Fréttir

Kynning á styrkjum og möguleikum sjóðakerfis og stuðningi þess við rannsóknir og nýsköpun í matvælaiðnaði

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Á fimmtudaginn, 4. febrúar, fer fram sérstök kynning í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi á styrkjum og möguleikum sjóðakerfis í tengslum við rannsóknir og nýsköpun í matvælaiðnaði.

Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís, heldur kynninguna, en Matís hefur unnið með fjölda fyrirtækja og stofnana að alls kyns nýsköpunarverkefnum og fjármögnun þeirra. Farið verður yfir fjármögnunartækifæri í sjóðum til matvælarþróunar og þá aðstoð sem fyrirtæki geta fengið í ferlinu.

Kynningin fer sem fyrr segir fram í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi, fimmtudaginn 4. febrúar klukkan 12:00. Áhugasamir eru beðnir um að senda staðfestingu á breid@breid.is.

Fréttir

Niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2020

Tengiliður

Sophie Jensen

Verkefnastjóri

sophie.jensen@matis.is

Nú liggja fyrir niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs fyrir árið 2020. Kerfisbundin vöktun hefur staðið yfir, með hléum, frá árinu 2003 og Matís ohf. Sér um gagnasöfnun og útgáfu á skýrslum vegna hennar. 

Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggis og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu. Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum. Þetta er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem útvíkkun og endurskoðun er stöðugt nauðsynleg. 

Niðurstöður ársins 2020 sýna að öll sýni af sjávarafurðum til manneldis voru vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Þá reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB efna vera lágur í ætum hluta sjávarfangs, miðað við hámarksgildi ESB samkvæmt reglugerð nr. 1259/2011. Sömuleiðis sýndu niðurstöðurnar að styrkur þungmálma, t.d. kadmíum (Cd), blý (Pb) og kvikasilfur (Hg) í íslenskum sjávarafurðum var alltaf undir hámarksgildum ESB. 

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2020

Fréttir

Matís og Hafrannsóknastofnun þróa nýjar aðferðir til loðnuleitar

eCAP – Loðnuleit með umhverfiserfðaefni (eDNA) er samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Matís sem miðar að þróun nýrra erfðafræðilegra aðferða til loðnuleitar. Undanfarin þrjú ár hefur gengið illa að finna loðnu í nægu magni svo unnt sé að gefa út veiðikvóta. Talið er að umhverfisbreytingar í hafinu við Ísland valdi því að loðnan virðist nú hafa aðra dreifingu og fæðufar en áður.

eCAP miðar að þróun erfðafræðilegra aðferða til loðnuleitar. Þessar aðferðir ganga út á að safna umhverfiserfðaefni úr sjósýnum sem tekin eru á mismunandi dýpi í loðnuleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Umhverfiserfðaefni eru DNA sameindir sem losna frá lífverum í hafinu t.d. frá slími, skinni eða úr saur og hægt er að sía úr sjósýninu. Eftir að búið er að einangra erfðaefnið eru notuð sérhæfð loðnu erfðamörk til þess að greina hvort og hversu mikið loðnu erfðaefni er í sýninu. Með þessu má ákvarða hvort loðna er eða hefur verið á leitarsvæði og auðvelda leitina. eCAP verkefnið leitast einnig við að gera þessar aðferðir einfaldar og fljótvirkar þannig að hægt sé að gera þetta um borð í veiðiskipum af áhöfn.

Fyrsta skrefið í eCAP var að finna erfðamörk sem eru algerlega sérhæfð fyrir loðnu. Guðbjörg Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Matís hefur þegar hannað þessi erfðamörk. Næsta stig verkefnisins er að nota erfðamörkin til þess að greina loðnu í sjósýnum sem tekin hafa verið í leiðöngrum Hafrannsóknarstofnunar og bera þær niðurstöður saman við bergmálsmælingar úr sömu leiðöngrum. Gert er ráð fyrir að aðferðin verði kominn í gagnið eftir um tvö ár og eru vísindamenn Hafrannsóknastofnunar og Matís og vonandi loðnusjómenn spenntir fyrir nýrri aðferð til loðnuleitar.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís til þriggja ára. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir verkefnastjóri eCAP, Dr. Christophe Pampoulie, erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun, christophe.s.pampoulie[hjá]hafogvatn.is.

Fréttir

Matarsmiðjan

Feel Iceland

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem hófu starfsemi sína í Matarsmiðjunni eru Hrönn Margrét Magnúsdóttir og Kristín Ýr Pétursdóttir hjá Feel Iceland

Þær Hrönn og Kristín standa að baki fyrirtækinu Feel Iceland en þær sameinuðu krafta sína árið 2013 þegar þær stofnuðu fyrirtækið utan um framleiðslu og markaðssetningu á hreinum og áhrifaríkum kollagen snyrtivörum og fæðubótarefnum. Hrönn fékk hugmyndina þegar hún leigði rými í frumkvöðlasetri Sjávarklasans og sá hvað miklir mögulegar fælust í því að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða en þær eru í sérflokki hvað varðar gæði og ferskleika. Þær höfðu áhuga á því að stuðla að betri nýtingu og búa til hágæða vörur sem myndu láta fólki líða betur og stuðluðu um leið að minni sóun.

Við fiskveiðar á Íslandi falla til ýmsar hliðarafurðir eins og fiskiroð sem er yfirleitt lítið nýtt þrátt fyrir að búa yfir ýmsum góðum eiginleikum. Feel Iceland kollagenið er unnið úr íslensku fiskiroði og unnið eftir kúnstarinnar reglum af einum besta kollagen framleiðanda heims sem staðsettur er í Kanada. Pökkun og vinnsla á efninu fer svo fram á Grenivík í Eyjafirði. Engum aukaefnum er bætt í vöruna en hún er þó unnin á þann hátt að ekkert fiskibragð situr eftir í henni. Kollagen er eitt helsta uppbyggingarprótein líkamans og hefur góð áhrif á húð, hár, neglur, bein og liði. Með aldrinum minnkar náttúrleg framleiðsla líkamans á kollageni og því hentar vel að taka það inn sem fæðubót.

Feel Iceland kollagenið er í duft formi þannig að með einföldum hætti má blanda því út í flest matvæli á borð við þeytinga, grauta, og alls kyns drykki en það hentar vel til daglegrar inntöku. Einnig eru hylki í boði fyrir þá sem það kjósa heldur, í bland við efni sem eru sérstaklega ætluð til þess að sporna við öldrun húðarinnar og minnka liðverki. Árið 2019 kom einnig á markað koffínbættur drykkur sem inniheldur kollagen frá Feel Iceland og kallast Collab. Hann er fáanlegur í ýmsum bragðtegundum í flestum verslunum og hefur notið mikilla vinsælda. Feel Iceland mun einnig bjóða upp á húðserum á næstu vikum sem inniheldur kollagen, ensím úr íslenskum þorski og hyaluronic sýru sem hefur gríðarlega góð áhrif á heilbrigði og ásýnd húðarinnar.

Nánari upplýsingar um Feel Iceland Collagen má meðal annars finna á vefsíðu fyrirtækisins.

Fréttir

Snjallmerki á matvælum

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Verkefnið skiptist upp í sex verkþætti þ.e. 1) Verkefnastjórnun, 2) greining á þeim snjallmerkjum sem eru á markaði og notkun þeirra í matvælaiðnaði, 3) greining á þörfum og væntingum neytenda og annarra hagaðila til snjallmerkja, 4) greining á, og tillögur að, nýjum þjónustutækifærum sem tengjast snjallmerkjum. Þar sem 19 útfærslur á bættri þjónustu voru kynntar, 5) prófanir á útvöldum lausnum sem lagðar voru til í fyrri verkþætti, 6) miðlun.

Verkþátturinn sem fjallaði um greiningu á snjallmerkja-tækni og notkun snjallmerkja í virðiskeðjum matvæla snéri að mestu leyti að því að finna og greina útgefið efni um snjallmerki og matvæli. Sjónum var beint að því að finna út hvaða merki séu helst í notkun innan matvælageirans og hversu mikið þau séu nýtt. Þá voru einnig greindir þeirra helstu kostir og gallar. Traust neytenda á merkjunum og þeim skilaboðum sem þau geyma var lykilatriði í greiningunni. Þau snjallmerki sem til umræðu voru í þessum verkþætti voru t.d. merki sem greina hitastig, ferskleika, gas og lífefni, strikamerki, QR kóða og merki sem senda frá sér rafeindaboð (RFID). Í verkþættinum var gerð yfirgripsmikil könnun á útgefnum niðurstöðum rannsóknarverkefna og greinum í fagrímaritum um efnið. Gaf sú greining til kynna að lítið hafi verið rannsakað hvort neytendur treysti yfir höfuð snjallmerkjum, hvort þeir séu áhugasamir um að nýta sér þau eða hvort notkun slíkra merkja skapi virðisauka fyrir framleiðendur. Niðurstöður greiningarinnar benda einnig á að enn séu fyrir hendi tæknilegar hömlur á hvað hægt sé að gera með merkjunum, til að mæta kröfum neytenda og framleiðenda. Niðurstöður þessa verkþáttar verða birtar síðar í ritrýndri vísindagrein.

Verkþátturinn sem snéri að því að meta væntingar og þarfir neytenda og annarra hagaðila til snjallmerkja var yfirgripsmikill. Hann byggði að nokkru leyti á niðurstöðum fyrri verkþáttar, en að auki voru tekin viðtöl við framleiðiendur, byrgja og smásala í níu löndum; svokallaðar fókus-grúppur voru haldnar með neytendum, og netkannanir voru haldnar þar sem yfir 4 þúsund manns svöruðu. Hjá Matís voru haldnar tvær fókus-grúppur sem fjölluðu sérstaklega um snjall merkingar á sjávarfangi. Einnig stóð Matís fyrir netkönnun um sama efni, sem um 500 manns svöruðu. Niðurstöður þessa verkþáttar verða birtar síðar í ritrýndri vísindagrein. Meðal niðurstaðna er að snjallmerki geta aukið virði matvæla og upplifun neytenda, jafnframt því að það er greiðsluvilji fyrir hendi hjá neytendum að borga hærra verð fyrir vörur með snjallmerkjum.

Verkþátturinn sem fjallaði um að koma auga á nýjar þjónustuleiðir sem nýta snjallmerki fór í umfangsmikla SVÓT (Styrkleikar, Veikleikar, Ógnanir og Tækifæri) greiningu á snjallmerkja-tækni í matvælaiðnaði. Í verkþættinum voru 19 leiðir greindar og voru svo þær sem þóttu álitlegastar prófaðar í næsta verkþætti. Sá verkþáttur prófaði fjórar tegundir af snjallmerkjum í for-könnun (e. pre-pilot) í nokkrum virðiskeðjum matvæla. Þau merki sem prófuð voru eru:

· Ferskleikavísir (e. Nitrogen Smart Tag indicator) – Þar sem köfnunarefni myndast í matvælum þegar þau skemmast, þá gefur magn köfnunarefnis vísbendingu um ferskleika. Í þessari snjallmerkjalausn var QR kóði prentaður með bleki sem breytir um lit þegar hann kemst í samband við ákveðið magn af köfnunarefni. Neytendur geta því skannað QR kóðann til að sjá ferskleika vörunnar. Hér er hins vegar um þannig lausn að ræða að liturinn breytist þegar magn köfnunarefnis fer yfir ákveðinn þröskuld og því eru núverandi takmörk þessarar lausnar að upplýsingarnar sem fást eru bara ferskur eða ekki (allt eftir því hvar þessi þröskuldur er settur. Frekari þróun á þessari lausn mun því snúa það því að staðsetja ferskleikann enn frekar á einhverskonar skala. Þessi ferskleikavísir var prófaður hjá Matís hér á Íslandi, AZTI á Spáni og KU Leuven í Belgíu á mismunandi matvælum. Hér á Íslandi voru gerðar prófanir með ferskan fisk, sem lofuðu góðu. Það er því líklegt að farið verði í frekari þróun og nýsköpun á þessari lausn hjá Matís og samstarfsaðilum í framtíðinni.

Ferskleikavísir prentaður með bleki sem breytir um lit þegar hann kemst í samband við köfnunarefni.

· Hitastigsvaki (e. NFC Smart Tag Temperature logger) – lítið snjallmerki sem límt er á umbúðir til að fylgjast með hitastigi. Neytendur eða aðrir hagaðilar í virðiskeðjum matvæla geta þá tengst merkinu gegnum farsíma og séð hitastigsferilinn. Það var reyndar mat þátttakenda í verkefninu að þessi lausn væri síður áhugaverð fyrir almenna neytendur, en þeim mun mikilvægari fyrir framleiðendur, flutningsaðila, smásala og aðra með sérfræðiþekkingu til að meta áhrif hitastigs á gæði og geymsluþol matvæla. Hitastigsvakinn var prófaður hjá Matís á Íslandi og VTT í Finnlandi.

Hitatigsvakinn er límiði sem festist á matvælaumbúðir og safnar gögnum um hitastig.

· Súrefnisvísir (e. Oxygen Smart Tag indicator) virkar svipað og ferskleikavísirinn, þar sem hann er prentaður með bleki sem breytir um lit þegar hann kemst í samband við súrefni. Þessi lausn virkar vel á matvæli sem eru í lofttæmdum eða loftskiptum umbúðum, þar sem súrefnisvísirinn sýnir þá hvort umbúðirnar „leki“ eða ekki. Súrefnisvísirinn var prófaður hjá AZTI á Spáni og KU Leuven í Belgíu. 

Súrefnisvísir prentaður með bleki sem breytir um lit þegar hann kemst í samband við súrefni.

· Tappa-merki (e. ‘Wine Cap’ Tag) eru merki sem fest eru á tappa vínflaska. Þau senda frá sér rafeindamerki sem snjallsímar geta móttekið og þannig fengið ýmisskonar upplýsingar um flöskuna s.s. hvar vínið var ræktað, gæðaprófanir og upplýsingar um pörun við matvæli. Merkið er einnig með innbyggðan hitamæli sem lætur vita hvenær vínið er að réttu hitastigi til neyslu. Þetta merki var prófað af Háskólanum í Reading. 

Tappa-merkið sendir frá sér rafeindamerki sem snjallsímar geta móttekið.

Verkefnið Snjallmerki var skilgreint sem miðlunarverkefni, þar sem meginmarkmiðið var að safna og miðla þekkingu um snjallmerki. Óhætt er að fullyrða að þeim markmiðum hafi verið náð, þar sem um 6.500 manns höfðu beint innlegg í verkefnið í gegnum viðtöl, fókus grúppur og neytendakannanir, auk þess sem yfir 60 þúsund manns hafa heimsótt netsíður með upplýsingum frá verkefninu.

Þó svo að þessu verkefni sé nú lokið, þá er ljóst að frekari rannsóknir og nýsköpun mun fara fram á þessu sviði. Þátttakendur í verkefninu eru því þakklátir fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna að þessu mjög svo spennandi verkefni og munu án efa halda því starfi áfram.

Að SmartTag verkefninu komu átta fyrirtæki og stofnanir, en verkefnið var fjármagnað af EIT food.

Fréttir

Margnota umbúðir ekki endilega umhverfisvænni

Þessa dagana er unnið úr niðurstöðum verkefnisins „Vistferilsgreining umbúða fyrir ferskar fiskafurðir“. Verkefnið var unnið af nemendum í umhverfis- og auðlindafræði í samstarfi við Háskóla Íslands, Matís og Sæplast. 

Í verkefninu sem um ræðir var vistferilsgreining gerð fyrir einnota umbúðir ferskra fiskafurða og þær bornar saman við margnota umbúðir. Í vistferilsgreiningunni felst úttekt og mat á umhverfisáhrifum umbúðanna á öllum stigum lífsferils þeirra svo óhætt er að segja að í mörg horn sé að líta og mikilvægt að skoða þau út frá fjölbreyttum sjónarmiðum. Fiskur og fiskafurðir eru fluttar frá Íslandi í miklum mæli á hverjum degi, gjarnan í einnota umbúðum. Umhverfisáhrifin geta því verið umtalsverð og vistferilsgreining umbúða er eitt skref í átt að betrumbótum.

Á vef Háskóla Íslands birtist á dögunum grein um framgang verkefnisins sem byggð var á viðtali við Ólaf Ögmundarson, aðjunkt við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ. Hann er einn þriggja leiðbeinenda sem komu að verkefninu ásamt tveimur nemendum úr umhverfis- og auðlindafræði, þeim Nouraiz Nazar og Heidi Marie Kalvenes. Meðleiðbeinendur Ólafs voru Björn Margeirsson, rannsóknastjóri hjá Sæplasti og dósent í iðnaðar- og vélaverkfræði við Háskóla Íslands og Sæmundur Elíasson, starfsmaður Matís og doktorsnemi við HÍ.

Greinina má lesa í heild sinni á vef Háskóla Íslands hér.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi rannsóknum og þróun til þess að bæta flutningaferla og lágmarka umhverfisáhrif vegna þeirra sem byggja má á niðurstöðum þessa samstarfsverkefnis.

Fréttir

Matarsmiðjan

Ástrík Gourmet Poppkorn

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Einn þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni er Ásthildur Björgvinsdóttir hjá Ástrík Gourmet Poppkorn.

Ásthildur Björgvinsdóttir stendur að baki vörumerkinu en hún hafði árum saman haft gaman af tilraunum og áskorunum í eldhúsinu. Poppframleiðslan byrjaði í raun í eldhúsinu heima hjá henni þar sem hún prófaði sig áfram og fólk í kringum hana hafði mikinn áhuga á að smakka og fá uppskriftir. Árið 2015 fór hún svo með poppið á matarmarkað þar sem það hlaut afar góðar viðtökur. Eftir það fór hún að skoða möguleikana á því að koma þessu í framleiðslu og sölu og leitaði þá til Matís þar sem hún fékk aðgang að aðstöðu í atvinnueldhúsi, auk leiðbeininga og kennslu.

Ásthildur flytur inn óerfðabreyttar poppbaunir frá Suður-Frakklandi af svokallaðri „mushroom“ tegund sem poppast í stóra bolta. Þeim er velt upp úr karamellu sem er búin til frá grunni af henni sjálfri eða samstarfsfólki. Sú karamella er gerð af kostgæfni eins og karamellur voru gerðar í gamla daga með íslensku smjöri, flögusalti og fleira góðgæti. Grunnuppskriftin að karamellupoppinu hefur haldið sér frá upphafi, sömu góðu hráefnin eru alltaf notuð og engum aukaefnum er bætt við. Framleiðslan krefst mikillar nákvæmni og vandvirkni en það telur Ásthildur einmitt vera lykilinn að velgengninni.

Alls kyns tegundir af poppi eru fáanlegar frá merkinu Ástrík Gourmet Poppkorn og þau eru í raun alltaf að prófa eitthvað nýtt. Sem dæmi má nefna popp með rósmaríni, lakkrís eða kókos. Vinsælasta tegundin er þó karamellupopp með sjávarsalti sem til dæmis má borða eins og það kemur fyrir, setja í og ofan á kökur og bollur á bolludaginn, bera fram með ostum og setja ofan á ís og kaffidrykki. Karamellupopp má líka að para með drykkjum og setja í gjafakörfur. Einnig hefur verið vinsælt að panta stóra skammta af nokkrum bragðtegundum og gera eins konar popp-bar í veislum eða á viðburðum. Poppið er að auki fáanlegt í ýmsum matvöru- og sérvöruverslunum.

Nánari upplýsingar um Ástrík Gourmet Poppkorn má meðal annars finna á vefsíðu fyrirtækisins.

Fréttir

Nýr vettvangur fyrir nýsköpun og rannsóknir á Suðurlandi

Orkídea er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Helga Gunnlaugsdóttir sem áður starfaði hjá Matís, síðast sem sviðsstjóri lýðheilsu- og matvælaöryggissviðs, er rannsókna- og þróunarstjóri hjá Orkídeu.

Verkefnið snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra framtíðarinnar á Suðurlandi, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprotastarfsemi og að undirbúa svæði til að taka á móti orkutengdri nýsköpun.

Aðsetur Orkídeu er á Selfossi en nánari upplýsingar má nálgast á orkidea.is 

Startup Orkídea

Startup Orkídea er samstarfsverkefni Icelandic Startups og Orkídeu. Um er að ræða einstakan vettvang fyrir þróun viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna rótgrónari fyrirtækja sem vinna að sjálfbærum lausnum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. 

Umsjón með framkvæmd verkefnisins er í höndum Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára aðstoðað frumkvöðla við að hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til viðskipti taka að blómstra. Icelandic Startups starfar náið með frumkvöðlum, háskólum, fjárfestum, atvinnulífinu, hagsmunasamtökum og hinu opinbera að því að efla frumkvöðlastarf og byggja upp nýsköpunarumhverfið á Íslandi.

Opið er fyrir umsóknir í Startup Orkídea til 24. janúar 2021.

Sjá nánar hér: https://www.startuporkidea.is/

Fréttir

Jólakveðja frá starfsfólki Matís

Takk fyrir árið sem er að líða.

Starfsfólk Matís óskar viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fréttir

Góð vika fyrir íslenska matvælaframleiðslu og samstarfsaðila Matís

Þróun á íslenskri haframjólk, próteinduft úr hliðarstraumum makríls og verðmætasköpun í þörungavinnslu eru á meðal nýrra verkefna Matís og samstarfsaðila

Síðasta vika reyndist íslenskum matvælaframleiðendum og samstarfsaðilum Matís vel, en tólf verkefni sem Matís kemur að hlutu styrk úr Matvælasjóði þegar sjóðurinn tilkynnti sína fyrstu úthlutun. Nokkrum dögum fyrr hafði Rannís tilkynnt að samstarfsverkefni sem Matís leiðir hafi hlotið veglegan styrk úr Markáætlun um samfélagslegar áskoranir til að vinna að þróun sjálfbærs innlends áburðar. Einnig bárust fréttir af því að Rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun (H2020) hefði samþykkt fjármögnun á verkefni sem Matís tekur þátt í á sviði líftækni. Þessi frábæri árangur sýnir vel styrk og mikilvægi þess samstarfs sem Matís á í við fyrirtæki, stofnanir og frumkvöðla af öllum stærðum og gerðum, jafnt innan lands sem utan. 

Markmið Matís er að styðja við rannsóknir og nýsköpun í matvæla- og líftækniiðnaði, og sýnir þessi árangur að samstarf við fyrirtækið er góður kostur. Hjá Matís starfa um 100 sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum er við koma matvælaframleiðslu og líftækni. Þessir starfsmenn eru stoltir af að taka þátt í þessum áðurnefndu rannsókna- og nýsköpunarverkefnum, og að fá tækifæri til að vinna með framsýnum fyrirtækjum, stofnunum og frumkvöðlum í að móta framtíðina. Hér á eftir fylgir stutt yfirlit yfir þessi 14 verkefni sem fengu brautargengi í síðustu viku.

Myndin sýnir dreifingu nýrra verkefna Matís og samstarfsaðila um landið.

Matvælasjóður

Þróun íslenskrar haframjólkur: Sandhóll bú ehf. í Vestur-Skaftafellssýslu hlaut styrk til þróunar á haframjólk úr innlendu hráefni. Haframjólk úr íslenskum höfrum er nýjung hér á landi sem auka mun virði innlendrar hafraframleiðslu, og kemur í stað innfluttrar haframjólkur og hefur því meðal annars minna kolefnisspor en innflutta varan. Sandhóll naut dyggrar aðstoðar Matís við mótun verkefnisins og við skrif umsóknarinnar og mun Sandhóll nýta sér þjónustu Matís við framkvæmd verkefnisins. Matís óskar hjónunum á Sandhóli, Hellen M. Gunnarsdóttur og Erni Karlssyni, hjartanlega til hamingju með styrkinn.

Heilandi máttur lífrænnar mysu í krukku: Biobú ehf. hlaut styrk til þróunar á snyrtivörum úr lífrænni mysu. Árið 2009 var framkvæmd rannsókn hjá Matís þar sem lífvirkni mysu var mæld, en rannsóknin sýndi að mysa hefur andoxunareiginleika. Einnig reyndist hún hafa blóðþrýstingalækkandi áhrif. Í framhaldi þessara jákvæðu niðurstaðna var farið af stað að rannsaka nýtingu á mysu í andlitskrem í samstarfi við Bíóbú. Voru þau verkefni styrkt af Mjólk í mörgum myndum (MiMM) og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Biobú hyggst nú halda þessu þróunar- og nýsköpunarverkefni áfram, þannig að verðmætar vörur verði framleiddar og markaðssettar úr þessu vannýtta hráefni. Biobú naut dyggrar aðstoðar Matís við mótun verkefnisins og við skrif umsóknarinnar. Biobú mun nýta sér þjónustu Matís við framkvæmd verkefnisins. Matís óskar eigendum og starfsfólki Biobú hjartanlega til hamingju með styrkinn.

Próteinduft úr hliðarstraumum makríls: Síldarvinnslan í Neskaupstað (SVN) hlaut styrk til að þróa og framleiða fiskpróteinhýdrólýsöt úr hliðarstraumum sem falla til við vinnslu makríls og meta fýsileika þess að nota þau í startfóður fyrir laxeldi, sem og til manneldis. Makríll er ein mikilvægasta uppsjávartegundin við Ísland og eru meira en 100.000 tonn unnin á landinu ár hvert, með tilheyrandi magni hliðarstrauma (hausum, innyflum og afskurði). Þessir hliðarstraumar hafa hingað til einungis verið nýttir til framleiðslu á fiskmjöli og lýsi og eru því miklir möguleikar fyrir hendi til þess að auka verðmæti þeirra. SVN er eigandi verkefnisins en ef verkefnið skilar tilætluðum árangri þá mun það skipta verulegu máli fyrir uppsjávargeirann í heild, sem og fyrir fóður- og fiskeldisfyrirtæki hér á landi. SVN hefur þegar lagt í verulega fjárfestingu til að sinna þessu rannsókna- og þróunarstarfi og því sérlega jákvætt að Matvælasjóður hafi einnig trú á verkefninu. SVN og Fóðurverksmiðjan Laxá standa að verkefninu og nutu aðstoðar Matís við mótun verkefnisins og við gerð umsóknarinnar. SVN mun nýta sér þjónustu Matís við verkefnið, en starfsmenn Matís í Neskaupstað munu gegna þar lykilhlutverki. Matís óskar framsýnum eigendum, stjórnendum og starfsfólki SVN hjartanlega til hamingju með styrkinn.

Skógarkerfill – Illgresi eða vannýtt matarauðlind: Sýslið verkstöð ehf. á Hólmavík hlaut styrk til að kanna möguleika á að nýta skógarkerfil í matvæli. Sýslið verkstöð naut aðstoðar Matís við mótun verkefnisins og mun nýta sér aðstoð sérfræðinga Matís við framkvæmdina. Matís óskar Ástu Þórisdóttur, eiganda Sýslið verkstöð, innilega til hamingju með styrkinn.

Fullvinnsla laxafurða á Íslandi: Hvar liggja tækifæri flökunar og hliðarafurða: Freysteinn Nonni Mánason hlaut styrk til að framkvæma forkönnun á fýsileika aukinnar fullvinnslu laxafurða hjá Odda á Patreksfirði. Starfsmenn Matís og Háskóla Íslands munu gegna leiðbeinandi hlutverki í verkefninu. Matís óskar Freysteini til hamingju með styrkinn og þetta áhugaverða verkefni.

Ný þráavarnarefni og stöðuleiki makrílsmjöls: Síldarvinnslan í Neskaupstað (SVN), ásamt Skinney-Þinganes, Ísfélagi Vestmannaeyja og Matís hlutu styrk til að meta stöðugleika íslensks makrílsmjöls og skoða eiginleika og virkni mismunandi þráavarnarefna með það fyrir augum að finna hentugan arftaka fyrir ETQ, sem var nýlega bannað. Efnið ETQ hefur verið notað í íslenskum fiskmjölsiðnaði í mörg ár sökum þess hve áhrifaríkt það er í að sporna við þránun fitu í mjöli. Í kjölfar bannsins hafa fiskmjölsframleiðendur lent í vandamálum sem snúa að hitamyndun í makrílsmjöli sem má rekja beint til þránunar á fitu í mjölinu. Hitamyndun í mjöli getur dregið töluvert úr verðmæti mjölsins sökum skemmda sem verða á því en einnig er hætta á sjálfíkveikju í mjölinu. Hér er um gífurlega mikilvægt verkefni að ræða fyrir allan uppsjávargeirann og þjóðfélagið í heild. Sérfræðingar Matís eru spenntir að hefja störf við þetta mikilvæga verkefni. Vinna Matís í verkefninu verður að stórum hluta unnin í útibúi fyrirtækisins í Neskaupstað.

Mannkorn hafrar: Landbúnaðarháskólinn, í samstarfi við Matís, hlaut styrk til að efla nýjan geira íslenskrar kornræktar með því að bera kennsl á bestu hafrayrkin með tilliti til ræktunar og gæða. Lagður verður grunnur að því í verkefninu að hefja markvissar kynbætur á höfrum fyrir íslenskar aðstæður. Þessi tegund kornræktar verður kynnt bændum og ræktunarmörkin könnuð. Sérstaklega verður horft til norðurlands í því sambandi. Matís óskar Landbúnaðarháskólanum til hamingju með styrkinn og eru sérfræðingar fyrirtækisins spenntir að hefja vinnuna.

Hákarlsverkun: Matís og Bjarnarhöfn Stykkishólmi hlutu styrk til að afla nýrrar þekkingar á þeim flóknu breytingum sem eiga sér stað við kæsingu og þurrkun hákarls og gera hann að þessari sérstöku matvöru sem hann er, með það fyrir höndum að draga úr sveiflum í afurðagæðum, staðla framleiðsluna og stuðla að mögulegum útflutningi á þessari einstöku matvöru. Kæstur hákarl er vinsæll hjá ferðamönnum og oft talað um hann á netmiðlum sem þjóðarrétt Íslendinga. Áhugi er á að kaupa hákarl frá Íslandi en erfiðleikar eru í útflutningi vegna hefðbundinna framleiðsluhátta og hefur varan ekki útflutningsleyfi. Líkur eru á að þetta áhugaverða og tímabæra verkefni muni opna ný tækifæri til verðmætasköpunar á vannýttu hráefni. Matís óskar Bjarnarhöfn til hamingju með styrkinn og væntir árangursríks samstarfs á komandi ári.

Verðmæt efni úr hliðarstraumum þörungavinnslu: Matís, Háskóli Íslands, Thorverk, Þörungaklaustur, Ora og Síldarvinnslan í Neskaupstað hlutu styrk til að kanna möguleika á aukinni vinnslu til virðisaukningar á efnum úr þörungum, ásamt þróun á aðferðum til að draga þau út. Í framhaldi þess má ætla að miklir möguleikar til nýsköpunar verði til og, ef vel tekst, að samkeppnishæfni íslenskra framleiðenda verði efld, með nýtingu náttúrulegra aukaefna sem eru unnin á sjálfbæran hátt úr lífrænu hráefni. Matís óskar samstarfsaðilum til hamingju með styrkinn.

Greining á hringormum í flökum: Matís, Háskóli Íslands, Marel, Vísir hf. og SFS hlutu styrk til að meta möguleika og fýsileika á nýtingu mynd- og litrófsgreiningartækni (Multispectral Imaging, MSI) til þess að greina hringorma í flökum. Hér er um gífurlegt hagsmunamál að ræða fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið í heild, og eru sérfræðingar Matís stoltir og spenntir fyrir verkefninu, auk þess sem þeir eru þakklátir fyrir samstarfið með þessum öflugu samstarfsaðilum.

Streita laxfiska: Matís, Skaginn 3X og Arctic Fish hlutu styrk til að þróa og sannreyna nýja tegund af dælu til að dæla lifandi laxfiskum. Þessi dæla mun bæta meðhöndlun á lifandi fiski, valda minni streitu og draga úr kostnaði og gæðarýrnun hjá fiskeldisfyrirtækjum. Verkefnið verður að stórum hluta unnið á Vestfjörðum. Matís væntir mikils af þessu áhugaverða verkefni.

Virðiskeðja grænmetis: Matís, Háskóli Íslands og Samkaup hlutu styrk til að bæta gæði, geymsluþol og minnka sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis. Markmið verkefnisins er að efla grænmetisgeirann á Íslandi með nýrri þekkingu sem styður við uppbyggingu geirans og er þá átt við aukna framleiðslu, fleiri atvinnutækifæri og aukið framboð næringarríkra afurða. Sóknarfærin byggjast á stærri markaðshlutdeild innanlands og útflutningi. Hér er um mjög spennandi verkefni að ræða sem sérfræðingar Matís eru áhugasamir fyrir að hefja á nýju ári.

Markáætlun um samfélagslegar áskoranir

Matís, Atmonía ehf., Landbúnaðarháskólinn, Nýsköpunarmiðstöð, Landgræðslan og Landsvirkjun hlutu styrk til að bæta nýtingu innlendra auðlinda og aukaafurða með það að markmiði að framleiða sjálfbæran áburð fyrir íslenskan landbúnað og landgræðslu. Verkefnið mun standa yfir í tvö ár og mun væntanlega hafa mjög mikil fjárhagsleg og umhverfisvæn áhrif á íslenskt samfélag. Matís óskar samstarfsaðilum til hamingju með styrkinn.

H2020 – Rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun

Matís, ásamt fjölda samstarfsaðila víðsvegar að í Evrópu, hlutu 7,5 milljón Evra styrk í síðustu viku til að greina og þróa lífvirk efni úr náttúrulegum hráefnum. Verkefnisþáttur Matís mun byggja á niðurstöðum umfangsmikilla rannsókna á lífríki hafsins þar á meðal á einstökum örverusamfélögum sjávarhvera við strendur landsins. Verkefnið mun standa yfir í fjögur ár og er hluti Matís 600 þúsund Evrur, eða um 90 milljónir kr.

Eins og sjá má á þessum lista hér að ofan eru spennandi tímar fram undan. Á næstu mánuðum eru hinir ýmsu sjóðir, innlendir og alþjóðlegir, opnir fyrir umsóknum. Ef þú hefur áhuga á að auka verðmæti, nýtingu og sjálfbærni og skapa störf þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við Matís til að ræða möguleika á samstarfi. Matís er lykil samstarfsaðili í rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni á Íslandi. Við stundum rannsóknir og nýsköpun í ykkar þágu.

Tengiliður varðandi umsóknir er jonas@matis.is.

Þegar opinbera hlutafélagið Matís var stofnað árið 2007 var helmingur tekna fyrirtækisins tryggður í gegnum þjónustusamning við ríkið. Verðmæti samningsins í upphafi var um 700 milljónir kr. (1200 milljónir á gengi dagsins í dag). Það var hins vegar sameiginleg ákvörðun Matís og yfirvalda að draga úr vægi þessa samnings og að í staðinn skyldi fyrirtækið sækja í samkeppnissjóði, sem myndi tryggja enn frekar að verkefnin sem unnið er að séu þjóðhagslega mikilvæg, sem og mikilvæg fyrir matvælaframleiðendur í landinu. Nú er svo komið að árlegar tekjur Matís af þjónustusamningi við ríkið eru tæpar 400 milljónir, um 25% af veltu fyrirtækisins, sem ætlað er að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælaöryggis og styðja við rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi. Um 75% af tekjunum koma úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum, sem og frá beinni sölu á þjónustu og ráðgjöf.

IS