Fréttir

Hvað finnst íslenskum neytendum um saltfisk?

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Löng hefð er fyrir vinnslu saltfisks hér á landi en áður fyrr var öðru fremur notast við saltið til að lengja geymsluþol fiskins. Í dag telst saltfiskur sælkeravara sem nýtur mikilla vinsælda víða um heim, ekki síst í Suður-Evrópu, þar sem hefðir og gæði íslenska saltfisksins leika stórt hlutverk.

Matís aflaði nýverið upplýsinga um ímynd saltfiskafurða í hugum Íslendinga, almenna þekkingu á saltfiski og sögu hans, og upplifun á saltfiski. Könnunin var framkvæmd í maí 2019 og alls luku 505 manns könnuninni. 

Saltbragð ekki eitt af aðaleinkennum saltfisks

Saltfiskur sem hefur verið fullsaltaður, staðinn og útvatnaður hefur einkennandi verkunarlykt og verkunarbragð, sem hvort tveggja þykir minna til dæmis á smjör, popp, sveppi, blautan við eða harðfisk. Saltbragð ætti hins vegar ekki að vera eitt af aðaleinkennum saltfisks þó svo heitið „saltfiskur“ gefi annað til kynna, og oft valdið misskilningi, eins og niðurstöður úr könnun Matís gefa til kynna.

Saltfiskur ekki vinsæll hjá ungu kynslóðinni

Mikill munur var á svörum þátttakenda eftir aldri. Niðurstöðurnar sýna að neysla á bæði fiski og saltfiski fer minnkandi með lækkandi aldri. Einungis um 29% þátttakenda á aldrinum 18-29 ára borða saltfisk einu sinni á ári eða oftar en samsvarandi hlutfall fyrir elsta hópinn, 60-70 ára er um 94%. Helstu ástæður þess að þátttakendur borða ekki saltfisk er að þeim finnst hann ekki góður, of saltur, skortur á framboði og að það sé lítil hefð fyrir saltfiski en almennt er upplifun þeirra sem hafa keypt saltfisk á veitingastað, fiskbúð og matvöruverslun góð.


Niðurstöður úr þessari könnun sýna minnkandi þekkingu, áhuga og neyslu á saltfiski í yngri aldurshópum miðað við þá sem eldri eru. Líklegt er að ímynd saltfisks sem gæðavöru eigi undir högg að sækja. Til að ýta undir neyslu á saltfiski þarf að kynna hann betur og gera sýnilegri, ekki síst meðal yngri aldurshópa, hvort heldur sem er í mötuneytum, matvöruverslunum, fiskbúðum eða veitingastöðum.

Saltfiskvika 4. – 15. september 2019

Blásið verður til Saltfiskviku á veitingastöðum hringinn í kringum landið dagana 4. til 15. september. Markmiðið með Saltfiskvikunni er að gera þessari einni verðmætustu útflutningsafurð Íslands hærra undir höfði og auka veg hennar heima fyrir.

Alls taka 13 veitingastaðir þátt, allir með a.m.k. einn saltfiskrétt á matseðlinum. Gestakokkar frá Ítalíu, Spáni og Portúgal eru jafnframt væntanlegir sem munu elda á völdum stöðum.


Instagram leikur #saltfiskvika – Vinnur þú ferð til Barcelona?

Á meðan á vikunni stendur eru viðskiptavinir sem panta sér saltfiskrétt hjá þátttakendum Saltfiskvikunnar hvattir til að birta mynd á Instagram, merkta myllumerkinu #saltfiskvika. Einn heppinn þátttakandi verður dreginn út og mun sá fá ferð fyrir tvo til Barcelona.

Mötuneyti vinnustaða eru hvött til að bjóða upp á saltfisk í hádeginu meðan á Saltfiskvikunni stendur – enda á hann ekki síður við þá en á kvöldin. Þegar hafa þó nokkrir vinnustaðir ákveðið að vera með og bjóða upp á saltfisk í hádeginu í Saltfiskvikunni, þ.e.; Arion banki, ITS, Marel, Origo, Orkuveitan, Seðlabankinn, Síminn og VÍS. Börnin á leikskólanum Laufásborg munu einnig smakka saltfisk meðan á vikunni stendur en þar mun ítalskur landsliðskokkur elda. Saltfisk verður einnig að finna í völdum matarpökkum 1, 2 & ELDA í Saltfiskvikunni fyrir áhugasama.

Vonir eru bundnar við að landsmenn nýti tækifærið og gefi saltfiskinum séns – enda sælkeravara sem farið hefur allt of hljótt hérna heima.

Að Saltfiskvikunni standa; Matís, Íslandsstofa, Kokkalandsliðið og Félag íslenskra saltfiskframleiðenda.

Sjá nánar um könnuna hér og Saltfiskvikuna á www.saltfiskvika.is.

Fréttir

Matís tekur við safni ensíma og próteinframleiðslukerfa frá Háskólanum í Stuttgart

Tengiliður

Ólafur H. Friðjónsson

Fagstjóri

olafur@matis.is

Matís og Erfðatæknideild Háskólans í Stuttgart, Þýskalandi, hafa starfað saman um árabil í ýmsum Evrópuverkefnum, nú síðast í verkefninu „Virus-X“ þar sem erfðabreytileiki bakteríuveira í umhverfinu var rannsakaður og ný ensím fyrir erfðatækni þróuð.

Nýlega heimsótti Dr. Hildegard Watzlawick frá Háskólanum í Stuttgart Matís og færði Matís safn ensíma og erfðatækni verkfæra sem erfðatæknideildin hefur þróað og smíðað undanfarin ár. Í safninu felast mikil verðmæti og mikilvæg þekkingaryfirfærsla á sér stað sem nýtast mun Matís við rannsóknir og þróun í líftækni í náinni framtíð.

Fréttir

Fjallað um folaldakjötið

Tengiliður

Eva Margrét Jónudóttir

Verkefnastjóri

evamargret@matis.is

Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins er fjallað um skýrslu sem Matís gaf út um framleiðslu hestakjöts og niðurstöður á mælingum um næringarinnihald og eiginleika kjötsins.

Í umfjöllun Bændablaðsins var rætt við Evu Margréti Jónudóttir, sem er í hópi skýrsluhöfunda, en hún segir að rannsóknum um eiginleika hestakjöts sé mjög ábótavant um allan heim og að Ísland sé engin undantekning.

Í ályktunum skýrslunnar kemur sem fyrr segir fram að folaldakjöt sé hágæða kjötvara sem ætti að uppfylla allar helstu óskir neytenda hvað varðar gæði, hreinleika og næringargildi.

Umfjöllun Bændablaðsins má finna hér.

Auk þess var viðtal við Evu Margréti um folaldakjötið í útvarpsþættinum Samfélagið á Rás 1. Það má hlusta á viðtalið hér.Deila frétt:

Fréttir

Fjaðrir í fiskafóður

Nú er samstarfsverkefni Matís og Reykjagarðs lokið þar sem unnið var að samþættingu innan lífhagkerfisins þar sem mikil áhersla er lögð á þekkingaryfirfærslu milli geira. Verkefnið miðaði að aukinni verðmætasköpun með nýtingu á ónýttri aukaafurð sem hingað til hefur verið fargað þ.e. nýtingu kjúklingafjaðra í próteinríkt mjöl sem hægt væri að nýta í fóður hjá fiskeldisfyrirtækjum. Áður hefur verið greint frá verkefninu á vef Matís

Þegar nýta á fjaðrir í mjöl er mikilvægt að rjúfa próteinin sem fjaðrirnar innihalda til að gera þau meltanleg. Sú aðferð sem hefur rutt sér hvað mest til rúms og var reynd í þessu verkefni er vatnsrof með suðu undir þrýstingi, þurrkun og mölun. Fjaðurmjöl er hægt að nýta í fóður fyrir svín, loðdýr, gæludýr og fiska. Kosturinn við að nýta fjaðurmjöl í fóður fyrir fiskeldi er að rannsóknir hafa sýnt að hægt er að skipta allt að 30% af fiskimjöli út fyrir fjaðurmjöl án þess að það hafi áhrif á vöxt eldisfisks. Ekki þarf að greiða fyrir innflutning hráefnis og ekki þarf að veiða eða rækta frumhráefnið, því það er vannýtt hliðarafurð í vinnslu á kjúklingi.

Fjaðurmjöl hefur um 80% próteininnihald og amínósýrusamsetningin er lík amínósýrusamsetningu fiskimjöls en þó þarf að bæta mjölið lítillega með tilliti til ákveðinna amínósýra. Nýting á kjúklingafjöðrum í eldisfóður jákvæð umhverfisleg áhrif þar sem hráefnið hefur hingað til verið urðað með tilheyrandi sótspori og kostnaði en með nýtingu á fjöðrum í próteinríkt mjöl eru allar hliðarafurðir í kjúklingaframleiðslu nýttar, þannig má stuðla að því að ná markmiðum um minni urðun. Fóður sem unnið er úr fjaðurmjöli getur nýst til svína- og loðdýraræktunar og jafnframt má gefa gæludýrum slíkt fóður. Niðurstöður verkefnisins eru aðgengilegar í skýrslu Matís um verkefnið.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi styrktu vinnuna sem unnin var í verkefninu.

Fréttir

Fundað um áhrif laxeldis á Vestfirði

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Á morgun, fimmtudaginn 8. ágúst, verða haldnir fundir á Ísafirði og á Tálknafirði um áhrif laxeldis á Vestfirði. Fundurinn á Ísafirði verður haldin kl. 12:00 á fyrstu hæð í Vestrahúsinu en fundurinn á Tálknafirði verður haldin í Dunhaga kl. 20:00.

Það eru Matís og Vestfjarðastofa sem boða til fundarins en fyrirlesari verður Gunnar Davíðsson sem er deildarstjóri hjá Troms fylki í norður Noregi.

Á fundunum verður farið yfir áhrif fiskeldis á efnahag og íbúaþróun í Troms og velt upp hvaða áhrif eldi á Vestfjörðum getur haft í fjórðungnum. Er hægt að draga lærdóm af sögu laxeldis í Troms fylki til að meta áhrif þess á mannlíf og efnahag Vestfjarða í framtíðinni?

Nánari upplýsingar um fundinn má finna á vefsíðu Vestfjarðarstofu

Fréttir

Zara Larsson og Josh Harte, einkakokkur Ed Sheeran, heimsóttu Matís

Á mánudaginn fékk Matís í heimsókn merkilega gesti til að kynna sér íslenska frumkvöðlastarfsemi á sviði matvæla ásamt nokkrum verkefnum sem Matís vinnur að í tengslum við matarnýsköpun.

Eftir frábæra tónleika kom einkakokkur Ed Sheeran, Josh Harte, í heimsókn og einnig söngkonan Zara Larsson með fríðu föruneyti til að fræðast um öfluga nýsköpunarstarfið sem Matís hefur unnið að á síðustu árum og til að hitta hóp matarfrumkvöðla. Þau fengu að kynnast þrívíddarprentun matvæla sem er hluti af verkefninu FutureKitchen sem er styrkt af EIT Food, en einnig verkefni styrkt af AVS, Tækniþróunarsjóði og FutureFish, með það að markmiði að tengja neytendur betur við uppruna matvæla. Sérfræðingar Matís prentuðu fyrir þau ýmiskonar góðgæti úr íslenskum hráefnum í ólíkum formum. Þá voru þau send inn í heim sýndarveruleika og fengu að upplifa fiskveiðar og fiskvinnslu, auk þrívíddarprentunar á aukaafurðum fisks.

Josh Harte ásamt Herborgu Hjelm.

Josh og matarfrumkvöðlarnir áttu síðan langan síðdegisverð saman þar sem íslensk matarmenning var kynnt, ásamt þeim einstöku hráefnum sem landið hefur upp á að bjóða. Mikið var rætt um sjálfbærni og hvað Íslendingar hafa náð langt á því sviði, ásamt matarsóun en Josh er mjög umhugað um þau málefni. Borið var fyrir Josh gómsætt lambakjöt beint frá bónda frá Fjárhúsinu sem er með aðstöðu í Grandi Mathöll. Sviðakjammi frá samnefndum stað vakti mikla lukku og undran hjá bæði Zöru og Josh, sem fékk sér bita og var mjög hrifinn. Einnig var boðið upp á hægeldaða íslenska bleikju úr mötuneyti Matís sem féll vel í kramið hjá Josh. Frumkvöðlafyrirtækið Nordic Wasabi sem ræktar og selur alvöru wasabi, kynnti sínar vörur sem pöruðust vel með lambinu og öðrum afurðum sem boðið var uppá. Einnig kynnti Íslensk Hollusta fyrir Josh úrval af sínum náttúrulegu afurðum úr þangi og jurtaríki íslands. Allur maturinn rann svo vel niður með drykkjum frá frumkvöðlafyrirtækjunum Álfur og Himbrima. Álfur bruggar bjór úr kartöfluhýðum sem annars finna lítil sem engin not, og setur þannig sitt mark á að vinna gegn matarsóun. Himbrimi framleiðir gin og aðra sterka drykki sem hafa þá sérstöðu að vera framleiddir með náttúrulegu hráefni úr villtri náttúru Íslands. Sérfræðingar Matís kynntu einnig fyrir hópnum þróunarverkefni tengd íslenskum hráefnum og öflugri vinnu okkar um allt land við að styðja við íslenska matarframleiðslu og menningu, ásamt nýsköpun.

Heimsóknin gekk vel og vöktu íslensku matvælin mikla lukku. Josh segist hafa fallið fyrir landi og þjóð og getur ekki beðið eftir að koma hingað aftur. Hann heldur úti matarbloggi á vegum EIT Food sem Matís er stofnmeðlimur að. Hér má finna upplýsingar um Josh og hér er fyrsta bloggið hans á ferðum sínum með Ed Sheeran. Hann mun blogga um heimsóknina sína til Íslands og Matís á næstu dögum.

Fréttir

Faggreinaleiðbeiningar um hangikjöt og geita- og sauðamjaltir

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Nýjar faggreinaleiðbeiningar um hangikjöt annars vegar og geita- og sauðamjaltir hins vegar eru nú aðgengilegar hér vefsíðu Matís. Um er að ræða leiðbeiningar fyrir góða starfshætti og innra eftirlit fyrir smáframleiðendur.

Óli Þór Hilmarsson, hjá Matís, tók textann saman og teikningar eru eftir Sólveigu Evu Magnúsdóttir. Fagleiðbeiningarnar fyrir Geita- og sauðamjaltir voru unnar í samvinnu við Geitfjárræktarfélag Íslands, Landssamband sauðfjárbænda, samtökin Beint frá býli og Matvælastofnun. Fagleiðbeiningarnar fyrir hangikjöt voru unnar í samvinnu við Landssamtök sauðfjárbænda, Matvælastofnun og samtökin Beint frá býli.

Leiðbeiningarnar má nálgast hér:

Hangikjöt

Geita- og sauðamjaltir

Fréttir

Erfðagreiningar og öryggis- og forgangsþjónusta Matís í tengslum við faraldra og matvælasvindl

Tengiliður

Anna Kristín Daníelsdóttir

Aðstoðarforstjóri / Rannsókna- og nýsköpunarstjóri

annak@matis.is

Þegar matvælavá og/eða matvælasvindl kemur upp þá getur Matís notað erfðagreiningu til að greina uppruna sýkinga eða matvæla.

Mikilvægt er að tryggja að nýjasta þekking, færni og tækni sé til á Íslandi, að virk viðbragðsþjónusta sé við lýði og viðbrögð lögaðila séu hröð og rétt. Þá er mikilvægt að á sem skemmstum tíma sé hægt að greina tegundir sýkinga og uppruna þeirra til að koma í veg fyrir frekara smit og þannig lágmarka skaðann.

Matís fær sýni til að rekja til uppruna þegar búið er að staðfesta að um matarsýkingu eða matareitrun er að ræða í sjúklingum. Sýnin eru úr sjúklingum, matvælum og umhverfi og notar Matís m.a. erfðagreiningar til að sannreyna uppruna sýkinga og eitrana.

Erfðagreiningar eru líka eitt af verkfærunum sem nýtast í baráttunni gegn matvælasvindli og  hægt er að greina bæði til tegunda og uppruna.

Ferlið þegar hópsýking kemur upp byggir á samstarfi margra innlendra eftirlitsaðila og rannsóknastofa: Sóttvarnalæknir, Matvælastofnun, Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga, Landspítalinn og Matís.

Alþjóðlegt samstarf er mikilvægt, bæði til að byggja upp leiðandi tækni og vísindi og til að tryggja rétt viðbrögð við faraldri.

Sjá nánar viðtöl við sérfræðinga Matís, þær Hrönn Ólínu Jörundsdóttur og Önnu Kristínu Daníelsdóttur, í Tíufréttum RÚV (fréttin hefst á 6:40 mín) og morgunútvarp RÚV Rás.

Fréttir

Samúðarkveðja

Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, varð bráðkvaddur aðfaranótt 15. júlí síðastliðinn.

Starfsfólk Matís ohf. minnist öflugs vísindamanns og frumkvöðuls og sendir innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og samstarfsmanna.

Fyrir hönd starfsmanna Matís,

Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís

Fréttir

Örverudeild Matís biðlar til viðskiptavina sinna að takmarka sýnatöku þessa vikuna

Tengiliður

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

Örverudeild Matís ohf biðlar til viðskiptavina sinna að takmarka sýnatöku þessa vikuna vegna mikils álags á deildinni vegna rannsókna á upptökum hópsýkingar af völdum Shiga-toxin myndandi E.coli (STEC) sbr. fréttatilkynningu landlæknis. Tekið er að sjálfsögðu á móti öllum forgangssýnum og nauðsynlegum sýnum til að viðhalda eðlilegri vinnslu og virkni fyrirtækja.

Frá árinu 2015 hefur rannsóknastofa Matís verið tilvísunarrannsóknastofa fyrir STEC og hefur unnið að uppbyggingu á sérfræðiþekkingu og mæligetu hérlendis. Í gegnum netverk tilvísunarrannsóknarstofa Evrópu tekur Matís þátt í alþjóðlegu samstarfi við að þróa aðferðir, meta útbreiðslu og efla þekkingu á STEC í matvælum, umhverfi og sjúklingum. Matís býður upp á greiningar á STEC, bæði grunngreiningar ásamt heilraðgreiningu jákvæðra sýna til að rekja uppruna sýkingar. 

IS