Fréttir

Rafrænar upplýsingar um matvöru til neytenda

Ýmsir telja að rafrænar merkingar muni leysa hefðbundin strikamerki af hólmi á næstu árum. Matís hefur sl. ár tekið þátt í þróunarverkefni sem miðar að því að merkja fiskiker með rafrænum hætti. Slíkar merkingar munu gefa aukna möguleika á hagnýtingu rekjanleika og m.a. gera fyrirtækjum kleift að senda rafrænar upplýsingar til kaupenda um það hvar afurðin er veidd, hvar hún hefur verið verkuð og hvaða leið hún hefur farið á markað.

Kröfur framleiðenda og neytenda um aukið upplýsingaflæði og betri merkingar á matvælum eru sífellt aukast. Segja má að þróun á rafrænum merkingum fyrir fiskiker sé angi af þeirri þróun. Sem dæmi má nefna að talið er að með rafrænum merkingum verði jafnvel mögulegt fyrir ísskápa framtíðarinnar að taka á móti upplýsingum og miðla til neytenda, hvort sem það eru upplýsingar um síðasta söludag á matvöru, um innihald ofnæmisvaldandi efna eða hvaða meðlæti eigi við með íslenskum þorski. Þá eru bundnar vonir við að ísskápar framtíðarinnar geti átt þráðlaus samskipti við gagnagrunna matvælaframleiðenda, sem t.d. munu geta varað neytendur við ef upp koma matarsýkingar sem tengst geta þeim matvælum sem eru í ískápnum.

Nú þegar er hafin tilraunaframleiðsla á ísskápum framtíðarinnar, til dæmis hjá Innovation Lab í Danmörku. Segir fyrirtækið að ísskáparnir verði komnir í almenna sölu eftir 5-10 ár.

Þróun á rafrænum merkingum fyrir fiskiker, sem er styrkt af AVS sjóðnum, er unnið í samstarfi við FISK Seafood, Sæplast og Maritech. Niðurstöður verkefnisins eru væntanlegar á næstu vikum.

Fréttir

Gæðaúttekt á Matís

Í vikunni fór fram gæðaúttekt Swedac og Einkaleyfastofu á rannsóknaraðferðum Matís, en slíkar úttektir voru gerðar árlega hjá Rf og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar um margra ára skeið.

Úttektin fór fram þann 15.10. 2007 á rannsóknastofu Matís að Skúlagötu 4 og þann 18.10. 2007 var gerð sambærileg úttekt í útibúi Matís í Neskaupstað. Í útibúi Matís á Akureyri fór hins vegar fram gæðaúttekt í apríl á þessu ári.

Að sögn Margrétar Geirsdóttur, gæðastjóra Matís, gekk úttektin vel og hefur rannsóknastofa Matís nú 27 faggiltar örveruaðferðir og 7 efnaaðferðir á sínum lista. Um er að ræða mismunandi örverurannsóknir á matvælum, vatni, fóðri, umhverfissýnum, lyfjum og efni til lyfjagerðar ásamt sérhæfðum efnamælingum á matvælum, vatni og umhverfissýnum og mælingar á varnarefnum í grænmeti og ávöxtum.

Faggilding er viðurkenning á því að fyrirtæki viðhafi bestu starfsvenjur og hafi tæknilega hæfni til að tryggja að þær mælingar sem þar eru gerðar standist allar alþjóðlegar kröfur í sambandi við gæðaumhverfi, vinnureglur og strangt gæðaeftirlit. Faggildingin er unnin út frá ISO 17025 staðlinum um starfsemi rannsóknastofa, en ákvæði um faggildingu var tekið upp í íslenskri reglugerð árið 1994.

Það eru Einkaleyfastofan og Swedac, sænska faggildingarstofnunin, sem veita Matís faggildinguna. Faggildingaraðili kannar með árlegri heimsókn hvort gæðakerfið og þær mæliaðferðir sem notaðar eru við efna- og örverurannsóknir standist þær skuldbindingar sem faggilding krefst og lýst er í ISO 17025 staðlinum.

Auk þess hefur rannsóknastofa Matís faggildingu frá New York State Department of Health fyrir örverumælingar í átöppuðu vatni.

Listi yfir faggildar rannsóknaraðferðir Matís (pdf-skjal)

Á myndinni má sjá þrjá fulltrúa Swedac ásamt nokkrum starfsmönnum á Matvælaöryggissviði Matís á Skúlagötu.

Fréttir

Aukin umsvif á Ísafirði

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hefur fjölgað starfsfólki á starfsstöð sinni á Ísafirði. Jón Atli Magnússon hefur tekið til starfa á starfsstöðinni en hann mun sinna verkefnum á sviði vinnslu- og eldistækni.

Hann er þriðji starfsmaðurinn hjá Matís á Ísafirði en fyrir eru Þorleifur Ágústsson og Jón. G. Schram.

Jón Atli útskrifast sem vélaverkfræðingur (B.Sc.) frá Háskóla Íslands síðar í þessum mánuði. Hann hefur margvíslega aðra menntun og starfsreynslu úr atvinnulífinu. Hann er með vélstjórnarréttindi frá VMA (3. stig) og starfaði í nokkur ár sem vélstjóri hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvör í Hnífsdal, en sl. tvö ár starfaði Jón sem þróunarstjóri 3X Technology (áður 3X Stál). Síðast en ekki síst þá stofnaði Jón 5 kinda sauðfjárbú er hann var 15 ára gamall sem hann rak meðfram námi.

Jon_Atli

Eiginkona Jóns er Ilmur Dögg Níelsdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau soninn Jóhann Ása.

Fréttir

Matís vekur athygli á Matur-inn

Matís á Akureyri tók þátt í matvælasýningunni Matur-inn sem fram fór í Verkmenntaskólanum um síðustu helgi. Þar kynnti Matís starfsemi sína á Akureyri; rannsóknir á mengunarefnum og óæskilegum efnum í matvælum. Þá var ÍSGEM gagnagrunnurinn kynntur til sögunnar, en hann er með upplýsingar um efnainnihald 900 fæðutegunda.

Matur-inn

Verkefni Matís vöktu verulega athygli gesta á sýningunni, en hana sóttu ríflega 10.000 manns. Fannst mörgum gestum sem skoðuðu bás Matís merkilegt hve umfangsmikið rannsóknastarf færi fram á vegum fyrirtækisins í bænum.

Fréttir

Ýsa var það, heillin!

Í nýrri skýrslu Matís, þar sem birt er samantekt á þeim upplýsingum sem fyrir liggja um neyslu Íslendinga á hinum ýmsu fisktegundum, kemur m.a. fram að Íslendingar elska ýsu öðrum fiskum fremur. Og kemur líklega fáum á óvart!

Skýrslan nefnist “Fiskneysla 17 til 49 ára Íslendinga á mismunandi fisktegundum
og -afurðum
” og er hluti af AVS verkefninu “Verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða – Áhættusamsetning og áhætturöðun”. Að sögn skýrsluhöfundar, Kolbrúnar Sveinsdóttur, er markmiðið með skýrslunni að gera ítarlega og aðgengilega samantekt á nýjustu upplýsingum sem tiltækar eru um fiskneyslu Íslendinga. Slíkar upplýsingar hafa ekki legið á lausu hingað til.

Á meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að fiskneysla eldra fólks er meiri en þeirra yngri og að eldri aldurshópurinn borðar einnig fjölbreyttara úrval fisktegunda og -afurða heldur en þeir yngri. Nokkur munur virðist einnig vera á fiskneyslu höfuðborgarbúa annars vegar og landsbyggðarfólks hins vegar, bæði hvað varðar tíðni fiskneyslu og þær fiskafurðir sem borðaðr eru.

Fiskur er oftar á diskum fólks á landsbyggðinni og oftast er þá um hefðbundnar afurðir s.s. ýsu, þorsk og saltfisk að ræða og oftar en ekki er um frystar afurðir að ræða. Höfuðborgarbúar borða meira af ferskum fiski og hálf-tilbúnum fiskréttum, sem ugglaust stafar af betra aðgengi að slíkri vöru en er í boði úti á landi.  Þeir eru einnig líklegri til að borða fisk utan heimilis heldur en landsbyggðarfólk.

Kolbrún segir að samantektin byggi að mestu á upplýsingum sem aflað var í viðhorfs- og neyslukönnun AVS verkefnisins “Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða” sem gerð var árið 2006, þar sem rúmlega 2000 manns svöruðu spurningum um fiskneyslu sína og viðhorf.

Kolbrún leggur áherslu á nauðsyn þess að upplýsingar af þessu tagi þurfi að ná yfir alla aldurshópa og nefnir sem dæmi að fólk, eldra en 65 ára, sé töluvert viðkvæmara fyrir ýmsum áhættuþáttum en aðrir.
 

Lesa skýrslu 37-07: Fiskneysla 17 til 49 ára Íslendinga á mismunandi fisktegundum og -afurðum

Skýrsla Matís 08-07: Verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða. Áhættusamsetning og áhætturöðun

Skýrsla Matís 05-07: Viðhorf og fiskneysla ungs fólks á aldrinum 18 til 25 ára – Lýsandi tölfræðiúrvinnsla

Fréttir

Iðnaðarráðherra gæðir sér á hvannalambi

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, gæddi sér á lambakjöti sem var alið upp á hvönn í bás Matís (Matvælarannsóknir Íslands) á Vísindavöku RANNÍS í Listasafni Reykjavíkur á föstudag. Á básnum kynnti Matís rannsóknir á lömbum sem alin voru upp á þessari jurt í sumar. Samkvæmt rannsókninni hafa hvannalömb meiri meiri kryddlykt og –bragð, en lömb í hefðbundnu beitarlandi hafa meira lambakjötsbragð.

Vísindavaka RANNÍS

Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau ólu ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi sem var með hvönn. Til samanburðar var öðrum lömbum komið fyrir í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta upp hvönn til að beita á lömbin fyrir slátrun og hefja framleiðslu á lambakjöti sem byggir á þessari aðferð.

Frá Vísindavöku RANNÍS.Hvönn var áður talin til búdrýginda og var einnig talin allra meina bót. Nú er áhugi á þessari jurt að vakna á ný samhliða aukinn vitund fólks um þau efni sem það setur ofan í sig. Hvönn hefur verið notuð til að gefa bragð í mat og þykir góð sem kryddjurt. Þess vegna þykir áhugavert að gera athugun á því hverju það skilar sér í bragðgæðum á kjöti að ala lömb upp að hluta til á hvönn fyrir slátrun.

Nú þegar búið er að gera rannsóknir á kjötinu kemur í ljós að það er greinanlegur munur á milli lamba sem alin voru upp á hvönn og lamba sem alin voru á hefðbundinni sumarbeit. Stefnt er að því að halda rannsóknum áfram næsta sumar og meðal annars er stefnt að því að búa til hvannaakur svo hægt sé að þróa bragðið enn frekar.

Fréttir

Ráðherra á Matís fundi: bindur vonir við þorskeldi

Fiskeldi getur nýst afar vel við að byggja upp hagkvæma grein í íslenskum sjávarútvegi, ekki síst við firði á landsbyggðinni þar sem nægilegt rými er til staðar, að því er fram kom í máli Einars K. Guðfinnsonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á opnum fundi Matís um þorskeldi á Ísafirði. Hann segir að með því að hraða þróun í fiskeldi hér á landi sé mögulegt að margfalda framleiðslugetu fyrir greinina, skapa aukin atvinnutækifæri víða um land og útvega gott hráefni fyrir kröfuharða markaði. Hann varar hins vegar við gullgrafararstemmningu í tengslum við þorskeldið.

“Eldi er stór hluti af framleiðslu á sjávarfangi og fer stækkandi á heimsvísu. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vera virkir þátttakendur í rannsóknum og þróun á þessu sviði. Í þorskeldisrannsóknum hér á landi hefur verið unnið að því að seinka kynþroska þorsks eins og mögulegt er svo hann haldi áfram að stækka þannig að hægt verði að auka hagkvæmni í eldinu,” sagði ráðherra. Þá kom fram í máli hans að uppbygging þorskeldis á Íslandi í atvinnuskyni sé mjög mikilvægt en um leið áhættusamt langtímaverkefni sem krefst samstillts átaks opinberra aðila og einkafyrirtækja.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.

“Við erum nú á þessum tímapunkti stödd á eins konar þröskuldi hvað þorskeldið áhrærir. Við þurfum að taka ákvarðanir um framtíðina og hvert skuli stefna. Þrotlaus, kostnaðarsöm og og þolinmóð vinna er að baki. Við höfum lært mikið og nú er komið að því að taka skrefin fram á við. Þótt öllum spurningunum hafi ekki verið svarað vitum við að það felast miklir möguleikar í þorskeldinu; möguleikar sem ég er ekki einn um að binda miklar vonir við.”

Ráðherra benti hins vegar á að þeir sem kæmu að fiskeldi yrðu engu að síður að gá að sér. “Mér finnst ég skynja núna dálítið svipaða umræðu um þorskeldið og í árdaga þeirrar atvinnustarfsemi. Gullgrafarastemminguna. Hún á lítinn rétt á sér. Þorskeldið krefst sem fyrr mikils fjármagns og þekkingar sem bara fæst af reynslu og með vísindalegri nálgun. Menn byggja ekki upp þorskeldi eins og hendi sé veifað. Það krefst allt annarra vinnubragða og gríðarlegrar ögunar. Það kennir okkur reynslan og er hún ekki alltaf ólygnust? Hér inni má finna menn með þessa miklu reynslu og þekkingu sem geta borið um allt þetta. Það er á grundvelli þeirrar reynslu sem ég held að við eigum að byggja okkar næstu skref. Og því tel ég að stjórnvöld eigi að styðja við slíka viðleitni af hálfu atvinnugreinarinnar sjálfrar, þar sem menn byggja á þeirri þekkingu sem hefur safnast upp innan fyrirtækjanna og í vísindasamfélaginu okkar,” sagði Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fréttir

Opinn kynningarfundur um þorskeldi á Ísafirði

Matís heldur opinn kynningarfund á þorskeldi í Þróunarsetri Vestfjarða á morgun, miðvikudaginn 26. september. Á fundinum munu Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Þorleifur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Matís, og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, fjalla um stöðu og horfur fiskeldis hér á landi, einkum á Vestfjörðum. Þá mun Karl Almås, framkvæmdastjóri hjá SINTEF í Noregi, fjalla um fiskeldi í Noregi.

Tími: 26. september, 12:15-13:40.

Staðsetning: Þróunarsetur Vestfjarða, Árnagata 2-4, Ísafirði.

Dagskrá (PDF).

Fréttir

Matís óskar eftir aðstoðarmanni á rannsóknarstofu

Matís óskar eftir að ráða aðstoðarmann á rannsóknarstofu í Reykjavík. Helstu verkefni eru undirbúningur matvæla- og umhverfissýna.

Í starfinu felst m.a. Vinna við sýnatökur og undirbúning sýna,efnagreiningar o.fl. í rannsóknaverkefnum fyrirtækisins.

Háskólamenntun er ekki skilyrði.

Nánari upplýsingar veitir Birna Eggertsdóttir í síma: 422 5000. Umsóknarfrestur er til 5. október

Smellið hér til að sjá alla auglýsinguna (pdf-skjal)

Fréttir

Grein frá Matís í JFS: Rannsókn á vinnslu fiskpróteina úr síld

Í grein eftir þrjá starfsmenn Matís, sem birtist í septemberútgáfu vísindatímaritsins Journal of Food Science er fjallað um rannsóknir á áhrifum frystingar og frystigeymslu á gæði síldarflaka m.t.t. vinnslu próteina.

Síldarvinnsla hjá SVN í Neskaupstað

Notkun próteina sem hjálparefna í matvælaframleiðslu er mikil, en þau gegna margvíslegum hlutverkum, s.s. sem bindiefni, ýrugjafar o.fl. Algengustu próteinin eru sojaprótein og ýmis mjólkurprótein. Fiskiðnaður hefur lítið stundað nýsköpun á þessu sviði og fiskprótein til notkunar í matvælaiðnaði hafa varla verið fáanleg. Á það sérstaklega við um prótein úr dökkum, fitumiklum fisktegundum eins og síld og loðnu.

Nýleg aðferð til að einangra fiskprótein, sem gerir það mögulegt að fjarlægja óæskilega fitu og þætti sem hafa áhrif á lit og lykt, getur breytt þessari stöðu og þar með gert mögulegt að vinna prótein úr uppsjávarfiskum.

Í rannsókninni sem greint er frá í JFS var sérstaklega skoðað hvaða áhrif frysting og frystigeymsla við -24°C hefðu á próteinleysni og seigju próteinlausna. Í ljós kom að ýmsar óæskilegar breytingar urðu á eiginleikum próteina við frystigeymslu og komast greinarhöfundar m.a. að þeirri niðurstöðu að ekki skuli geyma hráefnið lengur en þrjá mánuði í frosti áður en það er notað til próteinvinnslu til að tryggja að heimtur séu góðar.

Höfundar greinarinnar eru þau Margrét Geirsdóttir, Guðjón Þorkelsson og Sjöfn Sigurgísladóttir. Þau starfa öll hjá Matís en auk þeirra er Harpa Hlynsdóttir, matvælafræðingur hjá Sýni ehf, meðhöfundur greinarinnar, en hún starfaði áður hjá Rf.

Rannsóknin sem greinin byggir á var styrkt af Norræna iðnþróunarsjóðnum, Rannís og SEAFOODplus klasaverkefni ESB. Lesa grein

IS