Fréttir

Afurðir íslenskra geita henta í matvæli

Um þessar mundir má finna fjölbreyttar umfjallanir og líflegar umræður um geitfjárrækt á ýmsum frétta- og samfélagsmiðlum. Kveikjan að þessu var umsögn með höfnun sem barst umsækjanda í Matvælasjóð en sá var eini umsækjandinn úr hópi geitfjárræktenda á Íslandi. Umsögnin hefur fengið töluverða athygli vegna þess að hún þykir bera merki um fordóma og fáfræði umsagnaraðila á stöðu geitfjárræktarinnar hér á landi í dag.  

Geitfjárræktarfélag Íslands hefur verið starfrækt í 30 ár en hlutverk félagsins er að stuðla að verndun og ræktun íslenska geitfjárstofnsins og leita leiða til að bæta nýtingu og auka verðmæti geitaafurða. Íslenski geitastofninn telst vera í útrýmingarhættu þar sem aðeins tæplega 1500 gripir eru til. Riða sem kom upp í Skagafirði síðasta haust tók sinn toll af stofninum auk þess sem sauðfjárveikivarnarlínur gilda einnig fyrir geitfé. Töluverð skyldleikaræktun hefur verið í stofninum en það hefur áhættu í för með sér fyrir framtíð stofnsins. Því er mikilvægt að fjölga í stofninum og ein lykil forsenda fyrir því er að þróa sem flestar geitfjárafurðir.Matís hefur unnið að allnokkrum verkefnum með félaginu en þau hafa öll haft það að markmiði að kanna, eða þróa gæði og nýtingarmöguleika geitfjárafurða og miðla upplýsingum um þetta efni til geitfjárbænda og almennings. Lykilniðurstaðan er að afurðir íslenskra geita henta ágætlega í fjölbreytt matvæli sem eru holl og hafa margvíslega sérstöðu. Hjá Matís voru teknir saman einblöðungar um þetta efni, t.d. einblöðungur um gæði geitfjárafurða í alls kyns matvæli. Einnig hafa verið gefnar út skýrslur um geitfjárafurðir, til dæmis um næringargildi geitfjárafurða og sérstöðu afurða íslenskra geita með áherslu á þá ótal möguleika sem eru á vöruþróun og framleiðslu.

Þegar fjallað er um geitfjárafurðir er um fjölmargar athyglisverðar afurðir að ræða. Mjólkurafurðir, kjötafurðir, stökur (gærur), skinn og garn eru meðal þeirra og hafa sumar afurðir náð vinsældum víða um heim. Sem dæmi má nefna að geitaostur þykir sérstakt ljúfmeti í mörgum löndum og hefur einnig rutt sér til rúms hérlendis, á Ítalíu er geitamjólkurís vinsæll og í Póllandi er sælgæti framleitt úr geitamjólk. Geiturnar sjálfar gefa svo fjölmörg tækifæri í ferðaþjónustu enda eru þær þekktar fyrir uppátækjasemi og sérstakt útlit. Tískuvörugeirinn getur að auki unnið úr afurðum geita, bæði fatnað og muni.

Ljóst er að afurðir íslenskra geita henta vel í matvæli sem og í ýmsa verðmætasköpun. Fullt tilefni er til að halda rannsókna-, hugmynda- og þróunarvinnu á fjölbreyttum afurðum áfram, bæði í náinni og fjarlægri framtíð.

Fréttir

Matreiðslubók fyrir kerfisbreytingar – Norrænar nýsköpunaraðferðir fyrir sjálfbær matvælakerfi

Á dögunum kom út heldur óhefðbundin matreiðslubók á vegum Norrænu Ráðherranefndarinnar sem Matís hafði aðkomu að. Í bókinni sem ber heitið Matreiðslubók fyrir kerfisbreytingar – Norrænar nýsköpunaraðferðir fyrir sjálfbær matvælakerfi er rætt um mikilvægar kerfisbreytingar sem þurfa að eiga sér stað til að greiða fyrir nýsköpun í matvælakerfum svo við getum tekist á við þær samfélagslegu áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir. 

Bókin inniheldur leiðbeiningar og nokkurs konar innihaldsefni eins og hefðbundin matreiðslubók, til dæmis sniðmát fyrir þróun inngripa, leiðbeiningar um hvernig má taka fyrstu skrefin og dæmisögur um þverfagleg verkefni. Þessi innihaldsefni má svo nýta til þess að útbúa sérsniðnar uppskriftir að breytingum og bætingum.

Matreiðslubókin er aðallega ætluð fyrir nýsköpunarstofnanir í hverju landi fyrir sig. Með inntaki hennar er eindregið hvatt til þess að teknar verði markvissar ákvarðanir í nýsköpunarumhverfinu um að efla matvælakerfi allra svæða sem hagnist fólki, samfélögum og jörðinni í heild. Bókin varpar einnig ljósi á það hvernig einstaklingar, frumkvöðlar og rannsakendur úr grasrótinni geta haft áhrif á kerfið í heild sinni. 

Bókina á finna á Pdf. formi hér: Cookbook for systems change – Nordic innovation strategies for sustainable food systems

Fréttir

Múlinn samvinnuhús – nýtt húsnæði Matís í Neskaupstað

Flutningar eru hafnir á starfsstöð Matís á Austurlandi. Þeir fjórir starfsmenn sem þar starfa eru um þessar mundir að flytja sig um set yfir í nýtt húsnæði sem hefur fengið nafnið Múlinn samvinnuhús en það var tekið í gagnið um áramót. 

Um er að ræða 900 fermetra húsnæði við Nesbakka í Neskaupsstað. Byggingin sem að hluta hýsti áður verslunarrými hefur fengið yfirhalningu og viðbyggingu sem rúmar fjölbreytta atvinnustarfsemi. Húsið skiptist í skrifstofuklasa sem fjölmörg fyrirtæki og stofnanir munu nýta sér auk þess sem sérhæfðar rannsóknarstofur og opin rými eru þarna undir sama þaki.

Matís kemur til með að nýta sér sérhæfða rannsóknarstofu fyrir örveru- og efnamælingar auk skrifstofurýmis.

Múlinn samvinnuhús er í eigu Samvinnufélags útgerðarmanna Neskaupstað eða SÚN og auk Matís eru nokkur þeirra fyrirtækja sem hafa tryggt sér aðstöðu í hús­inu Advania, Aust­ur­brú, Deloitte, Hafrannsóknastofnun, Nátt­úru­stofa Aust­ur­lands, Nox health, Origo, Rannsóknarstofa fyrir örveru- og efnamælingar, Stapi líf­eyr­is­sjóður og Trackwell.

Fréttir

Nýr sviðsstjóri lýðheilsu og matvælaöryggis

Í dag 11. febrúar er alþjóðlegur dagur kvenna í vísindum. Það er því vel við hæfi að varpa ljósi á eina öfluga vísindakonu og kynna í leiðinni til leiks nýjan sviðsstjóra lýðheilsu og matvælaöryggis hjá Matís., Dr. Ástu Heiðrúnu E. Pétursdóttur.

Ásta Heiðrún útskrifaðist sem efnafræðingur frá Háskóla Íslands árið 2008 og hóf þá mastersnám í samstarfi við Matís og Háskóla Íslands, en verkefnið fólst í því að rannsaka mismunandi efnaform arsens í fiskimjöli.

Ásta Heiðrún hóf doktorsnám við Háskólann við Aberdeen haustið 2010 og lauk námi snemma árs 2014. Ásta sýndi fljótt hæfileika á rannsóknasviði og við miðlun upplýsinga. Hún fékk ýmsa styrki til að sækja ráðstefnur og viðburði víða um heim. Rannsóknir Ástu á meðan doktorsnámi stóð urðu að samsafni 6 ritrýnda greina og bókakafla sem birtust á meðan námi stóð og 3 greina sem birtust í kjölfar doktorsritgerðar. Rannsóknir Ástu sneru fyrst og fremst að því að þróa aðferðir til greininga á mismunandi efnaformum arsens. 

Síðastliðin ár hefur Ásta t.d. leitt evrópskt rannsóknaverkefni sem snýr að því að skoða metanlosun kúa eftir þörungagjöf og sömuleiðis er hún í forsvari fyrir eflingu öryggis í starfsumhverfi Matís.

Ásta er öflugur vísindamaður og mjög framarlega á sviði efnagreininga en hennar vinna hefur ekki einungis haft akademísk áhrif heldur einnig á reglugerðir og framkvæmd þeirra, auk þess sem rannsóknaniðurstöðunum hefur verið miðlað til mjög breiðs hóps og þannig náð til vísindamanna, hagaðila og almennings. Rannsóknaáhugi Ástu er sífellt að færast yfir á svið loftslagsmála sem er ein stærsta áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Fréttir

Vísindatímaritið Icelandic Agricultural Sciences er komið út

33. árgangur tímaritsins Icelandic Agricultural Sciences fyrir árið 2020 kom út á dögunum og má finna í rafrænni útgáfu á ias.is. 

Tímaritið, sem áður hét Búvísindi, kemur út árlega hið minnsta og eru greinarnar sem þar birtast á ensku. Að þessu sinni birtust átta greinar um fjölbreytt efni sem allar snúa að lífvísindum auk ritstjórnargreinar þar sem mikilvægi þess að hafa vísindatímarit sem þetta opið og aðgengilegt fyrir almenning svo mögulegt sé að hagnýta upplýsingar sem safnast með rannsóknum. Greinarnar eru eftirfarandi:

  • Snýkjudýr í hænsnum á Íslandi fyrr og nú
  • Áhrif fituíblöndunar í fóður mjólkurkúa á nyt og efnainnihald mjólkur
  • Ræktunarskipulag sauðfjár á Íslandi með áherslu á mæðraeiginleika
  • Notkun fræslægju við uppgræðslu í mýrlendi. Samsætumælingar og áhrif jarðhitagass á mælda jarðvegsöndun á heitum svæðum á Suðurlandi
  • Tengsl bakteríusamfélaga við jarðvegseginleika á Qinghai-Tibet hásléttunni
  • Áhrif umhverfisþátta á árlegan vöxt (árhringjabreiddir) ilmbjarkar (Betula pubescens) og reyniviðar (Sorbus aucuparia) á Austurlandi
  • Áhrif mismunandi beitarþunga sauðfjár á ungan lerkiskóg

Icelandic Agricultural Sciences er eina tímaritið á sviði lífvísinda á Íslandi sem uppfyllir kröfur fyrir alþjóðleg ritrýnd vísindatímarit samkvæmt stöðlum ISI (e.Institute of Scientific Information). Aðalritstjóri er Björn Þorsteinsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands en að útgáfunni standa Landbúnaðarháskóli ÍslandsRannsóknastöð Skógræktarinnar á MógilsáHafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðsgjafastofnun hafs og vatnaTilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði aðKeldumMatís ohfLandgræðslan og Ráðgjafamiðstöð Landbúnaðarins

Fréttir

Hefur þú áhuga á að vinna spennandi meistaranámsverkefni í matvælafræði eða næringarfræði?

Auglýst er eftir nema í mastersverkefni

Matís leiðir nýtt verkefni um bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis, sem styrkt er af Matvælasjóði til eins árs.

Sóknarfæri eru í stærri markaðshlutdeild innanlands og útflutningi grænmetis. Hægt er að varðveita gæði grænmetisins sem er uppskorið hjá bændum betur með því að endurbæta alla virðiskeðjuna til neytenda, en til þess þarf samstillt átak. Tækifærin eru líka til staðar, sérstök ræktunarskilyrði á Íslandi og svalt loftslag bjóða upp á að viðhalda miklum gæðum uppskerunnar.

Við erum að leita að masternema í verkefnið, þar sem leggja á áherslu á rannsókn á geymsluþoli grænmetis. Verkefnið getur verið 60 eða 90 einingar.

Verkefnið verður bundið við eina eða fáar tegundir grænmetis og getur beinst að hermitilraunum til að spá fyrir um lengingu geymsluþols í þeim tilgangi að hámarka gæði og minnka sóun. Setja á fram tillögur um endurbætur á ferlum í virðiskeðju grænmetisins.

Verkefnið getur hafist núna strax í febrúar 2021. Umfang verkefnisins verður skilgreint í samræmi við einingafjölda (60 eða 90 eininga).

Í boði er styrkur að upphæð 1mkr sem er árangurstengdur.

Leiðbeinendur:

Ólafur Reykdal, Matís (olafurr@matis.is, símanr 4225098)

Dr Kolbrún Sveinsdóttir, Matís og HÍ (kolbrun@matis.is, símanr 4225079)

Prófessor Guðjón Þorkelsson, HÍ (gudjont@hi.is, símanr 4225040)

Frekari upplýsingar gefur:

Ólafur Reykdal

Netfang: olafurr@matis.is

Símanúmer: 4225098

Fréttir

Kynning á styrkjum og möguleikum sjóðakerfis og stuðningi þess við rannsóknir og nýsköpun í matvælaiðnaði

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Á fimmtudaginn, 4. febrúar, fer fram sérstök kynning í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi á styrkjum og möguleikum sjóðakerfis í tengslum við rannsóknir og nýsköpun í matvælaiðnaði.

Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís, heldur kynninguna, en Matís hefur unnið með fjölda fyrirtækja og stofnana að alls kyns nýsköpunarverkefnum og fjármögnun þeirra. Farið verður yfir fjármögnunartækifæri í sjóðum til matvælarþróunar og þá aðstoð sem fyrirtæki geta fengið í ferlinu.

Kynningin fer sem fyrr segir fram í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi, fimmtudaginn 4. febrúar klukkan 12:00. Áhugasamir eru beðnir um að senda staðfestingu á breid@breid.is.

Fréttir

Niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2020

Tengiliður

Sophie Jensen

Verkefnastjóri

sophie.jensen@matis.is

Nú liggja fyrir niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs fyrir árið 2020. Kerfisbundin vöktun hefur staðið yfir, með hléum, frá árinu 2003 og Matís ohf. Sér um gagnasöfnun og útgáfu á skýrslum vegna hennar. 

Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggis og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu. Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum. Þetta er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem útvíkkun og endurskoðun er stöðugt nauðsynleg. 

Niðurstöður ársins 2020 sýna að öll sýni af sjávarafurðum til manneldis voru vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Þá reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB efna vera lágur í ætum hluta sjávarfangs, miðað við hámarksgildi ESB samkvæmt reglugerð nr. 1259/2011. Sömuleiðis sýndu niðurstöðurnar að styrkur þungmálma, t.d. kadmíum (Cd), blý (Pb) og kvikasilfur (Hg) í íslenskum sjávarafurðum var alltaf undir hámarksgildum ESB. 

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2020

Fréttir

Matís og Hafrannsóknastofnun þróa nýjar aðferðir til loðnuleitar

eCAP – Loðnuleit með umhverfiserfðaefni (eDNA) er samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Matís sem miðar að þróun nýrra erfðafræðilegra aðferða til loðnuleitar. Undanfarin þrjú ár hefur gengið illa að finna loðnu í nægu magni svo unnt sé að gefa út veiðikvóta. Talið er að umhverfisbreytingar í hafinu við Ísland valdi því að loðnan virðist nú hafa aðra dreifingu og fæðufar en áður.

eCAP miðar að þróun erfðafræðilegra aðferða til loðnuleitar. Þessar aðferðir ganga út á að safna umhverfiserfðaefni úr sjósýnum sem tekin eru á mismunandi dýpi í loðnuleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Umhverfiserfðaefni eru DNA sameindir sem losna frá lífverum í hafinu t.d. frá slími, skinni eða úr saur og hægt er að sía úr sjósýninu. Eftir að búið er að einangra erfðaefnið eru notuð sérhæfð loðnu erfðamörk til þess að greina hvort og hversu mikið loðnu erfðaefni er í sýninu. Með þessu má ákvarða hvort loðna er eða hefur verið á leitarsvæði og auðvelda leitina. eCAP verkefnið leitast einnig við að gera þessar aðferðir einfaldar og fljótvirkar þannig að hægt sé að gera þetta um borð í veiðiskipum af áhöfn.

Fyrsta skrefið í eCAP var að finna erfðamörk sem eru algerlega sérhæfð fyrir loðnu. Guðbjörg Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Matís hefur þegar hannað þessi erfðamörk. Næsta stig verkefnisins er að nota erfðamörkin til þess að greina loðnu í sjósýnum sem tekin hafa verið í leiðöngrum Hafrannsóknarstofnunar og bera þær niðurstöður saman við bergmálsmælingar úr sömu leiðöngrum. Gert er ráð fyrir að aðferðin verði kominn í gagnið eftir um tvö ár og eru vísindamenn Hafrannsóknastofnunar og Matís og vonandi loðnusjómenn spenntir fyrir nýrri aðferð til loðnuleitar.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís til þriggja ára. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir verkefnastjóri eCAP, Dr. Christophe Pampoulie, erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun, christophe.s.pampoulie[hjá]hafogvatn.is.

Fréttir

Matarsmiðjan

Feel Iceland

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem hófu starfsemi sína í Matarsmiðjunni eru Hrönn Margrét Magnúsdóttir og Kristín Ýr Pétursdóttir hjá Feel Iceland

Þær Hrönn og Kristín standa að baki fyrirtækinu Feel Iceland en þær sameinuðu krafta sína árið 2013 þegar þær stofnuðu fyrirtækið utan um framleiðslu og markaðssetningu á hreinum og áhrifaríkum kollagen snyrtivörum og fæðubótarefnum. Hrönn fékk hugmyndina þegar hún leigði rými í frumkvöðlasetri Sjávarklasans og sá hvað miklir mögulegar fælust í því að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða en þær eru í sérflokki hvað varðar gæði og ferskleika. Þær höfðu áhuga á því að stuðla að betri nýtingu og búa til hágæða vörur sem myndu láta fólki líða betur og stuðluðu um leið að minni sóun.

Við fiskveiðar á Íslandi falla til ýmsar hliðarafurðir eins og fiskiroð sem er yfirleitt lítið nýtt þrátt fyrir að búa yfir ýmsum góðum eiginleikum. Feel Iceland kollagenið er unnið úr íslensku fiskiroði og unnið eftir kúnstarinnar reglum af einum besta kollagen framleiðanda heims sem staðsettur er í Kanada. Pökkun og vinnsla á efninu fer svo fram á Grenivík í Eyjafirði. Engum aukaefnum er bætt í vöruna en hún er þó unnin á þann hátt að ekkert fiskibragð situr eftir í henni. Kollagen er eitt helsta uppbyggingarprótein líkamans og hefur góð áhrif á húð, hár, neglur, bein og liði. Með aldrinum minnkar náttúrleg framleiðsla líkamans á kollageni og því hentar vel að taka það inn sem fæðubót.

Feel Iceland kollagenið er í duft formi þannig að með einföldum hætti má blanda því út í flest matvæli á borð við þeytinga, grauta, og alls kyns drykki en það hentar vel til daglegrar inntöku. Einnig eru hylki í boði fyrir þá sem það kjósa heldur, í bland við efni sem eru sérstaklega ætluð til þess að sporna við öldrun húðarinnar og minnka liðverki. Árið 2019 kom einnig á markað koffínbættur drykkur sem inniheldur kollagen frá Feel Iceland og kallast Collab. Hann er fáanlegur í ýmsum bragðtegundum í flestum verslunum og hefur notið mikilla vinsælda. Feel Iceland mun einnig bjóða upp á húðserum á næstu vikum sem inniheldur kollagen, ensím úr íslenskum þorski og hyaluronic sýru sem hefur gríðarlega góð áhrif á heilbrigði og ásýnd húðarinnar.

Nánari upplýsingar um Feel Iceland Collagen má meðal annars finna á vefsíðu fyrirtækisins.

IS