Fréttir

Meira bragð: Lömb alin upp á hvönn

Hafnar eru tilraunir á því að ala íslensk lömb upp á hvönn. Markmiðið er að kanna hversu mikil bragðgæði felast í því að ala lömb upp á bragðsterkum gróðri í stað hefðbundinnar sumarbeitar. Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hyggst rannsaka hvaða áhrif hvannabeit hefur á bragð lambakjötsins.

Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau hyggjast ala ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi með býr yfir hvönn. Til samanburðar verður öðrum lömbum komið fyrir í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta upp hvönn til að beita á lömbin fyrir slátrun og hefja framleiðslu á lambakjöti sem byggir á þessari aðferð. Ef verkefnið skilar jákvæðum niðurstöðum er stefnt að því að hefja sölu á lambakjöti sem byggir á slíkri sérstöðu.

Kindur.

Hvönn talin góð kryddjurt

Hvönn var áður talin til búdrýginda og var einnig talin allra meina bót. Nú er áhugi á þessari jurt að vakna á ný samhliða aukinn vitund fólks um þau efni sem það setur ofan í sig. Hvönn hefur verið notuð til að gefa bragð í mat og þykir góð sem kryddjurt. Þess vegna þykir áhugavert að gera athugun á því hverju það skilar sér í bragðgæðum á kjöti að ala lömb upp að hluta til á hvönn fyrir slátrun.

Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að lömb sem eru alin upp við ólíkar aðstæður fyrir slátrun gefa mismunandi bragð. Þá er það þekkt erlendis frá að hægt sé að ala lömb fyrir slátrun upp við mismunandi aðstæður og skapa þar með ákveðna sérstöðu með sölu og markaðssetningu á kjöti.

Hvönn.

Matís rannsakar bragð kjötsins

Hjá Matís verður skoðað hvaða áhrif hvannabeit hefur á bragð kjötsins. Athugað verður hvort hægt sé að greina mun á bragði og áferð kjötsins eftir beit/fóðri. Sé um merkjanlegan mun að ræða verða allir þættir skynmats skoðaðir, svo sem bragð, lykt, útlit og og áferð. Þá kemur í ljós í hverju munurinn er fólginn, eins og til dæmis hvort um aukabragð sé að ræða. Hjá Matís er sérhönnuð aðstaða fyrir skynmat samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þá býr Matís yfir skynmatshóp sem er sérstaklega þjálfaður fyrir mismunandi skynmatspróf.

Lambaskrokkar.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Búnaðarsamtök Vesturlands.

Frétt Bændablaðsins um hvannalömbin.

Fréttir

Leitað að óþekktum bakteríum í Skaftárkötlum

Matís tekur þátt í rannsóknum á lífríki lónsins í Skaftárkötlum og hefur umsjón með sýnatöku á örveruflóru þess. Vonir standa til að hægt verði að finna óþekktar tegundir örvera (bakteríur) sem hægt er að rannsaka frekar og nota í líftækni. Íshellan yfir lóninu er um 300 metra þykk og lónið um 100 metra djúpt og þarf sérstakan bræðslubor til þess að komast í gegnum íshelluna.

Síðastliðin tvö sumur hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir í Skaftárkötlum á Vatnajökli. Um er að ræða samstarfsverkefni nokkurra innlendra og erlendra fyrirtækja og stofnana, þar á meðal Matís, Orkustofnunar, Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar HÍ, University of Hawaii og Montana State Univeristy, þar sem Þorsteinn Þorsteinsson hjá Orkustofnun hefur haft yfirumsjón með skipulagningu verkefnisins.

Á síðasta ári voru gerðar mælingar og borað í niður í vestari Skaftárketilinn og mikilvæg reynsla þeirrar ferðar nýtt í ár við borun í eystri katlinum. Rannsóknaleiðangurinn var farinn dagana 1. – 9 júní og mælingar gerðar á eystri Skaftárkatlinum og tók Árni Rafn Rúnarsson starfsmaður örverurannsókna Matís þátt í leiðangrinum og hafði umsjón með sýnatöku til rannsókna á örveruflóru lónsins. Leiðangurinn heppnaðist með eindæmum vel þar sem endurbættur bræðslubor Vatnamælinga (OS) var notaður og borað niður í ketilinn á tveimur stöðum, með góðum árangri.

300 metra þykk íshella

Íshellan reyndist vera um 300 metra þykk og lónið í katlinum undir íshellunni mældist um 100 metra djúpt. Að auki var nýr sýnataki notaður og sýni tekin á mismunandi dýpi úr katlinum fyrir örveru- og efnamælingar. Þar sem lónið er undir íshellu jökulsins er um er að ræða einstakar aðstæður þar sem slíkt vatn undir jökli er afar sjaldgæft og þar að finna mjög einangrað og vel varðveitt vistkerfi.

Ætlunin er að nýta að mestu sameindalíffræðilegar aðferðir til greiningar á örveruflóru ketilsins og má jafnvel vænta þess að finna þar áður óþekktar tegundir örvera sem hægt verður að rannsaka frekar og nota í líftækni.

Hvað eru örverur. Sjá nánar á Vísindavef Háskóla Íslands.

Skaftark07_040ThorsteinnBorar
Skaftark07_023BoradIByl
Skaftark07_069ArniOgAndriSotthreinsaSynataka
syni_ur_synatakal_123

Fréttir

ÍSGEM: efnainnihald í 900 fæðutegundum

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hefur opnað gagnagrunn um efnainnihald matvæla. Grunnurinn, sem ber nafnið ÍSGEM, inniheldur upplýsingar um efni í um 900 fæðutegundir hér á landi.

Meðal annars er hægt að fá upplýsingar, um prótein, fitu, kolvetni, vatn, orku, vítamín, steinefni og ósækileg efni eins og kvikasilfur, blý, kadmín og arsen.

Salat2

Hægt er að skoða ÍSGEM gagangrunninn hér.

Fréttir

Harðfiskur er enn heilsusamlegri en talið var

Harðfiskur er afar heilsusamleg fæða, létt, næringarrík og rík af próteinum, að því er fram kemur í nýrri rannsókn Matís á harðfiski sem heilsufæði. Þar kemur í ljós að harðfiskur er ríkulegur próteingjafi með 80-85% próteininnihald.

Þá er harðfiskur ávallt unnin úr nýju og fersku hráefni og er nær eingöngu veiddur á línu og því tryggt að hann verði fyrir sem minnstu hnjaski á leið til lands. Slík veiðiaðferð uppfyllir bestu skilyrði um vistvænar veiðar.

Harðfiskur, sem er unnin úr steinbít, ýsu, þorski, kolmuna og lúðu, var lengi vel einn helsti matur Íslendinga. Þurrkunin varðveitti næringarefni vel og gerði það að verkum að hægt var að geyma hann og hafa á boðstólum allt árið um kring þegar matarframboð sveiflaðist eftir ársíma. Á seinni tímum hefur verið hefð fyrir því að borða harðfisk á þorranum. Þá hefur hans verið neytt sem nasls í heimahúsum og sem nesti í sumarfríum. Heildarframleiðsla og sala hefur verið um 200-250 tonn á ári.

IMG_3327

Sífellt hefur komið betur í ljós að fiskprótein skipta verulegu máli hvað hollustuáhrif varðar. Sem dæmi má nefna að fersk ýsa er með 17-19% próteininnihald en harðfiskur úr ýsu er með 75-80% próteininnihald. Gert er ráð fyrir því að fullorðinn heilbrigður einstaklingur þurfi 0,75 g af próteinum á hvert kg líkamans. Því þarf karlmaður sem er 70 kg að fá 53 g af próteinum á dag. Til að fá þetta magn úr harðfiski þarf hann að borða rúmlega 66 g. Kona sem er 55 kg þarf 41 g af próteinum á dag, eða 51 g af harðfiski.

Harðfiskur hentar þess vegna vel fyrir þá sem sækjast eftir að fá viðbótarprótein úr fæðu sinni, svo sem fyrir fólk sem stundar fjallgöngu eða íþróttir og heilsurækt. Ennfremur hefur komið í ljós að saltinnihald er nokkuð hærra í harðfiski sem er inniþurrkaður en fisks sem er útiþurrkaður. Hins vegar er hægt að stjórna saltinnihaldi í vörunni og því auðvelt að stilla slíkri notkun í hóf. Snefilefni (frumefni) eru vel innan við ráðlagðan dagskammt, nema selen. Magn selen í 100 g er á við þrefaldan ráðlagðan dagskammt en ekki talið skaðlegt á nokkurn hátt.

Því sýnir rannsókn Matís fram á að harðfiskur uppfyllir öll skilyrði sem góður próteingjafi.

Hægt er að skoða efnainnihald harðfisks í ÍSGEM (íslenskur gagnagrunnur um efnainnihald matvæla) hér.

Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóður í sjávarútvegi.

Skýrsla Matís um harðfisk (Niðurstöður rannsóknar).

Fréttir

Könnun um heilsufullyrðingar: Skilafrestur framlengdur

Íslendingar taka þátt í umfangsmikilli samnorrænni könnun á viðhorfum fólks í Evrópu til heilsufullyrðinga á matvælum. Niðurstöður könnunarinnar verða nýttar í tengslum við nýja reglugerð um heilsufullyrðingar í matvælum sem nú er að taka gildi innan Evrópusambandsins. Matís (Matvælarannsóknir Íslands) annars framkvæmd könnunarinnar hér á landi.

Könnunin, sem er rafræn og er styrkt af svonefndum NICe sjóð, nær til um 2.500 manns hér á landi. Ákveðið hefur verið að framlengja frest sem fólk hefur til þess að skila svörum fram til miðjan júlí vegna álags sem hefur orðið vegna mikils áhuga fólks í Evrópu á þátttöku í könnuninni um Netið.

Færst hefur í vöxt að matvæli sé merkt með svonefndum heilsufullyrðingum. Það geta verið fullyrðingar um næringarinnihaldi matvæla, t.d. fitusnautt, kólesterólfrítt, hitaeiningasnautt og um áhrif neyslu einstakra matvæla á heilsu neytenda. Markmiðið með könnuninni er að kanna hug fólks til heilsufullyrðinga og hvernig það skilur mismunandi heilsufullyrðingar á matvælum.

Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar í öllum löndunum, sem og matvælafyrirtækjum, neytendasamtökum og yfirvöldum. Ekki er ljóst hvenær könnunin tekur gildi á Íslandi en ennþá er verið að safna saman fullyrðingum sem fara á svonefndan á jákvæðan lista reglugerðarinnar þ.e. lista yfir leyfilegar fullyrðingar.

Fréttir

Heilsufullyrðingar á matvælum: Skilafrestur framlengdur

Ákveðið hefur verið að framlengja frest til þess að skila svörum í könnun á viðhorfum til heilsufullyrðinga á matvælum til næstu mánaðamóta. Bilun varð í hugbúnaði sem gerði hluta af þátttakendum erfitt um vik að svara spurningunum. Nú er hugbúnaðurinn kominn í lag og því geta þátttakendur skilað inn svörum.

Um er að ræða samnorræna könnun, en markmiðið er að kanna hug neytenda til heilsufullyrðinga og hvernig þeir skilja mismunandi heilsufullyrðingar á matvælum. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar í öllum löndunum, sem og matvælafyrirtækjum, neytendasamtökum og yfirvöldum.

Evrópureglugerð um heilsufullyrðingar í matvælum er í burðarliðnum og verða niðurstöður könnunarinnar nýttar til að hafa áhrif á innihald hennar. Færst hefur í vöxt að matvæli sé merkt með svonefndum heilsufullyrðingum. Það geta verið fullyrðingar um næringarinnihaldi matvæla, t.d. fitusnautt, kólesterólfrítt, hitaeiningasnautt og um áhrif neyslu einstakra matvæla á heilsu neytenda.

matur

Fréttir

Matís auglýsir eftir starfsfólki

Matís auglýsir eftir starfsfólki í fimm stöður í Reykjavík og á Akureyri vegna mikilla umsvifa. Auglýst er eftir sérfræðingi í skynmati, bókasafnsfræðingi, aðstoðarmanneskju á rannsóknastofu, verkefnastjóra og sérfræðingi í varnarefnamælingum.

Hægt er að senda umsóknir á birna.eggertsdottir@matis.is. Umsóknarfrestur er til 1. júlí næstkomandi.

Hægt er að skoða atvinnuauglýsinguna hér.

Fréttir

Aðferð þróuð til erfðagreiningar á þorski

Prokaria, líftæknideild Matís (Matvælarannsókir Íslands) hefur tekist að þróa aðferð sem hægt er að nota til erfðagreiningar á þorski. Slík aðferð er ákaflega mikilvæg fyrir rekjanleika á afkvæmum til foreldra í kynbótastarfi, vegna stofngreininga í stofnvistfræðirannsóknum, upprunagreininga eða vegna hugsanlegra vörusvika. Prokaria vinnur að því að verja uppgötvunina með einkaleyfi.

Markmið verkefnisins var að þróa ný erfðamörk fyrir þorsk sem hægt væri að setja saman í svokallað erfðamarkasett. Nauðsynlegt þykir að hafa um 10 erfðamörk í foreldragreiningar og helst um 20 erfðamörk í stofn- og upprunagreiningar. Í verkefninu var hluti af erfðamengi þorsksins raðgreindur. Valin voru svæði með sérstakri auðgunaraðferð sem þróuð var hjá Prokaria.

MI-005277

Líftæknideild Matís þróaði tvö greiningarsett, annað með 9 erfðamörkum og hitt með 10 erfðamörkum, sem búið er að prófa á fjölda þorsksýna. Þá hafa stofnerfðafræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar gert tilraunir og greiningar á þeim tveim erfðamarkasettum sem tilbúin eru.

MI-005362

Að auki eru mörg nothæf erfðamörk til hjá Matís sem ekki eru komin inn í greiningarsett en sem hægt er að nota sem stök erfðamörk. Matís hefur þegar hafið nýtingu á greiningarsettunum og hafa fjölmörg fyrirtæki, íslensk og erlend, notfært sér þá þjónustu sem fyrirtækið býður í erfðagreiningum á þorski. Auk þess að búa til hagnýtt tæki til rannsókna á þorski hefur verkefnið skilað þjálfun nemenda á framhaldsstigi háskóla og birt hefur verið vísindagrein í ritrýndu vísindatímariti.

Fréttir

Íslendingar séu virkir þátttakendur í sjálfbærni

Krafa um sjálfbærni í sjávarútvegi eykst sífellt og því mikilvægt að íslensk fyrirtæki taki virkan þátt í þróun á því sviði. Á alþjóðlegum vinnufundi Matís, sem fram fór á Sauðárkróki, kom fram að fjölmörg sóknarfæri eru til staðar í sjálfbærri þróun í sjávarútvegi en nauðsynlegt er að Íslendingar haldi vöku sinni svo þeir eigi þess kost að vera framarlega í umræðu um slík mál í alþjóðlegu tilliti.

Sjálfbær þróun (e. sustainable development) er sú þróun sem gerir fólki kleift að mæta þörfum sínum án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til hins sama. Á alþjóðlegum vinnufundi Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og færeyskra og íslenskra fulltrúa sem tengjast sjávarútvegi kom fram breið samstaða um mikilvægi þess að halda sjálfbærni á lofti með tilliti til veiða, vinnslu og flutninga á erlenda markaði.

Gísli Svan Einarsson, framkvæmdastjóri Versins-Vísindagarða í Skagafirði, Sveinn Margeirsson, Matís, og Ólavur Gregersen, verkefnastjóri Sustainable Food Information.

Vinnufundurinn er hluti af vestnorrænu verkefni, sem Matís stýrir, og nefnist “Sustainable Food Information”. Verkefnið hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegsfyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni. Sérstaklega er horft til rekjanleika sjávarafurða, frá miðum til neytanda, sem er undirstaða þess að hægt sé að sýna fram á sjálfbærar veiðar.

Humar

“Krafa um sjálfbærni í sjávarútvegi og rekjanleika er sífellt að aukast, ekki síst erlendis,” segir Sveinn Margeirsson, deildarstjóri hjá Matís. “Vitund um umhverfismál hefur aukist og kröfur markaðarins eru í þá átt að hægt sé að sýna fram á að sjávarafurðir séu framleiddar án þess að gengið sé um of á auðlindir og að leitað sé leiða til að lágmarka mengun,” segir Sveinn.

“Íslendingar standa að mörgu leyti vel að vígi og hafa forskot á margar aðrar þjóðir þegar kemur að rekjanleika. Næsta skref er að nýta rekjanleikann til þess að sýna fram á sjálfbærni í sjávarútvegi. Þess vegna er mikilvægt fyrir Íslendinga að halda vöku sinni og tryggja að þeir verði áfram framarlega í umræðu um slík mál í framtíðinni.”

Efri mynd: Gísli Svan Einarsson, framkvæmdastjóri Versins-Vísindagarða í Skagafirði, Sveinn Margeirsson, Matís, og Ólavur Gregersen, verkefnastjóri Sustainable Food Information.

Fréttir

Áríðandi orðsending til þátttakenda í neyslukönnun!

Eins og margir “góðkunningjar” Matís vita, þá er nú í gangi könnun á viðhorfum til heilsufullyrðinga á matvælum þar sem um 2500 manns taka þátt. Vegna biluar í hugbúnaði er vefsíða, sem þátttakendur eiga að fara á til að svara spurningum, tímabundið óvirk, en vonast er til að vefsíðan verði komin í lag á næstu 1-2 dögum.

Um könnunina.
Sams konar könnun er gerð samtímis hjá neytendum á öllum Norðurlöndunum og er tilgangurinn að kanna hug neytenda til heilsufullyrðinga og hvernig þeir skilja mismunandi heilsufullyrðingar. Niðurstöður könnunarinnar munu verða kynntar hagsmunaaðilum í öllum löndunum, sem og matvælafyrirtækjum, neytendasamtökum og yfirvöldum.

Á döfinni er Evrópureglugerð um heilsufullyrðingar í matvælum og munu niðurstöður könnunarinnar verða nýttar til að hafa áhrif á innihald hennar.
Færst hefur í vöxt að matvæli sé merkt með svonefndum heilsufullyrðingum. Það geta verið fullyrðingar um næringarinnihaldi matvæla t.d. fitusnautt, kólesterólfrítt, hitaeiningasnautt og um áhrif neyslu einstakra matvæla á heilsu neytenda t.d. lækkar kólesteról, verndar tannheilsu o.s.frv.

Þátttakendur ATH! Vinsamlega sýnið þolinmæði og missið ekki móðinn vegna þessarar bilunar – Reynið aftur eftir 1-2 daga!

IS