Fréttir

North Atlantic Seafood Forum verður einn merkilegasti netviðburður í sjávarútvegi og fiskeldi ársins 2021

Uppfærð frétt: Stjórn NASF hefur ákveðið að fresta viðburðinum til 8-10 júní. Frekari fregna verður að vænta hér á heimasíðu Matís í janúar.

Í mars ár hvert, síðastliðin 15 ár, hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst til Bergen til að sitja ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum (NASF).

Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður (ráðstefnugjaldið hefur verið um 150.000 ISK + VSK á þátttakanda) hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Sökum COVID hefur nú verið ákveðið að NASF21 verði netviðburður, sem gefur tækifæri til að auka fjölda þátttakenda og lækka ráðstefnugjaldið verulega.

Ráðstefnan fer fram dagana 8-10 júní og er búist við að þátttakendur verði a.m.k. 2.500 talsins. Ráðstefnugjaldið er um 45.000 ISK + VSK (290 EUR) á þátttakanda, en svo er magnafsláttur í boði fyrir fyrirtæki sem skrá fleiri þátttakendur. Dagskrá þessa árs er sérlega vegleg, alls verða 130 kynningar í boði og meðal þeirra sem fram koma má nefna Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, Ninu Jensen, framkvæmdastjóra REV Ocean, Jong-Gu Lee, aðstoðarframkvæmdastjóra Dongwong Industries sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Suður-Kóreu, Sady Delgado, framkvæmdarstjóra AquaChile, ásamt kynningum frá Yongs, Nutrco, Rabobank, Kontali, Pareto ofl.

Eins og fyrri ár er dagskránni skipt upp í eftirfarandi hluta:

Þann 8. júní fara fram sex málstofur:

  • Aqua tech, sem Sintef stýrir
  • Marsh Insurance, þar sem tryggingarfyrirtæki eru markhópurinn
  • Yong leaders summit, þar sem framtíðarleiðtogar í sjávarútvegi eru markhópurinn
  • Málstofa um hafrannsóknir, sem norska Hafrannsóknarstofnunin stýrir
  • Málstofa um rannsóknir og nýsköpun í sjávarútvegi í Noregi, sem stýrt er af norskum rannsóknarsjóðum
  • Málstofa um alþjóðlegar rannsóknir og nýsköpun í sjávarútvegi.

Dagskránni 9. júní er skipt upp í fjóra hluta:

  • Um morguninn eru kynningar almenns efnis fyrir alla þátttakendur í senn, en sá hluti er jafnan hápunktur dagskrárinnar.
  • Eftir hádegi er þrjár málstofur sem fara fram samtímis þ.e.
    • Fiskeldi
    • Hvítfiskur
    • Markaðir (Brexit)

Dagskráin 10. júní skiptist upp í fjóra hluta:

  • Uppsjávarfiskur
  • Markaðir
  • Sjálfbærni
  • Kynningar á sprotum og nýsköpun

Einn mikilvægasti hluti þess að taka þátt í NASF hefur ávallt verið það tækifæri sem felst í því að safna saman helstu áhrifavöldum í sjávarútvegi á einn stað til að stofna til og viðhalda samstarfi. Góð og trygg viðskiptasambönd byggja jafnan á persónulegum samskiptum og þar hefur NASF gengt mikilvægu hlutverki. Í þetta sinn verður leitast við að mæta þeim þörfum með því að bjóða upp á að tengja aðila saman á örfundum. Mismunandi „pakkar“ eru í boði þegar kemur að slíkum tengingum, en sá „pakki“ sem líklegast er að flestir velji sem áhuga hafa á að nýta þetta tækifæri kostar 500 EUR. Fyrir þann „pakk“ fá fyrirtæki sitt nafn og kynningu upp á „vegginn“ og þá geta allir almennir þátttakendur bókað fund með því fyrirtæki.

Enn eru örfá tækifæri til að komast á mælendaskrá eða til að gerast styrktaraðilar NASF21. 

Frekari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson í jonas@matis.is eða í síma 4225107.

Fréttir

Matarsmiðjan

Lava Cheese

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Guðmundur Páll Líndal og Jóhann Már Helgason hjá Lava Cheese

Árið 2017 stofnuðu félagarnir Guðmundur Páll og Jósep Birgir Þórhallsson fyrirtækið Lava Cheese en síðar kom Jóhann Már inn í framleiðsluna og reka þeir Guðmundur fyrirtækið í dag. Síðla árs 2016 kviknaði hugmyndin þegar þeir vinirnir sátu saman og gæddu sér á grilluðum samlokum með osti en ræddu það að þeim þætti stökki, grillaði osturinn sem hafði harðnað á grillinu besti hluti máltíðarinnar. Út frá þessum samræðum hófu þeir frekari hugmyndavinnu og þróun og úr varð ostasnakkið Lava Cheese.

Lava Cheese snakkið er búið til úr alíslenskum osti sem er eldaður í ofni þannig að hann breytist í stökkar og ljúffengar ostaflögur. Metnaður er lagður í að ná fram örlítið brenndu bragði og er það eitt sérkenna snakksins. Engum óheilnæmum aukaefnum er bætt út í vörurnar en sumar tegundir eru þó bragðbættar, til dæmis með chiliflögum eða lauk. Í einni öskju hljóða næringarupplýsingarnar því upp á um 39% prótein og 0% kolvetni. Þetta hefur í för með sér að snakkið er góður kostur fyrir þá sem kjósa sér lágkolvetnamataræði eða ketó.

Í dag má fá Lava Cheese snakkið í ýmsum verslunum um allt land. Boðið er upp á fjórar bragðtegundir af snakkinu en það eru Chili, Smoked, Sour cream & onion og Plain bragð sem er í raun óbragðbætt. Mögulegt er að neyta snakksins á ýmsa vegu en algengast er að borða það eintómt sem nasl. Hugmyndaflugið hefur þó fengið að ráða ferðinni hjá mörgum og fólk hefur smurt snittur úr Lava Cheese, til dæmis með því að setja sýrðan rjóma og kavíar eða pestó, beikonsneið og egg ofan á flögurnar. Einnig er tilvalið að mylja Lava Cheese ofan í salat skálina og nokkrar uppskriftir á salat-veitingastaðnum Local bjóða einmitt upp á þann valkost.

Nánari upplýsingar um Lava Cheese má meðal annars finna á vefsíðunni þeirra hér  og upplýsingar á ensku hér.

Fréttir

Samspil fitu og litarefnis í fóðri á vöxt og gæði íslenskrar bleikju

Lokið er AVS verkefninu „Samspil fitu og litarefnis í fóðri á vöxt og gæði íslenskrar bleikju “ og hefur lokaskýrsla verkefnisins nú verið gefin út. Markmið verkefnisins voru tvíþætt a) að meta áhrif fituinnihalds í fóðri á vöxt, fóðurnýtingu og gæði bleikju, b) að finna hagkvæmustu leið við notkun og nýtingu litarefnis í fóðri og samspil þess við fituinnihald í fóðri og fiski. En með því yrði hægt að ná fram umtalsverðum sparnaði í bleikjueldi.

Í verkefninu voru framkvæmdar langtíma vaxtartilraunir með bleikju, þar sem rannsökuð voru áhrif fóðurs á vöxt og mikilvæga gæðaþætti hjá bleikju, fitusamsetningu og holdlit. Fyrsta markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif mismunandi fitugjafa og fituhlutfalls í fóðri á vöxt og efnasamsetningu í flökum. Annað markmiðið var að kanna áhrif mismunandi litarefna í fóðri og mismunandi litarefnafóðrunar, á framleiðslutíma, á holdlit í flökum. Verkefnið var unnið í samstarfi Íslandsbleikju, Matís, Háskólans á Hólum og Fóðurverksmiðjunnar LAXÁR.

Tilraunirnar sýndu fram á að mismunandi fituhlutfall fóðurs og ólík fituhráefni höfðu ekki áhrif á vöxt, vaxtarhraða, fóðurneyslu, fóðurnýtingu FCR eða nýtingarþætti við slátrun. Fituhlutfall fóðurs endurspeglaðist hins vegar í fituinnihaldi flaka og fitusýrusamsetningin í fóðrinu endurspeglaðist í flestum tilfellum glögglega í fitusýrusamsetningu flakanna. Ólík fituhráefni og fituhlutföll í fóðri höfðu lítil áhrif á sýnilegan holdlit í flökum. Meiri litabreytileiki varð greinilegri þegar litarefni var efnagreint í flökum.

Greining á styrk litarefna í tilraunafóðri sýndi erfiðleika við framleiðslu fóðurs með nákvæmt litarefnainnihald, samkvæmt áætlun og fóðuruppskriftum, óháð litarefnategundum eða í bættu magni. Verulegt tap varð á fóðurlit, í fóður framleiðslu, þegar notað var lífrænt litarefni, og virtist þetta tap óháð íblöndun. Niðurstöður benda til þess að taka þurfi tillit til þessara vinnslutapa (u.þ.b. 30%) til að tryggja að fiskurinn fái nægt litarefni til eðlilegrar holdlitunar.

Mismunandi litarefni og mismunandi styrkur litarefnis hafði engin teljandi áhrif á vaxtarhraða fóðurnýtingu eða næringarinnihald fisksins.

Lítill munur greindist í sýnilegum lit (Salmofan), en flakalitur mældur með Minolta greiningu sýndi meira samband í lit flaka og étinna litarefna. Efnagreining litarefna í flökum var í fylgni við magn étinna litarefna. Styrkur litarefna í fóðri umfram 50 mg/kg hafði ekki sýnileg áhrif í átt að rauðari holdlit í flökum.

Frekari upplýsingar um verkefnið veita þeir Jón Árnason hjá Matís og Ólafur Ingi Sigurgeirsson hjá Háskólanum á Hólum.

Fréttir

Matarsmiðjan

Smári’s Volcano Sauce

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Einn þeirra frumkvöðla sem unnið hefur að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni er Eggert Smári Sigurðsson með Smári‘s Volcano Sauce

Eggert Smári stendur að baki vörumerkinu Smári‘s Volcano Sauce sem framleiðir sterkar sósur til þess að hafa með ýmsum mat. Hann hefur sjálfur dálæti á sterkum sósum en hann komst á bragðið í suðurríkjum Bandaríkjanna þegar hann bjó þar um tíma. Þar um slóðir er vinsælt að borða kjúklingavængi með svokallaðri Hot-Sauce eða sterkri sósu í einhverri útfærslu. Þegar heim til Íslands var komið þótti honum úrvalið á slíkum sósum lítið og ekki nægilega fjölbreytt svo hann hóf að búa þær til sjálfur.

Í nokkur ár prófaði Smári sig áfram með sósugerðina og framleiddi aðallega til neyslu fyrir sjálfan sig, fjölskyldu og vini. Uppskriftirnar þróaði hann sjálfur eftir „bragð-minni“ eins og hann kallar það. Hann mundi eftir ýmsum tegundum af sósum sem hann smakkaði þegar hann var erlendis og reyndi að framkalla rétta bragðið í sínum uppskriftum. 

Hráefnið sem notað er í sósurnar er sérpantað erlendis frá en hver og ein sósa er unnin frá grunni úr fersku hráefni. Í sósurnar fara meðal annars jalapeno pipar, grænn chilli pipar, habanero pipar og Carolina Reaper sem er næst sterkasti pipar sem finnst í heiminum.

Fyrr á þessu ári, 2020, fór Smári að selja vörurnar sínar til almennings og eru vörur Smári‘s Volcano Sauce nú fáanlegar á heimasíðu verkefnisins og á uppistands-klúbbnum The Secret Cellar í Reykjavík. Í hefðbundnu árferði þegar staðurinn er opinn er þar einnig hægt að fá kjúklingavængi með sósunum. Vöruúrvalið er í stöðugri þróun en nú er hægt að fá þrjár missterkar sósur sem bera eldfjallanöfnin Askja, Hekla og Katla. Nýverið var tveimur tegundum bætt við og eru það ekta suðræn ranch-sósa sem nefnist Drangjökull annars vegar og gráðostasósan Mýrdalsjökull hins vegar. Algengt er að þessar sósutegundir séu bornar fram með kjúklingavængjum sem baðaðir hafa verið í sterkri sósu og eru þær því góð viðbót við vöruúrvalið.

Nánari upplýsingar um vörurnarmá meðal annars finna á á vefsíðu Smári‘s Volcano Sauce.

Fréttir

Litun á laxholdi með náttúrulegum litarefnum

Lokið er AVS verkefninu „Litun á Laxholdi með náttúrulegum Litarefnum“ og hefur lokaskýrsla verkefnisins nú verið gefin út. Í verkefninu voru könnuð áhrif mismunandi litarefna og styrks þeirra í fóðri fyrir Atlantshafslax á holdlit. Helstu niðurstöður verkefnisins voru að ómarktækur munur reyndist á holdlit milli þeirra litunaraðferða sem prófaðar voru. Öll litarefnin gáfu ásættanlegan holdlit á flökum. 

Verkefnið var unnið í samstarfi Matís, Háskólans á Hólum, Fóðurverksmiðjunnar LAXÁ og Nofima í Noregi. Litarefnið Panaferd AX, sem er unnið úr bakteríunni Paracoccus carotinifaciens, var blandað í mismiklum styrk í tilraunafóður og áhrifin metin. Til viðmiðunar var notað efnagerða litarefnið Lucantin® Pink, sem í dag er algengast að nota í fóður fyrir eldislax. Upphaflega átti einnig að prófa litarefnið Aquasta® en það hvarf af markaði og því var það eingöngu notað í fyrsta hluta (af þremur) tilraunarinnar. Í seinni hluta tilraunarinnar var því eingöngu samanburður á hold-litun með Panaferd AX og Lucantin Pink, gefið í mismiklu magni við mismunandi stærð á fiskinum.

Í verkefninu voru framkvæmdar fóðurtilraunir þar sem lax var alinn í fiskeldiskerjum í alls 438 daga.

Í upphafi rannsóknarinnar var kannað hversu mikið tapaðist af litarefni við framleiðslu tilraunafóðursins. Athugunin sýndi að við notkun á Panaferd AX varðveittist aðeins 76,9% af íblönduðu astaxanthini en 100+% þegar Lucantin Pink var notað. Því þarf að bæta 30% meira af astaxanthini á formi Panaferd i í fóðrið til þess að tryggja fiskinum samsvarandi magn litarefnis og fengist við notkun á Lucantin Pink.

Vöxtur, fóðurtaka, fóðurnýting og lifun var eðlileg í öllum hópum ítilrauninni. Niðurstöðurnar sýndu lítinn mun á holdlit á milli meðferða, en lítið samhengi var milli efnagreinds styrks litarefna og sýnilegs litar.

Niðurstaða tilraunarinnar var að allar prófaðar litunaraðferðirnar og bæði litarefnin sem rannsökuð voru gáfu svipaðan og ásættanlegan holdlit í laxflökum. Panaferd AX er lífrænn valkostur við litun á eldislaxi, sé þess gætt að blanda í fóðrið nægjanlegu magni til að mæta tapinu sem verður á astaxanthini í framleiðsluferli fóðursins.

Frekari upplýsingar veita Jón Árnason hjá Matís og Ólafur Ingi Sigurgeirsson hjá Hólaskóla.

Fréttir

Virðiskeðjan frá byggi til bjórs

Matís ohf hefur á undanförnum árum staðið að verkefnum um virðiskeðju korns frá kornskurði til framleiðslu matvæla. Flest þessi verkefni hafa fjallað um íslenskt bygg, gæði þess, efnainnihald og virðisaukningu með framleiðslu matvara. 

Bæði í verkefnum og hjá fyrirtækjum hefur verið sýnt fram á að hægt er að nýta íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum. Framleiðsla áfengra drykkja á Íslandi hefur eflst til muna á undanförnum árum. Um 22 handverksbrugghús eru nú í landinu auk tveggja stórra framleiðenda á bjór. Þá er viskí framleitt á Íslandi í vaxandi mæli. Í flestum tilfellum er notað innflutt bygg til framleiðslunnar.

Í verkefnum Matís hefur athyglin í vaxandi mæli beinst að sjálfbærni. Einn afraksturinn í nýlegu kornverkefni er kafli um sjálfbærni bjórframleiðslu í bókinni Case studies in the Beer Sector sem kom út nú í september hjá Elsevier bókaútgefandanum. Bókin fjallar um fjölmörg svið bjórframleiðslu svo sem þróun bjórmarkaðarins, nýjungar og markaðsmál. Stungið er upp á vænlegri aðferðafræði við markaðssetningu og fjallað um það hvernig bjór tengist svæðisbundnum mat og ferðamennsku. Fjallað er um árekstrana milli umhverfislegrar og hagrænnar sjálfbærni og ályktað er að ræða þurfi sjálfbærnina við stjórnvöld og sveitarfélög.

Þess er að vænta að íslenskir bjórframleiðendur geti sótt margar hugmyndir í bókina en hana má panta á vef Elsevier:  elsevier.com

Þess má einnig geta að Matís átti aðild að vísindagrein um virðiskeðjuna frá byggi til bjórs en hún er í opnum aðgangi hér. 

Fréttir

Matarsmiðjan

Klakavinnslan

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eruDaníel Jón Jónsson og Fannar Alexander Arason hjá Klakavinnslunni. 

Árið 2018 var fyrirtækið Klakavinnslan stofnað og í dag eru það Daníel Jón, annar stofnenda, og Fannar Alexander sem sjá um reksturinn. Þeir hafa báðir unnið í veitingageiranum um árabil og kynntust í gegnum þá vinnu. Þeir eru miklir áhugamenn um góða og vandaða drykki en í störfum sínum sem barþjónar ráku þeir sig oft á það að lök gæði klaka sem þeir nýttu í drykkjargerðina gerðu það að verkum að þeir gátu ekki framreitt drykki af þeim gæðum sem þeir hefðu helst kosið. Að þeirra mati fengu klakar alls ekki nægilega mikla athygli í veitingaheiminum þrátt fyrir að þeir væru stór og mikilvægur hluti af flestum drykkjum sem barþjónar framreiddu. Að auki var aðgengi að góðum klökum lítið sem ekkert á Íslandi

Þeir félagar sáu þarna tækifæri til þess að hefja framleiðslu hérlendis á hágæða klökum úr íslensku vatni. Það er engum blöðum um það að fletta að íslenskt vatn er með því besta í heimi svo þeir sáu fyrir sér að klakar úr því, unnir eftir kúnstarinnar reglum gætu orðið afburða góðir. Klakarnir frá Klakavinnslunni eru frystir hægt og rólega og með þrýstingi þannig að þeir verða mjög þéttir í sér. Ekkert loft verður eftir í þeim og þeir eru því alveg tærir og lausir við göt. Þetta gerir það að verkum að hver klaki bráðnar hægar en ella og þar af leiðandi helst drykkurinn óvatnsþynntur og í sinni réttu mynd mun lengur.

Klakavinnslan stundar fyrirtækjaþjónustu og því er hægt að fá klaka frá þeim í drykkinn sinn á hinum ýmsu veitingastöðum og börum í Reykjavík, svo sem á Slippbarnum, Sushi Social og Miami. Auk þess hefur vöruþróun farið fram og margt spennandi í pípunum en þeir hafa nýlega verið teknir í sölu í Melabúðinni og völdum Hagkaupsverslunum svo fólk getur nálgast þá með einföldum hætti og kælt drykkinn sinn.

Nánari upplýsingar um Klakavinnsluna má meðal annars finna á vefsíðu þeirra

Fréttir

Aðstaða til fiskeldisrannsókna hjá Matís : MARS

Matís hefur yfir að ráða góðri aðstöðu og öflugu liði sérfræðinga á sviði fiskeldisrannsókna, þá sér í lagi hvað varðar fóður og atferli fiska.

Í tilraunaeldisstöð Matís sem í daglegu tali er kölluð MARS (Matís Aquaculture Research Station), eru þrjú fiskeldiskerfi sem saman standa af tveimur RAS kerfum (Recirculation Aquaculture System) og einu gegnumstreymis kerfi.

  • RAS 1 samanstendur af 36 kerum sem hvert um sig tekur um 200 lítra af vatni/sjó.
  • RAS 2 samanstendur af 24 kerum sem hvert um sig tekur um 800 lítra af vatni/sjó.
  • Gegnumstreymiskerfið samanstendur af 48 kerum sem hvert um sig tekur um 20 lítra af vatni.

Í MARS eru meðal annars þróuð og framleidd fóður úr nýjum próteinum, auk þess sem framkvæmdar eru vaxtar- og meltanleikatilraunir á ýmsum fisktegunum. Einnig er mikil ásókn frá fóðurframleiðendum og fiskeldisfyrirtækjum víðsvegar um heim í þjónustuverkefni í MARS. Í þeim er meðal annars framleitt fóður úr hráefni sem þessir aðilar eru að þróa (eða kaupa af sínum birgjum) og svo eru þá framkvæmdar vaxtar- og/eða meltanleikatilraunir á fóðrinu.

Í MARS er unnið með mismunandi fisktegundir, sem og fiska á mismunandi æviskeiðum, allt frá seiðum upp í fullvaxinn fisk. Þær tegundir sem haldnar hafa verið í MARS eru Atlantshafs lax, beitarfiskur (tilapia), silungur, regnbogasilungur, hvítleggjarækjur og ostrur.

Það eru fáar tilraunaeldisstöðvar í heiminum sem geta boðið upp á sambærilega þjónustu og Matís hvað varðar fóðurgerð og fiskeldisrannsóknir. Þar að auki eru mikil samlegðaráhrif með öðrum sviðum innan Matís eins og t.d. efnamælingum, örverumælingum, skynmati, vinnslu, vöruþróun o.s.frv. Það er mikil ásókn í samstarf við Matís á sviðum fóðurs og fiskeldis, bæði í rannsóknarverkefnum og þjónustuverkefnum.

Við hjá Matís erum mjög stolt af þeirri aðstöðu og þekkingu sem til er innan fyrirtækisins og horfum björtum augum til framtíðar fiskeldis og fiskeldisrannsókna. 

Fréttir

Er notkun sveppapróteins eitt skref í átt að sjálfbærari og heilsusamlegri matarvenjum?

Með síaukinni fólksfjölgun og vitundarvakningu um umhverfisáhrif matvælaframleiðslu í heiminum hefur þörfin fyrir þróun nýrra innihaldsefna einnig aukist. Samhliða þessu heldur matvælaiðnaðurinn áfram að leitast við að mæta kröfum neytenda um gæði og næringargildi matvæla. Út frá þessu hefur verið skoðað hvort nýta megi líftækni til að þróa próteinríkt innihaldsefni í mat og mæta þar með eftirspurninni sem er eftir aukinni sjálfbærni og heilnæmi í matvælum.

Í verkefninu FUNGITIME sem styrkt er af Evrópusambandinu í gegnum EIT food og Matís leiðir fer fram þróun ýmissa matvæla sem innihalda ABUNDA® sveppaprótein. Í ABUNDA® próteininu má finna blöndu næringarefna, trefja, vítamína og steinefna og matvælin sem eru í þróun eru fjölbreytt. Sem dæmi má nefna snakk, pasta og ýmsa drykki á borð við mjólkurstaðgengla. Markmið verkefnisins er að þróa matvæli sem hafa afburða næringar- og líffræðilega eiginleika samhliða því að mæta sem flestum kröfum neytenda.

Hjá Matís hefur á undanförnum mánuðum farið fram þróunarvinna á uppskriftum að fersku tagliatelle pasta sem inniheldur ABUNDA® sveppaprótein. Annars vegar er um að ræða hefðbundna pasta uppskrift þar sem ákveðnu hlutfalli af hveiti er skipt út fyrir ABUNDA®. Hins vegar hefur verið þróuð pastauppskrift sem hentar þeim sem kjósa grænkerafæði.

Það er ýmsum vandkvæðum bundið að þróa pasta með þessum hætti en sumir eiginleikar pastadeigsins, svo sem viðloðun og teygjanleiki breytast töluvert þegar átt er við það. Neytendakannanir sem gerðar voru í tengslum við verkefnið hafa einnig sýnt fram á að neytendur óska eftir fleiri vörum án allra aukefna sem gjarnan eru notuð þegar framleiddar eru staðgönguvörur sem eiga að líkja eftir einhverskonar upprunalegum vörum. Því hefur verið haft að leiðarljósi að nota engin viðbætt efni í þessari þróun á pasta til að mæta þessum kröfum.

Gert er ráð fyrir að notkun ABUNDA® sveppapróteins muni þó hafa í för með sér ýmsa kosti. Próteinið er af miklum gæðum en framleiðslukostnaðurinn er þrátt fyrir það lágur og framleiðslan að miklu leyti sjálfbær. Próteinið er auk þess heilsusamlegt, trefjaríkt og hentar grænmetisætum og grænkerum.

Frekara lesefni um ABUNDA® sveppaprótein og tæknina á bakvið það má nálgast hér

Fréttir

Matarsmiðjan

Kombucha Iceland

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Ragna Björk Guðbrandsdóttir og Manuel Plasencia Gutierrez hjá Kombucha Iceland. 

Hjónin Ragna Björk og Manuel stofnuðu fyrirtækið Kombucha Iceland utan um framleiðslu sína á ýmsum afbrigðum kombucha drykkjarins árið 2016. Þau höfðu þá þegar töluverða reynslu af drykkjargerðinni en Manuel, sem er frá Kúbu, hafði verið að prófa sig áfram með gerjun á ýmsum mat og drykk hér á Íslandi, eins og hefð er fyrir á æskuheimili hans í heimalandinu, í allnokkur ár.

Kombucha er í grunninn te sem er gerjað eftir kúnstarinnar reglum. Hellt er upp á te en þau Ragna og Manuel notast við fimm tegundir af lífrænum hágæða telaufum og íslenskt vatn. Við rétt hitaskilyrði og með aðstoð lífræns sykurs hefst gerjunin og hún hrindir af stað ferli sem fyllir drykkinn af fjölbreyttum heilsubætandi efnasamböndum, góðgerlum og vítamínum. Kombucha er því talið afar gott fyrir heilsuna og ekki síst fyrir þarmaflóruna og meltinguna. Drykkurinn er náttúrulega kolsýrður og hefur skemmtilega súr-sætt bragð.

Í framleiðslunni hafa hjónin kappkostað að hafa sem allra flest innihaldsefni drykkjarins fersk, lífræn og helst íslensk ef kostur er. Kombucha Iceland er fáanlegt í fjölmörgum bragðtegundum og má þar til að mynda nefna krækiberjabragð en fjölskyldan fer jafnan saman í Borgarfjörð til að tína berin í drykkjarframleiðsluna. Einnig er m.a. hægt að fá rauðrófu-, glóaldin-, rabarbara- og vanillubragð auk original bragðtegundarinnar sem á marga aðdáendur. Kombucha er heilsueflandi og frískandi drykkur sem má njóta við flest tilefni. Hann inniheldur koffín úr teinu og kolsýru vegna gerjunarinnar og umsagnaraðilar hafa sagt að hann henti vel til að slá á sykurþörf og sem staðgengill fyrir gosdrykki eða áfengi.

Nánari upplýsingar um Kombucha Iceland má meðal annars finna á vefsíðu þeirra, https://kubalubra.is/.

IS