Fréttir

Fundur í EuroFIR verkefninu

Ísland er aðili að evrópsku öndvegisneti (Network of Excellence) um efnainnihald matvæla og leiðir til að miðla upplýsingunum með gagnagrunnum og interetinu. Verkefnið gengur undir heitinu EuroFIR og heyrir undir 6. rammaáætlun ESB. Matís stýrir íslenska hluta verkefnisins og nú stendur yfir tveggja daga fundur í verkefninu, sem haldinn er í húsakynnum Matís á Skúlagötu 4. Á fundinum er fjallað um lífvirk efni í matvælum, en unnið er að sérstökum evrópskum gagnagrunni um þessi efni.

Hannes Hafsteinsson, verkefnastjóri á Matís, sér um þennan þátt verkefnisins og stendur fyrir fundinum.

Fundur á Matís í EuroFIR-verkefninu 25. maí 2007

Verkefið EuroFIR (European Food Information Resource Network) hófst 2005 og lýkur árið 2009 og þátttakendur eru 40 stofnanir frá 21 Evrópulandi, en yfirumsjón verkefnisins er hjá Institute of Food Research í Norwich í Bretlandi. Markmið verkefnisins er að byggja heilsteyptan og aðgengilegan gagnagrunn um innihaldsefni evrópskra matvæla, m.t.t. næringargildis þeirra og nýlegra lífvirkra efna sem kunna að hafa heilsubætandi áhrif.

EuroFIR fundur 25. maí 2007
Matvælarannsóknir Keldnaholti (Matra) var upphaflega íslenski þátttakandinn og hefur Matís nú tekið við þessu hlutverki. Byggt var upp samstarfsnet hér á landi vegna verkefnisins með þátttöku Rf (nú Matís), Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands, Lýðheilsustöðvar, Umhverfisstofnunar og Hugsjár ehf. Ólafur Reykdal, Matís, er verkefnisstjóri íslenska hlutans.

Nokkur af markmiðum EuroFIR verkefnisins eru:

Samræming evrópskra gagnagrunna um efnainnihald matvæla.
Netvæðing gagna.
Aukin gæði gagnanna og Evrópa verði í forystu í heiminum á þessu sviði.

Mikilvægi verkefnisins fyrir Íslendinga felst meðal annars í eftirfarandi þáttum:

Verkefnið styrkir Íslendinga faglega með beinum samanburði við það sem er gert erlendis.
Auknar kröfur verða gerðar til gagna um efnainnihald matvæla og það kemur notendum til góða (neytendum, atvinnuvegum, rannsóknafólki, skólum o.fl.). Vinna við matarhefðir og lífvirk efni getur varpað ljósi á sérstöðu íslenskra matvæla. Tengsl við erlenda vísindamenn og stofnanir er mikilvæg.
Verkefnið er gott dæmi um það að innlendir aðilar verða að leggja saman krafta sína til að þátttaka í stórum erlendum verkefnum gangi upp.

Ísland tekur þátt í vinnu við sex undirverkefni EuroFIR verkefnisins:

1.      Þróun, samhæfing og netvæðing gagnagrunna um efnainnihald matvæla.

2.      Aðferðir til að meta samsetningu unninna matvæla.

3.      Samsetning og framleiðsla hefðbundinna matvæla

4.      Mat á gögnum um lífvirk efni.

Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) var lykilatriði þegar unnið var að því að komast inn í verkefnið. Uppbygging gagnagrunnsins hófst hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins 1987 en hann nú vistaður hjá Matís.

Nánari upplýsingar um EuroFIR- verkefnið veita Ólafur Reykdal og Hannes Hafsteinsson.Vefsíða EuroFIR

Fréttir

Nýjar aðferðir í saltfiskverkun efla markaðsstöðu

Saltfiskverkun hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Slík verkun byggðist áður á einfaldri stæðusöltun en nýjar aðferðir við verkun hafa skilað framleiðendum allt að því 15% aukningu í heildarnýtingu, segir í grein Krístinar Þórarinsdóttur og Sigurjóns Arasonar hjá Matís (Matvælarannsóknir Íslands).

Það var aldamótaárið 1800 sem Íslendingar sendu í fyrsta skipti út saltfiskfarm á eigin vegum. Upp frá því jókst saltfiskverkun Íslendinga smátt og smátt og í upphafi 21. aldarinnar er saltfiskur ennþá mikilvæg útflutningsvara þó að nýjar og breyttar geymsluaðferðir hafi litið dagsins ljós í millitíðinni.

Saltfiskur á markaði á Spáni.

Í því sambandi má nefna að heildarverðmæti saltfisks var 17,3 milljarðar eða um 16,5% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2006. Blautverkaður saltfiskur úr þorski skilaði mestu útflutningsverðmæti, sem nam 11,4 milljörðum króna. Framleiðsluverðmæti saltaðra og hertra afurða um jókst um 17,5% og magn um 1,4%.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.

Fréttir

Sjálfbær sjávarútvegur

Vinnufundur íslenskra og færeyskra aðila um sjálfbærni í sjávarútvegi fer fram á Sauðárkróki þann 14. júní. Fundurinn er hluti af vestnorrænu verkefni sem nefnist „Sustainable Food Information“ sem hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegsfyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni í veiðum, vinnslu og sölu.

Matvælarannsóknir Íslands (Matís) annast skipulagningu fundarins, sem er eingöngu ætluð aðilum í sjávarútvegi.

Sjálfbærni er orðið einkar mikilvægt hugtak í sjávarútvegi í ljósi sívaxandi krafna seljenda, verslunarkeðja og neytenda um að ekki sé gengið á auðlindir hafsins. Þá er mikil áhersla lögð á rekjanleika í umræðu um sjálfbærni í fiskiðnaði. Með rekjanleika fást nákvæmar upplýsingar um vöruna og geta seljendur sem búa yfir gæðaafurð aðgreint sig betur frá öðrum á markaði.

Rekjanleiki er þar af leiðandi mikilvægur hlekkur í umhverfismerkingum
sjávarafurða. Nánar um ráðstefnuna hér.

IMG_0391

Vinnufundurinn fer fram í Verinu Vísindagörðum á Sauðárkróki.

Fréttir

Nýjar rannsóknir sýna enn og aftur fram á öryggi íslensks fisks

Í nýrri Matísskýrslu, sem nefnist Verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða. Áhættusamsetning og áhætturöðun er fjallað um grunnvinnu að áhættumati fyrir þorsk, rækju, karfa, ýsu, grálúðu, síld, ufsa og kúfisk. Þessar tegundir voru kortlagðar m.t.t. hugsanlegrar áhættu varðandi neyslu þeirra og fékkst þannig fram áhættusamsetning þeirra og hálf-magnbundið áhættumat framkvæmt á þeim.

Við áhættumatið var notað reiknilíkan sem þróað hefur verið í Ástralíu og nefnist Risk Ranger. Við áhættumatið voru notuð gögn um neysluvenjur (skammtastærðir, tíðni o. fl.), og einnig tíðni og orsakir fæðuborinna sjúkdóma. Þannig var reiknuð út áhætta tengd neyslu þessara sjávarafurða, miðað við ákveðnar forsendur.

Áreiðanleiki áhættumats er háð þeim gögnum og upplýsingum sem notuð eru við framkvæmd þess. Samkvæmt fyrirliggjandi mæligögnum og gefnum forsendum raðast ofangreindar sjávarafurðir í lægsta áhættuflokk (stig <32) – sem þýðir lítil áhætta, miðað við heilbrigða einstaklinga.

Á alþjóðlegum matvælamörkuðum hafa íslenskar sjávarafurðir á sér gott orðspor hvað varðar heilnæmi og öryggi. Þar sem áhyggjur vegna öryggis matvæla hafa aukist víða um heim á undanförnum árum er hins vegar nauðsynlegt fyrir Íslendinga að viðhalda þessu góða orðspori með vönduðum rannsóknum.

Lesa skýrslu

Fréttir

Morgunblaðið fjallar um kosti ofurkælingar

Með svokallaðri ofurkælingu á fiskflökum og flakastykkjum er hægt að auka geymsluþol flakanna verulega, bæta gæði þeirra og fá hærra verð á erlendum fiskmörkuðum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag, 11. maí. Þar er rætt við Sigurjón Arason, deildarstjóra hjá Matís, um kosti ofurkælingar. Matís hefur unnið að þróun slíkrar aðferðar með fiskvinnslu og árangurinn lætur ekki á sér standa, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Sigurjón segir að með ofurkælingu sé farið með hitastig vel undir núll gráður, eins neðarlega og unnt er án þess að þeir ískristallar sem myndast í fiskholdinu fari að skemma út frá sér og rýra gæði flakanna. “Þannig förum við með hitastigið niður í mínus 1 til mínus 1,5 gráður,” segir Sigurjón.

Þá segir hann: “Í dag er fiskvinnsla og útflutningur á fiski ekkert annað en útflutningur á þekkingu. Að samtvinna svona þekkingu, eins og við gerum, er útflutningur á þekkingu. Að geta alltaf sagt til um það að fiskur á þessum árstíma, og af þessu eða hinu veiðisvæðinu, sé ekki nógu góður til að flytja út sem fersk flök, er auðvitað ekkert annað en þekking. Meðhöndlunin um borð í skipunum og vinnsluaðferðin í landi er ekkert annað en þekking. Því má segja að sjávarútvegurinn sé orðinn mjög tæknivæddur þekkingariðnaður í dag,” segir Sigurjón í samtali við Hjört Gíslason blaðamann Morgunblaðsins.

Fréttir

Aðalfundur Matís

Aðalfundur Matís ohf. fyrir 2006 var haldinn þriðjudaginn 8. maí í samræmi við lög. félagsins Um var að ræða fund vegna undirbúningstímabisins 14 september sl. til áramóta þegar unnið var að undirbúningi að stofnun Matís en félagið tók til starfa 1. janúar 2007.

Stjórn félagsins var endurkjörin til eins árs og er Friðrik Friðriksson formaður stjórnar.
Aðrir í stjórn eru:

  • Guðrún Elsa Gunnarsdóttir
  • Jón Eðvald Friðriksson
  • Sigríður Sía Jónsdóttir
  • Einar Matthíasson
  • Arnar Sigurmundsson
  • Ágústa Guðmundsdóttir

Fréttir

Ný Matísskýrsla um rannsóknir á mýósíni úr þorski

Skýrslan ber titilinn Characterization of cod myosin aggregates using static and dynamic light scattering og fjallar um rannsóknir sem gerðar voru á Matís á mýósín úr þorski.

Mýósín er eitt aðal byggingarefni vöðva, bæði land- og sjávardýra. Ef þverrákóttar vöðvafrumur eru skoðaðar í smásjá má sjá einhvers konar rákir eða bönd innan í frumunum. Í þessum böndum eru aðallega svokölluð samdráttarprótein sem gera samdrátt vöðvans mögulegan. Meginsamdráttarpróteinin eru myósín og aktín. Í vöðvanum eru sameindir hvors próteins vafið saman í þræði, mýósín-þræðirnir eru mun þykkari og heita því þykku þræðirnir. Aktín-þræðirnir, eða þunnu þræðirnir, hafa jafndreifðar tengistöðvar fyrir mýósín. Mýósín og aktín eru því samtengd í vöðvanum. Við uppleysingu vöðvans hins vegar raskast þetta ofur skipulagða komplex af próteinum, og hægt er að skilja aktín og mýósín að.

Mýósín úr spendýrum hefur verið rannsakað töluvert, en minna í fiskum. Hugsanlega er ein ástæðan sú að fiskmýósín er óstöðugara en t.d. mýósín úr spendýrum. Það er samt vert að skoða hegðun þess í vatnslausnum, ef tekið er mið af því að það er væntanlega aðaldrifkrafturinn við myndun próteingelja eins og surimi og skyldra matvara.

Lesa skýrslu

Fréttir

Vaxtarhraði þorsks í sjókvíaeldi aukinn með ljósum

Hægt er að auka vaxtahraða þorsks í sjókvíaeldi með náttúrulegri aðferð, að því er fram kemur í niðurstöðum úr Evrópuverkefninu CODLIGHT-TECH sem stýrt er af vísindamönnum hjá Matvælarannsóknum Íslands (Matís). Niðurstöður benda til að hægt sé að hvetja vöxt og hægja á kynþroska hjá þorski í sjókvíaeldi. Þessar niðurstöður eru nýnæmi og mikilvægar í þeirri þróun sem á sér stað í þorskeldi í heiminum en þær geta stuðlað að því að eldistími styttist, fóðurnýting batni og þorskeldi geti orðið hagkvæmara.

Ennfremur má segja að niðurstöðurnar séu áhugaverðar fyrir þær sakir að orkuverð er lágt á Íslandi og því er hér um raunverulegan valkost að ræða fyrir íslenska eldisaðila.

Tekin blóðsýni úr þorski

Rannsóknin er samtarfsverkefni Matís, Hraðfrystihússins Gunnvarar og Álfsfells á Ísafirði, Háskólans í Stirling og Johnsons Seafarms í Skotlandi, Intravision Group, Hafrannsóknastofnunarinnar í Bergen og Fjord Marin í Noregi og Landbúnaðarháskólans í Lundi í Svíþjóð. Auk þess tekur Vaki DNG þátt í verkefninu.

Dr. Þorleifur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Matís, segir að mjög mikilvægt sé að geta komið í veg fyrir kynþroska hjá þorski í eldi. Þegar þorskur verði kynþroska hætti hann að vaxa svo að eldistími lengist með tilheyrandi kostnaði fyrir eldisaðila.

Þá sé vitað að þorskur hrygnir í sjókvíunum og því megi telja að frjóvguð hrogn berist út í umhverfið en þó beri að taka fram að ekki hafi verið sýnt fram á neikvæða blöndun erfðaefnis og slíkar rannsóknir séu ennþá á byrjunarreit. Þá sé hér stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að gera eldi að umhverfisvænum iðnaði með bættri nýtingu fóðurs sem leiðir til þess að minna fóður fellur til botns undir kvíum. “Samhliða þessum rannsóknum vinnur Matís ásamt samstarfsaðilum að víðtækum rannsóknum á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis með það að markmiði að auka sjálfbærni þorskeldis, sem þýðir að ekki sé gengið á auðlindina,” segir Dr. Þorleifur Ágústsson.

“Þegar fylgst er með umræðu í Evrópu um fiskeldi kemur í ljós að almennt er talið að þorskeldi komi til með að verða næsta stóra eldisgreinin á eftir laxeldi. Því er spáð að árið 2010 verði framleiðsla Evrópuþjóða á eldisþorski komin í um 175.000 tonn sem eru að markaðsvirði á um 880 milljónir evra. Því leggja framleiðendur mikla áherslu á að skilgreina og leysa þau vandamál sem geta haft áhrif á þróun iðnaðarins, en eitt af þeim vandamálum er kynþroski hjá eldisþorski,” segir Þorleifur.

Fréttir

Fundur á Ísafirði í Codlight-verkefninu

Nokkuð hefur verið fjallað að undanförnu um verkefni sem Matís vinnur m.a. að og kallast Codlight, en það miðar m.a. að því að seinka kynþroska eldisþorsks með notkun sérstakra ljósa. Í dag og á morgun eru fundarhöld á Ísafirði í verkefninu.

Í frétt á vef BB á Ísafirði kemur fram að Matís ohf, ásamt samstarfsaðilum í Evrópuverkefninu Codlight-tech haldi verkefnisfund á Ísafirði dagana 2. og 3. maí. Verkefnið, sem unnið hefur verið að í Álftafirði auk Noregs og Skotlands, snýst um að nota hátækniljósabúnað til að koma í veg fyrir kynþroska hjá þorski í eldi. Í tilefni af fundinum mun samstarfsaðili Matís í verkefninu, Johnsons Seafarms kynna fyrirtæki sitt og framleiðslu.

Johnson Seafarms er eitt elsta eldisfyrirtæki Bretlandseyja og stærsta einstaka þorskeldisfyrirtæki í heiminum. Framleiðsla Johnson er um 2000 tonn af þorski á ári og spár fyrirtækisins gera ráð fyrir að árið 2010 verði framleiðsla á eldisþorski verði komin í um 15 þúsund tonn. Johnson Seafarms er þekkt á Bretlandseyjum fyrir vörumerkið “No Catch” – og í fyrirlestrinum mun Alan Bourhill, rannsókastjóri og velferðarfulltrúi fyrirtækisins fjalla um tilurð þessa vörumerkis og mikilvægi þess á markaðssetningu.

Samstarfsaðilar í Codlight-tech verkefninu eru auk Matís ohf sem sér um verkefnisstjórn: Hraðfrystihúsið Gunnvör, Álfsfell, Havsforsknings institutet í Bergen og Fjord Marin í Noregi, Stirling háskóli og Johnson Seafarms í Skotlandi, Landbúnaðarháskólinn í Uppsala í Svíþjóð ásamt Intravision Group í Noregi sem er framleiðandi ljósabúnaðarins.

Fyrirlesturinn hefst kl. 13 í dag, 2. maí í Þróunarsetrinu á Ísafirði og er öllum opinn.  Fyrirlesturinn er á ensku.

Fréttir

Fengu sér humar við opnun starfsstöðvar á Höfn

Árni Mathiesen fjármálaráðherra opnaði með formlegum hætti starfsstöð Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og Humarhótel á Höfn í Hornafirði í dag. Við opnunina fengu ráðherra og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís að gæða sér á ferskum leturhumri frá Humarhótelinu.

Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís sagði við opnunina að markmiðið með starfsstöð á Höfn væri að efla rannsóknastarf, skapa aðstöðu og vettvang til aukins samstarfs við atvinnulíf og stuðla að verðmætasköpun í samvinnu við matvælafyrirtæki á svæðinu.

Starfsstod_Matis_a_Hofn_1

Þá sagði Hjalti Vignisson bæjarstjóri á Höfn það mikilvægt fyrir svæðið að fá matvælarannsóknafyrirtæki eins og Matís til þess að efla þróunarstarf og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi.

Hofn

Á Humarhótelinu, sem er samvinnuverkefni Matís, Frumkvöðlaseturs Austurlands, Sæplasts, Hafrannsóknarstofnunar og Skinney Þinganess, er hægt að geyma lifandi leturhumar sem er veiddur úti á Hornafjarðardýpi. Humarinn er fluttur lifandi á hótelið þar sem hann er geymdur við kældar aðstæður. Hann er svo fluttur lifandi á markað erlendis. Tilraunaverkefni um útflutning á lifandi leturhumri hefur staðið yfir undanfarin misseri og hefur humarinn nú þegar verið fluttur til Belgíu.

Hofn2

Verkefnið hefur því gengið afar vel en tekist hefur að fá allt að því þriðjung hærra verð fyrir lifandi humar frá Höfn heldur en frystan humar.

Mynd 1: Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís smakka á ferskum humri frá Humarhótelinu við opnun starfsstöðvar Matís á Höfn.

Mynd 2: Friðrik Friðriksson stjórnarformaður Matís og Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

Mynd 3: Hjalti Vignisson bæjarstjóri á Höfn og Ari Þorsteinsson framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Austurlands.

IS