Fréttir

Fjölsótt ráðstefna Matís og Matvælastofnunar

Fjölmenni var á ráðstefnunni Matur, öryggi og heilsa, sameiginlegri ráðstefnu Matís og Matvælastofnunar (MAST), sem fram fór á Hótel Hilton Nordica í dag, 16. apríl. Talið er að hátt í 200 hafi verið á ráðstefnunni þegar mest var.

Svo margir sóttu ráðstefnuna að margir urðu að standa fram að kaffipásu, en þá var hægt bæta við sætum. Margir góðir fyrirlesarar fluttu erindi á ráðstefnunni, og verður vonandi hægt að skoða glærur frá þeim hér á næstunni. Á meðan verður látið nægja að birta nokkrar myndir af ráðstefnugestum. 

Vorfundur Matís og MAST 16.. apríl 2008
Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís
Jón Gíslason, forstjóri MAST
Vorfundur Matís og MAST 16. apríl 2008
Margir þurftu að standa á fundinum

Fréttir

Fiskprótein gegn offitu?

Mjólkur- og sojaprótein hafa lengi verið notuð með góðum árangri í matvælaiðnaði. Vaxandi markaður er fyrir prótein, og veltir hann milljörðum Bandaríkjadala árlega á heimsvísu. Algengustu prótein sem notuð eru í matvælaiðnaði eru bæði unnin úr dýra- og jurtaríkinu. Lengi hefur verið vitað að í fiski er að finna gæðaprótein, en af ýmsum ástæðum hefur reynst erfiðara að nýta þau sem íblöndunarefni í matvæli heldur en fyrrgreindu próteinin. Nýjar rannsóknir Matís kunna e.t.v. að breyta því.

Sojaprótein eru algengastu jurtapróteinin í dag og mysuprótein algengustu dýrapróteinin. Kasein, gelatín og þurrkaðar eggjahvítur koma þar á eftir. Þrátt fyrir vísbendingar um ýmsa ágæta vinnslueiginleika fiskpróteina þá eru aðferðir við einangrun og hreinsun skemmra á veg komnar en fyrir jurta- og mjólkurprótein. Fiskpróteinin geta því ekki enn keppt við fyrrgreindu próteinin sem hjálparefni í tilbúin matvæli.

Rannsóknir Matís
Ný tækni, sem Matís hefur þróað, hefur gert það mögulegt að einangra og hreinsa fiskprótein úr afskurði sem fellur til við hefðbundna flakavinnslu. Próteinin er síðan hægt að nota til að bæta nýtingu í flakavinnslu og einnig í tilbúnar vörur eins og fiskibollur og djúpsteiktan fisk. Vaxandi markaður er einnig fyrir vörur sem unnar eru með ensímum, örsíun og annari tækni. Þessi markaður byggir á ýmsum heilsusamlegum eiginleikum fiskpróteinanna og afurða unnum úr þeim.

Árið 2005 stofnaði Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) fyrirtækið Iceprótein ehf til að framleiða og selja vörur úr fiskpróteinum til notkunar bæði í hefðbundna fiskvinnslu og í heilsuvörur. Verkefnið ‘Markaðir fyrir fiskprótein’  sem hófst það ár var samstarfsverkefni Rf (nú Matís) og Iceprótein ehf.  Það gekk út á að kortleggja markaði og kanna vörur með fiskpróteinum og efnum unnum úr þeim til að leggja grunn að stefnu, uppbyggingu og markaðstengslum fyrirtækisins. 

Nýlega kom út lokaskýrsla Matís í verkefninu (Skýrsla Matís 07-08), en hún hefst á almennri úttekt á próteinum á matvælamarkaði, þ.e. mismunandi gerðum próteina og markaðshlutdeild þeirra. Síðan er gerð grein fyrir helstu vörum með fiskpróteinum, þ.e. fiskmjöli, fiskpróteinþykkni, surimi, isolati, fiskmeltu, fisksósu, bragðefnum, gelatíni, fæðubótarefnum og heilsutengdum eiginleikum þeirra.

Skýrsluhöfundar segja að þrátt fyrir vísbendingar um ýmsa ágæta vinnslueiginleika fiskpróteina þá séu aðferðir við einangrun og hreinsun skemmra á veg komnar en fyrir jurta- og mjólkurprótein.  Fiskpróteinin geta því ekki ennþá keppt við þau sem hjálparefni í tilbúin matvæli.

Fiskprótein gegn offitu?
Hins vegar eru góðar líkur á að þróa megi fleiri fæðubótarefni úr vatnsrofnum fiskpróteinum (VFP), t.d. til að draga úr blóðþrýstingi eða til að auka varnir líkamans gegn álagi. Talið er að jafnvel megi nota ákveðnar próteinvörur til að stýra matarlyst í baráttunni gegn offitu.  Auk þessa þá eru vörur á markaðnum til að lækka blóðsykurstuðull (e. glycemic index).

Markaður fyrir slíkar vörur úr fiskpróteinum er ekki stór en mun væntanlega vaxa á næstu árum, auk þess sem tækifæri felast í að nota hefðbundnar framleiðsluaðferðir, s.s. gerjun, til að auka lífvirknieiginleika VFP og nota þau í vörur sem neytendur þekkja nú þegar.  Þannig eru miklar líkur á að saltlitlar fisksósur og fiskbragðefni með sérhannaða lífvirka eiginleika verði á boðstólunum í framtíðinni.  Þetta byggist þó að hluta á því að heilsufullyrðingarnar fáist viðurkenndar. Til þess þarf viðamiklar og kostnaðarsamar rannsóknir sem bæði opinberir aðilar og fyrirtæki þurfa að fjármagna.

Fréttir

Ráðstefnan Matur, öryggi og heilsa 16. apríl

Matur, öryggi og heilsa, er yfirskrift sameiginlegrar ráðstefnu á vegum Matís og Matvælastofnunar (MAST), sem fram fer á Hótel Hilton Nordica þann 16. apríl n.k. Á ráðstefnunni, sem mun standa frá 12:30 til 16:30, verður m.a. leitast við að svara spurningum á borð við hvers vegna rekjanleiki matvæla verður sífellt mikilvægari, hvað felst í staðbundinni matvælaframleiðslu, hverjar eru helstu hætturnar tengdar matarsjúkdómum og hvað ný matvælalöggjöf Evrópusambandsins þýðir fyrir Ísland.

DAGSKRÁ:

13:00 Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setur ráðstefnuna

13:15 Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís. – Ávarp

13:25 Jón Gíslason, forstjóri MAST. – Ávarp

Fyrri hluti:

13:35 Alisdair Wotherspoon, Food Standards Agency (FSA), UK. Food Safety – Global trade and new challanges in Food Safety.

14:05 Franklín Georgsson, Matís. Matarsjúkdómar á Íslandi – þróun á Íslandi, helstu hættur og samanburður við aðrar þjóðir.

14:20 Jón Gíslason, MAST. Innleiðing á heildarlöggjöf EU á sviði matvæla – þýðing fyrir Ísland og matvælaöryggi.

14:35 Hlé – kynning á básum.

Seinni hluti:

15:05 Rúnar Gíslason, Kokkarnir ehf. – Stóreldhús – öryggi við matreiðslu og þjónustu í stórveislum.

15:20 Friðrik Valur Karlsson, Friðrik V. – Uppruni hráefnis á veitingastöðum.

15:35 Guðmundur Heiðar Gunnarsson, Matís. – Staðbundin matvælaframleiðsla – tækifæri og ógnir.

15:50 Reynir Eiríksson, Norðlenska. – Mikilvægi rekjanleika fyrir öryggi matvæla.

16:05 Davíð Gíslason, ofnæmislæknir. – Fæðuofnæmi og fæðuóþol.

16:20 Helga Gunnlaugsdóttir, Matís. – Íslenskt umhverfi og aðskotaefni.

16:35 Samantekt og ráðstefnuslit.

16:45 Móttaka og kynning í básum:

  • Bás 1 Matfugl ehf. Kynning – gæðastýring við kjúklingaframleiðslu sérstaklega er varðar öryggi framleiðslunnar. Kynning á kjúklingaréttum.
  • Bás 2 MS. Kynning – innri eftirlitskerfi í mjólkuriðnaði og öryggi mjólkurvara. Kynning á framleiðsluvörum.
  • Bás 3 Sölufélag garðyrkjumanna. Kynning – gæða- og öryggiskröfur sem gerðar eru til grænmetis.
  • Bás 4 Matís. Hraðvirkar mælingar hjá Matís
  • Bás 5 Matís. Þjónustu- og öryggismælingar Matís
  • Bás 6 Matvælastofnun. Almenn kynning á starfsemi MAST

Fréttir

Matísskýrsla um nýtingu kolmunna í markfæði

1.4.2008

Komin er út skýrsla Matís sem hefur að geyma niðurstöður úr verkefninu Kolmunni sem markfæði sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (nú Matís) vann að í samstarfi við Háskóla Íslands og Flórídaháskóla. Í verkefninu, sem var styrkt af Rannís, var rannsakað hvort vinna megi gæðaprótein úr fiski, sem nýta má á sama hátt í matvælaiðnaði og mjólkur- og sojaprótein.

Mjólkur- og sojaprótein hafa víðtæka notkunarmöguleika í matvælaiðnaði og hafa lengi verið notuð með góðum árangri. Vitað er að í fiski er að finna gæðaprótein og því forvitnilegt að rannsaka hvort fiskprótein búi yfir sambærilegum eiginleikum og áðurnefnd prótein. Í verkefninu var athyglinni beint að vinnslu próteina úr kolmunna, sem hingað til hefur einkum verið bræddur í fiskimjöl. Tilgangurinn er að margfalda verðmæti hinna vannýttu afurða.

Markmið verkefnisins var að svara rannsóknaspurningunni: Hvaða lífvirkni er hægt að fá fram hjá peptíðum unnum úr kolmunna með ensímum? Lífvirkni er forsenda þess að unnt sé að nota kolmunna sem markfæði. Sem hráefni voru notuð einangruð kolmunnaprótein. Rannsóknin sýndi að niðurbrotin kolmunnaprótein hafa lífvirkni. Hins vegar reyndust skynmatseiginleikar afurða ekki nægjanlega góðir og heimtur lágar. Var það sérstaklega sökum þess hversu erfiðlega gekk að afla fersks kolmunna sem hráefnis.

Margrétar Geirsdóttir, sérfræðingur á Líftæknisviði Matís, og annar höfundur skýrslunnar segir að í verkefninu hafi verið aflað mikillar þekkingar á sviði ensímniðurbrots og lífvirknieiginleika próteinafurða og að sú þekking muni nýtast íslenskum iðnaði og vísindamönnum við framtíðarrannsóknir á sviði próteina, ensíma og lífvirkni og þar með auka verðmæti íslenskra afurða. Hún bendir m.a. á að um alþjóðlegt nýnæmi sé að ræða þ.e. að í verkefninu hafi samspil vatnsrofs með ensímum og vinnslueiginleikar og lífvirkni verið kannað og samspil vatnsrofs fiskpróteina einangruð með nýrri aðferð og lífvirkni þeirra könnuð. Þetta, hafi ekki verið gert áður, og því sé hér um nýmæli að ræða, að sögn Margrétar.

Skýrsla Matís Kolmunni sem markfæði

Fréttir

Samstarfssamningur milli Matís og Matvælastofnunar undirritaður

Þann 27.mars sl. var undirritaður samstarfssamningur um framkvæmd prófana og öryggisþjónustu af hálfu Matís fyrir Matvælastofnun.

Megintilgangur samningsins er annars vegar að tryggja aðgang Matvælastofnunar að öryggisþjónustu rannsóknastofu sem mun njóta forgangs ef upp koma matarsjúkdómar. Hins vegar á samningurinn að tryggja eftir föngum að Matvælastofnun geti rækt það lögmælta hlutverk sitt að fara með matvælaeftirlit eða yfirumsjón með eftirliti annarra aðila, til að tryggja öryggi og gæði matvæla.

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, og Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, undirrituðu samninginn.

Fréttir

Ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu lofar góðu

Á Matís er nú í gangi forverkefni um ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu í samstarfi við niðursuðuverksmiðjuna Ice-W ehf í Grindavík. Markmið verkefnisins er að auka arðsemi við niðursuðu á lifur með því að lækka framleiðslukostnað og auka gæði afurða.

Því verður náð með því að þróa og prófa tækni sem fjarlægir himnu og hringorma á yfirborði lifrar með ensímum. Fyrstu niðurstöður lofa góðu.

Flestir sem starfað hafa við fiskvinnslu kannast við að fiskar bera sníkla og þeirra þekktastir eru hringormar, en það er safnheiti yfir þráðorma (Nematoda) í fiski. Þeir eru í fiski á Íslandsmiðum og eru til vandræða fyrir fiskvinnsluna, því það þarf að hreinsa þá úr flökum. Slíkur fiskur fellur í verði vegna galla, sem hljótast af hreinsun og flakanýting lækkar. Hringormar valda einnig tjóni á mörkuðum, sem eru misviðkvæmir fyrir hringormum. Fyrir nokkrum árum var áætlað að kostnaður við ormahreinsun á 200.000 tonnum af þorski væri 650 milljónir ísl. kr.

hringormar í þorsklifur

Sem fyrr segir lofa fyrstu niðurstöður verkefnisins, sem styrkt er af Tækniþróunarsjóði Rannís, góðu þar sem tekist hefur að fækka hringormum í lifur um 80%, og mýkja himnuna verulega. Tilgangurinn með því að fjarlægja eða mýkja himnuna sem umlykur lifrina er sá að með því fæst betri og jafnari skömmtun í dósir og nýtingin eykst, auk þeirrar hagræðingar í vinnsluferlinu sem af því hlýst.

Vonir standa til að þessi aðferð verði til þess að auka afköstin verulega í þessari vinnslu. Sótt hefur verið um áframhaldandi styrk til að vinna frekar að þessu máli.

Fréttir

Nýr vefur helgaður neytendum opnaður

Á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í morgun, 14. mars, opnaði Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra vefgáttina Leiðakerfi neytenda, en það er sameiginleg vefgátt fyrir allar tegundir neytendamála, óháð því hvaða aðili fer með málin. Vefgáttin var opnuð í tilefni af því að laugardagurinn 15. mars er alþjóðlegur dagur neytenda.

Á nýja vefnum (www.neytandi.is) geta neytendur nálgast upplýsingar og kannað rétt sinn, fengið aðstoð við að bera fram kvartanir og að skjóta málum, þegar við á, til úrlausnar hjá kvörtunarnefndum eða öðrum úrlausnaraðilum – óháð tíma sólarhrings! Þess má geta að á vefgáttinni er sérstakur flokkur helgaður matvælum og þar kemur Matís þó nokkuð við sögu.

Á fundinum ræddi Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einnig um norrænt hollustumerki fyrir matvæli og talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, kynnti möguleikann á og kostina við að nýta lagaheimild til þess að sýslumenn leiti sátta í ágreiningsmálum neytenda við seljendur vöru og þjónustu.

Eitt af megináherslusviðum Matís er að sinna málum sem snúa að lýðheilsu og matvælaöryggi. Eitt af fjórum sviðum Matís er helgað matvælaöryggi. Sviðinu er skipt upp í þrjár deildir:
Efnarannsóknir, örverurannsóknir og loks ráðgjöf og gagnagrunna.

Matís býður upp á fjölbreyttar örveru- og efnamælingar fyrir viðskiptavini og eigin rannsóknaverkefni.

Matís veitir upplýsingar um öryggi matvæla á vefsíðu sinni. Niðurstöður rannsóknaverkefna um öryggi matvæla eru kynntar í skýrslum og greinum á vefsíðunni. Nýlegar skýrslur sem fjalla um öryggi sjávarafurða (númer 08-07, 44-07, 52-07), áhættumat (17-7) og akrýlamíð (01-08).

Einnig er hægt er að leita að upplýsingum um næringarefni og þungmálma í ÍSGEM gagnagrunninum á vefsíðu Matís. Við áhættumat er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um bæði næringarefni og aðskotaefni eins og þungmálma og vega saman áhrif þessara efna.

Matís rekur vefinn Seafoodnet á ensku um öryggi sjávarafurða. Á vefnum eru upplýsingar um aðskotaefni í sjávarafurðum, skýrslur, kynningarefni og tenglar á upplýsingar í öðrum löndum, einkum Norðurlöndum.

Fréttir

Grein um FISHNOSE-verkefnið í Food Chemistry

Nýlega birtist grein í tímaritinu Food Chemistry um niðurstöður úr ESB-verkefninu “Fishnose”. Höfundar greinarinnar eru Rósa Jónsdóttir, starfsmaður Matís, Guðrún Ólafsdóttir, Erik Chanie og John-Erik Haugen.

Fishnose verkefnið fjallaði um notkun rafnefs til að meta gæði á reyktum laxi og fólst í því að þróa/aðlaga rafnef frá fyrirtækinu AlphaMOS í Frakklandi til að meta reyktan lax, þ.e. hvort hann væri farinn að skemmast. Skynjarar í rafnefinu greina efni í lofti, sem myndast í fiski við geymslu og valda skemmdarlykt. Þátttaka Matís (áður Rf) í verkefninu fólst m.a. í því að skilgreina gæði vörunnar m.t.t. efnainnihalds og stöðugleika, þar sem mældar voru örverur og efnaniðurbrot. Skynmatsrannsóknir fóru fram samhliða.


Nauðsynlegt er að þekkja vel samsetningu á rokgjörnum efnum við geymslu á laxi, en Matís (áður Rf) hefur einmitt sérhæft sig í gasgreinimælingum á rokgjörnum lyktarefnum. Rokgjörn efni myndast m.a. við niðurbrot og skemmd í matvælum. Þau valda einkennandi ferskleikalykt (ilm) á meðan hráefnið er nýtt, en seinna skemmdar- eða ýldulykt er líða tekur á geymslutímann. Rafnefið getur greint þessi efni á fljótvirkan hátt og metið þannig gæði vörunnar.


Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós að mest einkennandi lykt af reyktum laxi eru af völdum efnisins guaiacol úr reyknum auk rokgjarnra efna sem myndast við niðurbrot á fitu. Einnig voru einkennandi efnin 3-methyl-butanal og 3-hydroxybutanone en þau valda sætri lykt og myndast vegna örveruniðurbrots við geymslu. Önnur einkennandi efni eins og furan efni úr reyk, skemmdarefni (t.d. etanól, 3- methyl-1-butanól, 2-butanone og ediksýra) og niðurbrotsefni fitu ( t.d. 1-penten-3-ól, hexanal, nonanal and decanal) voru í þó nokkru magni en höfðu ekki eins mikil áhrif á lyktina. Þessi helstu lyktarefni reyndust betri til að útskýra gæðaeiginleika reykts lax en hefðbundnar efnamælingar og örverumælingar og fjallar greinin í Food Chemistry um það.


Verkefnið var CRAFT-verkefni á vegum Evrópusambandsins, en það eru verkefni sem miða að því að hvetja lítil fyrirtæki til þátttöku í rannsóknar- og þróunarstarfi. Íslenska fyrirtækið Reykofninn tók þátt í Fishnose-verkefninu og sá um að útvega hráefni í rannsóknir og aðstoða við að skilgreina gæði vörunnar. Guðrún Ólafsdóttir, fyrrum starfsmaður Rf, var verkefnisstjóri í verkefninu, en auk hennar vann Rósa Jónsdóttir í verkefninu.

Þess má geta að kynning á niðurstöðum verkefnisins fékk Göpel verðlaunin á  alþjóðlegri ráðstefnu ISOEN2005 í Barcelona.


Eftirfarandi greinar hafa verið birtar úr verkefninu:

Rósa Jónsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir, Erik Chanie, John-Erik Haugen. Volatile Compounds Suitable for Rapid Detection as Quality Indicators of Cold Smoked Salmon (Salmo salar). Food Chemistry 109 (2008) 184–195. Lesa grein


Haugen J., Chanie E, Westad F, Jonsdottir R, Bazzo S, Labreche S, Marcq P, Lundby F., Olafsdottir G. 2006. Rapid control of smoked Atlantic salmon quality by electronic nose: correlation with classical evaluation methods. Sensors and Actuators B, 116, 72–77.

Guðrún Ólafsdóttir, Eric Chanie, Frank Westad, Rósa Jónsdóttir, Claudia R. Thalmann, Sandrine Bazzo, Saïd Labreche, Pauline Marcq, Frank Lundby, John-Erik Haugen, 2005. Prediction of Microbial and Sensory Quality of Cold Smoked Atlantic Salmon (Salmo salar) by Electronic Nose. J Food Sci 70(9):S563-574.

Olafsdottir G, Chanie E, Westad F, Jonsdottir R, Bazzo S, Labreche S, Marcq P, Lundby F, Haugen JE. 2005. Rapid Control of Smoked Atlantic Salmon Quality by Electronic Nose: Correlation with Classical Evaluation Methods. In: Marco S, Montoliu I, editors. Proceedings of the 11th International Symposium on Olfaction and Electronic Nose, ISOEN2005, Electronic Department, Physics Faculty, Barcelona University, Barcelona, Spain. p 110-114.

Þá hefur verkefnið einnig verið kynnt á veggspjaldi á ráðstefnum.

Fréttir

Matís og H.Í. auglýsa námskeið fyrir doktorsnemendur í ágúst

Dagana 17. til 24. ágúst 2008 verður haldið námskeið sem nefnist Samspil skynmats, neytenda- og markaðsþátta í vöruþróun (Integrating sensory, consumer and marketing factors in product design). Námskeiðið verður haldið í Reykjavík.

Markmiðið er að nýta upplýsingar um skynmat, neytendur og markaðsþætti í vöruþróun.

Að sögn Emilíu Martinsdóttur, deildarstjóra á Vinnslusviði Matís, og eins af skipuleggjendum námskeiðsins, er tilgangur þess að þjálfa doktorsnema í að nota skynmatsaðferðir og neytendakannanir í vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu. Verkefni námskeiðsins mun felast í að framleiða heilsusamlegri útgáfu af vöru sem þegar er á markaði. Heilsusamlegri vara getur t.d. verið vara með minna innihald af mettaðri fitu eða salti.


Fyrrlesarar verða alþjóðlegir sérfræðingar og á hverjum degi verða fyrirlestrar með verklegum æfingum til að varpa ljósi á efnið. Emilía segir að námskeiðið sé
kjörið tækifæri fyrir norræna doktorsnema og aðra nemendur á þessu sviði.

Sjá auglýsingu um námskeiðið á íslensku

Course description in English

Einnig má finna upplýsingar á vef NordForsk

Fréttir

ÍSGEM í endurnýjun lífdaga

Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) er gagnagrunnur sem geymir bæði upplýsingar um efnainnihald matvæla á íslenskum markaði og útflutt matvæli og hráefni. Gagnagrunnurinn er vistaður á vef Matís og nú stendur til að betrumbæta hann.

Ástæðan er sú að forrit gagnagrunnsins er orðið gamalt og tímabært að smíða nýtt forrit og endurskipuleggja framsetningu gagnanna í samræmi við alþjóðlega þróun. Þetta verður til mikilla bóta fyrir alla vinnu með gögnin og hagnýtingu þeirra. Birting gagnanna á vefsíðu Matís verður auðveldari en áður og sparar tíma. Notendur gagnanna munu njóta góðs af bættu aðgengi að þeim.

Fundur um ÍSGEM 7. mars 2008Dagana 6-7 mars fundaði Anders Møller frá Danish Food Information með starfsmönnum Matís til að leggja á ráðin um endurbætur á forriti ÍSGEM gagnagrunnsins. Anders hefur um árbil verið meðal fremstu sérfræðinga í Evrópu um þróun matvælagagnagrunna. Ívar Gunnarsson tölvufræðingur hjá Hugsjá tók þátt í fundunum en hann hefur unnið við ÍSGEM forritið.


Í ÍSGEM er hægt að leita eftir um það bil 900 fæðutegundum og finna upplýsingar um hverja og eina tegund. Þar er t.d. að finna upplýsingar um orkugildi hverrar fæðutegundar eða nánar tiltekið kílókalóríur, fitu í matvælum, prótein, kolvetni og viðbættan sykur. Ennfremur upplýsingar um bætiefni, eins og vítamín og steinefni. ÍSGEM er þ.a.l. hentugur fyrir þá sem vilja halda í við sig eða forðast ákveðin efni, svo sem salt- eða sykurmagn í matnum hjá sér.


Grunnurinn veitir almenningi jafnt sem atvinnulífi upplýsingar um samsetningu matvæla og er nauðsynlegt tæki fyrir matvælaiðnað og matvælaeftirlit, við næringarrannsóknir, kennslu, áætlanagerð stóreldhúsa og ráðgjöf um heilsusamlegt mataræði. Gögnin eru nýtt í forritum sem reikna út hve mikið fólk fær af hinum ýmsu næringarefnum. Matís býður upp á reikniforritið Matarvefinn á vefsíðu sinni.

Hjá Matís eru gerðar mælingar á efnainnihaldi matvæla fyrir ÍSGEM grunninn og gagna er einnig aflað frá innlendum og erlendum aðilum. ÍSGEM var forsenda fyrir þátttöku í evrópska öndvegisnetinu EuroFIR (European Food Information Resource) (network of excellence) um efnainnihald matvæla og leiðir til að miðla upplýsingunum með gagnagrunn-um og á netinu.

Á myndinni eru frá vinstri: Björn Þorgilsson, Matís, Ívar Gunnarsson tölvufræðingur, Anders Møller frá Danish Food Information, Ólafur Reykdal og Cecilia Garate, frá Matís.

IS