Fréttir

Rannsóknir á humri leiða í ljós að enginn stofnerðafræðilegur munur virðist vera á milli veiðisvæða við Ísland

Nýlega birtust í vísindariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins niðurstöður erfðarannsókna á humri sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar unnu að í samstarfi við Matís og styrktar af verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Erfðasýni sem tekin voru af humri (Nephrops norvegicus) frá aðskildum veiðisvæðum við Suðvestur- og Suðausturland hafa sýnt að enginn afgerandi munur virðist vera í erfðabyggingu tegundarinnar frá einu svæði til annars þó að allt upp í 300 sjómílna fjarlægð sé á milli svæða (sjá mynd með frétt). Merkingar hafa fyrir löngu sýnt fram á að humar er mjög staðbundin tegund sem gengur ekki frá einu veiðisvæði/hrygningarsvæði til annars. Einnig hafa sveiflur í aflabrögðum, humarstærð og nýliðun verið ólíkar í gegnum tíðina, t.d. á vestustu og austustu veiðisvæðum og var það hvatinn að þessari rannsókn.

Niðurstöður erfðafræðirannsóknanna gefa því eindregið til kynna að á 4-8 vikna lirfustigi berist humarlirfur milli svæða með straumum í efri lögum sjávar og taki sér síðan bólfestu í holum á leirbotni þegar lirfustigi lýkur. Ennfremur er ljóst að líffræðilegir þættir svo sem nýliðun, humarstærð og afli á sóknareiningu munu áfram skipa þýðingarmikinn sess við stjórnun veiðanna. Greinina má lesa hér.

1. mynd. Sýnatökustaðir 1-5. Veiðisvæði humars 2005-2009. Dekkstu svæðin sýna mestan afla (tonn/sjm2). Rauðar örvar tákna Norður-Atlantshafsstrauminn og bláar strandstrauminn. Sjá mynd.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson, gudjon.thorkelsson@matis.is.

Fréttir

Málþing á vegum Samtaka Iðnaðarins 23. nóv. – Matís tekur þátt

Mikil nýsköpun hefur átt sér stað við framleiðslu skólamáltíða á undanförnum árum en enn eru mikil sóknarfæri til úrbóta.

Samstarf milli ólíkra fagsviða, sem koma að framkvæmd skólamáltíða með einum eða öðrum hætti, getur leitt af sér ýmsar framfarir.

Á málþinginu verður gerð grein fyrir lagaákvæðum og opinberum leiðbeiningum um skólamáltíðir, kynntar niðurstöður  verkefnis um skólamáltíðir á Norðurlöndum, stefna sveitarfélaga, reglur um innkaup á matvælum og sjónarmið foreldra. Í pallborðsumræðum verður rætt um aðstöðu í skólaeldhúsum, framleiðslu máltíða í miðlægum eldhúsum og fræðslu og ráðgjöf til sveitarfélaga og starfsfólks í mötuneytum. Til málþingsins er boðið starfsfólki sveitarfélaga sem er ábyrgt fyrir skólamötuneytum, skólastjórnendum, starfsfólki skólaeldhúsa, framleiðslueldhúsa og birgja, foreldrum og öðru áhugafólki um skólamáltíðir.

Staður: Hvammur, Grand Hótel Reykjavík
Tími: 23. nóvember kl. 15-17

Dagskrá:
15.00 –  Setning – Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá Lýðheilsustöð
15.15 – Reynsla af skólamáltíðum á Norðurlöndum – Ragnheiður Héðinsdóttir, forstöðumaður matvælasviðs Samtaka iðnaðarins
15.30 – Innkaupastefna Reykjavíkur og tilraunverkefni um hverfainnkaup – Ingibjörg H. Halldórsdóttir, verkefnisstjóri um samræmda matseðla hjá Reykjavíkurborg
15.40 – Útboð skólamáltíða og þjónustusamningar, kröfur til gæða og eftirfylgni – Guðmundur Ragnar Ólafsson, innkaupastjóri Hafnarfjarðarbæjar
15.50 – Sjónarmið foreldra – Bryndís Haraldsdóttir, Heimili og skóli
16.00 – Pallborðsumræður

Auk fyrirlesara:
Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar
Unnsteinn Ó. Hjörleifsson, matreiðslumaður, Árbæjarskóla
Guðrún Adolfsdóttir, ráðgjafi, Rannsóknarþjónustunni Sýni
Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri nýsköpunar og neytenda, Matís
Herdís Guðjónsdóttir, formaður Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands
Fundarstjóri, Atli Rúnar Halldórsson, ráðgjafi

17.00 – Fundarlok

Aðgangur er ókeypis en tilkynna þarf þátttöku í síma 591-0100 eða á netfangið mottaka@si.is.

Fréttir

Ensím klippir fjölsykrur frá nýjum enda

Mánudaginn 15. nóvember nk. mun Jón Óskar Jónsson, starfsmaður Matís, halda fyrirlestur um meistaraverkefni sitt hjá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Verkefnið ber heitið „β-Glucan Transferases of Family GH17 from Proteobacteria“ og fólst í rannsóknum á sérstakri gerð ensíma sem ummynda glúkan fjölsykrur með rofi samfara sykruflutningi.

Prófdómari er Dr. Jón M. Einarsson, rannsókna- og þróunarstjóri hjá Genis ehf. Umsjónkennari og leiðbeinandi var Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ og sviðsstjóri hjá Matís ohf. Meðleiðbeinandi var Dr. Ólafur H. Friðjónsson verkefnastjóri hjá Matís ohf.

Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 130 í Öskju og hefst klukkan 16.00.

Útdráttur
Ensím sem tilheyra fjölskyldu GH17 í flokkunarkerfi sykrurofsensíma voru rannsökuð úr þremur tegundum baktería: Methylobacillus flagellatus KT, Rhodopseudomonas palustris og Bradyrhizobium japonicum. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að slík ensím úr Proteobakteríum sýna transferasa virkni, þ.e. þau klippa β-glúkan fjölsykrur og skeyta bútum á enda þega-sykra með myndun nýrra 1,3 tengja eða mynda greinar með β1,4 eða β1,6 tengjum. Gen ensímanna voru klónuð og tjáð í E. coli. Ensímin voru tjáð sem MalE samruna prótein, en eftir framleiðslu og hreinsun var MalE hlutinn klipptur af með sérvirkum Ulp1 proteasa. Ensímin voru skilgreind með tilliti til virkni þeirra á laminarin fásykrur. Myndefni voru skilgreind með tilliti til stærðar og tengjagerðar með fjölbreyttri aðferðafræði, TLC, Maldi-TOF, electrospray og NMR.  Niðurstöður rannsóknanna leiddu í ljós að tvö þessara ensíma, úr Rhodopseudomonas palustris og Methylobacillus flagellatus KT mynda β(1-3) tengi og eru því lengingarensím. Ensímið úr Bradyrhizobium japonicum sýndi β(1-6) transferasa virkni og er því greinamyndunar-ensím (branching). Unnt var að sýna fram á að ensímið klippir fjölsykrur frá afoxandi enda (reducing end) fjölsykruhvarfefnanna, öfugt við þau bakteríuensím sem hingað til hafa verið rannsökuð. Sá eiginleiki ætti að gera ensíminu úr Bradyrhizobium japonicumkleift að búa til fásykruhringi úr β-glúkan fjölsykrum.

Nánari upplýsingar veitir Jón Óskar, jon.o.jonsson@matis.is.

Fréttir

Hámark sett á magn transfitusýra í matvæli

Undanfarið hefur átt sér stað tímabær umræða um magn transfitusýra í matvælum. Hjá Matís eru framkvæmdar magnmælingar á transfitusýrum sem og á öðrum fitusýrum og innihaldsefnum í matvælum.

Stjórnvöld hafa ákveðið að settar verði reglur um hámarksmagn transfitusýra í matvælum að danskri fyrirmynd.

Rannsóknir sýna að neysla  á transfitusýrurm eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og því eru þessar reglur settar.  Nokkur lönd hafa sett strangar reglur eða viðmið varðandi transfitusýrur í matvælum til að draga úr magni þeirra og sett merkingarskyldu á umbúðir, eins og t.d. Danmörk, Bandaríkin, Brasilía, Sviss og Kanada.

Hvað eru transfitusýrur?
Framleiðsla og notkun á transfitusýrum í matvælum á sér yfir 100 ára sögu, en ferilinn var hannaður af Þjóðverjanum Wilhelm Normann 1901 sem jafnramt var fyrsti framleiðandi slíkra fita á iðnaðarskala.  Transfitusýrur myndast þegar fljótandi fita (aðallega jurtafita) er hert að hluta með því að blanda henni saman við vetnisgas og nikkel undir miklum hita og þrýstingi.  Slík fita hefur mun lengra geymsluþol en fljótandi fita og hefur verið notuð í margar mismunandi afurðir og til steikingar og baksturs í marga áratugi.  Transfitusýrur má einnig finna í fitu jórturdýra frá náttúrunnar hendi. Nýju reglurnar á Íslandi taka aðeins til transfitusýra í iðnaðarhráefni. Hlutfall transfitusýra í fitu jórturdýra er aldrei hátt og þessi fita hefur verið í fæði mannsins um aldir.  

Áhrif transfitusýra á heilsu
Mettaðar fitusýrur auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum eins og transfitusýrur en þær síðarnefndu eru álitnar verri.  Rannsókn frá 2006 benti til þess að rekja mætti 30.000 til 100.000 dauðsföll í Bandaríkjunum til neyslu transfitusýra.  Þegar transfitusýrurnar eru teknar út úr matvælum eða hlutfall þeirra lækkað þarf að passa uppá að auka sem minnst hlut mettaðra fitusýra.  Á vef Lýðheilsustöðvar eru birtar ráðleggingar um mataræði.

Mælt er með því að fólk velji sem oftast olíu eða mjúka fitu í stað harðrar fitu sem nær bæði yfir  mettaðar fitusýrur og transfitusýrur. Umræða um neikvæð heilsufarsleg áhrif transfitusýra hefur farið mjög vaxandi á síðustu 10 árum og hafa bæði framleiðendur hertra jurtaolía og matvælaframleiðendur lagt sitt af mörkunum að draga úr magni transfitusýra í matvælum.  Það má þó enn bæta stöðuna töluvert og upplýsa neytendur betur.

Magn transfitusýra í íslenskum matvælum
Matís ohf býður upp á mælingar á fjölmörgum fitusýrum í matvælum og eru transfitusýrurnar þar á meðal. Mælingar eru gerðar fyrir fyrirtæki, eftirlitsaðila og einstaklinga. Á árunum 2008 og 2009 var gerð hjá Matís úttekt á fitusýrum í matvælum á íslenskum markaði.  Úttektin náði til 51 sýnis og  var gerð í samstarfi við Lýðheilsustöð og Matvælastofnun og var meðal annars ætlað að afla upplýsinga fyrir íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) sem Matís rekur. Í ljós kom að transfitusýrumagn í matvælum var mjög breytilegt. Transfitusýrur mældist í borðsmjörlíki, bökunarsmjörlíki, steiktum bökunarvörum, jurtaís og örbygjupoppkorni. Aðeins sum vörumerki þessara vara innihéldu transfitusýrur en önnur voru alveg laus við þessar fitusýrur. Þetta sýnir að hægt er að losna við transfitusýrurnar úr þessum vörum og matvælaiðnaðurinn er kominn vel á veg í þessum efnum.

Í úttektinni var kex, sælgæti og matur frá skyndibitastöðum án transfitusýra. Þetta er mikil breyting frá því sem var fyrir um 15 árum. Í rannsókn sem var unnin árið 1995 reynsist vera mikið af transfitusýrum í mörgum matvælum á íslenskum markaði. Niðurstöður rannsóknarinnar frá 1995 má sjá hér:

www.matis.is/media/utgafa/matra/Matra_-02-09_-Fitusyrur.pdf

Hvernig má draga úr magni transfitusýra?
Matvælaiðnaðurinn þarf nú að bregðast við og sjá til þess að transfitusýrur fari ekki yfir 2 g í 100 g af þeim vörum sem eftir er að fást við. Það er mjög misjafnt eftir gerð matvæla hvernig unnið verður að breyttri samsetningu. Í sumar vörur er hægt að nota fljótandi olíur og er það besta lausnin frá næringarsjónarmiði. Í öðrum tilfellum þarf að nota fitu á föstu formi en hún getur verið mikið mettuð. Hálfhert fita inniheldur transfitusýrur en fullhert fita inniheldur ekki transfitusýrur en mikið af mettuðum fitusýrum.  Ein leið matvælaframleiðenda er því að blanda saman fullhertri fitu með olíu til að fá transfitusýrufría fitu með sambærilega eiginleika hálfhertrar fitu. Ætla má að almenningur verði ekki var við breytingar á framboði matvæla þar sem matvælaiðnaðurinn mun einfaldlega velja önnur hráefni til framleiðslunnar.

Almenningur hefur vaxandi áhuga á gerð fitunnar í matvælum. Mikið er spurt um transfitusýrur og hvernig hægt sé að finna út hvort matvæli innihaldi þessar fitusýrur. Mælingar á fitusýrum gefa alltaf öruggasta svarið en hægt er að styðjast við upplýsingar á umbúðum. Ef innihaldslýsingin tilgreinir aðeins olíur sem fituhráefni er ekki um transfitusýrur að ræða.

Hjá Matís starfar Ólafur Reykdal sem er einn sérfræðinga okkar Íslendinga um transfitusýrur. Nánari upplýsingar veitir Ólafur, olafur.reykdal@matis.is.

Fréttir

Iðnaðarverkfræði og mjólkurvinnsla – Hvað á þetta tvennt sameiginlegt?

Miðvikudaginn 10. nóvember nk. heldur Sigríður Sigurðardóttir fyrirlestur meistaraverkefni sitt í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Verkefnið heitir Iðnaðarverkfræði og mjólkurvinnsla.  Fyrirlesturinn verður fluttur í Verinu Vísindagörðum miðvikudaginn 10. nóvember kl. 14:00.

Markmið þessa verkefnis er að kanna með hvaða hætti megi beita aðferðum iðnaðarverkfræðinnar til hagræðingar við mjólkurvinnslu. Verkefnið var unnið fyrir Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga (MKS) og í samstarfi við Matís ohf en samstarf fyrirtækjanna tveggja hafði reynst ákaflega vel í rannsóknarverkefni um vinnslu á mjólkurpróteinum sem fæst úr mysu sem fellur til við ostaframleiðslu. Því var áhugi innan samlagsins á áframhaldandi samstarfi við Matís. Í upphafi voru margar hugmyndir um möguleg verkefni kynntar fyrir forsvarsmönnum MKS enda er ýmsum gögnum safnað við framleiðsluna og því gætu víða leynst tækifæri til hagræðingar. Hugmyndirnar voru meðal annars skoðun á lagerhaldi til hagræðingar í rekstri, skoðun á árstíðarsveiflum í mjólk með það að markmiði að auka arðsemi og nýtingu og úttekt á því hvaða tækjabúnaður og breytingar eru nauðsynlegar í framleiðsluferlinu til þess að framleiða mysuprótein úr þeirri mysu sem fellur til við ostagerðina. Lausnir á öllum þessum verkefnum má fá með aðferðum iðnaðarverkfræðinnar. En þau verkefni sem á endanum var ákveðið að ráðast í voru eftirfarandi:

  1. Athugun á vaktaskipulagi Samlagsins
  2. Hermun á ostaframleiðslunni til að staðfesta flöskuháls
  3. Gerð stýririta til þess að draga úr sveiflum í þyngd lokaafurðar

Fyrirlesturinn verður fluttur í Verinu Vísindagörðum, á Sauðárkróki, og er öllum heimill aðgangur. Verkefnið vann Sigríður fyrir mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga innan Líftæknismiðju Matís í Verinu vísindagörðum á Sauðárkróki sumarið 2008.

Leiðbeinendur Sigríðar voru þeir Páll Jensson PhD, prófessor í iðnaðarverkfræði við HÍ og Sveinn Margeirsson PhD, sviðsstjóri hjá Matís.

Fulltrúi deildar er Gunnar Stefánsson, dósent í iðnaðarverkfræði við HÍ.

Fréttir

Actavis nýtir sér sérhæfða rannsóknarþjónustu Matís

Samheitalyfjaframleiðandinn Actavis nýtir sér þjónusturannsóknir hjá Matís. Actavis er eitt af 5 stærstu samheitalyfjafyrirtækjum í heiminum og hefur samstarf Matís og Actavis gengið mjög vel.

„Allt frá því Matís varð til hefur fyrirtækið annast fyrir okkur örverurannsóknir á hráefnum og fullbúinni vöru, auk rannsókna á umhverfissýnum. Samstarfið er því fastur liður í framleiðslu Actavis og verið farsælt frá upphafi,” segir Herborg Hauksdóttir, ábyrgðarhafi í gæðatryggingardeild lyfjaframleiðslufyrirtækisins Actavis. Hún segir þjónustusamning við Matís spara fyrirtækinu kostnaðarsama uppbyggingu á eigin rannsóknaraðstöðu.

Herborg segir að uppfærslur á aðferðum við örverumælingar hafi ávallt gengið vel með liðsinni starfsfólks Matís. „Við vinnum undir kröfum lyfjayfirvalda, bæði hérlendis og á öðrum markaðssvæðum okkar, um að gera örverumælingar og völdum að nýta okkur bæði fyrsta flokks aðstöðu og starfsfólk hjá Matís í þennan verkþátt. Mælingarnar eru mjög sérhæfðar og yfir þeirri sérhæfingu býr Matís,” segir Herborg.

Auk örverumælinga á hráefnum og fullbúinni vöru hjá Actavis sér Matís um mælingar á umhverfissýnum þar sem til að  mynda vatn er vaktað, sem og aðrir umhverfisþættir innan fyrirtækisins. „Við lútum mjög ströngum kröfum um  lyfjaframleiðslu og því veljum við okkur líka þá bestu rannsóknarþjónustu sem við eigum völ á,” segir Herborg Hauksdóttir hjá Actavis.

Fréttir

Aukin nýting og gæði marnings sem unninn er úr aukaafurðum

Verkefni er nú lokið hjá Matís, Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. og 3X Technology ehf. sem hefur það að markmiði að auka verðmæti bolfiskafla með því að þróa feril sem eykur nýtingu og gæði marnings sem unninn er úr aukaafurðum s.s hryggjum sem fellur frá flökunarvélum og afskurði sem fellur frá snyrtilínum.

Megináherslur í verkefninu eru þróun og smíði á eftirtöldum einingum til að hægt sé að framleiða hágæða marning úr hryggjum. Um eftirtaldar einingar/verkþætti er um að ræða:

Hryggjarskurðarvél  > Marningsþvottavél  >  Marningspressa  >  Marningspökkunarvél

Lýsing á marningskerfinu:  Hryggjum er sturtað inn á innm.borð fyrir framan hryggjaskurðarvélarnar. Hryggjunum er raðað inn í skurðarvélarnar, dálkarnir eru skornir frá og fara fram úr vélinni inn á færiband sem flytur þá í burtu. Skottin detta niður undir vélinni og eru flutt inn á marningsvélina þar sem þau eru mörð niður í annarsvegar marning og hinsvegar bein og rusl. Marningurinn er fluttur áfram í þvottatromluna þar sem hann er skolaður og síðan fluttur áfram til marningspressuna þar sem hún pressar vatnið úr marningnum. Eftir pressuna er hugmyndin að marningurinn nái að vera með staðlað vatnsinnihald (stilling framan á pressunni). Síðan er marningurinn fluttur með færibandi til marningspökkunarvélina þar sem hún skammtar réttu magni í þar til gerðar marningsöskjur.

Endanleg markmið línunnar er að ná að hvíta marninginn og auka þannig verðgildi hans.

Hvítun marningsins fæst með því að skola hann hressilega með vatni í þvottatromlunni og þar á eftir að „skvísa“ vatnið út aftur í marningspressunni.

Aukin nýting og gæði marnings sem unninn er úr aukaafurðum

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Matís ohf, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf og 3X Technology ehf.

Skýrslu úr verkefninu má finna hér.

Verkefnið var til eins árs og var styrkt af AVS (www.avs.is) rannsóknasjóðnum.

Nánari upplýsingar veitir Róbert Hafsteinsson, robert.hafsteinsson@matis.is.

Fréttir

Nýjar tæknilausnir til beitningar og meðhöndlunar á fiski

Nú er lokið verkefninu „Vinnsluferill línuveiðiskipa“ sem hafði það að markmiði að þróa og hanna nýjar tæknilausnir til beitningar og meðhöndlunar á fiski eftir veiði um borð í línuveiðiskipum með það að leiðarljósi að hámarka hráefnisgæði, auka vinnuhagræði og draga úr kostnaði við ferlið.

Farið var í sjóferð um borð í Stefni ÍS 28 til að prófa kæli og blóðgunarkörin þar um borð sem smíðuð og framleidd eru af 3X Technology. Tilgangur þeirrar ferðar var að finna út hvaða vinnsluaðferð skilaði bestum árangri m.t.t gæði hráefnisins. Prófaðar voru mismunandi aðferðir (mismunandi hópar) með blóðgun, slægingu og kælingu hráefnisins um borð. Til að meta gæðin var síðan lagt mat lit og los flakana í vinnslu Hraðfrystihússins Gunnvarar á Ísafirði.

Helstu niðurstöður þessa verkefnis gáfu til kynna að með því að láta fiskinn blæða í sjó, með miklum vatnsskiptum, eftir að búið er að slægja fiskinn og áður en hann fer í kælingu, gefur betri litar holdgæði á flakinu. Þegar los flakana var skoðað í skynmatinu, þá reyndist ekki nægjanlega marktækur munur á milli hópana, þ.e.a.s engin ein vinnsluaðferð skar sig úr í gæðum m.t.t loss.

AVS_linuveidiskip_2

Línuritið hér fyrir neðan sýnir plott þriggja hitanema fyrir hóp nr 1. Einn nemi í hvorum fisk fyrir sig. Fiskarnir voru síðan raðaðir í 440L kar niðri í lest, einn fiskur staðsettur neðst, einn í miðju og einn efst. Sjá má einnig af línuritinu hversu snögg kæling fisksins verður niður í ca -0,5°C á 25 mínútum við að nota krapa-kælikerin. Síðan er fisknum komið fyrir niður í lest þar sem hitastigið helst áfram vel niður fyrir núll gráðurnar þar til í vinnslu er komið nokkrum dögum seinna.

AVS_linuveidiskip_1

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Matís ohf, 3X Technology ehf, Vísir hf, Brim hf, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf og Samherji hf. AVS rannsóknasjóður (www.avs.is) og Tækniþróunarsjóður styrkja þetta verkefni.

Út kom skýrsla vegna verkefnisins en hún er lokuð. Skýrsluágrip má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Róbert Hafsteinsson, robert.hafsteinsson@matis.is.

Fréttir

Matís vinnur til verðlauna á alþjóðlegri ráðstefnu

Matís tók fyrir stuttu þátt í International Marine Ingredients Conference sem fram fór í Ósló í Noregi. Þar fékk Matís verðlaun fyrir veggspjald sem sýnt var á ráðstefnunni.

Veggspjaldið má sjá hér.

Upplýsingar um fleiri veggspjöld, einblöðunga, bæklinga og fleira útgáfuefni frá Matís má finna hér.

Fréttir

Fagur fiskur vekur athygli á Norðulöndum

Nú nýverið birtist grein um Fagur fiskur þættina sem sýndir voru á RUV við fádæma góðar undirtektir.

Fréttin birtist á vef Ny Nordisk Mat og er svohljóðandi:

ISLAND: På islandsk TV kan man nu hver søndag kl. 19.35 på RUV, kanal 1, se ”Smukke Fisk” – ”Fagur Fiskur” på islandsk – der skal inspirere til at spise Islands mange fisk på lige så mange måder.  Ideen startede hos Matís med et videnskabeligt speciale, hvor Gunnþórunn Einarsdóttir konkluderede, at unge mangler både viden og opmuntring til at spise fisk. Sammen med produktdesigner Brynhildur Pálsdóttir og SAGA Film er det nu blevet til en række TV udsendelser, hvor fisken spiller hovedrollen. Se website her: www.fagurfiskur.is/.
Nánar á: www.nynordiskmad.org

Nánar um Fagur fiskur á Facebook, á www.fagurfiskur.is og hjá Gunnþórunni Einarsdóttur, starfsmanni Matís og upphafsmanni Fagur fiskur, gunnthorunn.einarsdottir@matis.is.

IS