eðlilegast að markaðslögmál fái að ráða þ.e. að verð og gæði fari saman, en til að svo megi fara þarf að auka sýnileika gæðaþátta hjá fiskmörkuðunum og auka kynningu. Fyrirkomulag strandveiðanna, þ.e. ólympískar veiðar, getur stuðlað að því að sótt sé í afla af lakari gæðum og því er mikilvægt að haldið sé á lofti fræðslu til sjómanna, jafnt sem annarra í virðiskeðjunni. Átak var gert í fræðslu, mælingum og eftirliti hjá dagróðrabátum sumarið 2011 og er ljóst að það hefur borið nokkurn árangur. Því er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að haldið verði áfram á þeirri braut næsta ár.

Við erum á réttri leið, en betur má ef duga skal!

Skýrslu um gæði strandveiðiafla 2011 má nálgast hér.

Fræðsluvefur fyrir smábátasjómenn: www.alltummat.is/fiskur/smabatar/

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

IS