Fréttir

Enn meira af Matís ráðstefnunni

Rúmlega 160 manns fylltu Gullteig salinn á Grand Hótel á fimmtudaginn var þegar ráðstefna Matís, Matur og framtíð, var haldin, í fyrsta skipti. Í sal fyrir utan ráðstefnuna var svo hægt að kynnast matarhönnun og nýsköpun í matvælaiðnaði, eins og fjallakonfekti, blóðbergsdrykkjum og eldisfiskum. Ennfremur gafst gestum tækifæri á því að bragða á harðfiski frá Gullfiski.

Mikill áhugi á ráðstefnunni nú er hvatning fyrir fyrirtækið að halda áfram á næsta ári með samskonar ráðstefnu og sýningu og gera enn betur þá.

matis_grandhotel_151107_05
matis_grandhotel_151107_11
matis_grandhotel_151107_23
matis_grandhotel_151107_24
matis_grandhotel_151107_73
matis_grandhotel_151107_34
matis_grandhotel_151107_53
matis_grandhotel_151107_72
matis_grandhotel_151107_78
matis_grandhotel_151107_87

Fréttir

Heilsufullyrðingar: Númer vinninga

Búið er að draga út vinningsnúmer úr hópi þeirra sem tóku þátt í heilsufullyrðingakönnun Matís. Glæsilegir vinningar eru í boði frá Mjólkursamsölunni. Sjá númer vinningshafa hér.

Númer vinningshafa:

Númer          Vinningar

3032      1. vinningur – 30.000 kr.

4363      2. vinningur – 15.000 kr.

3349      3. vinningur – ostakarfa.

3599      4. vinningur – ostakarfa.

3229      5. vinningur – ostakarfa.

Fréttir

Ráðherra skálar í blóðbergsdrykk og smakkar á fjallakonfekti

Einar K. Guðfinnsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skálaði í bóðbergsdrykk og gæddi sér á fjallakonfekti, sem var í boði í upphafi ráðstefnu Matís, Matur og framtíð, í dag. Á ráðstefnunni er leitast við að svara spurningum á borð við hvers vegna grænmeti sé hollt, hvort þorskeldi eigi framtíð fyrir sér á Íslandi, hvers vegna fólk vill ekki stressaðan eldisfisk og hvort fólk viti yfirhöfuð hvaðan maturinn þeirra kemur.

Þróttur og athafnagleði

Ráðherra sagði meðal annars í ræðu sinni á ráðstefnunni að það væri mjög
ánægjulegt að hafa orðið vitni að þeim þrótti og athafnagleði sem einkennt hefur starfsemi Matís frá fyrsta degi. “Ekki svo að skilja að það hafi á nokkurn hátt komið á óvart. Síður en svo. Vitað var að þarna væri saman komið dugmikið fólk með yfirburða þekkingu á sínu sviði og því voru auðvitað bundnar miklar vonir við afraksturinn. Þær væntingar hafa ekki brugðist. Hvert verkefnið á fætur öðru hefur líka skilað áhugaverðum niðurstöðum sem oft og tíðum vekja athygli,” sagði ráðherra.

Öflugt bakland innlendrar matvælaframleiðslu

Þá kom fram í máli ráðherra að það væri afar mikilvægt að á Íslandi starfi öflugt fyrirtæki á sviði matvælarannsókna, sem væri í stakk búið til að takast á við auknar kröfur um öryggi og heilnæmi og væri um leið í forystuhlutverki við að styðja við og ýta undir nýsköpun í matvælaframleiðslu landsmanna.

“Það var von okkar með stofnun fyrirtækisins að það gæti orðið öflugt bakland innlendrar matvælaframleiðslu og tryggt aðgengi afurða okkar að verðmætustu matvælamörkuðum heims. Matís vinnur jafnframt markvisst að því að byggja upp öfluga starfsemi víðs vegar um landið um leið og gengið er til samstarfs við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Það hefur því mikið gerst á þessum tíu mánuðum sem Matís hefur starfað og lofar góðu um framhaldið.”

Fréttir

Innlent grænmeti yfirleitt ferskara og af meiri gæðum

Innlent grænmeti er yfirleitt ferskara og af meiri gæðum en það innflutta. Næringargildið er svipað en minna er um varnarefni í því innlenda, segir Ólafur Reykdal verkefnastjóri hjá Matís í samtali við 24 stundir. “Það er mjög stutt frá haga til maga,” segir Ólafur

“Það er mjög stutt frá haga til maga. Það eru stuttar vegalengdir frá framleiðanda til neytanda sem býður upp á að innlent grænmeti sé af meiri gæðum og ferskleika en grænmeti sem flutt er um langan veg,” segir Ólafur og bendir á að stuttum vegalengdum fylgi fleiri kostir. “Styttri flutningar þýða einfaldlega minni mengun. Innlenda framleiðslan leiðir þvi til minni mengunar og það er nokkuð sem fleiri eru farnir að velta fyrir sér.”

Minna um varnarefni

Aðstæður til ræktunar grænmetis eru aðrar hér á landi en víða erlendis. Ólafur bendir á að hér sé loftslag svalt og nýta megi jarðhitann en á móti komi erfið
birtuskilyrði sem þurfi að bregðast við með mikilli raflýsingu.

“Svala loftslagið þýðir líka að hér er minna af skordýrum og öðru sem þarf að nota varnarefni gegn. Íslenska grænmetið kemur almennt betur út en það innflutta hvað varðar þessi varnarefni,” segir Ólafur í samtali við 24 stundir.

Ólafur Reykdal, Matís.

Fréttir

Haustráðsefna Matís verður á fimmtudag

Matur og framtíð, haustráðstefna Matís, fer fram á Grand Hótel þann 15. nóvember 2007. Á ráðstefnunni, sem er frá 12:30 til 16:30, verður leitast við að svara spurningum á borð við hvers vegna grænmeti sé hollt, hvort þorskeldi eigi framtíð fyrir sér á Íslandi, hvers vegna fólk vill ekki stressaðan eldisfisk og hvort fólk viti yfirhöfuð hvaðan maturinn þeirra kemur.

Blóðbergsdrykkir og súkkulaðifjöll

Á ráðstefnunni verður ennfremur hægt að kynnast matarhönnun sem er vaxandi þáttur í vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands. Gestir eiga þess kost á því að bragða á blóðbergsdrykkjum og gæða sér á súkkulaðifjöllum. Smakkað á nýjum eldistegundum Þá geta þeir einnig kynnst fiskeldistegundum sem verða sífellt vinsælli erlendis. Má þar nefna tilapia og barramunda svo dæmi séu tekin. Þeim mun einnig gefast tækifæri á því að smakka á tilapiu, sem er að verða einn vinsælasti fiskur sem neytt er víða um heim.

Nánar um dagskrána hér.

Fundarstjóri er Stefán Pálsson.

Fréttir

Matís finnur áður óþekkta hverabakteríu

Matís hefur fundið áður óþekkta hverabakteríu, sem virðist bundin við Ísland. Tegundin fannst í háu hlutfalli í hver á Torfajökulssvæðinu og hefur nú tekist að rækta hana.

Matís hefur fundið áður óþekkta hverabakteríu, sem virðist bundin við Ísland. Tegundin fannst í háu hlutfalli í hver á Torfajökulssvæðinu og hefur nú tekist að rækta hana.

Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á hverabakteríum á vegum Prokaria, líftæknisviði Matís. Nútíma aðferðir gera vísindafólki kleift að greina tegundasamsetningu án þess að rækta bakteríurnar. Áður óþekkt Thermus tegund, sem virðist bundin við Ísland, fannst með slíkum aðferðum. Tegundin fannst í háu hlutfalli í hver á Torfajökulssvæðinu, en hafði þó áður fundist í hverum á Hengilssvæðinu.

Í framhaldinu kviknaði áhugi á að reyna að einangra og rækta þessa séríslensku Thermus tegund. Styrkir fengust úr Rannsóknasjóði og frá Orkustofnun og voru tekin sýni úr hvernum á Torfajökulssvæðinu síðsumars og staðfest að Thermus islandicus væri þar að finna. Ræktunartilraunir á mismunandi ætum, við mismunandi hitastig, sýrustig og súrefnisstyrk hafa nú loks skilað árangri í lífvænlegum stofni sem er nú rannsakaður nánar. Snædís Huld Björnsdóttir starfsmaður Matís hefur unnið að þessu verkefni, en Sólveig Pétursdóttir er verkefnisstjóri.

Ýmsar Thermus tegundir hafa gefið af sér verðmæt DNA ensím sem notuð eru við rannsóknir víða um heim. Hér má nefna ensímið DNA polymerasa, sem er notaður til að magna upp DNA til að fá margar kópíur af ákveðnu geni eða genabút og DNA lígasa úr Thermus veiru sem límir DNA búta. Ekki er því ólíklegt að nýja tegundin geymi áhugaverð ensím.

Fréttir

Rafrænar upplýsingar um matvöru til neytenda

Ýmsir telja að rafrænar merkingar muni leysa hefðbundin strikamerki af hólmi á næstu árum. Matís hefur sl. ár tekið þátt í þróunarverkefni sem miðar að því að merkja fiskiker með rafrænum hætti. Slíkar merkingar munu gefa aukna möguleika á hagnýtingu rekjanleika og m.a. gera fyrirtækjum kleift að senda rafrænar upplýsingar til kaupenda um það hvar afurðin er veidd, hvar hún hefur verið verkuð og hvaða leið hún hefur farið á markað.

Kröfur framleiðenda og neytenda um aukið upplýsingaflæði og betri merkingar á matvælum eru sífellt aukast. Segja má að þróun á rafrænum merkingum fyrir fiskiker sé angi af þeirri þróun. Sem dæmi má nefna að talið er að með rafrænum merkingum verði jafnvel mögulegt fyrir ísskápa framtíðarinnar að taka á móti upplýsingum og miðla til neytenda, hvort sem það eru upplýsingar um síðasta söludag á matvöru, um innihald ofnæmisvaldandi efna eða hvaða meðlæti eigi við með íslenskum þorski. Þá eru bundnar vonir við að ísskápar framtíðarinnar geti átt þráðlaus samskipti við gagnagrunna matvælaframleiðenda, sem t.d. munu geta varað neytendur við ef upp koma matarsýkingar sem tengst geta þeim matvælum sem eru í ískápnum.

Nú þegar er hafin tilraunaframleiðsla á ísskápum framtíðarinnar, til dæmis hjá Innovation Lab í Danmörku. Segir fyrirtækið að ísskáparnir verði komnir í almenna sölu eftir 5-10 ár.

Þróun á rafrænum merkingum fyrir fiskiker, sem er styrkt af AVS sjóðnum, er unnið í samstarfi við FISK Seafood, Sæplast og Maritech. Niðurstöður verkefnisins eru væntanlegar á næstu vikum.

Fréttir

Gæðaúttekt á Matís

Í vikunni fór fram gæðaúttekt Swedac og Einkaleyfastofu á rannsóknaraðferðum Matís, en slíkar úttektir voru gerðar árlega hjá Rf og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar um margra ára skeið.

Úttektin fór fram þann 15.10. 2007 á rannsóknastofu Matís að Skúlagötu 4 og þann 18.10. 2007 var gerð sambærileg úttekt í útibúi Matís í Neskaupstað. Í útibúi Matís á Akureyri fór hins vegar fram gæðaúttekt í apríl á þessu ári.

Að sögn Margrétar Geirsdóttur, gæðastjóra Matís, gekk úttektin vel og hefur rannsóknastofa Matís nú 27 faggiltar örveruaðferðir og 7 efnaaðferðir á sínum lista. Um er að ræða mismunandi örverurannsóknir á matvælum, vatni, fóðri, umhverfissýnum, lyfjum og efni til lyfjagerðar ásamt sérhæfðum efnamælingum á matvælum, vatni og umhverfissýnum og mælingar á varnarefnum í grænmeti og ávöxtum.

Faggilding er viðurkenning á því að fyrirtæki viðhafi bestu starfsvenjur og hafi tæknilega hæfni til að tryggja að þær mælingar sem þar eru gerðar standist allar alþjóðlegar kröfur í sambandi við gæðaumhverfi, vinnureglur og strangt gæðaeftirlit. Faggildingin er unnin út frá ISO 17025 staðlinum um starfsemi rannsóknastofa, en ákvæði um faggildingu var tekið upp í íslenskri reglugerð árið 1994.

Það eru Einkaleyfastofan og Swedac, sænska faggildingarstofnunin, sem veita Matís faggildinguna. Faggildingaraðili kannar með árlegri heimsókn hvort gæðakerfið og þær mæliaðferðir sem notaðar eru við efna- og örverurannsóknir standist þær skuldbindingar sem faggilding krefst og lýst er í ISO 17025 staðlinum.

Auk þess hefur rannsóknastofa Matís faggildingu frá New York State Department of Health fyrir örverumælingar í átöppuðu vatni.

Listi yfir faggildar rannsóknaraðferðir Matís (pdf-skjal)

Á myndinni má sjá þrjá fulltrúa Swedac ásamt nokkrum starfsmönnum á Matvælaöryggissviði Matís á Skúlagötu.

Fréttir

Aukin umsvif á Ísafirði

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hefur fjölgað starfsfólki á starfsstöð sinni á Ísafirði. Jón Atli Magnússon hefur tekið til starfa á starfsstöðinni en hann mun sinna verkefnum á sviði vinnslu- og eldistækni.

Hann er þriðji starfsmaðurinn hjá Matís á Ísafirði en fyrir eru Þorleifur Ágústsson og Jón. G. Schram.

Jón Atli útskrifast sem vélaverkfræðingur (B.Sc.) frá Háskóla Íslands síðar í þessum mánuði. Hann hefur margvíslega aðra menntun og starfsreynslu úr atvinnulífinu. Hann er með vélstjórnarréttindi frá VMA (3. stig) og starfaði í nokkur ár sem vélstjóri hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvör í Hnífsdal, en sl. tvö ár starfaði Jón sem þróunarstjóri 3X Technology (áður 3X Stál). Síðast en ekki síst þá stofnaði Jón 5 kinda sauðfjárbú er hann var 15 ára gamall sem hann rak meðfram námi.

Jon_Atli

Eiginkona Jóns er Ilmur Dögg Níelsdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau soninn Jóhann Ása.

Fréttir

Matís vekur athygli á Matur-inn

Matís á Akureyri tók þátt í matvælasýningunni Matur-inn sem fram fór í Verkmenntaskólanum um síðustu helgi. Þar kynnti Matís starfsemi sína á Akureyri; rannsóknir á mengunarefnum og óæskilegum efnum í matvælum. Þá var ÍSGEM gagnagrunnurinn kynntur til sögunnar, en hann er með upplýsingar um efnainnihald 900 fæðutegunda.

Matur-inn

Verkefni Matís vöktu verulega athygli gesta á sýningunni, en hana sóttu ríflega 10.000 manns. Fannst mörgum gestum sem skoðuðu bás Matís merkilegt hve umfangsmikið rannsóknastarf færi fram á vegum fyrirtækisins í bænum.

IS