Fréttir

QALIBRA-fundur í Reykjavík; Evrópuverkefni undir stjórn Matís ohf.

Dagana 3. og 4. september var haldinn verkefnafundur í Evrópuverkefninu QALIBRA í Reykjavík.

QALIBRA, eða “Quality of Life – Integarted Benefit and Risk Analysis. Web-based tool for assessing food safety and health benefits,” skammstafað QALIBRA (Heilsuvogin á íslensku), er heiti Evrópuverkefnis, sem heyrir undir Priority 5, Food Quality & Safety í 6. Rannsóknaráætlun ESB. Um að ræða þriggja og hálfs árs verkefni sem Matís ohf stýrir.  Verkefnistjóri er Helga Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri á Matís.

Markmið QALIBRA-verkefnsins er að þróa magnbundar aðferðir til að meta bæði jákvæð og neikvæð áhrif innihaldsefna í matvæum á heilsu manna. Þessar aðferðir munu verða settar fram í tölvuforriti sem verður opið hagsmunaaðilum á veraldarvefnum.

Þátttakendur í verkefninu eru frá Íslandi, Bretlandi, Hollandi, Grikklandi, Portúgal og Ungverjalandi.

Fréttir

Forverkefni með ensímmeðhöndlun á lifur lokið á Matís – niðurstöðurnar lofa góðu

Á Matís er lokið forverkefni sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði Rannís í samstarfi við niðursuðuverksmiðjuna Ice-W ehf. Grindavík. Verkefnið fjallaði um ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu. Markmið verkefnisins var að auka arðsemi við niðursuðu á lifur með því að lækka framleiðslukostnað og auka gæði afurða.

Markmiði verkefnsisins var náð með því að þróa og prófa tækni sem fjarlægir himnu og hringorma af yfirborði lifrar með ensímum. Einnig var þróuð aðferð til pækilsöltunar á lifur fyrir niðursuðu í stað þess að setja salt beint í dósir með hráefninu, eins og gert er í dag.

Niðurstöður verkefnisins lofa góðu þar sem tókst að fækka hringormum í lifur um 80%, og mýkja himnuna verulega. Tilgangurinn með því að fjarlægja eða mýkja himnuna sem umlykur lifrina var sá að með því fæst betri og jafnari skömmtun í dósir og nýtingin eykst, auk þeirrar hagræðingar í vinnsluferlinu sem af því hlýst. Hægt er að fækka stöðugildum við hreinsun á lifrinni, ásamt því að auka afköstin um 100%, með þessari aðferð. Fengist hefur styrkur frá AVS til að vinna frekar að þessum málum.

Afrakstur og ávinningur verkefnisins felst aðallega í nýrri tækni við fjarlægingu á lifrarhimnu og hringormum, sem leiðir til endurbætts verklags og hagræðingar í vinnslunni. Pækilsöltun á lifur fyrir niðursuðu leiðir af sér betri og jafnari gæði á afurð. Í kjölfarið eykst virðisauki á niðursoðinni lifur sem skapar aukið verðmæti sjávarafurða bæði fyrir fyrirtækið og þjóðina í heild.

Verkefnisstjóri er Ásbjörn Jónsson, sérfræðingur hjá Matís.

Fréttir

Heimsókn frá Japan til Matís

Á morgun, fimmtudaginn 4. september, fær Matís til sín góða gesti. Það er 11 manna sendinefnd frá Hokkaido-eyju í Japan sem kemur hingað til lands á vegum METI, en það er skammstöfun fyrir Ministry of Economics, Trade and Industry. Hópurinn mun kynna sér starfsemi Matís, einkum líftæknisvið fyrirtækisins, og fer móttakan fram í húsnæði Líftæknisviðs að Gylfaflöt 5, Grafarvogi. Þar verða kynnt fyrir þeim ýmis verkefni sem Matís hefur unnið að undanfarið ásamt því sem fyrirtækið verður kynnt í víðara samhengi.

Auk þess að heimsækja Matís mun hópurinn kynna sér starfsemi MS, bæði í Reykjavík og Selfossi, ásamt því að heimsækja Bændasamtökin, Útflutningsráð og Japanska sendiráðið.

Sendinefndina skipa eftirtaldir:

Mr Mitsuo Izumi, Chief Technical Officer and Factory Director, Hokkaido Milk Product Co.,Ltd.
Mr Yoshinori Okada, Senior Managing Director, Obihiro Shinkin Bank.
Mr Takuma Kameda, Associate Plant Manager, NAGANUMA Ice CO.,LTD.
Mr Makoto Kawakami, Supervisor Livestock Product Section, Hokkaido Food Processing Research Center
Mr Toshio Sato, CEO, Managing Director, BETSUKAI NYUGYO KOUSYA CO., LTD.
Mr Hideyuki Nagasawa, President, National University Corporation Obihiro University of Agriculture and Verterinary Medicine
Mr Yohsinoru Nagata, Deputy Director General, Hokkaido Food Processing Research Center
Mr Tadashi Nagamura, Senior Assistant Professor, National University Corporation Obihiro University of Agriculture and Verterinary Medicine
Mr Hiroshi Nishino, Director International Exchange Department, Institute for International Studies and Training
Mr Toshihiro Hirahata, Deputy-Director International Affairs Division Industries Department, Hokkaido Bureau of Economy, Trade and Industry Ministry of Economy, Trade and Industry
Mr Kiyoshi Yamaguchi, Director Administration Bureau, National University Corporation
Obihiro University of Agriculture and Verterinary Medicine.

Fréttir

Góðir gestir hjá Matís: Joint Research Center í heimsókn

Þann 27. ágúst sl. tók Matís á móti 7 manna hópi frá Joint Research Center (JRC) en Sameiginlega Rannsóknamiðstöðin – JRC – samanstendur af nokkrum rannsóknarmiðstöðvum sem fjámagnaðar eru af 7. Rammaáætlun og ætlað er að styðja við stefnumótun, þróun og framkvæmd stefnumála Evrópusambandsins. Móttakan fór fram í húsnæði Líftæknisviðs Matís, Prokaria, að Gylfaflöt í Grafarvogi.

Hópurinn kynnti sér starfsemina og fékk til þess kynningu á fyrirtækinu frá Sjöfnu Sigurgísladóttur, forstjóra Matís, og einnig kynningu á Líftæknisviði frá Ragnari Jóhannssyni, sviðsstjóra. Að kynningunum loknum leiddi Ragnar hópinn um húsnæðið, sýndi þeim rannsóknarstofur Líftæknisviðsins og sagði nánar frá helstu þáttum starfseminnar. Að lokum kom hópurinn saman í matsal fyrirtækisins og tók óformlegt spjall, en líflegt, ásamt því að njóta léttra veitinga.

Hópinn sem heimsótti Matís að þessu sinni skipuðu meðal annarra: Elke Anklam, forstjóri Heilbrigðis- og neytendamálastofnunar EU, Roger Hurst frá Orkustofnun EU, Frank Raes frá stofnun um umhverfismál og sjálfbærni innan EU, og Thomas Barbas frá stofnun um öryggi og verndun þegna innan EU.

Fréttir

Ráðstefna um notkun kjarnspunatækni í rannsóknum á matvælum í september

Dagana 15.-17 september n.k. verður ráðstefnan 9th International Conference on the Application of Magnetic Resonance in Food Science haldin í Norræna húsinu í Reykjavík. Það er Matís sem hefur veg og vanda af undirbúningi hennar. Að sögn Maríu Guðjónsdóttur, sem hefur haft veg og vanda af undirbúningi ráðstefnunnar hafa tæplega 100 manns, víðs vegar að úr heiminum þegar boðað þátttöku sína á ráðstefnuna.

Ráðstefnan er sú níunda í röð vinsællar ráðstefnuraðar, sem haldin er á tveggja ára fresti. Þar koma helstu sérfræðingar innan kjarn- og rafeindaspunarannsókna (Magnetic Resonance) í matvælarannsóknum í heiminum í dag, saman ásamt þátttakendum frá matvælaiðnaði og fleirum. Að þessu sinni verður lögð áhersla á notkun þessarar tækni í fiski- og kjötrannsóknum og hvernig nýta megi tæknina í framleiðsluferlum matvæla almennt.

Þó svo að kjarn- og rafeindaspunarannsóknir séu ekki nýjar af nálinni hefur tæknin aðeins verið notuð við matvælarannsóknir í takmörkuðum mæli hér á landi til þessa. Með því að halda ráðstefnuna hér á Íslandi er leitast við að kynna þá miklu möguleika og kosti sem þessi tækni býr yfir fyrir íslenskum rannsóknamönnum og matvælaiðnaði og dýpka þannig skilning íslensks matvælaiðnaðar og rannsóknamanna á hegðun og þeim breytingar sem matvæli verða fyrir í framleiðsluferlum sínum.

Erindi sem flutt verða á ráðstefnunni verða einnig birt í formi vísindagreina í glæsilegu ráðstefnuriti, sem dreift verður til allra þátttakenda. Ritið er gefið út af the Royal Society of Chemistry í Bretlandi. Einnig verða öll veggspjöld sem kynnt verða á ráðstefnunni birt á heimasíðu hennar að ráðstefnunni lokinni.

Þess má geta að síðast þegar ráðstefnan var haldin, sem var í Nottingham í Englandi í júlí 2006, var Maríu boðið að flytja fyrirlestur um verkefnið “Low field NMR study of the state of water at superchilling and freezing temperatures and the effect of salt on freezing processes of water in cod mince” sem hún kynnti á veggspjaldi og var valið eitt af fjórum áhugaverðustu veggspjöldum ráðstefnunar.

Frekari upplýsingar um dagskrá og erindi ráðstefnunnar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar www.matis.is/mrinfood2008 Tekið er við skráningum og fyrirspurnum á netfangið mrinfood2008@matis.is eða í síma 422 5091 (María Guðjónsdóttir).   

Ráðstefnan er styrkt af Matís ohf., Háskóla Íslands, Nordic Marine Academy, Bruker Optics, Stelar, Woodhouse Publishing og Royal Society of Chemistry í Bretlandi.

Fréttir

Matís á Landbúnaðarsýningunni á Hellu 22.-24. ágúst

Í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands 2008 verður haldin glæsileg og viðamikil landbúnaðarsýning á Gaddstaðaflötum við Hellu dagana 22.-24. ágúst 2008. Matís mun á sýningunni kynna ýmis landbúnaðartengd verkefni sem fyrirtækið vinnur að.

Ennfremur munu þeir framleiðendur lambakjöts fá upplýsingar um könnun um áhuga á samstarfi í þróunarverkefni um reykt og þurrkað lambakjöt, sem kynnt var á ytri vef Matís fyrr í vikunni.

Loks gefur Matís krökkunum glaðning sem ætti að gagnast í skólanum, sem hefst víðast hvar í næstu viku.

Þeir sem eiga erindi austur fyrir fjall ættu því að staldra við og fylgjast með hrútaþukli og taka þátt í töðugjöldum og, koma við á sýningarbás Matís.

Fréttir

Hangikjöt: Sambærileg vara og Parmaskinka, San Daniels og Serrano?

Matís er að undirbúa verkefni um reykt og þurrkað lambakjöt og óskar eftir samvinnu við lítil, staðbundin fyrirtæki vegna þróunar reyktra og þurrkaðra afurða úr lambakjöti. Loftþurrkað lambakjöt ætti að skipa sama sess og loftþurrkuð skinka (s.s. Parma, San Daniels og Serrano) gerir í Suður-Evrópu.

Matís kannar áhuga framleiðenda á að vera með í þróunarverkefni um reykt og þurrkað lambakjöt. Verkefnið skiptist í tvennt, annars vegar fræðslu og vöruþróun sem snýr að staðbundinni matvælaframleiðslu og matarferðamennsku á Íslandi og hins vegar samstarf við aðila í Færeyjum og Noregi um þróun á loftþurrkuðum/reyktum afurðum úr lambakjöti.

Fyrsti hluti verkefnisins er greiningu á stöðu mála á Íslandi, þ.e. úttekt á því hversu margir eru að framleiða eða hafa áhuga á að framleiða reykt og/eða þurrkað kindakjöt og að átta sig á þörfinni og áhuga á fræðslu, ráðgjöf og samstarfi um vöruþróun og kynningu/markaðssetningu á þessum afurðum.

Sem hluti af verkefninu hefur nú verið útbúin könnun sem hefur það markmið að kanna hver áhugi er á og núverandi staða framleiðsla á loftþurrkuðu lambakjöti er hér á landi. Matís hvetur alla sem að hafa áhuga á málefninu að taka þátt. Könnunin verður opin til þátttöku til 5. september.

Fréttir

Matís með námskeið fyrir nemendur í doktorsnámi

Vikuna 17.-24. ágúst stendur Matís fyrir námskeiði í samvinnu við Háskóla Íslands, fyrir nemendur í doktorsnámi. Yfirskrift námskeiðsins er “Samspil skynmats, neytenda- og markaðsþátta í vöruþróun”, og markmiðið er, eins og nafnið gefur til kynna, að nýta upplýsingar um skynmat, neytendur og markaðsþætti í vöruþróun. Námskeiðið er fullbókað og alls munu sitja það 24 nemendur frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi , Eistlandi Lettlandi og Litháen.

Sem fyrr segir er markmiðið að nýta upplýsingar um skynmat, neytendur og markaðsþætti í vöruþróun. Tilgangur námskeiðsins er að þjálfa doktorsnema í að nota skynmatsaðferðir og neytendakannanir í vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu. Verkefni námskeiðsins mun felast í að framleiða heilsusamlegri útgáfu af vöru sem þegar er á markaði. Heilsusamlegri vara getur t.d. verið vara með minna innihald af mettaðri fitu eða salti.

Fyrirlesarar verða norrænir og alþjóðlegir sérfræðingar. Á hverjum degi verða fræðilegir fyrirlestrar með verklegum æfingum til að varpa ljósi á efnið. Námskeiðið er því kjörið tækifæri fyrir norræna doktorsnema og aðra nemendur á þessu sviði.

Efni námskeiðsins er:

Vöruþekking– Bragð og lykt matvæla
• Hvers vegna er áhugi á bragði og lykt matvæla? Þáttur meðferðar hráefnis, vinnslu og áhrif nýrra innihaldsefna í myndun bragðs og lyktar er nauðsynleg þekking fyrir vísindamenn í vöruþróun. Margvísleg tækni og aðferðir eru notðar í matvælaiðnaði til að minnka fitu og salt í matvælum til að mæta óskum neytenda um hollari matvæli.

Skynmat og þjálfun dómara
• Í skynmati skipta skilgreiningar á þáttum sem lýsa útliti, lykt, bragði og áferð matvæla miklu máli. Farið verður fræðilega í myndrænar aðferðir (descriptive sensory analysis) og tengt við þjálfun, vöktun og mat á dómurum.

Þættir sem hafa áhrif á hvernig neytendur upplifa skynja matvælin.
• Væntingar hafa áhrif á hversu mikið neytendur njóta og líkar við ákveðin matvæli auk þeirrar upplifunar sem bragð af matnum hefur. Upplýsingar um heilsusamleg áhrif fæðu og uppruni henna eru mikilvæg skilaboð sem hafa áhrif á væntingar og upplifun neytenda. 

Mismunandi hópar neytenda (consumer segmentation) og smekkur þeirra (product acceptance)
• Ný matvara er oft hönnuð fyrir ákveðna hópa neytenda. Neytendum er hægt að skipta í hópa eftir mismunandi þáttum, t.d. eftir landfræðilegum þáttum, viðhorfum eða smekk.

Neytendakannanir og tengsl milli smekks og gæðaþátta (preference mapping)
• Unnt er að tengja smekk og val neytenda við skynmatsþætti vöru með aðferð sem nefnist preference mapping. Með þessari aðferð er skynmat með þjálfuðum hópi notað til að skýra og spá fyrir um val neytenda.

Neytendahegðun og markaðssetning
• Frá sjónarhóli markaðssetningar eru áhugaverðustu rannsóknaspurningarnar sem tengdar eru óskum og hegðun neytenda þessar: Að skilja hvernig smekkur neytenda myndast, hvernig geymist hann í minninu, og er hægt að hafa áhrif á hann, þ.e hvað ákveður hvort smekkur er ákveðinn eða ekki og hvenær hafa ytri aðstæður áhrif á val og hegðun.

Tölfræði

• Tölfræði er lykilatriði í skynmats og neytendarannsóknum. Ef tilraunahögun er ekki rétt unnin í upphafi tilrauna eru niðurstöður tilrauna mjög oft marklitlar bæði þegar greina á skynmatsþætti og kanna smekk neytenda. Við þjáflun skynmatsdómara er tölfræði og myndræn framsetning gagna nauðsynleg tól. Eftir að hafa safnað gögnum um skynmatsþætti og neytendur er rétt tölfræði og úrvinnsla gagna nauðsynleg til að tryggja að réttar upplýsingar fáist úr gögnunum. 


Frekari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir í síma 422 5032 eða í emilia.martinsdottir@matis.is

Fréttir

AMSUM 2007: Lífríki Íslandsmiða í góðu ástandi

Mengun þungmálma í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið. Þungmálmar eru frumefni sem eru upprunnir í náttúrunni en styrkur þeirra getur aukist vegna aðgerða manna (t.d. námuvinnslu).

Síðan 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu en svokallaður AMSUM hópur, sem starfar á vegum ráðuneytisins, heldur utan um það. Aðilar í þessum starfshópi eru frá Matís, Geislavörnum ríkisins, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Umhverfis-ráðuneytinu.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Hvorki mengun né dýr virða landamæri og hingað berast mengandi efni með loft- og sjávarstraumum, hvort sem við kærum okkur um það eða ekki. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, hvort heldur er í lofti, á láði eða í legi og ekki síður í þeim lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið stöðu okkar saman við ástand í öðrum löndum. Það er ekki síst áríðandi vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Sem fyrr segir hefur vöktunin staðið yfir frá árinu 1989 og er tilgangur hennar þríþættur:.

? Í fyrsta lagi að kanna hvort magn mengandi efna fari vaxandi í hafinu við Ísland.
? Í öðru lagi að meta hvort heilsu manna sé hætta búin af neyslu sjávarfangs.
? Í þriðja lagi að meta hvort lífríki sjávar stafi hætta af mengun.

Til að kanna þetta eru tekin sýni af þorski og sandkola á fjórum stöðum í kringum landið ár hvert og kræklingi er safnað á 11 stöðum í kringum landið.

Þorskur er valinn til vöktunar vegna mikillar útbreiðslu og mikilvægis í veiðum. Þorskar í almennri vöktun eru á lengdarbilinu 30-45 cm (3-6 ára) og eru veiddir fyrir hrygningu í mars ár hvert. Sandkoli er botnlæg fisktegund sem lifir á tiltölulega afmörkuðu svæði og hentar því vel til vöktunar. Sýnin eru á lengdarbilinu 20-35 cm og tekin í mars eins og þorsksýnin. Kræklingur er staðbundin tegund og endurspeglar tilvist mengandi efna á því strandsvæði þar sem hann lifir, en sýni eru tekin fyrir hrygningu í ágúst/sept.

Í þessum sýnum eru mæld ólífræn (þungmálmar) og lífræn snefilefni. Mældir eru þungmálmarnir blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, DDT og TBT og geislavirka efnið Cs-137. Matís mælir þungmálma í ofangreindum sýnum og sér um að þrávirk lífræn efni séu einnig mæld í þeim.

Í skýrslu Matís eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2006 og 2007. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2006 – 2007) að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig hefur t.d. kadmínstyrkur í kræklingi á undanförnum árum mælst hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík.

Lesa skýrslu

Á meðfylgjandi mynd er Dr. Sasan Rabieh, starfsmaður Efnarannsóknadeildar Matís og aðalhöfundur skýrslunnar.

Fréttir

Nýtt verkefni hjá Matís: vöruþróun á kryddlegnum og maukuðum sölvum

Fyrirtækið Hollusta úr hafinu hóf þróun á kryddlegnum sölvum og söl-puree árið 2006, en það ár fékk það úthlutað styrk úr smáverkefnaflokki AVS rannsóknasjóðsins til að þróa vöru úr íslenskum matþörungum og kanna hvort markaður fyrir þær vörur er að opnast innanlands, kanna hvort markaðurinn sé nægjanlega stór til að það borgi sig að sinna honum og huga að sölu sölva á erlendan hollustu- og neysluvörumarkað. Nú áforma Hollusta úr hafinu og Matís að ljúka vöruþróun á framangreindri vöru.

Í verkefninu verður farið yfir uppskriftir, umbúðir og útlit í því markmiði að draga fram þá ímynd og eiginleika sem sóst er eftir, þ.e. bragðgóða vöru með gott geymsluþol sem ber jafnframt með sér hollustu og gæði. Þá verður hannað framleiðsluferli fyrir vinnslu og pökkun á vörunni.

Kryddlegin söl og söl puree, maukuð söl, er ný sælkeravara. Á markaði erlendis er kryddleginn þari, en ekki er vitað til að til sölu séu kryddlegin söl. Þetta er spennandi vara sem mun eflaust falla vel í landann sé tekið mið af vaxandi áhuga hér á landi á austurlenskri matargerð, s.s. sushi, en þar gegna þurrkaðir matþörungar einmitt stóru hlutverki.

Stofnandi Hollustu úr hafinu ehf er Eyjólfur Friðgeirsson en verkefnisstjóri af hálfu Matís er Þóra Valsdóttir. Að sögn Þóru hefst vinna í verkefninu af fullum krafti í september, en hún segir að besti tíminn til að safna sölvum sé einmitt á vorin og haustin. 

Það eru AVS sjóðurinn og Matís sem styrkja nýja verkefnið.

IS