Fréttir

Sjávarútvegsráðherra Líberíu heimsækir Matís

Dr. Chris Toe sjávarútvegsráðherra Líberíu heimsótti Matís (Matvælarannsóknir Íslands) í ferð sinni hingað til lands. Starfsfólk Matís kynnti ráðherranum fyrir starfseminni og rannsóknarstofum fyrirtæksins á Skúlagötu. Þá var ráðherra fræddur um líftæknirannsóknir Prokaria, sem er hluti af Matís.

Toe ræddi einnig við Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, heimsótti Hafrannsóknastofnun og fræddist um Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er með aðsetur við Skúlagötu. Ennfremur mun Toe og fylgdarlið heimsækja fjölmörg önnur fyrirtæki hér á landi.

Franklín Georgsson sviðsstjóri á Matvælaöryggi Matís ræðir við sendinefndina frá Líberíu.

MYND: Chris Toe, lengst til vinstri, hlýðir á Franklín Georgsson sviðsstjóra hjá Matís.

Nánar um Líberíu á Wikipediu.

Fréttir

Svínakjöt: Nákvæmari niðurstöður með rafrænu mati

Nú hafa skapast forsendur til þess að innleiða rafrænt mat á svínaskrokkum í sláturhúsum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um niðurstöður mælinga á kjöthlutfalli svínakjöts. Með rafrænu mati, sem mælir hlutfall kjöts á svínaskrokkum, fást nákvæmari niðurstöður en hægt hefur verið að birta hingað til. Það auðveldar öll samskipti á milli sláturhúsa og bænda sem og sláturhúsa og kjötvinnslna þar sem verðlagning og kjöthlutfall verður látið haldast í hendur.

Þá kemur fram í skýrslunni að breytileiki íslenska svínastofnsins er það lítill að ekki er um veruleg frávik að ræða þótt sama reikniformúla sé notuð, eftir mælitækjum, á öll svín.

Ástæða þess að nú sé mögulegt að taka upp rafænt mat er sú að ræktun svínabænda hér á landi er orðin markviss og að notast er við sama svínastofn á öllum búum. Búið er að gera úttekt á þykkt fitu og vöðva á tilteknum mælistöðum með rafrænum mælitækjum og bera þær niðurstöður saman við upplýsingar frá norska yfirkjötmati. Slíkt var nauðsynlegt til að kanna breytileika íslenskra svína innan stofnsins sem og á milli búa. Svínastofnar hér á landi eru sambærilegir og í Noregi.

Verkefnið var unnið fyrir Svínaræktunarfélag Íslands.

Fréttir

Mikilvægt að landa afla tímanlega

Mikilvægt er að afla sé landað tímanlega svo hægt sé að nýta hann betur því um leið og fiskur er veiddur rýrnar hann og tapar ferskleika. Þetta er umfjöllunarefni Guðbjargar Heiðu Guðmundsdóttur í meistaraverkefni sínu, sem nefnist Áætlanagerð fyrir hámarkshagnað í íslenska þorskiðnaðinum, í véla- og iðnaðarverkfræðiskor. Guðbjörg mun halda opinn fyrirlestur um verkefni sitt þann 24. september.

Eftir að fiskur hefur verið veiddur rýrnar hann um borð í fiskiskipum og tapar ferskleika. Þessi rýrnun minnkar vinnslumögleika og nýtingu á flökum fisksins. Það er því mikilvægt að aflanum sé landað tímanlega til að hægt sé að nýta hann betur. Ennfremur að tekið sé tillit til vinnslunnar við skipulagningu útgerðar þannig að vinnslan geti unnið fiskinn jafnóðum og komið honum ferskum á markað. Stærðfræðilíkan sem skipuleggur veiðiferðir fiskiskipa og framleiðslu í fiskvinnslu er sett fram. Rekstrarhagnaður vinnslunnar og útgerðarinnar er hámarkaður með tilliti til rýrnunar á aflanum. Aðrir þættir í bestunarlíkaninu eru birgðastaða og flæði í vinnslu.

IMG_0393

Markmið verkefnisins er að hanna hugbúnað sem sjávarútvegsfyrirtæki geta nýtt til aðstoðar við ákvarðanatöku. Möguleikinn á að nýta líkanið er sýndur með því að beita líkaninu á íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki. Áhrif lengdar veiðiferða á rýrnun er kannað auk annarra áhrifaþátta.

Samstarf við Matís

Verkefni Guðbjargar Heiðu er unnið í samstarfi við Matís og hefur verkefnið verið hluti af stærra verkefni, Vinnsluspá þorskafla, sem styrkt er af Rannís og AVS.

Verkefnið er unnið undir leiðsögn Páls Jenssonar, prófessors við Véla- og iðnaðarverkfræðiskor HÍ og Sveins Margeirssonar doktorsnema í Véla- og iðnaðarverkfræði og deildarstjóra á Matís ohf. Prófdómari er Snjólfur Ólafsson, prófessor við Viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

Staður og stund: Guðbjörg mun halda opinn fyrirlestur um verkefni sitt þann 24. september næstkomandi klukkan 12 í stofu 157 í VR-II í húsi Verkfræði- og raunvísindadeilda við Hjarðarhaga 4.

Fréttir

Erindi um nýja norræna matargerð

Matvæli á Norðurlöndum eru talin búa yfir sérstökum eiginleikum sem bæta heilsu fólks. Helstu einkenni norrænna hráefna eru talin vera hreinleiki, bragðgæði og hollusta. Mads Holm, yfirmatreiðslumaður Norræna hússins, verður með erindi þann 25. ágúst um hvernig það hyggst vinna með hugmyndir og lögmál hinnar nýju norrænu matagerðar.

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda. Einnig er markmiðið að efla samstarf landanna á sviði matvælaframleiðslu og tengja hana verkefnum á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, byggðaþróunar og viðskipta.

Mads Holm mun flytja erindi sitt í Norræna húsinu þann 25. ágúst klukkan 15.

Fréttir

Heilsufullyrðingar: Dregið úr innsendum svörum

Nú er búið að draga úr innsendum svörum vegna könnunar um heilsufullyrðingar á matvælum. Hægt er að skoða vinningsnúmerin hér.

Vinningsnúmer

  • 1531 – 30.000 kr. frá Mjólkursamsölunni
  • 516 – 15.000 kr. frá Mjólkursamsölunni
  • 551 – Ostakarfa frá Mjólkursamsölunni
  • 1183 – Ostakarfa frá Mjólkursamsölunni
  • 2193 – Ostakarfa frá Mjólkursamsölunni
  • 419 – Kristall frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson
  • 2205 – Kristall frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson
  • 2475 – Heilsukarfa frá Lýsi
  • 90 – Gjafabréf frá Myllunni

Gunnþórunn Einarsdóttir og Emilía Martinsdóttir veita frekari upplýsingar um vinningana í síma 422 5000.

Nánar um heilsufullyrðingar.


Matís vill þakka föllum yrir þátttökuna.

Fréttir

Nýr norrænn matur: hvað er það?

Aukin eftirspurn er eftir matvælum sem búa yfir sérstökum hreinleika og eiginleikum sem taldir eru bæta heilsu fólks. Norðurlönd hafa sterka stöðu hvað þetta varðar í alþjóðlegu samhengi og þá sérstöðu má nýta til að skapa viðskiptatækifæri. Einkum er talið er að byggðalög sem eiga undir högg að sækja efnahagslega geti nýtt þennan styrkleika sér til framdráttar.

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda. Einnig er markmiðið að efla samstarf landanna á sviði matvælaframleiðslu og tengja hana verkefnum á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, byggðaþróunar og viðskipta.

Helstu einkenni norrænna hráefna: Hreinleiki, bragðgæði og hollusta

Samstarfsáætlun um ,,nýjan norrænan mat og matargerðarlist” á rætur að rekja til þess að innan Evrópu er sívaxandi áhersla á staðbundin sérkenni matvæla og því fólki fjölgar sem hefur áhuga á að kynnast og upplifa mat sem tengist tilteknum svæðum. Þó Norðurlöndin hafi á ýmsan hátt ólíkar forsendur til matvælaframleiðslu hafa matreiðslumenn á Norðurlöndum í vaxandi mæli dregið fram atriði sem einkenna löndin sem heild. Helstu einkenni norrænna hráefna eru talin vera hreinleiki, bragðgæði og hollusta.

Skapa jákvæðara viðhorf til eigin matarmenningu

Sérstakur stýrihópur var stofnaður til að vinna að áætluninni. Í honum sitja fyrir hönd Íslands Emilía Martinsdóttir frá Matís og Laufey Haraldsdóttir frá Ferðamáladeild Hólaskóla, Háskólans á Hólum. Í hverju landi hafa einnig verið tilnefndir “sendiherrar” sem hafa það verkefni að miðla þekkingu og vekja athygli á norrænni matargerð. Sendiherrarnir vinna að kynningum á norrænni matargerð og menningu. Íslensku sendiherrarnir eru Sigurður Hall og Baldvin Jónsson.

Meðal verkefna stýrihópsins er að skilgreina merkingu hugtaksins ”Nýr norrænn matur og matargerðarlist”. Taka þarf tillit til ólíkra matvælahefða innan Norðurlandanna og skapa jákvæðara viðhorf meðal Norðurlandabúa til eigin matarmenningar. Hvatt verður til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og stutt við staðbundna hráefnanotkun og matvælaframleiðslu.

NÝR NORRÆNN MATUR Í HNOTSKURN

  • Aukin eftirspurn er eftir matvælum sem búa yfir sérstökum hreinleika og eiginleikum sem taldir eru bæta heilsu fólks. Norðurlönd hafa sérstöðu í þessum efnum.
  • “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda.
  • Sívaxandi áhersla er á staðbundin sérkenni matvæla í Evrópu.
  • Fólki fjölgar sem hefur áhuga á að kynnast og upplifa mat sem tengist tilteknum svæðum.
  • Norrænir matreiðslumenn hafa í vaxandi mæli dregið fram atriði í matargerð sem einkenna Norðurlönd sem heild.
  • Helstu einkenni norrænna hráefna eru talin vera hreinleiki, bragðgæði og hollusta.
  • Sérstakur stýrihópur hvetur til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og styður við staðbundna hráefnanotkun og matvælaframleiðslu.

Fréttir

Auglýst eftir líffræðingi með framhaldsmenntun

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) auglýsir eftir líffræðingi með framhaldsmenntun. Starfssviðið felst í forgangs- og öryggisþjónustu í örverurannsóknum og þátttaka í vísindarannsóknum sem tengjast matvælum og umhverfi.

Hæfniskröfur: Háskólapróf í líffræði eða skyldum greinum er skilyrði. Æskilegt er að viðkomandi hafi meistaragráðu eða doktorsgráðu og hafi reynslu af örveru- og sameindarlíffræðirannsóknum.

AUGLÝSINGLíffræðingur með framhaldsmenntun í örverurannsóknum í ágúst 2007.

Fréttir

Matís leitar að verkefnastjóra

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) leitar að starfskrafti í verkefnastjórastöðu í Reykjavík. Starfssviðið felur í sér umsjón og rekstur á verkefnastjórnunarkerfi; rekstur, samningar, árangur og starfsmannamál.

Við leitum að einstaklingi sem hefur menntun á sviði raunvísinda (matvælafræði, líffræði eða verkfræði). Framhaldsmenntun eða reynsla í verkefnastjórnun er skilyrði.

Sjá atvinnuauglýsinguna í heild sinni hér.

Fréttir

Hvað er mikil fita í lambavöðva? Upplýsingar um 900 fæðutegundir

Vissir þú að það er aðeins 0,6% fita í ýsu, 6% fita í lambavöðva en 30% fita í spægipylsu. Þá eru rúmlega 400 hitaeiningar (kcal) af kolvetni og alkahóli í hverjum lítra af bjór. Þessar upplýsingar og margar fleiri er hægt að finna í ÍSGEM gagnagrunninum um efnainnihald matvæla. Þar er að finna upplýsingar um 900 fæðutegundir.

Meðal annars er hægt að fá upplýsingar, um prótein, fitu, kolvetni, vatn, orku, vítamín, steinefni og óæskileg efni eins og kvikasilfur, blý, kadmín og arsen sem getur fundist í matvælum. Til dæmis er hægt að leita að hve mikið prótein er í skyri, en það er um 11%. Til samanburðar er 3% prótein í nýmjólk en það er hins vegar um 70% prótein í harðfiski.

Hægt er að skoða ÍSGEM gagnagrunninni hér.

Fréttir

Nýting flaka mismunandi eftir veiðisvæðum

Nýting flaks af þorski sem er veiddur út af Suðausturlandi er betri heldur en af þorski sem er veiddur út af Norðurlandi. Þá er flakanýting betri á tímabilinu júní til ágúst miðað við aðra ársfjórðunga, að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands) sem ber heitið Verkunarspá-tengsl hráefnisgæða við vinnslu og verkunarnýtingu þorskafurða.

RF-40848

Í rannsókninni, sem er samstarfsverkefni Matís og Fisk Seafood, er að finna niðurstöður á því hvernig þorskur, sem veiddur var á mismunandi veiðisvæðum og á ólíkum árstíma, nýtist sem hráefni við vinnslu og verkun léttsaltaðra þorskafurða, en sú afurð hefur átt vaxandi vinsældum að fagna á mörkuðum í S-Evrópu á undanförnum árum. Í rannsókninni voru skoðaðir þættir eins og aldur hráefnis frá veiði, los, mar, holdafar og og fleira sem getur tengst árstíðabundnum sveiflum í ástandi hráefnisins og veiðisvæðum ásamt veiðiaðferðum og meðhöndlun afla frá veiði til vinnslu.

“Fram komu vísbendingar um mismunandi eiginleika þorsks á mismunandi veiðisvæðum og árstímum. Helstu niðurstöður voru þær að veiðisvæði út af Suðausturlandi gáfu marktækt betri flakanýtingu í þorski heldur en veiðisvæði út af Norðurlandi, auk þess sem flakanýting var betri á tímabilinu júní-ágúst, miðað við aðra ársfjórðunga,” segir Sigurjón Arason sérfræðingur hjá Matís.

Hann segir að þegar þorskinum hafi verið skipt í þrjá þyngdarflokka, hafi komið í ljós að léttasti flokkurinn (1,4-2,1 kg) var með meiri þyngdaraukningu við verkun léttsaltaðra afurða en þyngri flokkarnir. “Það gefur til kynna að þyngri þorskurinn þurfi lengri tíma í pæklun en léttari þorskurinn. Vatnsheldni var áberandi lægri á veiðisvæðum út af Norðurlandi og Norðausturlandi en á öðrum miðum.”

Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.

IS