Fréttir

Matís hlýtur viðurkenningu

Á ráðstefnu um atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökuls um síðustu helgi var haldin Uppskeruhátíð klasans að Smyrlabjörgum á föstudagskvöldinu sem að Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélag Austur- Skaftafellssýslu stóð fyrir.

Veittar voru viðurkenningar annars vegar frá Ríki Vatnajökuls og FASK, Vitinn – öðrum leiðarljós, og hins vegar frá Ferðamálasamtökum Íslands.

Fyrir valinu hjá þeim fyrrnefndu varð Hótel Höfn sem hefur verið mikil kjölfesta í ferðaþjónustu á svæðinu.
Vitinn – öðrum leiðarljós er veittur fyrirtækjum eða einstaklingum sem með einum eða örðum hætti hafa verið öðrum aðilum í greininni leiðarljós.

Þá veittu Ferðamálasamtök Íslands viðurkenningu fyrir Faglega uppbyggingu í ferðaþjónustu og rannsóknum, viðurkenninguna afhenti Pétur Rafnsson fyrir hönd ferðamálasamtakanna en viðurkenninguna hlutu Nýheimar. Við viðurkenningunni tók Ari Þorsteinsson fyrir hönd Nýheima.

Viðurkenningin var veitt öllum þeim aðilum innan Nýheima sem annars vegar hafa með markvissu samstarfi sín á milli og hins vegar með öflugu og vaxandi samstarfi við fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælum og menningu sem og áhugasama og atorkumikla einstaklinga og frumkvöðla, skotið nýjum sterkum stoðum undir rekstur ferðaþjónustu í Ríki Vatnajökuls. Með því hefur eflst enn frekar sú öfluga ferðaþjónusta sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum og þekkt er á landsvísu fyrir samheldni, kjark og þor.

Samhliða þessu hefur markvisst verið unnið að því að byggja brýr til nágranna, jafnt í austri sem vestri sem og um landið þvert. Gildir það jafnt um samstarf á félagsvísu sem og á vegum einstakra fyrirtækja eða einstaklinga. Með þessu hefur verið haldið áfram að þróa þá vegferð sem frumkvöðlar fyrri ára lögðu upp í fyrir margt löngu með Árna Stefánsson hótelstjóra á Hótel Höfn í fararbroddi.

Aðilar í Nýheimum eru: (talið í stafrófsröð)
Búnaðarsamband Suðurlands
Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu
Fuglaathugunarstöð Suðausturlands
Háskólasetur á Hornafirði
Menningarmiðstöð Hornafjarðar
Matís
Nýsköpunarmiðstöð Íslands, áður Frumkvöðlasetur Austurlands
Ríki Vatnajökuls
Þekkingarnet Austurlands
Náttúrulega
Auk þessara hafa fjölmörg fyrirtæki og verkefni haft þar aðstöðu um lengri eða skemmri tíma.

Fréttir

Ensím vinnur verkið

Notkun ensíms sparar mikinn tíma við hreinsun á lifur fyrir niðursuðu, en ensímið leysir upp himnuna á yfirborði lifrarinnar og við það losna ormar sem búið hafa um sig undir henni. Fram til þessa hefur þurft að handvinna þessa snyrtingu, sem er mjög tímafrek.

Matís hefur í samstarfi við niðursuðuverksmiðjuna Ice-w ehf. og Martak ehf. unnið að hönnun og þróun á búnaði í vinnsluferli fyrir ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu, ásamt búnaði til pæklunar á lifur. Markmið verkefnisins, sem stutt er af AVS sjóðnum, er að auka arðsemi við framleiðslu á niðursoðinni lifur með því að lækka framleiðslukostnað og auka gæði afurða, ásamt því að auka sjálfvirkni framleiðslunnar.

Ensímmeðhöndlun á lifrinni gerir það að verkum að bæði tími og mannafli sparast við hreinsun á himnu og ormum af yfirborði lifrar. Aldrei verður þó komið komist hjá einhverri snyrtingu á lifrinni þar sem fjarlægja þarf æð til lifrar og galllitaða lifur, áður en ensímmeðhöndlun fer fram.

Lokið er við hönnun á búnaði og hafa verið gerðar tilraunir á vinnsluferlinu. Í grófum dráttum er vinnsluferillinn uppbyggður þannig að lifrin fer á snyrtiborð til forsnyrtingar. Lifrin er síðan mötuð inn á færiband og þar ofan í kar með ensímlausn og er lausninni hringrásað frá hliðarkari. Lifrin fer síðan með færibandi í saltpækil og þaðan í skammtara sem skammtar lifrinni í dósir. Síðan tekur við hefðbundinn niðursuða.

Niðurstöður tilrauna hafa sýnt að hægt er að auka afköstin í umtalsvert auk þess sem nýting jókst um 20%. Árið 2007 voru framleidd um 900 tonn af niðursoðinni lifur á Íslandi eða 9 milljónir dósa og verðmæti þessa útflutnings var tæpar 320 m.kr. Þessi nýja vinnsluaðferð með ensímum getur aukið þessi verðmæti um 20-30%.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Ásbirni Jónssyni verkefnisstjóra hjá Matís.

Fréttir

Haustþing Rannís – forstjóri Matís með erindi

Tækifæri í rannsóknum og nýsköpun var yfirskrift haustþings Rannís sem haldið var 11. nóvember kl. 9:00 á Grand Hótel. Menntamálaráðherra setti þingið.

Frummælendur voru Bernhard Pálsson, Kári Stefánsson, Sjöfn Sigurgísladóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Edda Lilja Sveinsdóttir og Eggert Claessen.

Hér má sjá dagskrá þingsins.

Fyrirlestur Sjafnar Sigurgísladóttur forstjóra Matís.

Fréttir

Birting ritrýndrar greinar frá vísindamönnum Matís

Matís þróar ný erfðagreiningasett byggt á endurteknum DNA stuttröðum (microsatellites) úr þorski.

Markmið verkefnisins var að þróa ný erfðagreiningasett byggð á endurteknum DNA stuttröðum (microsatellites) úr þorski. Útbúa átti 10 erfðamarkasett til notkunar í kynbótastarfi á aliþorski og einnig 20 erfðamarkasett til upprunagreininga á villtum þorski.

Auk þess nýtast þessi greiningasett til arfgerðargreininga fyrir rekjanleika og tegunda- og upprunagreininga á eggjum og lirfum í sjó og vegna vafamála á mörkuðum. Niðurstöður þessarar rannsóknar birtust fyrir stuttu í Molecular Ecology Resources og má sjá greinina hér.

Fréttir

Ráðstefna í ríki Vatnajökuls – Matís með erindi

Föstudaginn 7. og laugardaginn 8. nóvember verður haldin ráðstefna á Höfn og á Smyrlabjörgum um atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökuls.

Ráðstefnan hefst með ávarpi ferðamálastjóra Ólafar Ýrar Atladóttur. Á föstudagskvöldinu verður uppskeruhátíð ferðaþjónustunna haldin á Smyrlabjörgum og hefst með borðhaldi kl. 20.30.

Mörg áhugaverð erindi verða á dagskrá og eru fólk hvatt til þess að mæta. Fyrirlestur Guðmundar H. Gunnarssonar verkefnastjóra hjá Matís má nálgast hér.

Eins og sést á dagskránni (sjá hér) hefst ráðstefnan á föstudegi í Höfn en um kvöldið flyst ráðstefnan yfir á Hótel Smyrlabjörg þar sem haldin verður Uppskeruhátíð Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélags A-Skaftafellssýslu. Dagskrá laugardagsins mun einnig fara fram á Smyrlabjörgum.

Frítt er á ráðstefnuna en verð á uppskeruhátíðina er 4.900 kr.

Tilkynna þarf um þátttöku á ráðstefnuna og uppskeruhátíðina hjá Söndru Björgu í netfang sbs@hi.is eða í síma 470-8044 í síðasta lagi mánudaginn 3. nóvember 2008.

Mögulegt er að gista á Smyrlabjörgum en panta þarf herbergi þar, sími 478-1074.

Fréttir

Matís opnar Matarsmiðjuna á Höfn í Hornafirði

Síðastliðinn miðvikudag opnaði Matís matarsmiðju á Höfn í Hornafirði. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði smiðjuna að viðstöddu fjölmenni en vel á annað hundruð manns voru mætt.

Í kjölfar formlegrar opnunar hlustuðu gestir á nokkra stutta fyrirlestra frá starfsfólki Matís um leið og boðið var upp á veitingar framleiddar úr staðbundnum hráefnum t.d. saltfisk, folald, reykta önd, ís ofl. en Matís hefur komið að þróun, hönnun og markaðssetningu á þessum matvælum.

Matarsmiðjan er sérstaklega sett upp til að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja virðisaukandi smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni.

Á myndinni má sjá þegar Einar K. Guðfinnsson klippir á borða við formlega opnun en til verksins notaði ráðherra sérstök humarskæri. Með honum á myndinni eru Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn og Guðmundur M. Gunnarsson verkefnastjóri hjá Matís á Höfn.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Matís, www.matis.is.

Fyrirlestur dr. Harðar G. Kristinssonar frá opnuninni.

Fréttir

Aukin arðsemi veiða og vinnslu – FisHmark: íslenskur hugbúnaður

Nú er tilbúin frumgerð að hugbúnaði fyrir sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur til hagkvæmasta fyrirkomulagið í veiðum og vinnslu á fiski, getur aukið virði sjávarfangs og um leið stuðlað að auknum hagnaði fyrirtækja.

Hvernig er unnt að stjórna veiðum og vinnslu þannig að sem mest hagkvæmni og arðsemi náist út úr starfseminni í heild? Ítarlegt viðtal birtist fyrir stuttu í Viðskipablaðinu við Svein Margeirsson, deildarstjóra hjá Matís, um FisHmark hugbúnaðinn sem er algerlega íslenskur. Viðtalið má sjá hér.

Fréttir

Lokun á skiptiborði Matís dagan 4. og 5. nóvember nk.

Skiptiborð Matís verður lokað 4. og 5. nóvember vegna haustferðar starfsmanna og opnun vöruþróunarseturs á Höfn í Hörnafirði.

Beinn sími örverudeildar er 422 5116 og beinn sími efnadeildar er 422 5154. Önnur bein símanúmer starfsmanna er að finna á heimasíðu okkar www.matis.is.

Afgreiðslan í Borgartúni 21 verður einnig lokuð þessa daga en opið verður á Skúlagötu 4 og að Gylfaflöt 5.

Fréttir

Grandskoðum þann gula frá miðum í maga

Á síðastliðnum árum hefur krafa neytenda um matvöru sem framleidd er á vistvænan hátt aukist til muna og erlendir kaupendur á íslenskum fiski leggja því mikil áherslu á gæði og rekjanleika í fiskvinnslu ásamt jákvæðri ímynd um hollan og ómengaðan fisk.

Markmið verkefnisins er að safna ítarlegri upplýsingum en áður hefur verið gert um eiginleika þorsks í gegnum alla virðiskeðjuna eða allt frá miðum og í maga með nákvæman rekjanleika að leiðarljósi.

Í virðiskeðju íslenskra sjávarafurða eru gerðar fjölmargar mælingar. Margar þessara mælinga eru framkvæmdar af opinberum aðilum í misjöfnum tilgangi. Þetta verkefni er samstarf Matís, Hafrannsóknarstofnunar, Fiskistofu, fiskvinnslu Guðmundar Runólfssonar og HB Granda. Með þessu samstarfi er hægt að ná mikilli hagkvæmni með því að nýta veiði- , eftirlits- og rannsóknarferðir til sýnatöku og mælinga. Efna- og vinnslumælingar eru á ábyrgð Matís.

Verkefnið er mjög fjölþætt og er meðal annars ætlað að svara neðangreindum spurningum:

  1. Er samband á milli holdafars þorsks og fituinnihalds lifrar?
  2. Eru tengsl á milli fituinnihalds lifrar og lifrarstuðuls?
  3. Hefur fituinnihald lifrar áhrif á nýtingu þorsks í vinnslu ?
  4. Hvernig hefur kyn, aldur og kynþroski áhrif á vinnslueiginleika eins og flakanýtingu, los o.fl og hvernig má nýta slíkar upplýsingar í vinnsluspám ?
  5. Getur þorskur verið uppspretta efna sem skortir í fæðu Íslendinga ?
  6. Er magn efna ( næringarefna og óæskilegra efna) mismunandi milli veiðisvæða?
  7. Er árstíðabundinn munur á magni efna?
  8. Er munur á magni óæskilegra efna í unnum fiski og fiski sem kemur beint úr sjó ?
  9. Hvernig eru tengsl á milli magns óæskilegra efna í þorski og aldurs, kyns og búsvæðis hans ?

Á fyrsta verkefnisárinu var þorski safnað úr sjö veiðiferðum. Teknir voru þrjátíu þorskar í hvert skiptið, þeim fylgt eftir í gegn um vinnslu og í efnamælingar, ítarlegar upplýsingar um hann voru skrásettar á öllum stigum s.s. veiðistaður, stærð, aldur, þyngd lifrar, nýting, ormar o.s.frv. Auk þess eru vatnsheldni og vatn mælt í öllum sýnum og snefilefni og PCB efni í völdum sýnum. Í tveimur veiðiferðum (Hafróröllum) voru ennfremur tekin samtals 400 lifrarsýni, í þeim hefur verið mæld fita og vatn en þessar upplýsingar á m.a. að nýta til að rannsaka samband á milli holdafars þorsks og fituinnihalds lifrar.

Sýnatökur tókust vel, en það hefur reynst nauðsynlegt að fagmenn taki sýnin og framkvæmi mælingar um borð og í vinnslunni til þess að tryggja gæði þeirra gagna sem unnið er með og minnka óvissu í mælingum.

Eftir fyrsta árið er ótímabært að draga ályktanir af þeim niðurstöðum sem liggja fyrir. Gangaúrvinnslu er ekki lokið, en hún er flókin þar sem mikill fjöldi breyta kemur inn.  Mikilvægt er að nægilegur fjöldi mælinga liggi fyrir áður en ályktanir eru dregnar.  Þess má þó til gamans geta að niðurstöður benda til þess að ákveðinn munur geti verið á kynjunum þegar nýting, ormar og los er skoðað.  Virðast t.d. hrygnurnar innihalda meiri orma en hængar, en hængar mælast með meira los að meðaltali. Það verður spennandi að sjá hvort gagnaúrvinnslan sýni fram á að þetta standist eða ekki.
Verkefnisstjóri er Ásta M. Ásmundsdóttir efnafræðingur hjá Matís ohf á Akureyri.

Sjá nánar á www.avs.is.

Fréttir

Aukin verðmætasköpun úr vannýttu sjávarfangi – Umfjöllun í fréttablaðinu

Matís og MPF Inc. skrifuðu á dögunum undir samstarfssamning milli fyrirtækjanna. Samningurinn felur í sér að fyrirtækin vinni saman að sameiginlegum rannsóknum á þróun surimi úr vannýttum tegundum eins og kolmunna og loðnu. Grein um þetta birtist í Fréttablaðinu og má finna hér.

Surimi er fiskpróteinmassi sem unnin hefur verið úr fiski með ýmsum aðferðum, og er afar vinsæl vara þessa dagana. Surimi er notað í ýmsar afurðir, eins og t.d. krabbakjötslíki sem mikið er notað í sushi. Markaður fyrir surimiafurðir hefur vaxið mjög ört að undanförnu og er reiknað með að eftirspurn á þessu ári sé um 600 þúsund tonn á meðan heimsframleiðslan sé eingöngu um 480 þúsund tonn. Í ljósi þessa aðstæðna hefur verð á surimi tvöfaldast á einu ári. Matís og MPF sjá mikil tækifæri fyrir surimiframleiðslu á Íslandi, sérstaklega úr tegundum sem eru vannýttar til manneldis.

Það þarf hinsvegar að yfirstíga margar hindranir til að framleiða gæða surimi úr tegundum eins og kolmunna og loðnu. Samstarfssamningurinn felur í sér sameiginilegar rannsóknir sem taka á þessum hindrunum, eins og t.d. vinnsluaðferðum til að minnka þránunarvandamál í lokaafurð ásamt hámörkun á geljunareiginleikum vörunnar.  Matís hefur áralanga reynslu á meðhöndlun og vinnslu sjávarfangs, sem nýtist mjög vel í þessu verkefni, á meðan MPF hefur mikla reynslu á þróun og iðnaðarframleiðslu próteinafurða úr ýmsum fisktegundum.  Það er von beggja fyrirtækjanna að á Íslandi rísi arðbær surimivinnsla innan fárra ára.

Nýting vannýttra tegunda í arðbærar vörur, eins og surimi, er mjög mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg.  Í ljósi mikils skorts á þessum vörum þá er markaðurinn mjög opinn fyrir notkun nýrra tegunda í surimi.  Nú þarf að leggja mikla vinnu í nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi og fá meira fyrir okkar góða hráefni.  Þessi samningur á eftir að leggja mikið af mörkunum hér “ segir Dr. Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri hjá Matís

Nánari upplýsingar veitir: Hörður í síma 422-5063 / 858-5063.

IS