Fréttir

Hvað þarf að gera til að stuðla að sjálfbæru matvælakerfi?

Víðtækur stuðningur er við umbreytingu matvælakerfis og norrænt samstarf til að takast á við áskoranirnar.

Nýlega birtust niðurstöður úr verkefni sem bar yfirskriftina: Í átt að sjálfbærum norrænum matvælakerfum, þar sem kannað var hvaða skref þurfi að taka til að þróa sjálfbær matvælakerfi. Verkefnið var unnið gegnum samtal við breiðan hóp hagaðila frá Íslandi, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Danmörku. Þátttaka íslenskra hagaðila í verkefninu var sérlega góð og kom Matís að því að skipuleggja vinnustofu verkefnisins á Íslandi. Verkefnið var leitt af Stockholm Resilience Centre.

Helstu niðurstöður:

  • Tæplega 90% þátttakenda voru sammála um að norræn matvælakerfi þurfi að breytast til að hægt sé að ná settum markmiðum um sjálfbærni
  • Helmingi þátttakenda fannst leiðin að sjálfbærni óljós og jafnframt umdeild
  • 88% þátttakenda töldu best að Norðurlöndin vinni saman að því að takast á við sameiginlegar áskoranir í matvælakerfinu

En hvar byrjum við?

Átta leiðir til aðgerða og norræns samstarfs voru lagðar fram. Þær, ásamt öðrum helstu niðurstöðum verkefnisins eru birtar í stuttum köflum sem eru aðgengilegir hér: Nordic countries are well suited to collaborate on food systems transformation

Fréttir

Matís og Landsbyggðirnar

Norðlenska sjónvarpsstöðin N4 sýnir vikulega umræðuþætti um byggðamál á Landsbyggðunum sem heita einfaldlega Landsbyggðir. Í þætti vikunnar var rætt við Odd Má Gunnarsson, forstjóra Matís.

Í sjónvarpsþættinum ræddi Karl Eskil Pálsson, þáttarstjórnandi, við Odd Má um starfsemi Matís á landsbyggðunum en reknar eru starfsstöðvar á Akureyri, Ísafirði og í Neskaupsstað. Þeir létu þó ekki þar við sitja í umræðunum heldur fóru um víðan völl og ræddu verkefnin, rekstrargrundvöllinn, þekkinguna sem hefur myndast við rannsóknarstörf í gegnum árin og þau fjölmörgu tækifæri sem liggja í matvælaframleiðslu og -iðnaði á Íslandi í framtíðinni.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar N4 hér: Spilari – N4

Fréttir

Vel heppnaðri áherslufundaröð lokið

Í maímánuði fór ársfundur Matís fyrir árið 2020 fram og í kjölfar hans áherslufundaröð sem gaf frekari innsýn í ákveðna hluta starfsemi fyrirtækisins. Fundaröðin fól í sér að haldinn var einn morgunfundur fyrir afmarkaðan geira eða grein atvinnulífsins sem Matís veitir stuðning og var aðilum þar og áhugafólki boðið til samtals.

Áherslufundaröðin samanstóð af 8 fundum sem fóru fram í gegnum fjarfundarbúnað. Allir fundirnir voru vel sóttir og sköpuðust í flestum tilfellum líflegar umræður um ýmis málefni tengd viðfangsefninu. Sérfræðingar frá Matís, fulltrúar frá stórum og smáum fyrirtækjum í matvælaiðnaði á Íslandi, frumkvöðlar og almenningur fengu þarna tækifæri til þess að ræða saman um það sem efst er á baugi í hverjum málaflokki fyrir sig.

Fyrsti fundurinn fór fram þann 14. maí og var umræðuefnið Kolefnisspor botnfiskafurða og aðlögun sjávarútvegsins að áhrifum loftslagsbreytinga. Á næstu tveimur vikum þar á eftir voru haldnir fundir þar sem umræðuefnin voru: rannsóknir og nýsköpun fyrir fiskeldi framtíðar, uppsjávariðnaður nú og til framtíðar, virðiskeðja grænmetis, rannsóknir og nýsköpun við kjötframleiðslu og kjötvinnslu, mjólkurvörur í nútíð og framtíð og framtíðaráherslur og samstarfsmöguleikar í líftækni og lífefnum á Íslandi.

Síðasti fundurinn sem fór fram var haldinn í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Nýsköpunarvikuna. Fundurinn bar yfirskriftina Sprotar og vöruþróun – hvernig getur Matís aðstoðað? Á þeim fundi var farið sérstaklega yfir það hvernig Matís getur aðstoðað frumkvöðla við nýsköpunarferli, allt frá hugmyndavinnu að markaði. Dagný Hermannsdóttir frá fyrirtækinu Súrkál fyrir sælkera og Óskar Ericsson  frá Himbrimi Gin eru frumkvöðlar sem hafa stundað nýsköpun í matvælaframleiðslu og þau sögðu frá sinni reynslu af samstarfi við Matís  en bæði hafa þau framleitt vörur sem hafa notið mikillar velgengni.

Matís þakkar öllum þátttakendum kærlega fyrir samstarfið og auk þess fyrir þá athygli sem fundaröðin fékk. Stefnt er að því að gera samtalsfundi sem þessa að árlegum viðburði hjá fyrirtækinu.

Alla áherslufundina, auk ársfundar Matís fyrir árið 2020 má finna hér á vefsíðu Matís en einnig á Youtube rás fyrirtækisins.  

Fréttir

Netviðburðurinn North Atlantic Seafood Forum 8.-10. júní

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Sviðsstjóri rannsókna

jonas@matis.is

North Atlantic Seafood Forum fer fram dagana 8.-10. júní og er ljóst að ráðstefnan verður einn merkilegasti netviðburður í sjávarútvegi og fiskeldi ársins 2021. Alls verða fluttir yfir 160 fyrirlestrar í 18 málstofum, og er búist við yfir 2000 þátttakendum víðsvegar að úr heiminum og úr hinum ýmsu hlekkjum í virðiskeðju sjávarafurða. Láttu ekki þennan viðburð fram hjá þér fara!

Í mars ár hvert, síðastliðin 15 ár, hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst til Bergen til að sitja ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum (NASF). Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Sökum COVID hefur nú verið ákveðið að NASF21 verði netviðburður, sem gefur tækifæri til að auka fjölda þátttakenda og lækka ráðstefnugjaldið verulega.

Ráðstefnan fer fram dagana 8.-10. júní og er búist við að þátttakendur verði a.m.k. 2.000 talsins. Dagskrá ráðstefnunnar er sérlega spennandi að þessu sinni, en sjá má hana hér: Program for NASF 2021.

Ef stiklað er á stóru yfir dagskrána, þá vekja eftirfarandi málstofur sérstaka athygli:

  • Áhrif laxalúsar á fiskeldi
  • Fiskeldisfóður og þróun þess
  • Framboð og eftirspurn í fiskeldi
  • Nýjar framleiðsluaðferðir í fiskeldi
  • Framboð og markaðir fyrir hvítfisk
  • Konur í sjávarútvegi
  • Framboð og eftirspurn í rækju
  • Fjárfestingar í sjávarútvegi
  • Framboð og markaðir uppsjávartegunda
  • Umfjöllun um lykilmarkaði fyrir sjávarafurðir í umsjón Norwegian Seafood Council
  • Sjálfbærni og sjávarafurðir

Íslensk fyrirtæki og einstaklingar skipa nokkuð stóran sess í dagskránni. Þar er fyrst að nefna að Valka og Marel eru meðal helstu styrktaraðila ráðstefnunnar. Þá verða eftirtaldir Íslendingar eða aðilar tengdir Íslandi með á mælendaskrá:

  • Jón Birgir Gunnarson hjá Völku mun fjalla um flökun fyrir dauðastirðnun
  • Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir hjá Marel mun fjalla um stafræna byltingu í virðiskeðju fiskeldis
  • Bjorn Hembre hjá Arnarlax mun fjalla um laxeldi á Íslandi
  • Sturlaugur Haraldsson hjá Norebo mun fjalla um framboð á hvítfiski frá Rússlandi
  • Þór Sigfússon hjá Sjávarklasanum mun fjalla um nýtingu aukahráefna og velta upp spurningunni hvort 100% nýting sé möguleg
  • Guðmundur Gíslason mun koma fram fyrir hönd Fiskeldis Austfjarða (Ice Fish Farm), Bjorn Hamre fyrir hönd Arnarlax (Icelandic Salmon) og Stein Ove Tveiten fyrir hönd Arctic Fish í málstofu fjárfesta.
  • Jóhannes Pálsson mun fjalla um áhrif Brexit á uppsjávargeirann
  • Guðlaugur Þór Þórðarson mun fjalla um sjálfbærni í sjávarútvegi

Þátttaka á NASF síðustu ára hefur ekki verið á allra færi þar sem skráningargjaldið eitt og sér hefur verið nálægt 200 þús. kr. auk þess sem ferðir og uppihald í Bergen kostar sitt. Engu að síður hafa yfir 800 manns séð ástæðu til að sækja ráðstefnuna síðustu ár. Þar sem nú verður um netviðburð að ræða er unnt að upplifa NASF fyrir umtalsvert lægri kostnað. Ráðstefnugjaldið er um 43.000 ISK (290 EUR) á þátttakanda, en svo er magnafsláttur í boði fyrir fyrirtæki sem skrá fleiri þátttakendur.

Nú er til dæmis boðið upp á tilboð svo ef þrír þátttakendur eru skráðir fer verðið niður í 150 EUR/pers.

Allir fyrirlestrar verða aðgengilegir í a.m.k. mánuð eftir að ráðstefnunni lýkur og því er vel þess virði að skrá sig, þó svo að þátttakendur hafi ekki tækifæri til að sitja ráðstefnuna í „rauntíma“.

Einn mikilvægasti hluti þess að taka þátt í NASF hefur ávallt verið það tækifæri sem felst í því að safna saman helstu áhrifavöldum í sjávarútvegi á einn stað til að stofna til og viðhalda samstarfi. Góð og trygg viðskiptasambönd byggja jafnan á persónulegum samskiptum og þar hefur NASF gengt mikilvægu hlutverki. Í þetta sinn verður leitast við að mæta þeim þörfum með því að bjóða upp á að tengja aðila saman á örfundum. Mismunandi „pakkar“ eru í boði þegar kemur að slíkum tengingum, en sá „pakki“ sem líklegast er að flestir velji sem áhuga hafa á að nýta þetta tækifæri kostar 500 EUR. Fyrir þann „pakka“ fá fyrirtæki sitt nafn og kynningu upp á „vegginn“ og þá geta allir almennir þátttakendur bókað fund með því fyrirtæki.

Þeir sem hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar um NASF21 er bent á að hafa samband við Jónas R. Viðarsson jonas@matis.is eða í síma 4225107.

Fréttir

Nýta fiskeldismykju, manna seyru, moltu, brennistein og fleira

Í síðastliðinni viku fór fram undirbúningur og hráefnaöflun fyrir fyrstu jarðræktartilraunir hjá Landgræðslunni og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Starfsmenn Matís hafa staðið í ströngu við að safna hráefnum og útbúa áburðarblöndur fyrir verkefnið Sjálfbær áburðarvinnsla sem styrkt var af Markáætlun Rannís. Í verkefninu er unnið að því að kortleggja magn lífrænna aukahráefna og vandamálaúrgangs sem fellur til á Íslandi með það í huga að nýta hann í landgræðslu og til jarðræktar. Nýsköpunar fyrirtækið Atmonia tekur einnig þátt í verkefninu en fyrirtækið þróar umhverfisvænan framleiðsluferil fyrir köfnunarefnisáburð.

Með aukinni nýtingu þess lífræna hráefnis sem til fellur úr íslenskum iðnaði og blöndun þess við mikilvæg næringarefni, svo sem köfnunarefnis og brennisteins, er hægt að draga verulega úr innflutningi á tilbúnum áburði og um leið loka hringrásinni og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Meðhöndlun og notkun lífrænna hráefna í áburð fylgir oft mikið umstang auk þess sem slík meðhöndlun er kostnaðarsöm. Mikið magn hráefna þarf jafnan til að uppfylla næringarþörf í landbúnaði og landgræðslu auk þess að næringarsamsetningin er ekki alltaf eins og best verður á kosið. Í verkefninu verður því leitast við að finna leiðir til að bæta lífræn áburðarefni og draga um leið úr flutningskostnaði og útblæstri.

Í tilraunum sumarsins er áhersla lögð á hráefni sem unnin hafa verið úr svokölluðum vandamálaúrgangi, þ.e. sláturúrgangi, matarleyfum og seyru. Gerðar verða prófanir með fiskeldismykju, manna seyru, þrjár moltutegundir, kjötmjöl, bokashi, kúamykju og kjúklingaskít. Hráefnin verða borin á jarðræktarsvæði í vor, annars vegar óblönduð og hins vegar með viðbættu köfnunarefni og brennistein. Úr slíkri tilraun fæst mikilvægur samanburður, auk samanburðar við tilbúinn áburð. Niðurstöðurnar munu varpa ljósi á gæði þessara hráefna, hvort hægt sé að nota minna hráefni ef næringarsamsetningin er stillt af og hvort þau sé fýsilegur kostur í landbúnaði og landgræðslu.

Verkefnið er til tveggja ára en jarðræktartilraunir verða endurskoðaðar og endurteknar næsta sumar.

Að verkefninu koma: Matís, Atmonia, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðslan, Hafró og Landsvirkjun.

Fréttir

Ársskýrsla Matís 2020 er komin á vefinn

Ársskýrsla Matís fyrir árið 2020 er nú aðgengileg.

Árið 2020 var fullt af áskorunum í starfsemi Matís eins og annarra fyrirtækja en þó er óhætt að segja að ýmsum stórum og mikilvægum áföngum hafi veirð náð.

Í ársskýrlunni er dregin upp mynd af starfseminni sem auk hefð- og lögbundins reksturs fólst í því að finna leiðir til að viðhalda og víkka út starf fyrirtækisins við nýjar og krefjandi aðstæður.

Skýrslunni er skipt upp í eftirfarandi kafla og hana má skoða í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Ársfundur Matís 2021

Ársfundur Matís fer fram fimmtudaginn 6. maí kl. 9-10:30 í streymi hér á vefsíðu Matís og í gegnum Facebook síðu Matís.

Dagskrá fundarins:

Ávarp

  • Kristján Þór Júlíusson, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opnar fundinn

Erindi

  • Starfsfólk Matís ræðir áherslur fyrirtækisins og ávinning fyrir íslenskt atvinnulíf
  • Samstarfsaðilar segja frá reynslu sinni af samstarfinu

Umræður: framtíð rannsókna og nýsköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu

  • Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís
  • Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands
  • Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi
  • Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Sjávarklasans

Fundarstjórn

Brynja Þorgeirsdóttir

Smellið hér til að fara á Facebook-viðburðinn.

Fréttir

Spennandi dagskrá á North Atlantic Seafood Forum

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Sviðsstjóri rannsókna

jonas@matis.is

Dagskrá North Atlantic Seafood Forum hefur nú verið birt og er ljóst að ráðstefnan verður einn merkilegasti netviðburður í sjávarútvegi og fiskeldi ársins 2021. Alls verða fluttir yfir 160 fyrirlestrar í 18 málstofum, og er búist við yfir 2500 þátttakendum víðsvegar að úr heiminum og úr hinum ýmsu hlekkjum í virðiskeðju sjávarafurða. Láttu ekki þennan viðburð fram hjá þér fara!

Í mars ár hvert, síðastliðin 15 ár, hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst til Bergen til að sitja ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum (NASF). Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Sökum COVID hefur nú verið ákveðið að NASF21 verði netviðburður, sem gefur tækifæri til að auka fjölda þátttakenda og lækka ráðstefnugjaldið verulega.

Ráðstefnan fer fram dagana 8-10 júní og er búist við að þátttakendur verði a.m.k. 2.500 talsins. Dagskrá ráðstefnunnar hefur nú verið birt og er hún sérlega spennandi að þessu sinni, en sjá má dagskrána á https://nor-seafood.com/program/.

Ef stiklað er á stóru yfir dagskrána, þá vekja eftirfarandi málstofur sérstaka athygli:

  • Áhrif laxalúsar á fiskeldi
  • Fiskeldisfóður og þróun þess
  • Framboð og eftirspurn í fiskeldi
  • Nýjar framleiðsluaðferðir í fiskeldi
  • Framboð og markaðir fyrir hvítfisk
  • Konur í sjávarútvegi
  • Framboð og eftirspurn í rækju
  • Fjárfestingar í sjávarútvegi
  • Framboð og markaðir uppsjávartegunda
  • Umfjöllun um lykilmarkaði fyrir sjávarafurðir í umsjón Norwegian Seafood Council
  • Sjálfbærni og sjávarafurðir

Íslensk fyrirtæki og einstaklingar skipa nokkuð stóran sess í dagskránni. Þar er fyrst að nefna að Valka og Marel eru meðal helstu styrktaraðila ráðstefnunnar. Þá verða eftirtaldir Íslendingar eða aðilar tengdir Íslandi með á mælendaskrá:

  • Jón Birgir Gunnarson hjá Völku mun fjalla um flökun fyrir dauðastirðnun
  • Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir hjá Marel mun fjalla um stafræna byltingu í virðiskeðju fiskeldis
  • Bjorn Hembre hjá Arnarlax mun fjalla um laxeldi á Íslandi
  • Sturlaugur Haraldsson hjá Norebo mun fjalla um framboð á hvítfiski frá Rússlandi
  • Þór Sigfússon hjá Sjávarklasanum mun fjalla um nýtingu aukahráefna og velta upp spurningunni hvort 100% nýting sé möguleg
  • Guðmundur Gíslason mun koma fram fyrir hönd Fiskeldis Austfjarða (Ice Fish Farm), Bjorn Hamre fyrir hönd Arnarlax (Icelandic Salmon) og Stein Ove Tveiten fyrir hönd Arctic Fish í málstofu fjárfesta.
  • Jóhannes Pálsson mun fjalla um áhrif Brexit á uppsjávargeirann
  • Ólafur Ragnar Grímsson eða Guðlaugur Þór Þórðarson munu fjalla um sjálfbærni í sjávarútvegi

Þátttaka á NASF síðustu ára hefur ekki verið á allra færi þar sem skráningargjaldið eitt og sér hefur verið nálægt 200 þús. kr. auk þess sem ferðir og uppihald í Bergen kostar sitt. Engu að síður hafa yfir 800 manns séð ástæðu til að sækja ráðstefnuna síðustu ár. Þar sem nú verður um netviðburð að ræða er unnt að upplifa NASF fyrir umtalsvert lægri kostnað. Ráðstefnugjaldið er um 43.000 ISK (290 EUR) á þátttakanda, en svo er magnafsláttur í boði fyrir fyrirtæki sem skrá fleiri þátttakendur.

Einn mikilvægasti hluti þess að taka þátt í NASF hefur ávallt verið það tækifæri sem felst í því að safna saman helstu áhrifavöldum í sjávarútvegi á einn stað til að stofna til og viðhalda samstarfi. Góð og trygg viðskiptasambönd byggja jafnan á persónulegum samskiptum og þar hefur NASF gengt mikilvægu hlutverki. Í þetta sinn verður leitast við að mæta þeim þörfum með því að bjóða upp á að tengja aðila saman á örfundum. Mismunandi „pakkar“ eru í boði þegar kemur að slíkum tengingum, en sá „pakki“ sem líklegast er að flestir velji sem áhuga hafa á að nýta þetta tækifæri kostar 500 EUR. Fyrir þann „pakka“ fá fyrirtæki sitt nafn og kynningu upp á „vegginn“ og þá geta allir almennir þátttakendur bókað fund með því fyrirtæki.

Þeir sem hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar um NASF21 er bent á að hafa samband við Jónas R. Viðarsson í jonas@matis.is eða í síma 4225107.

Fréttir

Örplast finnst í Vatnajökli

Umfjallanir um örplast hafa verið áberandi í fjölmiðlum og samfélagsumræðu undanfarin ár. Fyrr í mánuðinum birtist vísindagrein í tímaritinu Sustainability sem sýnir að örplast er að finna í Vatnajökli og vísindafólk leiðir að því líkur að örplastið megi einnig finna í öllum öðrum jöklum landsins.

Örplast er samheiti yfir örsmáar plastagnir af ýmsum toga. Agnirnar eru minni en 5 mm í þvermál og margar hverjar svo smáar að þær sjást ekki með berum augum. Plast getur verið framleitt sérstaklega í þessum smáu ögnum til þess að setja í ýmsar snyrtivörur til að ná fram hrjúfri áferð, til dæmis í kremi eða sápum. Öllu algengara er þó að örplast verði til þegar stærri plast einingar brotna niður í náttúrunni. Rannsóknir hafa sýnt að örplast finnst í öllum krókum og kimum heimsins. Í hafinu, í andrúmsloftinu, í heimsskauta ís og í líkömum manna og dýra.  

Örplast-agnir á fingri

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á örplasti  og tilveru þess í heiminum undanfarin ár en í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Sustainability birtist grein eftir vísindafólk við Háskólann í Reykjavík, Háskólann í Gautaborg og Veðurstofu Íslands sem sýnir fram á að örplast má finna í snjóalögum Vatnajökuls.

Sýnin sem voru rannsökuð voru þriggja metra langir borkjarnar af miðjum jökli svo líklegt þykir að plastagnirnar hafi borist á jökulinn með vindi eða úrkomu. Örplastið var af ýmsum stærðum og gerðum og þessar niðurstöður gefa til kynna að ríkt tilefni er til þess að rannsaka örplast í heiminum, jafnvel á afskekktustu stöðum, og flutningsleiðir þess frekar.

Matís leiðir nú þegar samnorrænt verkefni sem ber heitið NordMar Plastic þar sem helstu rannsóknarefnin eru plast og áhrif þess á norðurslóðum. Í verkefninu hefur öflugur, þverfaglegur hópur sérfræðinga verið myndaður og markmiðið er að safna og skoða fyrirliggjandi gögn um aðferðir, niðurstöður rannsókna og eftirlit með plastnotkun og -mengun.

Markmiðið er jafnframt að skapa sterkt, alþjóðlegt tengslanet aðila sem tengjast málaflokknum til þess að ná fram samhæfingu, samvinnu samlegðaráhrifum.

NordMar Plastic leggur áherslu á að skoða aðstæður á norðurslóðum og leggja mat á hvort tilefni sé til að marka sérstaka stefnu á þessu svæði. Í verkefninu er einnig lögð áhersla á það að vekja athygli almennings á málefninu og búa til fræðsluefni og verkleg verkefni fyrir börn í grunnskólum um að draga úr plastnotkun og endurvinna plast.

Nánari upplýsingar um NordMar Plastic má finna á vefsíðu verkefnisins með því að smella hér.

Fréttir

Orkídea og Matís undirrita samstarfssamning

Orkídea og Matís ohf. undirrituðu nýlega samstarfssamning sem hefur það að markmiði að vinna saman að aukinni verðmæta- og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni á Suðurlandi.

Samstarfinu er einnig ætlað að vekja áhuga sunnlenskra hagaðila á að tengjast verðmæta- og nýsköpun á sviðinu og fá þá til samstarfs. Í þessu skyni hafa Orkídea og Matís hug á að skoða sameiginleg verkefni og sameiginlega sókn í sjóði þegar kostur gefst. Samstarfið felur ekki í sér sameiginlega fjármögnun nema í gegnum verkefni sem sjóðir styrkja.

IS