Fréttir

Nýsköpun í sjávarútvegi – Norrænt samstarf

Þann 12. maí Hótel Sögu við Hagatorg

Norræna nýsköpunarmiðstöðin, Norræna Atlantssamstarfið, Norræna ráðherranefndin, undir formennsku Íslands og Matís bjóða þér að taka þátt í ráðstefnu og umræðum um nýsköpun í sjávarútvegi.Helstu viðfangsefnin eru:Helstu viðfangsefnin eru:

  • Stuðningur við nýsköpun og norræn samlegðaráhrif / Innovation systems and Nordic synergies
  • Veiðafæri / Fishing gear
  • Eldi / Aquaculture
  • Framleiðsla og dreifing / Processing and distributions
  • Líftækni sjávar þ.m.t. þörungar / Marine biochemicals including Algae Technology

Á ráðstefnunni verða viðurkenndir fyrirlesarar frá Kanada og Norðurlöndunum. Hluti ráðstefnunnar verða pallborðsumræður sem gefa gullið tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum um áherslur í og stuðning við nýsköpun.

Þetta er ráðstefna sem að þú vilt ekki missa af!

Ráðstefnan verður sett af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Ráðstefnan fer fram á ensku. 

Þátttaka er ókeypis! Tekið er á móti skráningum á meðan húsrúm leyfir.

Fréttir

Alfredo Aguilar, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, í heimsókn hjá Matís

Dr. Alfredo Aguilar framkvæmdastjóri líftæknihluta Matvælaáætlunar 7. rammaáætlunarinnar ESB er nú staddur á Íslandi. Hann hefur m.a. heimsótt Matís þar sem hann hélt kynningu á rammaáætluninni sl. þriðjudag.

Dr. Alfredo fékk auk þess góða kynningu á starfsemi Matís, þá sérstaklega á líftæknihluta starfsemi fyrirtækisins, en starfsemi Matís á þessu svið er í fremstu röð í heiminum. Dr. Alfredo hélt auk þess kynningu hjá Rannís á styrkjum 7. markáætlunar Evrópusambandins til rannsókna og nýskpunar á sviði matvæla, landbúnaðar, sjávarútvegs og líftækni.

Dr. Alfredo Aguilar

Mun hann dvelja á Íslandi fram yfir helgi og mun á þeim tíma gera sér lítið fyrir og ganga á Hvannadalshnúk með starfsmönnum Matís en sú ferð verður farinn laugardaginn 2. maí.

Mikill fengur er af Dr. Alfredo hingað til lands enda er þekking hans á styrktarmálum 7. markáætlunar Evrópusambandins til rannsókna og nýskpunar á sviði matvæla, landbúnaðar, sjávarútvegs og þá sérstaklega líftækni einstök.

Fréttir

Auðkenni norrænna matvæla (ID-NorFood)

Áhugaverð ráðstefna sem Matís tekur þátt í að skipuleggja á vegum verkefnis sem styrkt er af NICe sjóðnum.

Þema ráðstefnunnar er:

Auðkenni norrænna matvæla (ID-NorFood)

Á  ráðstefnunni er fjallað um “terroir” og er þá átt við landsvæði eða hérað með sama landslagi og veðurfari sem hafi áhrif á sérstök einkenni matvæla frá staðnum. Lögð er áhersla á að skoða norræn áhrif landslags og veðurfars á einkenni norrænna matvæla einnig verður fjallað um aukið virði af merkingum matvæla m.t.t. til svæðisbundinna einkenna. 

Ráðstefnan er haldin í Osló 12. maí nk.

Meira um efnið http://www.id-norfood.life.ku.dk/

Nánari upplýsingar veitir Emilia Martinsdóttir, emilia.martinsdottir@matis.is.

Fréttir

Matís flytur starfsemi sína í nýtt húsnæði

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið, eftir að hafa lagt málið fyrir ríkisstjórn nú í morgun, að Matís ohf. flytji starfsemi sína í nýtt húsnæði um næstu áramót.

Í samræmi við það markmið að fjölga störfum í byggingariðnaði var Framkvæmdasýslu ríkisins falið að auglýsa eftir leiguhúsnæði fyrir Matís ohf. sem nú starfar á þremur stöðum víðs vegar um borgina.

Ákveðið var síðan að velja byggingarfélagið Mótás sem boðið hafði fram leigu á 3.800 fermetra húsnæði að Vínlandsleið 12, Reykjavík.  Húsnæðið sem nú er fokhelt er á þremur hæðum ásamt kjallara og mun leigusali innrétta húsnæðið og skila því fullfrágengnu að utan sem innan.  Leigusali hefur áætlað að mannaflaþörf, þ.m.t. afleidd störf við að fullgera húsnæðið í samræmi við húslýsingu Matís, séu um 200 ársverk.

Með lögum nr. 68/2006 um stofnun Matvælarannsókna hf.  heimilaði Alþingi að stofna hlutafélag um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, sbr. samstarfssamning milli Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Í athugasemdum við frumvarpið var lögð rík áhersla á að fyrirtækinu yrði gert kleift að sameina undir einu þaki starfsemi stofnananna sem verið var að sameina.

Félagið – Matís ohf. – tók til starfa 1. janúar 2007.

Fréttir

Vöruþróun og hráefnisnýting – nám fyrir hráefnisframleiðendur

Matís og HR bjóða upp á áhugavert nám fyrir hráefnisframleiðendur. Námið er stutt en hnitmiðað og nýtist bændum, smábátasjómönnum, skotveiðifólki og öðrum hráefnisframleiðendum hjá fyrirtækjum eða með eigin rekstur.

MARKMIÐ:
Markmið námsins er að efla hráefnisframleiðendur í vöruþróun og hráefnisnýtingu. Áhersla verður m.a. á vöruþróun og nýsköpun frá hráefni til neytenda. Meðal annars verður fjallað um hvernig koma má auga á tækifæri, hvernig tækifæri er flutt af hugmyndastiginu á þróunarstigið, stjórnun nýrrar þróunar og loks hvernig nýrri þróun er komið á framfæri í formi nýs vöru‐ eða þjónustuframboðs.

HVERJIR:
Námið er ætlað bændum, smábátasjómönnum, skotveiðifólki og öðrum hráefnisframleiðendum með eigin rekstur.

EFNISTÖK:
1. Markaðskönnun, 29. apríl kl. 13‐17
‐ Valdimar Sigurðsson HR

2. Lagaumhverfi og matvælaöryggi, 6. maí kl. 9‐17
‐ Franklin Georgsson og Margeir Gissurarson Matís

3. Vöruþróun og nýsköpun, 13. og 20. maí kl. 9‐17
– Marína Candi HR, Sjöfn Sigurgísladóttir og Þóra Valsdóttir Matís

4. Framleiðslu‐ og aðfangastjórnun, 27. maí kl. 9‐17
– Hlynur Stefánsson HR og Sveinn Margeirsson Matís

5. Markaðssetning eigin vöru, 3. júní kl. 9‐17
– Valdimar Sigurðsson HR, Gunnþórunn Einarsdóttir og Guðmundur Gunnarsson Matís

DAGSETNING:
Námið hefst 29. apríl og lýkur 3. júní.

VERÐ:
129.000 kr.

UPPLÝSINGAR OG SKRÁNING:
simi: 599 6200
www.opnihaskolinn.is
stjornmennt@opnihaskolinn.is
www.matis.is/opni-haskolinn

Fréttir

Þekking fyrir þjóðarbúið – glærur frá vorráðstefnu Matís

Vorráðstefna Matís var haldin 16. apríl sl. Margur áhugaverður fyrirlesarinn hélt erindi á ráðstefnunni og eru erindin nú komin á heimasíðu Matís.

Samhliða fyrirlestrum var sýning á afrakstri samstarfs Matís og fjölda fyrirtækja. Má nefna þar nefna Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Godthaab frá Vestmannaeyjum og Norðurskel svo fáein séu nefnd á nafn.

Óhætt er að segja að ráðstefnan hafi tekist vel og þeir sem sóttu hana heim orðið margs vísari.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímu J. Sigfússon setti ráðstefnuna að viðstöddu fjölmenni.

Fyrirlestrar (pdf):
Þekkingarvísitala – Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís
Nýsköpun og afrakstur – Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís
Hundruðaföld virðisaukning; eru möguleikarnir endalausir? – Hörður Kristinsson, Matís, University of Florida
Sjávarútvegur; markaðsmál, ímynd, vöruþróun og vinnsla – Kristján Hjaltason, ráðgjafi
Líftækni framtíðarinnar – Jakob Kristjánsson og Ragnar Jóhannsson, Matís
Tækifæri í  íslenskum landbúnaði – Guðjón Þorkelsson, Matís
Leiðin til lífsgæða – Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði
Hvert á að sigla til að ná í besta aflann? – Steingrímur Gunnarsson, Trackwell
Fjármögnun nýsköpunar og rannsókna í Noregi – Friðrik Sigurðsson, Sintef MRB AS
Nýting í nýju ljósi – Sveinn Margeirsson og Sigurjón Arason, Matís
Íslensk matvæli: upplifun, menning, sérstaða  – Brynhildur Pálsdóttir, Listaháskóli Íslands, Matís
Menntun í matvælum – framtíðin í faginu – Inga Þórsdóttir, Háskóli Íslands

Fréttir

Þekking fyrir þjóðarbúið! Vorráðstefna Matís 2009

Vorráðstefna Matís verður haldin fimmtudaginn 16. apríl nk.

Tjarnarsalur, Ráðhús Reykjavíkur
Þema vorráðstefnunnar er „Þekking fyrir þjóðarbúið„.
Fimmtudagur 16. apríl – 12:45-17:00

13:00-13:10 Opnun – Steingrímur J. Sigfússon, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
13:10-13:20 Þekkingarvísitala  – Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís
13:20-13:35 Nýsköpun og afrakstur – Sjöfn Sigurgísladóttir, Matís
13:35-13:50 Hundruðaföld virðisaukning; eru möguleikarnir endalausir? – Hörður Kristinsson, Matís, University of Florida
13:50-14:10 Sjávarútvegur; markaðsmál, ímynd, vöruþróun og vinnsla – Kristján Hjaltason
14:10-14:20 Líftækni framtíðarinnar – Jakob Kristjánsson og Ragnar Jóhannsson, Matís
14:20-14:30 Tækifæri í  íslenskum landbúnaði – Guðjón Þorkelsson, Matís
14:30-15:00 Kaffi og sýning
15:00-15:10 Leiðin til lífsgæða – Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði
15:10-15:20 Hvert á að sigla til að ná í besta aflann? – Steingrímur Gunnarsson, Trackwell
15:20-15:40 Fjármögnun nýsköpunar og rannsókna í Noregi – Friðrik Sigurðsson, Sintef MRB AS
15:40-15:50 Nýting í nýju ljósi – Sveinn Margeirsson og Sigurjón Arason, Matís
15:50-16:00 Íslensk matvæli: upplifun, menning, sérstaða  – Brynhildur Pálsdóttir, Listaháskóli Íslands, Matís
16:00-16:05 Menntun í matvælum – framtíðin í faginu – Inga Þórsdóttir, Háskóli Íslands
16:05-17:00 Léttar veitingar og sýning

Ráðstefnustjóri: Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Sýning stendur yfir samhliða fyrirlestrum, frá kl. 12:45-17:00.

Aðgangur er ókeypis og er ráðstefnan öllum opin.

Vinsamlegast tilkynnið þátttku á vorradstefna2009@matis.is.

Fréttir

Úr vörn í sókn – Matís í Stykkishólmi

Matís verður með kynningu á starfsemi sinni í Ráðhúsinu í Stykkishólmi í kvöld kl. 20.

Atvinnumálanefnd Stykkishólmsbæjar boðar til fundar 1. apríl. Fundurinn er hluti af fundarherferð atvinnumálanefndarinnar og mun Matís kynna starfsemi sína, tækifæri í matvælavinnslu, líftækni og matarferðamennsku til eflingar atvinnulífs á svæðinu.

Fundurinn hefst kl. 20 og er hann öllum opinn.

Frétt frá www.stykkisholmur.is

Fréttir

Miklir möguleikar eru á þróun afurða úr íslensku korni

Miklar framfarir hafa orðið í kynbótum og ræktun byggs hér á landi. Byggið hefur fyrst og fremst verið nýtt sem skepnufóður en áhugi á nýtingu þess til manneldis hefur farið vaxandi.

Það er ekki síst vegna hollustu byggsins en mikilvæg efni eins og trefjaefni eru í meiri mæli í byggi en hveiti. Einnig skiptir máli að bygg er mjög fjölhæf korntegund til matvælavinnslu.

Einn helsti veikleiki íslenskrar byggræktar er að kornið þornar ekki nægjanlega á akri og því verður að þurrka það áður en hægt er að nýta það til matvælaframleiðslu. Einnig er ræktunaröryggi minna hér á landi en víða annars staðar. Greina þarf kostnað og tekjur í byggræktinni og líta einnig á hlið matvælaiðnaðarins.

Mögulegt er að nota bygg í bökunarvörur, morgunkorn, grauta, samsetta rétti og meðlæti í stað hrísgrjóna. Úr byggi er unnið maltbygg sem notað er við framleiðslu áfengra drykkja. Einnig má hugsa sér að bygg verði notað í markfæði (e. functional foods) sem eflir heilsu. Bygg gefur matvælum hollustuímynd vegna trefjaefna og annarra hollefna sem í því eru.

Í verkefninu„ Aukin verðmæti úr íslensku byggi” var sýnt fram á að hægt er að nýta bygg með margvíslegum hætti í matvælaiðnaði. Efnainnihald byggsins var líkt því sem gerist erlendis og öryggið (e. food safety) með tilliti til örvera og aðskotaefna var fullnægjandi. Í verkefninu kom ekkert í ljós sem mælir gegn nýtingu íslensks byggs til manneldis. Niðurstöður verkefnisins nýtast við kynningu á vörum úr byggi og mat á hollustugildi þeirra. Helstu niðurstöður og ályktanir eru teknar saman hér að neðan.

Bökunariðnaður
Sýnt var fram á að notkun byggs í bökunarvörur gengur vel og hægt er að mæla með því að bökunariðnaðurinn noti bygg í framleiðslu sína. Bökunariðnaðurinn getur framleitt fjölbreytt úrval vara úr byggi. Ekki ætti að einblína á brauðin heldur framleiða einnig bökunarvörur sem geta verið að stórum hluta eða eingöngu úr byggi (flatkökur, kökur o.fl.).

Frá manneldissjónarmiði er mikilvægt að auka magn trefjaefna í fæði Íslendinga. Það er sérstaklega áhugavert að í bygginu eru vatnsleysanleg trefjaefni sem kallast beta-glúkanar. Þessi trefjaefni geta lækkað kólesteról í blóði og haft dempandi áhrif á blóðsykur. Það er því hægt að auka hollustu brauðvara með því að nota bygg í vörurnar.

Til þess að hægt verði að fullnægja mögulegum þörfum bökunariðnaðarins þarf að vera hægt að afhýða og fínmala íslenskt bygg í talsverðum mæli. Nauðsynlegt er að viðskipti með bygg fyrir bökunariðnað byggi á skilgreindum gæðakröfum. Íslenskt bygg gæti ef til vill fullnægt 10-20% af innanlandsþörfinni fyrir korn til framleiðslu á bökunarvörum.

Maltframleiðsla
Í verkefninu tókst að framleiða íslenskt byggmalt með fullnægjandi eiginleika. Koma þarf maltframleiðslu yfir á framleiðslustig. Framleiðslan þarf að hafa stöðug gæði en íslenskt bygg getur verið talsvert mismunandi eftir árum og framleiðendum. Hráefni til maltgerðar verður að vera það íslenska bygg sem er af mestum gæðum. Þróunarvinna er nauðsynleg til að koma saman nothæfum verkferlum og ná út skemmdu korni.

Áfengir drykkir
Framleiddur var bjór úr íslensku byggmalti og voru þá aðeins humlarnir innfluttir. Strangt tekið þurfa íslenskar plöntur að koma í stað humlanna ef bjór á að vera alíslenskur. Bygg og vatn eru þó mikilvægustu hráefnin til bjórgerðar. Viskíframleiðsla úr íslensku byggi er hugsanleg en hefur ekki verið könnuð. Viskíframleiðsla gerir ekki eins miklar kröfur til gæða byggsins eins og bjórgerð.

Matargerð og héraðskrásir
Bygg hentar vel í ýmsa matargerð og upplagt er að nota það í héraðskrásir þar sem byggið er ræktað. Ferðaþjónustan getur notið góðs af þessu.

Lífefnavinnsla
Bygg getur orðið hráefni í lífefnavinnslu. Hægt er að vinna beta-glúkana og aðrar fjölsykrur úr byggi. Nota mætti ensím til að kljúfa fjölsykrurnar í fásykrur sem gætu haft líffræðilega virkni. Hægt er að nota fásykrur í fleiri matvæli en beta-glúkana þar sem beta-glúkanarnir auka seigju vissra matvæla of mikið. Markfæði sem eflir heilsu gæti byggst á á beta-glúkönum úr byggi. Það gæti opnað nýja möguleika á hagnýtingu byggs til manneldis. Fleiri efnisþættir í byggi gætu haft þýðingu fyrir markfæði og má til dæmis nefna tókóferól og fjölsykrur. Beta-glúkönum er nú þegar bætt í ýmis matvæli erlendis og telja má víst að sú þróun haldi áfram.

Gæðakröfur
Mikilvægt er að fundinn verði farvegur til að þróa þær gæðakröfur sem hafa verið settar fram. Þurrkun byggsins er eitt mikilvægasta atriðið. Huga þarf að þessum þætti hjá framleiðendum. Þurrkunarstöðvar fyrir ákveðið svæði gætu verið góður kostur. Bökunariðnaðurinn gerir ákveðnar kröfur til byggmjöls en fyrir maltgerðina þarf að uppfylla aðrar kröfur.

Mikilvægt er að bygg mygli ekki, hvorki á akri né í geymslu. Sumir myglusveppir geta myndað sveppaeitur sem eru skaðleg fyrir fólk og búfé. Ekkert hefur komið fram sem bendir til sveppaeiturs í íslensku byggi. Leggja ber áherslu á að fylgjast með því hvort mygla kemur upp í korni eða mjöli og koma þá í veg fyrir notkun á afurðinni hvort sem hún er nýtt sem skepnufóður eða til manneldis.

Sérstaða
Hugsanlegt er að ýmsar tegundir sveppaeiturs myndist ekki hérlendis á akri vegna lágs umhverfishita og gæti það verið viss sérstaða fyrir íslenskan landbúnað. Rannsóknir vantar á myndun sveppaeiturs við íslenskar aðstæður.

Nægjanlegt fæðuframboð á Íslandi
Bygg og kartöflur eru einu kolvetnagjafarnir sem framleiddir eru í landinu í umtalsverðum mæli. Það getur því skipt máli að bygg sé framleitt í landinu bæði til fóðurs og matvælaframleiðslu. Ræktun byggs á Íslandi er liður í að tryggja nægilegt fæðuframboð (e. food security) fyrir Íslendinga. Áhugi á nýtingu innlendra hráefna til matvælaframleiðslu hefur einnig aukist.

Málþing í Danmörku um Norrænt korn
Ólafur Reykdal hjá Matís og Ólafur Eggertsson og Guðný Valberg á Þorvaldseyri sóttu  málþing á vegum verkefnisins Norrænt korn í norrænni matargerð (Forum for Nordic Domesticated Cereals for the New Nordic Kitchen) í Danmörku 10. og 11. mars 2009.  Verkefnið var undir áætluninni Ný norræn matargerð. Á málþinginu komu saman vísindamenn, bakarar og framleiðendur og miðluðu af reynslu sinni.

Upplýsingar frá málþinginu má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is.

Fréttir

Samanburður á hagkvæmni mismunandi flutningaferla

Útflutningsleiðir ferskra fiskafurða hafa að miklu leyti ráðist af geymsluþoli þeirra.  Stór hluti afurðanna hefur verið fluttur út með flugi til að lágmarka flutningstíma frá framleiðenda til neytanda en vegna efnahags- og umhverfissjónarmiða hafa framleiðendur í auknum mæli beint sjónum sínum að skipaflutningi á síðastliðnum árum. 

Það er því mikilvægt að leita leiða til að lengja geymsluþol ferskra afurða, m.a. með því að endurbæta umbúðir og bæta hitastýringu í öllu ferlinu frá veiðum til neytenda.   En það er fleira en beinn flutningskostnaður og vaxandi umhverfisvitund í heiminum, sem spilar inn í samkeppni skipa- og flugflutninga.  Niðurstöður AVS verkefnanna Hermunar kæliferla og Samþættingar kælirannsókna hafa nefnilega bent til greinilegs munar á stöðugleika hitastýringar í skipa- og flugflutninga, fyrrnefnda flutningsmátanum í vil. Rannsóknin er einnig hluti af EU-verkefninu Chill-on (FP6- 016333-2).

Hitasíritar utan á frauðplastkassa til hitakortlagningar kælikeðja. 

Í yfirstandandi tilraun er nákvæmur samanburður gerður á þeim hitasveiflum, sem afurðir verða fyrir við flutning  frá Dalvík til Bremerhaven, með flugi annars vegar og skipi hins vegar.  Hita- og rakastig gegnum flutningakeðjuna er kortlagt með 24 – 29 síritum utan og innan í kössum hverrar sendingar og fæst þannig heildstæð mynd af því hitaálagi, sem umbúðir verða að vera færar um að verja þessa dýrmætu vöru fyrir.  Samfara þessu eru breytingar á gæðum metnar.  Lagt verður mat á flutningskostnað og geymsluþol afurða og þær niðurstöður notaðar til að fá vísbendingar um kosti og galla hvors flutningsmáta.

IS