Fréttir

Hugbúnaður sem stuðlar að bættri afkomu fiskveiða og fiskvinnslu

FisHmark er íslenskur hugbúnaður fyrir sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur til hagkvæmasta fyrirkomulagið að veiðum og vinnslu á fiski, getur aukið virði sjávarfangs og um leið stuðlað að auknum hagnaði fyrirtækja. Frumgerð að búnaðinum er tilbúin og stefnt er að því að sjávarútvegsfyrirtæki geti tekið hann í notkun á næsta ári. Búnaðurinn var kynntur á blaðamannafundi í dag, 14. febrúar.

Hugbúnaðurinn er sá fyrsti sinnar tegunda en hann er samstarfsverkefni matvælarannsóknafyrirtækisins Matís og hugbúnaðarfyrirtækjanna AGR, Maritech og TrackWell.

Með FisHmark er hægt að:

• Greina hvaða þættir hafa áhrif á virði sjávarfangs og afkomu fiskveiða og fiskvinnslu.

• Búa til tillögur að hagkvæmasta fyrirkomulagi að veiðum og ráðstöfum afla.

• Auka virði sjávarfangs og tryggja aðgang inn á kröfuharða sérmarkaði.

• Auðvelda fiskseljendum að miðla upplýsingum um vöru, svo sem um uppruna hennar.

• Tengja saman gögn úr rafrænum afladagbókum, mælingum í móttöku og úr upplýsingakerfum um vinnslu og markað.

• Leita hagkvæmustu lausna í virðiskeðju þorskafurða og auka hagnað fyrirtækja.

Sveinn Margeirsson, Matís, kynnir búnaðinn.

Til að sýna fram á möguleika FisHmark hefur m.a. verið sett upp dæmi um fyrirtæki með einn togbát til veiða og fiskvinnslu staðsetta á Grundarfirði. Til einföldunar er gert ráð fyrir að togbáturinn geti landað á tveimur löndunarhöfnum, Grundarfirði og Höfn á Hornafirði.

Til þess að ákvarða hagkvæmasta fyrirkomulagið að veiðum með FisHmark eru m.a. skoðaðir eftirtaldir þættir: Samanburður á höfnum, leiguverð á kvóta, afköst fiskvinnslu, aflasamsetning, útflutningsálag, lokun svæða, takmörk á kvótaleigu, útgerð án fiskvinnslu og aflahlutir.

Miðað við bestu lausn var 9,5% aukinn hagnaður af rekstrinum ef veitt var úti fyrir Vesturlandi í stað veiða suðaustanlands.

Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóði Rannís.

Fréttir

Það besta frá Norðurlöndunum í Reykjavík í næstu viku!

Dagana 17.–24. febrúar verður haldin matarhátíð í Norræna húsinu í Reykjavík. Hátíðin ber yfirskriftina Ný norræn matarhátíð og þar kemur Matís nokkuð við sögu.

Hér á Matísvefnum var í ágúst á síðasta ári greint frá sérstakri samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist” og er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda. Einnig var sagt frá því að skipaður hefði verið sérstakur stýrihópur til að vinna að áætluninni. Í honum sitja fyrir hönd Íslands Emilía Martinsdóttir frá Matís og Laufey Haraldsdóttir frá Ferðamáladeild Hólaskóla, Háskólans á Hólum.

Í hverju landi voru einnig tilnefndir “sendiherrar” sem fengu það verkefni að miðla þekkingu og vekja athygli á norrænni matargerð. Sendiherrarnir vinna að kynningum á norrænni matargerð og menningu. Íslensku sendiherrarnir eru Sigurður Hall og Baldvin Jónsson. Núna er sumsé komið að því að kynna þetta merkilega framtak fyrir Íslendingum.

Hátíðin hefst sunnudaginn 17. febrúar og stendur yfir í viku og óhætt er að segja að dagskráin er hin glæsilegasta eins og sjá má í dagskrá hátíðarinnar!

Fréttir

Rýrnun á fiski í gámum lítil

„Í rannsóknum okkar á rýrnun á fiski í gámum hafa komið fram fremur lágar tölur. Langt undir 10%. Þegar þessi útflutningur var hvað mestur 1986, mældum við þetta í nokkrum tilfellum. Þá kom í ljós að rýrnun í þorski var 1 til 2%. Síðan var gerð mun ítarlegri tilraun fyrir um einu og hálfu ári. Þá fluttum við fiskinn ekki út, en líktum eftir slíkum innflutningi á rannsóknastofu okkar. Þá kom í ljós að þetta var um 2 til 4% í þorski og eitthvað aðeins minna í ufsa,“ segir Sigurjón Arason, verkefnastjóri hjá Matís í samtali við Morgunblaðið, 13. febrúar.

„Loks var þetta skoðað mjög vandlega fyrir um ári síðan. Þá kom í ljós að rýrnun í þorski var um 2,4%, en ef fiskurinn var umísaður hér fyrir útflutning fór rýrnunin upp í 3,6%. Rýrnunin í ýsunni var um 4,8% en við umísun fóru hún upp í 7%. Allt hnjask eftir að gengið hefur verið frá fiskinum ísuðum í kör í fyrsta sinn eykur vökvatapið. Við eigum einnig gamlar mælingar á vökvatapi í fiski, sem hefur verið fluttur milli landshluta við erfið skilyrði. Við athuguðum rýrnunina eftir aldri, fjögurra til sjö daga frá veiðum. Þá kom í ljós að eftir því sem hráefnið var eldra, tapaðist meira við flutningana. Síðan þessar mælingar voru gerðar, hafa orðið miklar vegabætur og því er vökvatapið vafalítið minna nú,“ segir Sigurjón

Fréttir

Matís með formennsku í European Sensory Network

Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís, tók í byrjun árs við formennsku í European Sensory Network (ESN) sem eru alþjóðleg samtók rannsóknastofnana og fyrirtækja á sviði skynmats og neytendarannsókna. Emilía mun gegna formennsku næstu tvö árin.

Í ESN eru 23 þátttakendur frá 16 Evrópulöndum, en einnig eru fjórir aðilar utan Evrópu í samtökunum: frá Kanada, Suður-Afríku, Ástralíu og Ísrael.
Þessi alþjóðlegu samtök voru upphaflega stofnuð sem vettvangur fyrir umræður og samvinnu meðal bestu rannsóknafyrirtækja í hverju landi og er ætlað að tryggja matvælaiðnaði í hverju landi aðgengilegar og örugggar aðferðir við skynmat. Þáttakendur eru allir með mikla reynslu á þessu sviði.

Starfsemin ESN felst í:
• Fundum til bera saman aðferðir, niðurstöður rannsókna og til að skipuleggja rannsóknarverkefni
• Halda námstefnur fyrir iðnðaðinn í mismunandi löndum
• Þróa aðferðir á sviði skynmats og neytendakannana
• Sameiginleg rannsóknaverkefni.

Á þessu ári er fyrirtækjum í matvælaiðnaði þessara landa boðið að taka beinan þátt í ESN samstarfi (ESN-Industry Network Partnerships). Fyrirtækin munu leggja fram fjármagn í ákveðin rannsóknaverkefni sem þau geta sameinast um og verða rannsóknaverkefnin unnin af tveimur eða fleiri ESN-þáttakendum hverju sinni. Ný rannsóknaverkefni verða síðan valin árlega. Meðal annars verður stuðlað að notkun skynmats og bestu sameigilegum aferðum á því sviði til að bæta vöruþróun matvæla.  Þessi ESN iðnaðarvettvangur mun auka samskipti einstakra aðila ESN við matvælaiðnaðinn. 

 
Emilía er deildarstjóri Neytenda- og skynmatsdeildar á  Matís.  Hún segir að Matís sé leiðandi á sviði skynmats hér á landi og að þessi alþjóðlega starfsemi sé liður í því að á Íslandi verði til þekking og reynsla sem nýtast mun íslenskum matvælaiðnaði. 

Nánar um ESN samtökin

Fréttir

Hollara brauð með byggi

Trefjaefni lækka kólestról og draga úr blóðsykri

Hægt er að auka hollustu brauðvara með því að nota að hluta til bygg í staðinn fyrir hveiti, að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og Landbúnaðarháskóla Íslands. Í byggi eru trefjaefni sem geta lækkað kólestról í blóði og haft dempandi áhrif á blóðsykur.

“Miklar framfarir hafa orðið í kynbótum og ræktun byggs hér á landi. Byggið hefur fyrst og fremst verið nýtt sem skepnufóður en áhugi á nýtingu þess til manneldis hefur farið vaxandi. Það er ekki síst vegna þess að meira er af trefjaefnum í byggi en hveiti,” segir Ólafur Reykdal verkefnastjóri hjá Matís.

Mikilvægt að auka magn trefjaefna

Ólafur segir að hægt sé að auka hollustu brauðvara með því að nota að hluta til bygg í staðinn fyrir hveiti. “Frá manneldissjónarmiði er mikilvægt að auka magn trefjaefna í fæði Íslendinga. Það er sérstaklega áhugavert að í bygginu eru vatnsleysanleg trefjaefni sem kallast beta-glúkanar. Þessi trefjaefni geta lækkað kólesteról í blóði og haft dempandi áhrif á blóðsykur.”

Ólafur nefnir að í tilraunabakstri úr byggi, sem hafi farið fram í þremur bakaríum, hafi náðist fullnægjandi árangur fyrir brauð með allt að 40% byggi á móti 60% af hveiti. “Það er því hægt að mæla með því að bökunariðnaðurinn fari að nota bygg í framleiðslu sína.”

Þá var næringargildi metið fyrir íslenskt bygg og reyndist það sambærilegt við það sem gerist erlendis. Öryggi byggs var metið með mælingum á örverum. Kólígerlar, Bacillus cereus og Clostridium perfringens greindust ekki og fjöldi myglusveppa var lágur.

“Allar mælingar benda því til að íslenska byggið henti vel til manneldis,” segir Ólafur Reykdal hjá Matís.

Bakarar í Brauðhúsinu Grímsbæ hnoða byggbrauð.
Brauðvara frá Brauðhúsinu.

Framleiðnisjóður styrkti verkefni Matís og Landbúnaðarháskólans.

Fréttir

Öskudagurinn á Matís

Landsmenn hafa væntanlega ekki varhluta af því að í dag er Öskudagurinn og yngri kynslóðin á ferli í alls kyns múnderingum. Nokkrir hópar hafa litið inn hjá Matís í Borgartúni 21 og sungið, sumir m.a.s. á dönsku! Við fengum að smella myndum af þessum kátu gestum.

Anna Sigrún, móttökuritari á Matís, var vel undirbúin, skartaði sjálf fjólublárri hárkollu og hafði birgt sig upp af sælgæti. Söngglaðir gestir komu því ekki að tómum kofanum, heldur fengu bæði hefðbundið sælgæti en voru ekki síður ánægðir með að fá harðfisk að launum fyrir sönginn.

Nemendur úr Lauganes- og Laugalækjarskóla
Sungið af lífi og sál
Stelpur úr Laugalækjarskóla

Flestir söngvaranna voru nemendur úr Laugarnes- og Laugarlækjaskólum.

Fréttir

Aukið virði sjávarfangs: FisHmark-hugbúnaður

Þann 14. febrúar n.k. verður kynnt til sögunnar frumgerð hugbúnaðar, FisHmark, sem gerir stjórnendum sjávarútvegsfyrirtækja mögulegt að framkvæma nákvæmari áætlanagerð í fiskveiðum. AVS hefur styrkt verkefnið. Fundurinn, sem fer fram á 2. hæð á Radisson Saga Hótel, hefst klukkan 13:30.

Með þessum nýja hugbúnaði er hægt að:

  • Auka virði sjávarfangs og tryggja aðgang inn á kröfuharða sérmarkaði
  • Greina hvaða þættir hafa áhrif á virði sjávarfangs og afkomu fiskveiða og fiskvinnslu
  • Búa til tillögur að hagkvæmasta fyrirkomulagi að veiðum og ráðstöfun afla
  • Auðvelda fiskseljendum að miðla upplýsingum um vöru, svo sem um uppruna hennar
  • Tengja saman gögn úr rafrænum afladagbókum, mælingum í móttöku og úr upplýsingakerfum um vinnslu og markað
  • Leita hagkvæmustu lausna í virðiskeðju þorskafurða og auka hagnað fyrirtækja

Sjá dagskrána hér.

Fréttir

Dregið hefur úr transfitusýrum í matvælum

Dregið hefur úr transfitusýrum í matvælum hér á landi á síðustu árum, að því er fram kom í viðtali Fréttastofu Stöðvar 2 við Ólaf Reykdal verkefnastjóra hjá Matís. „Það hafa verið gerðar einstaka mælingar en fáar á allara seinustu árum, þær sýna að í vissum vörum hafa, hefur dregið úr magni transfitusýra,“ sagði Ólafur í samtali við Stöð 2.

Transfitusýrur eru svokölluð hert fita og óæskilegar í miklum mæli en neysla á þeim hækkar blóðkólesteról og eykur þannig líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum.

Ólafur segir þó enn nokkuð um að transfitusýrur séu í matvælum. En þær geta verið í unnum matvörum eins og smjörlíki og kexi og vörum sem að hafa verið djúpsteiktar eins og frönskum kartöflum. Ólafur hvetur fólk til að skoða innihaldslýsingar á vörum.

Ólafur Reykdal: „Ef að það kemur fram í innihaldslýsingunni að það hafi verið notuð hert fita þá er þar transfitusýra, það er semsagt hydrogenated.“

Til stendur að gera nýja úttekt á transfitusýrum í matvælum hér á landi, að því er fram kom í frétt Stöðvar 2.

Fréttir

Bás Matís vinsæll á Framadögum

Háskólanemendur sýndu bás Matís mikinn áhuga á Framadögum, sem fram fóru í Háskólabíói 1. febrúar. Á Framadögum kynnti Matís starfsemi sína og bauð nemendum að vinna að verkefnum eða athuga möguleika um sumarvinnu.

Fjölmargir sýndu áhuga á því að að vinna að verkefnum fyrir Matís og einnig voru margir sem vildu sækja um sumarvinnu.

Matís bás á Framadögum

Fréttir

Ekki sama hvenær og hvar fiskur er veiddur – Sveinn Margeirsson deildarstjóri Matís um doktorsverkefni sitt

Nú er unnið að því að kortleggja hvernig best sé að haga veiðum með tilliti til vinnslu. Hvernig hámarka megi afrakstur bæði útgerðar og fiskvinnslu með því að nýta upplýsingar um gæði fisks eftir veiðisvæðum og árstíma og beina sókninni eftir því. Þannig fæst betra hráefni til vinnslunnar, sem leiðir svo til arðbærari vinnslu og betri og dýrari afurða. Það er alls ekki sama hvar og hvenær fiskurinn er veiddur, segir í Morgunblaðinu um doktorsverkefni Sveins Margeirssonar.

Markmið verkefnisins (Vinnsluspá þorskafla) hjá Sveini, sem er deildarstjóri hjá Matís, var að safna gögnum um þorskveiðar og vinnslu fjögurra íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, greina þau á tölfræðilegan hátt og setja upp beztunarlíkön til að auðvelda stjórnun á veiðum og vinnslu þorsks á Íslandsmiðum, segir í grein Hjartar Gíslasonar blaðamanns á Morgunblaðinu. „Gögnum um flakanýtingu, los og hringorma í þorski var safnað frá 2002 til 2006. Allar þessar breytur hafa veruleg áhrif á hagnað af þorskveiðum og vinnslu.

Talsverður munur á flakanýtingu eftir svæðum

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að afrakstur virðiskeðju þorsks geti verið aukinn með því að sækja þorskinn á ákveðin veiðisvæði og á ákveðnum tíma árs en niðurstöðurnar sýndu að flakanýting, los og hringormar í þorski eru m.a. háð veiðistaðsetningu og árstíma,“ segir í grein Morgunblaðsins. Sveinn segir í greininni að niðurstöðurnar séu í raun og veru þær að það sé talsverður munur á flakanýtingu eftir svæðum og árstíma.

„Bein tengsl voru á milli loss í fiskinum og aldurs hráefnisins svo og á hvaða tíma fiskurinn var veiddur. Þá voru einnig tengsl milli orma í fiskinum og stærðar hans og einnig fór fjöldi orma nokkuð eftir því hvar fiskurinn var veiddur. Næsta skrefið var síðan að byggja aðgerðargreiningar- eða beztunarlíkan á þessum upplýsingum öllum. Það tók þessar niðurstöður, vann þær áfram og setti í samhengi við olíuverð, fjarlægð á miðin og fleira í þeim dúr. Þannig var hægt að fá mat á því hvert væri hagkvæmast að sækja fiskinn.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í Morgunblaðinu miðvikudaginn 30. janúar 2008.

IS