Fréttir

Miklir möguleikar eru á þróun afurða úr íslensku korni

Miklar framfarir hafa orðið í kynbótum og ræktun byggs hér á landi. Byggið hefur fyrst og fremst verið nýtt sem skepnufóður en áhugi á nýtingu þess til manneldis hefur farið vaxandi.

Það er ekki síst vegna hollustu byggsins en mikilvæg efni eins og trefjaefni eru í meiri mæli í byggi en hveiti. Einnig skiptir máli að bygg er mjög fjölhæf korntegund til matvælavinnslu.

Einn helsti veikleiki íslenskrar byggræktar er að kornið þornar ekki nægjanlega á akri og því verður að þurrka það áður en hægt er að nýta það til matvælaframleiðslu. Einnig er ræktunaröryggi minna hér á landi en víða annars staðar. Greina þarf kostnað og tekjur í byggræktinni og líta einnig á hlið matvælaiðnaðarins.

Mögulegt er að nota bygg í bökunarvörur, morgunkorn, grauta, samsetta rétti og meðlæti í stað hrísgrjóna. Úr byggi er unnið maltbygg sem notað er við framleiðslu áfengra drykkja. Einnig má hugsa sér að bygg verði notað í markfæði (e. functional foods) sem eflir heilsu. Bygg gefur matvælum hollustuímynd vegna trefjaefna og annarra hollefna sem í því eru.

Í verkefninu„ Aukin verðmæti úr íslensku byggi” var sýnt fram á að hægt er að nýta bygg með margvíslegum hætti í matvælaiðnaði. Efnainnihald byggsins var líkt því sem gerist erlendis og öryggið (e. food safety) með tilliti til örvera og aðskotaefna var fullnægjandi. Í verkefninu kom ekkert í ljós sem mælir gegn nýtingu íslensks byggs til manneldis. Niðurstöður verkefnisins nýtast við kynningu á vörum úr byggi og mat á hollustugildi þeirra. Helstu niðurstöður og ályktanir eru teknar saman hér að neðan.

Bökunariðnaður
Sýnt var fram á að notkun byggs í bökunarvörur gengur vel og hægt er að mæla með því að bökunariðnaðurinn noti bygg í framleiðslu sína. Bökunariðnaðurinn getur framleitt fjölbreytt úrval vara úr byggi. Ekki ætti að einblína á brauðin heldur framleiða einnig bökunarvörur sem geta verið að stórum hluta eða eingöngu úr byggi (flatkökur, kökur o.fl.).

Frá manneldissjónarmiði er mikilvægt að auka magn trefjaefna í fæði Íslendinga. Það er sérstaklega áhugavert að í bygginu eru vatnsleysanleg trefjaefni sem kallast beta-glúkanar. Þessi trefjaefni geta lækkað kólesteról í blóði og haft dempandi áhrif á blóðsykur. Það er því hægt að auka hollustu brauðvara með því að nota bygg í vörurnar.

Til þess að hægt verði að fullnægja mögulegum þörfum bökunariðnaðarins þarf að vera hægt að afhýða og fínmala íslenskt bygg í talsverðum mæli. Nauðsynlegt er að viðskipti með bygg fyrir bökunariðnað byggi á skilgreindum gæðakröfum. Íslenskt bygg gæti ef til vill fullnægt 10-20% af innanlandsþörfinni fyrir korn til framleiðslu á bökunarvörum.

Maltframleiðsla
Í verkefninu tókst að framleiða íslenskt byggmalt með fullnægjandi eiginleika. Koma þarf maltframleiðslu yfir á framleiðslustig. Framleiðslan þarf að hafa stöðug gæði en íslenskt bygg getur verið talsvert mismunandi eftir árum og framleiðendum. Hráefni til maltgerðar verður að vera það íslenska bygg sem er af mestum gæðum. Þróunarvinna er nauðsynleg til að koma saman nothæfum verkferlum og ná út skemmdu korni.

Áfengir drykkir
Framleiddur var bjór úr íslensku byggmalti og voru þá aðeins humlarnir innfluttir. Strangt tekið þurfa íslenskar plöntur að koma í stað humlanna ef bjór á að vera alíslenskur. Bygg og vatn eru þó mikilvægustu hráefnin til bjórgerðar. Viskíframleiðsla úr íslensku byggi er hugsanleg en hefur ekki verið könnuð. Viskíframleiðsla gerir ekki eins miklar kröfur til gæða byggsins eins og bjórgerð.

Matargerð og héraðskrásir
Bygg hentar vel í ýmsa matargerð og upplagt er að nota það í héraðskrásir þar sem byggið er ræktað. Ferðaþjónustan getur notið góðs af þessu.

Lífefnavinnsla
Bygg getur orðið hráefni í lífefnavinnslu. Hægt er að vinna beta-glúkana og aðrar fjölsykrur úr byggi. Nota mætti ensím til að kljúfa fjölsykrurnar í fásykrur sem gætu haft líffræðilega virkni. Hægt er að nota fásykrur í fleiri matvæli en beta-glúkana þar sem beta-glúkanarnir auka seigju vissra matvæla of mikið. Markfæði sem eflir heilsu gæti byggst á á beta-glúkönum úr byggi. Það gæti opnað nýja möguleika á hagnýtingu byggs til manneldis. Fleiri efnisþættir í byggi gætu haft þýðingu fyrir markfæði og má til dæmis nefna tókóferól og fjölsykrur. Beta-glúkönum er nú þegar bætt í ýmis matvæli erlendis og telja má víst að sú þróun haldi áfram.

Gæðakröfur
Mikilvægt er að fundinn verði farvegur til að þróa þær gæðakröfur sem hafa verið settar fram. Þurrkun byggsins er eitt mikilvægasta atriðið. Huga þarf að þessum þætti hjá framleiðendum. Þurrkunarstöðvar fyrir ákveðið svæði gætu verið góður kostur. Bökunariðnaðurinn gerir ákveðnar kröfur til byggmjöls en fyrir maltgerðina þarf að uppfylla aðrar kröfur.

Mikilvægt er að bygg mygli ekki, hvorki á akri né í geymslu. Sumir myglusveppir geta myndað sveppaeitur sem eru skaðleg fyrir fólk og búfé. Ekkert hefur komið fram sem bendir til sveppaeiturs í íslensku byggi. Leggja ber áherslu á að fylgjast með því hvort mygla kemur upp í korni eða mjöli og koma þá í veg fyrir notkun á afurðinni hvort sem hún er nýtt sem skepnufóður eða til manneldis.

Sérstaða
Hugsanlegt er að ýmsar tegundir sveppaeiturs myndist ekki hérlendis á akri vegna lágs umhverfishita og gæti það verið viss sérstaða fyrir íslenskan landbúnað. Rannsóknir vantar á myndun sveppaeiturs við íslenskar aðstæður.

Nægjanlegt fæðuframboð á Íslandi
Bygg og kartöflur eru einu kolvetnagjafarnir sem framleiddir eru í landinu í umtalsverðum mæli. Það getur því skipt máli að bygg sé framleitt í landinu bæði til fóðurs og matvælaframleiðslu. Ræktun byggs á Íslandi er liður í að tryggja nægilegt fæðuframboð (e. food security) fyrir Íslendinga. Áhugi á nýtingu innlendra hráefna til matvælaframleiðslu hefur einnig aukist.

Málþing í Danmörku um Norrænt korn
Ólafur Reykdal hjá Matís og Ólafur Eggertsson og Guðný Valberg á Þorvaldseyri sóttu  málþing á vegum verkefnisins Norrænt korn í norrænni matargerð (Forum for Nordic Domesticated Cereals for the New Nordic Kitchen) í Danmörku 10. og 11. mars 2009.  Verkefnið var undir áætluninni Ný norræn matargerð. Á málþinginu komu saman vísindamenn, bakarar og framleiðendur og miðluðu af reynslu sinni.

Upplýsingar frá málþinginu má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is.

Fréttir

Samanburður á hagkvæmni mismunandi flutningaferla

Útflutningsleiðir ferskra fiskafurða hafa að miklu leyti ráðist af geymsluþoli þeirra.  Stór hluti afurðanna hefur verið fluttur út með flugi til að lágmarka flutningstíma frá framleiðenda til neytanda en vegna efnahags- og umhverfissjónarmiða hafa framleiðendur í auknum mæli beint sjónum sínum að skipaflutningi á síðastliðnum árum. 

Það er því mikilvægt að leita leiða til að lengja geymsluþol ferskra afurða, m.a. með því að endurbæta umbúðir og bæta hitastýringu í öllu ferlinu frá veiðum til neytenda.   En það er fleira en beinn flutningskostnaður og vaxandi umhverfisvitund í heiminum, sem spilar inn í samkeppni skipa- og flugflutninga.  Niðurstöður AVS verkefnanna Hermunar kæliferla og Samþættingar kælirannsókna hafa nefnilega bent til greinilegs munar á stöðugleika hitastýringar í skipa- og flugflutninga, fyrrnefnda flutningsmátanum í vil. Rannsóknin er einnig hluti af EU-verkefninu Chill-on (FP6- 016333-2).

Hitasíritar utan á frauðplastkassa til hitakortlagningar kælikeðja. 

Í yfirstandandi tilraun er nákvæmur samanburður gerður á þeim hitasveiflum, sem afurðir verða fyrir við flutning  frá Dalvík til Bremerhaven, með flugi annars vegar og skipi hins vegar.  Hita- og rakastig gegnum flutningakeðjuna er kortlagt með 24 – 29 síritum utan og innan í kössum hverrar sendingar og fæst þannig heildstæð mynd af því hitaálagi, sem umbúðir verða að vera færar um að verja þessa dýrmætu vöru fyrir.  Samfara þessu eru breytingar á gæðum metnar.  Lagt verður mat á flutningskostnað og geymsluþol afurða og þær niðurstöður notaðar til að fá vísbendingar um kosti og galla hvors flutningsmáta.

Fréttir

Matarsmiðjan á Höfn skiptir verulegu máli

Áhugaverðan pistil má nú finna á vefsvæði Ríki Vatnajökuls, www.rikivatnajokuls.is. Greinin fjallar m.a. um hvernig hægt er að auka tekjur með því að tengja ferðaþjónustu enn frekar við grunnatvinnugreinar.

Fréttir

Kæling fyrir pökkun ferskra flaka

Hjá Matís er unnið að athugunum á áhrifum þess að forkæla afurðir fyrir pökkun með tilliti til geymsluþols afurða. Eftir því sem afurðir eru nær ákjósanlegu hitastigi við pökkun, því minni er kæliþörfin í sjálfu flutningaferlinu.

Afar mikilvægt að lækka hitastig vörunnar í litlum einingum áður en henni er pakkað því annars er hætt við hægri og ójafnri kælingu, sem reyndin er í tilfelli stórra pakkaðra vörueininga. Forkælingaraðferðirnar, sem eru notaðar í tilraununum, eru vökvakæling og roðkæling og er afurðum pakkað í frauðplastkassa að lokinni snyrtingu og skurði í hnakkastykki. Kassarnir eru geymdir við hitastýrðar aðstæður þar sem líkt er eftir raunverulegum flutningaferlum. Fylgst er með breytingum á gæðum og skemmdarferlum með reglulegu millibili. Niðurstöður verða síðan notaðar til að meta geymsluþol afurða sem pakkað hefur verið eftir eða án forkælingar.

Þessar forkælingartilraunir nýtast tveimur AVS verkefnum, þ.e. Samþættingu kælirannsókna (R 061-06) og Hermun kæliferla (R 037-08) og eru einnig hluti af EU-verkefninu Chill-on (FP6- 016333-2). Í fyrra verkefninu nýtast þær til markvissari ferlastýringar og útgáfu leiðbeininga fyrir iðnaðinn.  Í Hermun kæliferla er meiri áhersla lögð á flutningaferlana og tengsl forkælingar við hönnun og notkun umbúða í flutningaferlum.  Niðurstöður forkælingartilraunanna koma að gagni við þróun varmaflutningslíkana fyrir ferskan fisk í flutningi, sem nýtast til endurbóta á flutningaferlum. 

Fréttir

Kynning á lokaverkefnum nemenda Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 5 mars hefjast kynningar á lokaverkefnum nemenda Sjávarútvegsskólans. Nemendur á gæðasérfræðilínunni kynna sín verkefni kl. 9:00 og nemendur á fiskistofnmats-sérfræðilínunni kl. 13:00. Kynningarnar á fimmtudaginn verða haldnar í fundarsalnum á 1 hæð, Skúlagötu 4.

Gert er ráð fyrir að hver nemandi fái 20 mín til að kynna verkefni sín, auk þess sem 5-10 mín eru leyfðar í fyrirspurnir eftir hverja kynningu.

Allir eru velkomnir.

Dagskráin er sem hér segir:

The fellows specializing in Quality Management of Fish Handling and Processing will present their projects on Thursday morning, 5th of March 2009, and those specializing in Stock Assessment will be in the afternoon the same day. Presentations in Reykjavik, will be in the main meeting room on the first floor. Fellows will give a 20 minute presentation, leaving 5-10 minutes for questions and discussion. The schedule is as follows:

Thursday 5th March – Quality Management of Fish Handling and Processing (PRESENTATIONS IN REYKJAVIK)


9:00-9:30  Mathew Ndasi Ngila  -Kenya
Project
: Environmental study and monitoring of undesirable chemical substances in fish/seafood: A proposal for Lake Victoria, Kenya.
Supervisors
: Helga Gunnlaugsdottir and Sasan Rabieh, MATIS

9:30-10:00        Celina Anibal Malichocho  – Mozambique
Project
: Effect of different temperature on growth of Vibrio Cholerae, total viable Microorganisms and Hydrogen sulphide (H2S) producing bacteria.
Supervisors
: Hannes Magnusson and Pall Steinthorsson, MATIS,

10:00-10:30        Ngo Van Sinh  -Vietnam
Project
: Quality control in processing and distribution of Frozen Basa catfish (Pangasius hypophthalmus)/fillet in Vietnam and compared to similar process in Iceland.
Supervisor
: Margeir Gissurarson, MATIS

10:30-10:40        Break

10:40-11:10        Fanuel Kapute  -Malawi
Project
: Fish Quality and Processing in Malawi: Responding to challenges through institutional capacity building. (A case study of the Aquaculture and Fisheries Science Department, Bunda College of Agriculture, Malawi) 
Supervisor: Margeir Gissurarson, MATÍS.“

11:10-11:40    Qiancheng Zhao  – China
Project: Effect of Saithe protein isolate injection on the quality of Saithe (Pollachius virens) fillets during storage at chilling and frozen conditions. 
Supervisors: Kristin A. Thorarinsdottir, Irek Klonowski and Sigurjon Arason, MATIS

11:40-12:00    Won Sik An  -DPR Korea
Projec
t: Effective storage conditions on salted herring with cold brine based on domestic demand and current capacity of cold storage in DPR Korea. 
Supervisors: Kristin A. Thorarinsdottir, Asbjorn Jonsson and Irek Klonowski, MATIS

Thursday 5th of March – Stock Assessment (PRESENTATIONS IN REYKJAVIK)

13:00-13:30        Vida Samantha Osei  – Ghana
Project:
 Evaluation of the sampling scheme for Scomber japonicus in the inshore fishery in Ghana.
Supervisor
: Gudmundur Thordason, Marine Research Institute (MRI)

13:30:14:00        Thong Ba Nguyen   – Vietnam
Project
: Assessment of demersal fishery resources of the Southeast and Southwest waters of Vietnam, based on bottom trawl surveys.
Supervisors
: Bjorn Aevar Steinarson, Marine Research Institute (MRI)

14:00-14:30        Maria Fiasoso Sapatu  – Samoa
Project
: An Assessment of Samoa’s monitoring and resources of reef and lagoon associated finfish.
Supervisors
: Einar Hjörleifsson, Marine Research Institute (MRI)

Vonumst til að sjá sem flesta
Með bestu kveðju,
Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Fréttir

Mörg hundruð evrópskir nemar vildu koma til Íslands!

Vel á fjórða hundrað erlendra nema sóttu um að komast á námskeið á Íslandi!

Dagana 10. til 18. mars verður haldið á Íslandi alþjóðlegt námskeið á vegum BEST á Íslandi. BEST (Board of European Students of Technology) eru evrópsk samtök háskólanema í tæknigreinum.

Alls eru 81 evrópskir háskólar í 30 löndum aðilar að samtökunum, en íslenskt aðildarfélag var stofnað af nemendum Háskóla Íslands árið 2005. Megintilgangur BEST er að bjóða nemendum aðildarháskólanna upp á aukreitis menntun í formi stuttra námskeiða ásamt því að gefa nemendum tækifæri á að kynnast menningu og tungumálum annarra þjóða.

Námskeiðið sem haldið verður á Íslandi í næstu viku ber yfirskriftina “Eat that! Innovation in food technology and nutrition“ og er haldið af BEST í nánu samstarfi við Matís (www.matis.is) og Háskóla Íslands en auk þeirra koma Háskólinn í Reykjavík, Landspítali Háskólasjúkrahús, Marel og Lýsi að verkefninu.

Á námskeiðinu verður fjallað um „næringu í nýsköpun“ frá A til Ö. Á meðan á vikulangri dvöl stendur munu evrópsku nemendurnir hlýða á fyrirlestra hjá prófessorum við Háskóla Íslands, starfsmönnum Matís og starfandi verkfræðingum, heimsækja íslensk fyrirtæki og fara í vettvangsverðir. Einnig munu nemendurnir meðal annars heimsækja Gullfoss og Geysi og Jökulsárlón.

Þess má geta að þeir nemendur sem komust að á þessu námskeiði þurfa einungis að greiða fyrir hluta fargjalds til og frá landinu en styrkur var fenginn frá Evrópu unga fólksins (Youth in Action) fyrir öllum öðrum kostnaðarliðum námskeiðsins fyrir hvern þátttakanda.

Gríðarlega mikill áhugi var fyrir námskeiðinu en alls sóttu á fjórða hundrað evrópskir háskólanemar um þátttöku. Þar sem fjöldi þátttakanda var takmarkaður komust einungis 22 til Íslands að þessu tilefni. Fjöldi umsókna sýnir að mjög mikill áhugi er hjá menntuðum evrópskum ungmennum að læra af Íslendingum um matvæla- og næringarfræði ásamt því að kynnast landi og þjóð.

Vinsamlegast hafið sambandi við forseta BEST á Íslandi fyrir nánari upplýsingar og viðtöl.
Berglind Rós Gunnarsdóttir
Forseti BEST á Íslandi
Board of European Students of Technology
www.BEST.eu.org

S: 866-3650
Netfang:
 berglind@bestreykjavik.com

Fréttir

Samantekt fyrri rannsókna á loðnuhrognum – skýrsla Matís

Út er komin ný skýrsla hjá Matís. Skýrslan er samantekt fyrri rannsókna á loðnuhrognum.

Á undanförnum árum og áratugum hafa verðið gerðar ýmsar mælingar og rannsóknir á loðnuhrognum hér á landi hjá Matís ohf/Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Hér er fyrst og fremst um að ræða rannóknir á örverum, hrognafyllingu og vatnsinnihaldi. Í skýrslunni verður fjallað um örverurannsóknir sem gerðar voru á vertíðinni 1984, örverumælingar á tímabilinu 2000-2008 og mælingar á vatnsinnihaldi og hrognafyllingu 1984-2008.

Upplýsingarnar sem þarna má finna eru spennandi og vel viðeigandi þessa dagana enda mönnum tíðrætt um mikilvægi loðnunnar fyrir hagkerfi landsins.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson, margeir.gissurarson@matis.is.

Fréttir

Hrönn Ólína Jörundsdóttir ver doktorsritgerð sína í umhverfisefnafræði

Starfsmaður Matís, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, varði doktorsritgerð sína “Útbreiðsla og breytingar í magni þrávirkrar lífrænnar mengunar í langvíueggjum frá Norðvestur Evrópu” (Temporal and spatial trends of organohalogens in guillemot (Uria aalge) in North Western Europe) þann 6. febrúar 2009 við Umhverfisefnafræðideild Stokkhólmsháskóla.

Ritgerðin fjallar í stórum dráttum um þrávirka lífræna mengun á Norðurlöndunum, t.d. PCB og skordýraeitrið DDT ásamt niðurbrotsefnum þeirra, sem mæld voru aðalega í langvíueggjum. Efnin voru mæld í eggjum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð til að fá landfræðilegan samanburð.

Niðurstöður sýna að lífríki Norður Atlantshafsins er minna mengað en lífríki Eystrasaltsins, en þó reyndust ýmiss mengandi efni vera í svipuðum styrk á þessum svæðum og þarf að rannsaka nánar af hverju það stafar. Flúoreruð alkanefni, sem koma m.a. úr útivistarfatnaði, hafa nýlega fundist í umtalsverðu magni í náttúrunni mældust í langvíueggjum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð og voru í einstaka tilfellum í hærri styrk í eggjum frá N-Atlantshafi en í Eystrasaltinu. Brómeruð eldvarnarefni, sem m.a. eru notuð í raftæki, voru allstaðar mælanleg og virðist vera hægt að greina mismunandi uppruna efnanna sem berast til Norður Atlantshafsins, annars vegar frá N-Ameríku og hins vegar frá Evrópu.

Einnig var gerður samanburður á magni mengandi efna í sjö íslenskum fuglategundum, þ.e. kríu, æðarfugli, langvíu, fýl, sílamáfi, svartbak og skúmi. Skúmurinn reyndist hafa umtalsvert háan styrk mengandi efna, m.a. PCB sambanda og skordýraeitursins DDT, og er mikilvægt að rannsaka heilsuástand skúmsins.

Ljóst er að hluti þeirrar mengunar sem mælist í íslensku lífríki berst með haf- og loftstraumum til Íslands en hins vegar er umtalsverður hluti tilkominn vegna notkunar Íslendinga á varningi sem inniheldur margvísleg mengandi efni.

Leiðbeinendur voru dr. Åke Bergman prófessor í umhverfisefnafræði við Háskólann í Stokkhólmi, dr. Anders Bignert prófessor, Náttúrugripasafn Svíþjóðar og dr. Mats Olsson prófessor emeritus. Andmælandi var Dr. Derek Muir, Environment Canada.

Prófnefndina skipuðu þau dr. Kristín Ólafsdóttir, dósent við Háskóli Íslands, dr. Björn Brunström, prófessor við Háskóla Uppsala og dr. Conny Östman, dósent við Háskóla Stokkhólms.

Frekari upplýsingar veitir Hrönn, hronn.o.jorundsdottir@matis.is.

Fréttir

Málþing MARIFUNC á Íslandi 19. mars nk

Þann 19. mars nk. á Hótel Hilton-Nordica mun 2. málþing MARIFUNC fara fram. Skipuleggjandi málþingsins er Matís.

Um er að ræða hálfs dags málþing þar sem farið verður yfir þau vísindalegu gögn sem til eru um sjávarfang og heilsu, notkun og gæði fitu úr sjávarfangi og próteina úr sjávarfangi til framleiðslu á markfæði (functional foods) og hver viðbrögð neytenda eru við markfæði úr sjávarfangi.

Dagskrá málþingsins:

Hvað: 2 málþing Marifunc verkefnisins um Sjávarfang og heilsusamleg efni – Hver er staða mála gagnvart neytendum og fyrirtækjum?’
Hvenær: 19. mars 2009, 8.30 – 12.45
Hvar:  Hótel Hilton-Nordica. Suðurlandsbraut 2, Reykjavík.  Fundarsalur  E.

Skráning: senda þarf tölvupóst á Marifunc.registration@matis.is. Fram þarf að koma nafn þátttakanda, netfang og hvaðan þáttakandinn er (borg/land). Einnig er hægt að skrá sig á staðnum. Aðgangur er ókeypis.
Skráningarfrestur: þriðjudagur 17. mars.

Bakgrunnur málþingsins:
Á málþinginu verður farið yfir rannsóknir um áhrif sjávarfangs og efnisþátta í sjávarfangi á heilsu.  Einnig verður fjallað um notkun og gæði feitmetis og próteina sem notuð eru sem efnisþættir í fæðubótarefni og markfæði.  Erindin á málþinginu byggja að niðurstöðum verkefnisins Nordic Network for Marine Functional Food (MARIFUNC)  á vegum Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Málþingið er skipulagt af Matís ohf. (www.matis.is) og Rannsóknastofu í næringarfræði (www.rin.hi.is).

Dagskrá (öll erindi verða á ensku):8.30 Skráning og kaffi
9.00  Opnun og kynning. Sjöfn Sigurgísladóttir,  forstjóri Matís ohf., Ísland.
9.10  Kynning á  MARIFUNC. Joop Luten, Coordinator MARIFUNC, Nofima Marine, Noregur.
9.25 Sjávarfang og heilsa- Hvað er  að frétta ? Alfons RamelRannsóknastofu í næringarfræði, Háskóli Íslands, Landspítali.
10.25 Kaffihlé
10.45 Áskoranir við notkun  fitu úr sjávarfangi í markfæði og fæðubótarefni.  Nina Skall Nielsen , DTU Aqua, Danmörk
11.30 Fiskprótein og peptíðvörur- vinnsluaðferðir, gæði og vinnslueiginleikar. Guðjón Þorkelsson/ Hörður Kristinsson,  Matis ohf., Ísland.
12.15 1-2-3-4 Heilsa. Ola Eide, Olivita, Noregur.
12.35 Málþingslok

Hér er áhugaverður tengill um efni málþingsins.

Frekari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri, gudjon.thorkelsson@matis.is.

Fréttir

Matís á Framadögum 2009

Framadagar 2009 verða haldnir föstudaginn 20. febrúrar í húsakynnum Háskólabíós.

Vegna gífurlegra breytinga í íslensku atvinnulífi og efnahagsástandi má gera ráð fyrir met þáttöku meðal nemenda þetta árið. Eru Framadagar því kjörin vettvangur fyrir fyrirtæki til að ná til framtíðar starfskrafta þjóðarinnar með því að kynna sig og sína starfsemi og ná þannig fram ákveðnu forskoti á samkeppnis aðila í kappinu um hæfasta starfsfólkið.

Frekari upplýsingar má fá á www.framadagar.is og hjá Jóni Hauki Arnarsyni, jon.h.arnarson@matis.is eða Steinari B. Aðalbjörnssyni, steinar.b.adalbjornsson@matis.is.

IS