Fréttir

Birting ritrýndrar greinar frá vísindamönnum Matís

Matís stýrir viðamikilli samevrópskri rannsókn um gæðaeinkenni þorsks, viðhorf og smekk neytenda. Markmið verkefnisins var að kanna tengsl milli gæðaeinkenna, smekks og viðhorfa neytenda í fjórum Evrópulöndum (Íslandi, Danmörku, Írlandi og Hollandi).

Þjálfaður skynmatshópur Matís mat gæðaeiginleika þorskafurða sem voru mismunandi að uppruna (villtur/eldisþorskur), ferskleika (stutt og lengri geymsla), og geymsluaðferð (ferskur, frosinn, pökkun í loftskiptar umbúðir). Á sama tíma smökkuðu tæplega 400 neytendur í fjórum löndum sömu afurðir og gáfu einkunn í samræmi við hversu góður/vondur þeim fannst fiskurinn. Viðhorf og neysluhegðun neytendanna var einnig könnuð.

Þorskafurðirnar höfðu mjög ólík gæðaeinkenni, t.d var eldisþorskur mun ljósari en villtur þorskur, auk þess að hafa kjötkennda áferð, lykt og bragð. Mikill munur reyndist vera á fiskneyslu (bæði tíðni og fiskafurðir) og kauphegðun milli landa og eftir aldri. Einnig voru viðhorf (tengd fiski og fiskneyslu) mismunandi, sem og smekkur fyrir þorskafurðum. Til að mynda borðuðu Íslendingar mun meiri fisk, versluðu frekar hjá fisksölum, voru sannfærðastir um hollustu fisks, síst óöruggir við fiskinnkaup og höfðu hvað best aðgengi að fiski. Ungir neytendur borðuðu almennt minni fisk og voru almennt neikvæðari í sambandi við fisk og fiskneyslu.

Í greininni einnig fjallað um leiðir til að auka fiskneyslu ólíkra hópa neytenda. Niðurstöður þessarar rannsóknar birtust fyrir stuttu í Food Qulity and Preference og má sjá greinina hér.

Kolbrún Sveinsdóttir, Emilía Martinsdóttir, Ditte Green-Petersen, Grethe Hyldig, Rian Schelvis, Conor Delahunty. 2009. Sensory characteristics of different cod products related to consumer preferences and attitudes. Food Quality and Preference, 20 (2) 120-132.

Fréttir

Vaxtarsprotar og nýsköpun – Matís sýndi afrakstur

Tækniþróunarsjóður Rannís stóð fyrir kynningu á starfsemi sprotafyrirtækja í Ráðhúsi Reykjavíkur föstudaginn 9. og laugardaginn 10. janúar.

Kynningin hófst með ávarpi Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra kl. 14:00. Sprotafyrirtæki kynntu starfsemi sína í kjölfarið og stóð sú kynning yfir bæði á föstudag og laugardag. Á laugardag kl.13:00 var svo sérstök kynning á brúarsmíði milli sjóða og sprota og gerð var grein fyrir opinberum stuðningi við nýsköpun.

Tækniþróunarsjóður
Tækniþróunarsjóður
Tækniþróunarsjóður


Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í Ráðhúsið og var það samdóma álit þeirra sem komu að kynningunni að hún hefði tekist afskaplega vel. Hér má sjá nokkra myndir frá kynningu Rannís.

Tækniþróunarsjóður
Tækniþróunarsjóður

Sjá nánar hér: www.rannis.is/

Fréttir

SEAFOODplus klasaverkefninu fer að ljúka – Matís með stórt hlutverk

Fyrir stuttu var 5. opna ráðstefna í SEAFOODplus klasaverkefninu haldin í Kaupmannahöfn. SEAFOODplus er eitt af s.k. klasaverkefnum í 6. rannsókaáætlun ESB og var ýtt úr vör í byrjun árs 2004. Af því tilefni kom út vísindarit, “Improving seafood products for the consumer,” þar sem margir frá Matís lögðu til efni.

SEAFOODplus var eitt af s.k. klasaverkefnum í 6. rannsókaáætlun ESB og jafnframt eitt stærsta einstaka rannsóknarverkefni sem ESB hafði fjármagnað á þeim tíma til rannsókna á fiski og sjávarfangi (26 m ?). Meginmarkmið S-plus var að efla heilsufar Evrópska neytenda með því að hvetja til aukinnar fiskneyslu og minnka þannig áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

Verkefnið skiptist í tvo meginhluta og var stærri hlutinn helgaður Rannsókna- og þróunarverkefnum (Research and Technology Development – RTD), sem skiptust í fimm meginflokka. Einn þessara flokka var tileinkaður neytendum (Seafood and consumer behaviour and well-being). Fyrrnefnt vísindarit er einmitt samantekt greina úr þessum málaflokki.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf – nú Matís), ásamt ýmsum helstu matvælarannsóknarstofnunum í Evrópu,  tók þátt í að skipuleggja verkefni á sviði vinnslu, gæða og öryggi sjávarfangs þar sem áhersla var lögð á að bæta heilsu og vellíðan evrópskra neytenda. Íslenskir aðilar tóku þátt í rúmlega þriðjungi rannsóknaverkefnanna og stjórnuðu tveimur þeirra.  Guðjón Þorkelsson sviðsstjóri hjá Matís stjórnar einu þeirra, Propehealth.

Hinn hluti SEAFOODplus  beindist að yfirfærslu þekkingar til iðnaðar og kynningu afraksturs rannsókna  til iðnaðarins (Industry, Training and Dissemination ITD).  Má geta að Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, er samræmingaraðili (coordinator) 4. hluta ITD SEAFOODplus, sem ber yfirskriftina Creation of New Business Activities, auk þess sem hún situr í framkvæmdastjórn verkefnisins.

Eins og áður segir kom nýlega út veglegt vísindarit “Improving seafood products for the consumer,” bók upp á tæpl. 600 bls, sem inniheldur mikinn fjölda greina sem með einum eða öðrum hætti tengjast SEAFOODplus verkefninu.  Bókin er gefin út af Woodhead Publishing Limited í Cambridge í Englandi og skiptist í sex hluta.

Margir starfsmenn Matís eiga greinar í bókinni, enda tók Rf / Matís drjúgan þátt í þessu samevrópska rannsóknarverkefni, eins og áður kom fram. Nánari upplýsingar um bókina má finna hér.

Fréttir

Birting ritrýndrar greinar frá vísindamönnum Matís

Í einu grammi af jarðvegi eru miljarðar af örverum sem fæstar er hægt að einangra en með því að einangra DNA beint úr slíkum sýnum er hægt að nálgast gen og hagnýta þau í iðnaði.

Matís-Prokaria var eitt af fyrstu fyrirtækjum í Evrópu sem styrkt var af Evrópusambandinu til að þróa aðferðafræði til leitar ensímgena beint úr umhverfissýnum. Þetta verkefni var í fimmtu rammaáætlun Evrópusambandsins og kallaðist Thermogen. Vinnan í þessu verkefni fólst í að leita að sterkjusundrandi og sterkjuummyndandi ensímgenum úr hverasýnum með nýrri tækni sem þróa átti. Auk Matís-Prokaria komu einungis tveir rannsóknahópar að verkefninu sem stjórnað var af Guðmundi Óla Hreggviðssyni og Ólafi H. Friðjónssyni. Niðurstöður verkefnisins voru mjög mikilvægar við þróun þeirrar aðferðarfræði sem mikið af starfsemi Matís-Prokaria byggir á í dag við ensímgenaleit. Í verkefni voru útskrifaðir meistara- og doktorsnemar bæði hér og erlendis. Aukin skilningur fékkst á eðli og eiginleikum sterkjumbreytandi ensíma. Sumt er verðmæt innanhússvitneskja en þrjár greinar hafa verið birtar byggðar á niðurstöðum verkefnisins og er ein nýbirt og fjallar hún um eiginleika ákveðins undirhóps sterkjuensímanna sem leiddir voru í ljós í  þessari rannsókn. Greinina má finna í heild sinni hér.

Fréttir

Matís sendir ekki út jólakort í pósti en styrkir Kraft

Líkt og undanfarin ár þá sendir Matís ekki út hefðbundin jólakort heldur eingöngu kort á rafrænu formi. Þess í stað styrkir Matís Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Er það ósk Matís að styrkurinn komi að góðum notum og styðji enn frekar við það frábæra starf sem nú þegar fer fram hjá Krafti.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Krafts, www.kraftur.org.

Fréttir

Matís tekur þátt í evrópska samstarfsverkefninu EuroFIR

Tilgangurinn með EuroFIR (European Food Information Resource) er að bæta gögn um efnisinnihald matvæla. Verkefnið miðar að því að leita leiða til að miðla upplýsingunum með gagnagrunnum og á netinu.

Þannig styrkist samkeppnishæfni smárra og stórra matvælafyrirtækja í Evrópu. Nú er unnið að því að þróa staðla, gæðamatskerfi og skilgreiningar á fæðutegundum og samhæfa gagnagrunna. Starfið auðveldar Íslendingum að fá gögn frá öðrum Evrópulöndum, ekki síst með rafrænum hætti. Afar mikilvægt er að Íslendingar taki áfram þátt í starfinu þegar verkefninu lýkur en evrópskt félag tekur við hlutverki EuroFIR á næsta ári.

Fjöldi vörumerkja fyrir matvæli á Vesturlöndum skiptir nú tugum þúsunda. Oft þarf að leggja fram upplýsingar um næringargildi þessara vara og matvælaiðnaðurinn þarf að finna hagkvæmar leiðir til að láta þessar upplýsingar í té. Afrakstur EuroFIR verkefnisins leiðir til þess að iðnaðurinn fær áreiðanlegri gögn en áður og þau eru skilgreind með sama hætti í Evrópulöndum.

Á vegum Matís er nú unnið að því að endurskipuleggja ÍSGEM gagnagrunninn um efnainnihald matvæla til að uppfylla þær gæðakröfur sem hafa verið settar fram í EuroFIR verkefninu Gagnagrunnurinn hefur í rúmt ár verið aðgengilegur á vefsíðu Matís. Þar er að finna upplýsingar um næringarefni í fjölmörgum fæðutegundum. Á vefsíðu EuroFir er að finna upplýsingar fyrir matvælaiðnað um heilsufullyrðingar, staðla fyrir gögn og skýrslur.

EuroFir verkefninu lýkur á árinu 2009 og er þegar farið að vinna að því að evrópskt félag (non-profit organization) haldi áfram starfinu við að samhæfa gagnagrunna, uppfæra verklagsreglur og miðla þekkingu. Óskað hefur verið eftir því að þátttakendur í EuroFIR verkefninu haldi samstarfinu áfram innan hins nýja félags.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is.

Grein þessi birtist nú síðast á bls. 5 í Íslenskum iðnaði, fréttabréfi Samtaka Iðnaðarins.

Fréttir

Matís fagnar góðum sölusamningi á ensímum

Starfsemi á sviði líftækni og lífvirkra efna hefur aukist til mikilla muna um allan heim.

Vísindamenn hafa í auknu mæli lagt áherslu á rannsóknir á þessu sviði enda er talið að niðurstöður þeirra geti gegnt mikilvægu hlutverki í baráttunni við heilbrigðisvandamál nútíðar og framtíðar. Auk þess telja fræðimenn að leysa megi hluta orkuvanda heimsins með líftækni. Eitt dæmi um ávinning af líftækninni og lífvirkum efnum eru fiskpeptíð sem geta hugsanlega lækkað blóðþrýstinn hjá fólki. Lækkun háþrýstings er mikið kappsmál enda kostnaður heilbrigðiskerfisins verulegur vegna hjarta- og æðasjúkdóma en háþrýstingur er einmitt einn áhættuþátta þessara sjúkdóma (sjá einblöðung um þetta efni hér).

Prokaria hefur undafarin tvö ár verið í samstarfi við erlent efnafyrirtæki sem hefur sviði líftækni og lífvirkra efna. Nú er svo komið að þetta fyrirtæki keypti af Matís mikilvæg ensím sem það ætlar að nýta í orkurannsóknir sínar. Söluverðmæti þessa samnings er hvorki meira nei minna en 60.000 evrur!

Ekki slæmt þegar þörf er á fjármunum inn í íslenskt hagkerfi!

Skemmtilegt er einnig frá því að segja að Matís-Prokaria hefur nú sett á laggirnar sölueiningu á ensímum og öðrum lífvirkum efnum og má nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu Prokazyme, www.prokazyme.com.

Matís-Prokaria á von á því að vel gangi að selja ofangreindar vörur í gegnum þetta nýja sölukerfi.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Jóhannsson, ragnar.johannsson@matis.is, og í síma 422-5000.

Fréttir

Okkar starfsemi – allra hagur!

Matís auglýsir eftir verkefnastjóra á svið fiskeldis á starfstöð fyrirtækisins á Ísafirði. Auglýsing þess efnis birtist í MorgunblaðinuFréttablaðinu og Bæjarins besta á Ísafirði.

Starfssvið: Að efla starfsemi Matís á sviði fiskeldis og þróa ný atvinnutækifæri.

Í starfinu felst m.a:

  • Þróun á eldistækni
  • Hönnun og þróun á vinnsluferlum
  • Efling verkefna hjá Matís á Vestfjörðum í tengslum við atvinnulífið

Hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun í raunvísindum s.s. verkfræði eða tæknifræði; framhaldsmenntun er kostur
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Lipurð í mannlegum samskiptum
  • Metnaður til að ná árangri í starfi

Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla, skal senda til Matís ohf., Borgartúni 21, 105 Reykjavík, eða á netfangið atvinna()matis.is.

Umsóknarfrestur er til og með 23. desember nk. Viðkomandi þarf að geta hafið störf í janúar 2009.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Jón H. Arnarson, mannauðsstjóri, jon.h.arnason@matis.is, og í síma 422-5000.

Fréttir

Meistaravörn í Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri – Matís styrkir verkefnið

Þriðjudaginn 16. desember heldur Guðbjörg Stella Árnadóttir meistaravörn sína á auðlindasviði. Vörnin fer fram kl. 13:00 og verður í stofu K201 á Sólborg.

Verkefni Stellu ber heitið „The effects of cold cathode lights on growth of juvenile Atlantic cod (Gadus morhua L.): use of IGF-I as an indicator of growth”.

Verkefnið var hluti af stærra verkefni, „Þróun iðnaðarvædds þorskeldis: Stjórn vaxtar og kynþroska með háþróuðum ljósabúnaði“ sem styrkt var af AVS sjóðnum og var samstarfsverkefni Matís ohf., Hafrannsóknarstofnunar, Hraðfrystihússins Gunnvarar hf., Háskólans í Gautaborg, Háskólans að Hólum, Háskólans á Akureyri, Matís-Prokaría og Náttúrustofu Vestfjarða.

Meistaraverkefni Guðbjargar Stellu var styrkt af Matís ohf., AVS-sjóðnum, Landsbankanum og Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur.

Ljóslota er einn af þeim umhverfisþáttum sem hefur hvað mest áhrif á vöxt og kynþroska þorsks líkt og hjá öðrum fiskitegundum. Nýlegar rannsóknir benda til að unnt sé að auka vaxtarhraða þorsks með því að nota ljósastýringu til þess að lengja dag yfir haust og vetur. Í þessari rannsókn voru þorskseiði alin í kerjum með nýrri ljósatækni (cold-cathod lights; CCLs) frá því að þau voru um 10 grömm að þyngd. Með lýsingunni voru seiðunum skapaðar sérstakar umhverfisaðstæður mjög snemma á lífsferlinum sem hugsanlega geta aukið næmni fyrir ákveðnum bylgjulengdum ljósa þegar seiðin eru síðar á lífsferlinum flutt í ljósastýrðar sjókvíar. Rannsökuð voru áhrif ljósanna á vöxt seiðanna og styrk IGF-I (insúlín-líkur vaxtarþáttur-I) í blóði.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að meðhöndlun með CCL ljósum hafi ekki áhrif á vöxt eða lifun þorsksseiða fyrsta árið í eldi. Niðurstöður sýna ennfremur að mögulegt er að mæla magn IGF-I í blóði, en ekki reyndist vera samband á milli vaxtarhraða og styrks IGF-I í blóði þorsks á þessu þroskaskeiði. Niðurstöður benda jafnframt til þess að meðhöndlun með CCL ljósum á fyrstu stigum eldisins hafi jákvæð áhrif með tilliti til beinagrindargalla sem hafa verið vandamál í seiðaeldi þorsks.

Leiðbeinendur og umsjónaraðilar verkefnisins voru Rannveig Björnsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri/deildarstjóri Matís ohf., Dr. Þorleifur Ágústsson verkefnastjóri Matís ohf., Prófessor Björn Þrándur Björnsson við fiskalífeðlisfræðideild Háskólans í Gautaborg og Dr. Helgi Thorarensen, deildarstjóri fiskeldisdeildar Háskólans að Hólum.

Andmælandi er Dr. Logi Jónsson, dósent við Háskóla Íslands.

Fréttir

Allt að 80% vatn í sviðasultu – ÍSGEM kemur að góðum notum

Hlutfall vatns í sviðasultu sem hér til sölu er allt að 80% eftir því sem fram kemur í niðurstöðum mælinga Matís fyrir Neytendasamtökin. Súr sviðasulta er vatnsríkari en ný og reyndist vatnsinnihaldið ívið meira en áskilið er í ÍSGEM, gagnagrunni um efnainnihald matvæla(nánar um ÍSGEM).

Neytendasamtökin fengu kvörtun um að sviðasulta innihéldi of lítið af kjöti en þess meira af vatni og matarlími. Því ákváðu Neytendasamtökin að láta mæla magn vatns í fjórum tegundum sviðasulta og annaðist Matís mælingarnar.

Niðurstaðan var eftirfarandi:

SS sviðasulta
75,7 g/vatn í 100g

Goða sviðasulta 74,9 g/vatn í 100g

Sviðasulta SAH afurðir Blönduósi 76,1 g/vatn í 100g

Nóatúns sviðasulta súr 80,3 g/vatn í 100g

Í niðurstöðum Matís segir að súra sviðasultan sé greinilega vatnsríkari en nýja sviðasultan, enda hafi mátt sjá meira hlaup milli sviðabita í súrsuðu sultunum en hinum. Þá segir að vatnsupptaka í súrsunarferlinu geti einnig skýrt mun á vatnsinnihaldi að hluta. Gildi fyrir sviðasultu eru birt í ÍSGEM gagnagrunninum (íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla.

Gildi fyrir nýja sviðasultu eru
74,8g vatn / 100g og fyrir súra sviðasultu 77,8g vatn / 100g.

„Samkvæmt reglugerð um kjöt og kjötvörur eru kjötsultur soðnar vörur úr kjöti og öðrum hráefnum og/eða aukefnum og mynda hlaup eftir hitun. Notað er matarlím/gelatín í þessar vörur eins og fram kemur í innihaldslýsingum. Ediksýra kemur fram í innihaldslýsingu fyrir nýja sviðasultu frá SAH afurðum en ætla má að það passi ekki fyrir þessa afurð,“ segir í niðurstöðum Matís Innihaldslýsingu vantaði á umbúðir súru sviðasultunnar frá Nóatúni. „Slíkt er að sjálfsögðu ekki í samræmi við gildandi reglur, enda ber að geta innihalds í samsettum vörum eins og sviðasulta er,“ segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Fréttin birtist fyrst á heimasíðu Neytendasamtakan, www.ns.is/

IS