Fréttir

Þurrkun og reyking eru hagkvæmar varðveisluaðferðir

Cyprian Ogombe Odoli mun verja doktorsritgerð sína í matvælafræði fimmtudaginn 22. október næstkomandi. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.14:00.

Ritgerðin ber heitið: Drying and smoking of capelin (mallotus villosus) and sardine (sardinella gibbosa) – the influence on physicochemical properties and consumer acceptance.

 Andmælendur eru dr. Morten Sivertsvik, prófessor og sviðsstjóri hjá Nofima, Noregi, og dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

Leiðbeinandi í verkefninu var Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd þau Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís og prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, dr. Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri hjá Matís.

Dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

Ágrip

Þurrkun og reyking eru hagkvæmar varðveisluaðferðir sem almennt eru notaðar í þróunarlöndum, þar sem vanþróaðir flutningaferlar takmarka markaðssetningu á ferskum fiski. Í Austur-Afríku er þurrkaður og reyktur fiskur mikilvæg uppspretta próteina í mataræði íbúa. Smáfiskur, aðallega sardínur, er venjulega settur í saltpækil og forsoðinn til að stöðva ensímvirkni og örveruvöxt áður en hann er þurrkaður utandyra. Þurrkaði fiskurinn er oft lélegur að gæðum og takmarkast sala hans við tekjulægri hópa er versla á útimörkuðum. Á sama tíma er aukin eftirspurn meðal neytenda millistéttar eftir þurrkuðum og reyktum smáfiski í stórmörkuðum sem uppfyllir gæðakröfur þeirra. Þessari eftirspurn mætti mæta með innflutningi eða bættum vinnsluaðferðum. Markmið þessarar rannsóknar var að bæta gæði og öryggi í vinnslu smáfisks og kanna viðbrögð neytenda við nýrri afurð eins og þurrkaðri loðnu veiddri við Ísland, sem er ekki þekkt á mörkuðum í Austur-Afríku. Áhrif forsuðu, þurrkunar og reykingar á gæði afurða voru metin, ásamt áhrifum pökkunaraðferða á niðurbrot fitu. Einnig voru kannaðir skynmatseiginleikar og magn örvera í þurrkuðum og reyktum afurðum. Að síðustu var hugað að markmiðssetningu á hollari þurrkaðri sardínu og innfluttri þurrkaðri loðnu.                                                                                       

Hefðbundin þurrkun og forsuða fyrir þurrkun á sardínum og loðnu leiddi til minni afurðagæða, lakara skynmats og minni próteingæða. Magn fitu í loðnu er árstíðabundið og þegar loðna með fituinnihald 9-10% í stað 7-7,5% var þurrkuð, tók þurrkunin lengri tíma og rakainnihald í lokaafurð jókst. Jafnframt dró fitan úr afmyndun próteina í vinnsluferlinu. Við stýrðar þurrkaðstæður jukust gæði afurða, en það bendir til að nauðsynlegt sé að þróa þurrkara fyrir vinnslu á smáfiski. Í þurrkaðri og reyktri loðnu og sardínum greindist hátt hlutfall lífsnauðsynlegra fjölómettaðra fitusýra eins og eicosapentaenoic-sýru (EPA) og docosahexaenoic-sýru (DHA), nákvæmlega 13% í loðnu og 20% í sardínum. Í heitreyktri loðnu og sardínum var hærra fituinnihald, minna rakainnihald og aukinn stöðugleiki gegn örverum, miðað við kaldreykta afurð, en heitreyking minnkaði nýtingu. Fituinnihald hafði áhrif á vatnsrof próteina, oxun fitu og bætti skynmatseiginleika við geymslu á reyktri og þurrkaðri loðnu. Niðurbrot fitu var mest í loðnu með lágu fituinnihaldi á meðan þránun var mest í loðnu með háu fituinnihaldi. Pökkun á reyktri og þurrkaðri feitri loðnu í loftfirrtar umbúðir leiddi til minni þránunar fitu og færri örvera. Pökkun hafði ekki áhrif á niðurbrot fitu.

Heitreyktur fiskur í loftfirrtum umbúðum hélt upphaflegum eiginleikum sínum eftir fjögurra vikna geymslu. Þurrkuð loðna með rakainnihaldi undir 25% og vatnsvirkni undir 0,7 geymist óskemmd við stofuhita í fimm mánuði í loftfirrtum umbúðum. Bætt vinnsluferli við þurrkun á sardínum og loðnu skilaði góðum árangri og afurðinni var vel tekið hjá  neytendum hefðbundins þurrkaðs smáfisks í Kenía. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna fram á að þurrkaður og reyktur smáfiskur getur verið mjög næringarrík fæða og ef verklag við vinnslu og pökkun er rétt, gæti neysla þessara afurða dregið verulega úr vannæringu sem er ríkjandi í þróunarlöndum.

Doktorsvörn_auglýsing_Cyprian-Odoli

Um doktorsefnið

Cyprian Ogombe Odoli er fæddur í Kenýa árið 1974. Árið 2006 lauk hann námi frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og í framhaldi af því hefur skólinn styrkt hann til meistara- og doktorsnáms.  Cyprian lauk MS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og innritaðist í doktorsnám við sömu deild þremur árum síðar, árið 2012. Hann er kvæntur Hellen Namugeere og eiga þau tvö börn.

Doktorsnemi: Cyprian Ogombe Odoli – coo1@hi.is  cogombe@yahoo.com (gsm: 8627565).

Nánari upplýsingar veita Cyprian Ogombe Odoli og Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

Fréttir

Matvæladagur MNÍ 2015 haldinn fimmtudaginn 15. október

Titill ráðstefnunnar í ár: Hvaða efni eru í matnum ?  Vitum við það ? Brýn þörf á gagnagrunnum & viðhaldi þeirra.

Dagurinn var að þessu sinni helgaður umfjöllun um sértæka gagnagrunna sem halda utan um næringargildi og efnainnihald matvæla, bæði íslenskra og innfluttra. Mikilvægi þessa gagnagrunna er ótvírætt en án þeirra er ekki hægt að reikna út næringargildi máltíða, matseðla og framleiðsluvara, né að meta mengunarefni í fæðunni.

Nánar á heimasíðu Matvæla- og næringafræðafélags Íslands.

Fréttir

European Sensory Network

Matís skipuleggur fund European Sensory Network (ESN), sem eru samtök sérfræðinga á sviði skynmats og neytendarannsókna, 8. og 9. október nk. á Grand Hótel Reykjavik. Á fundinum, sem er lokaður og hefur fyrirtækjum í matvælaframleiðslu verið boðið til fundarins, verður lögð áhersla á framvindu og niðurstöður nýjustu rannsókna sem samtökin hafa komið að. 

European Sensory Network (ESN) er alþjóðlegt samstarfsnet rannsóknastofnanna og fyrirtækja sem eru leiðandi á sviði skynmats og neytendarannsókna. ESN var stofnað 1989 til að koma til móts við hraða þróun á sviði skynmats í Evrópu. Í dag eru 26 rannsóknastofnanir og fyrirtæki aðilar að ESN og fjögur utan Evrópu. ESN er í fararbroddi í rannsóknum á sviði skynmats og neytenda og heldur alþjóðlegar ráðstefnur og miðlar nýrri aðferðafræði. ESN veitir ráðgjöf er varðar skynmat, markaðsrannsóknir, framkvæmd skynmats og neytendarannsókna, uppsetningu verkefna, úrvinnslu og túlkun, sem og spurningar er varða hegðun og upplifun neytenda.

Nánari upplýsingar um ESN má finna á heimasíðu samstarfsnetsins.

Fréttir

Inngangur að fisktækni – beint úr prentun!

Matís og Fisktækniskólinn í Grindavík hafa unnið saman að gerð þessa efnis sem nú birtist og hefur fengið heitið „Inngangur að fisktækni“ en þar er að finna fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu sjávarafurða.

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkti þessa útgáfu í samvinnu við Matís og Fisktækniskólann. Efnið er fyrst og fremst hugsað fyrir nemendur í fisktækni, en ætti auk þess að henta öllum þeim sem vilja fræðast um hvernig eigi að standa að framleiðslu sjávarfangs. Það er gríðarlega mikilvægt að efla aðgang að fræðslu um vinnslu matvæla, auknar kröfur á mörkuðum krefjast aukinnar þekkingar og vandvirkni á öllum stigum virðiskeðju sjávarfangs. Það skiptir máli að allir þeir sem koma að öflun og vinnslu hráefnis viti hvernig á að standa að verki til að framleiða örugg hágæða matvæli fyrir okkar verðmætustu markaði.

Rit þetta er aðgengilegt á heimasíðum Matís og Fisktækniskólans. www.matis.is og www.fiskt.is

Fréttir

Er arsen til vandræða?

Undanfarna daga og vikur hefur verið nokkuð hávær umræða um arsen (e. arsenic) og mögulega skaðsemi efnisins. Sitt sýnist hverjum um þetta efni sem finnst í sumum matvælum og í mismiklu magni. Livsmedelsverket (systurstofnun Matvælastofnunar) þykir ástæða til að neytendur takmarki neyslu á hrísgrjónum og afurðum úr hrísgrjónum og gáfu út ráðleggingar í þá veru í síðustu viku.

Matvælastofnun hefur niðurstöður Livsmedelsverket nú til skoðunar skv. frétt á vef stofnunarinnarwww.mast.is .

En hvað er arsen? Veistu eitthvað um þetta efni? Ef ekki, viltu vita meira? Kíktu á þetta upplýsingamyndband um arsen (á ensku).

Arsen – úlfur í sauðagæru?

Fréttir

28 ára fangelsi fyrir salmonellusmit – matvælaöryggi er undirstaða allrar matvælaframleiðslu

Fyrir nokkrum dögum bárust okkur fréttir af því að forsvarsmenn hnetuframleiðanda hefðu verið dæmdir í 20 og 28 ára fangelsi fyrir hlutdeild sína í útbreiðslu salmonellu mengaðra matvæla. Ekki er ætlunin með þessari frétt að leggja nokkurn mat á þær fréttir en áhugavert er að velta fyrir sér mikilvægi öruggra matvæla þegar slíkar fréttir berast.

Í flestum matvælaframleiðslufyrirtækjum er ljóst að framleiðsla og sala matvæla getur ekki átt sér stað án þess að matvælin séu heilnæm og örugg til neyslu. Örugg matvæli eru forsenda viðskipta með mat og aukinheldur byggir öll nýsköpun í matvælaiðnaði á því að framleidd séu matvæli sem séu örugg til neyslu. Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í matvælaframleiðslu er mikilvægt að tryggja að öll aðstaða sé í samræmi við lög og reglur og að öll meðhöndlun matvæla, hvort sem er við hráefnaöflun, framleiðslu, pökkun, dreifingu, sölu eða hvar sem er í virðiskeðju matvæla, sé með þeim hætti að ekki skapist vá fyrir neytendur við neyslu matvæla.

Örugg matvæli

Sjúkdómsvaldandi örverur geta borist í matvæli á ýmsan hátt. Þess vegna er nauðsynlegt að tileinka sér góða starfshætti við framleiðslu og meðhöndlun matvæla. Með góðum starfsháttum og innra eftirliti matvælafyrirtækja, fræðslu, rannsóknum og opinberu eftirliti hefur tekist að halda sjúkdómstilfellum vegna matarsýkinga og matareitrana í lágmarki hér á landi.

Á síðustu árum hefur framleiðsla aukist á matvælum sem hafa verið þróuð og framleidd í litlu magni frá býli eða úr héraði. Með auknum umsvifum í framleiðslu fjölbreyttra matvæla er þörf á að vekja athygli á þeim vágestum eða sjúkdómsvaldandi örverum sem geta borist með matvælum.

Með aukinni þekkingu á eiginleikum og smitleiðum þeirra ættu neytendur, matvælaframleiðendur og aðrir áhugamenn um matvælavinnslu að geta tryggt öryggi þeirra matvæla sem þeir meðhöndla. Framleiðendur matvæla bera ábyrgð á öryggi þeirra afurða sem þeir framleiða.

Alþjóðleg samvinna Matís við BfR

Hjá Matís er unnið að að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem einkum er lögð áhersla á heilnæmi og öryggi matvæla. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti eru að þjónusta matvælaiðnaðinn. Markvisst er einnig unnið með erlendum rannsóknastofnunum og fyrirtækjum í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni. Sem dæmi um þetta er afar farsælt samstarf við BfR (Federal Institute for Risk Assessment) en frá árinu 2012 hefur Matís átt í miklum samskiptum við þessa stóru og öflugu stofnun .

Helstu rannsóknaverkefni eru á sviði örveru- og efnarannsókna á matvælum, fóðri og umhverfi. Örverurannsóknir taka til flestra mikilvægustu sýkla sem fundist geta í matvælum. Meðal verkefna eru aðferðaþróun og prófun aðferða, rannsóknir á afkomu örvera í matvælum og umhverfi, vöktun örvera og áhrif hreinlætisaðgerða á örverur. Efnarannsóknir eru m.a. á aðskotaefnum og varnarefnum í matvælum. Þar undir heyra t.d. rannsóknir á snefilefnum í sjávarafurðum og ýmsum varnarefnum í grænmeti og ávöxtum.

Frétt um þetta má finna á vefsvæði Kjarnans.

Fréttir

Humarpaté framlag Íslands í Evrópukeppni

Sextán Evrópulönd keppa um titilinn nýstárlegasta matvara Evrópu 2015 dagana 5. og 6. október á alþjóðlegu matvælasýningunni í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.

Hvernig verða matvæli framtíðarinnar? Hverjir verða helstu straumar og stefnur í neyslu matvæla í Evrópu?

Í október verður þessum spurningum svarað með nýsköpun 85 háskólanemenda í Ecotrophelia Europe keppninni í Mílanó. Keppendur frá Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Íslandi, Ítalíu, Króatíu, Rúmeníu, Serbíu, Slóveníu, Spáni, Ungverjalandi og Þýskalandi munu kynna aðlaðandi, bragðgóðar og nýstárlegar vörur fyrir dómnefnd sem skipuð er fulltrúum sömu landa. Formaður dómnefndar er Michel COOMANS, fyrrum forseti matvælasviðs iðnaðarráðuneytis Evrópusambandsins. Heildarverðmæti verðlauna er 15.000 evrur. 

Fyrir Íslands hönd keppir varan Humarpaté eða Paté de Langoustine þróað af 7 nemendum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands með stuðningi frá Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtökum iðnaðarins. 

Nám í nýsköpun matvæla eykur samkeppnishæfni fyrirtækja

Frá árinu 2011 hefur framtakið ECOTROPHELIA staðið fyrir 75 keppnum og virkjað 550 háskóla og yfir 3000 nemendur til þátttöku. Fjörutíu vörutegundir, hannaðar innan ramma Evrópukeppninnar, hafa verið þróaðar og settar á markað.  ECOTROPHELIA Europe er námsmódel fyrir háskóla og nemendur, viðurkennt af iðnaðarráðuneyti Evrópusambandsins. Keppnin tengir saman hæfileika, færni og nýsköpun. Hún er einnig vettvangur fyrir fólk í kennslu, rannsóknum, framleiðslu og viðskiptum til að eiga árangursrík samskipti.

ECOTROPHELIA Europe er skipulögð af viðskiptaráði Vaucluse héraðs í Frakklandi með stuðningi samtaka matvælaiðnaðar í Frakklandi og annars staðar í Evrópu, þar á meðal Samtaka iðnaðarins á Íslandi. Aðrir stuðningsaðilar eru ýmsir opinberir aðilar í Frakklandi og stórfyrirtækin NESTLÉ World og Campden BRI í Bretlandi.

VERÐLAUN Í ECOTROPHELIA EUROPE KEPPNINNI verða afhent þriðjudaginn 6. október á sýningarsvæði alþjóðlegu matvælasýningarinnar í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.


Frétt þessi birtist fyrst á vef Samtaka Iðnaðarins, www.si.is, þar sem fá má nánari upplýsingar.

Fréttir

Opni háskólinn í HR og Matís í samstarf um Iceland School of Fisheries

Skrifað undir samstarfssamning um nám fyrir erlenda stjórnendur í alþjóðlegum sjávarútvegi í HR

Opni háskólinn í HR og Matís, í samvinnu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og aðrar háskóla- og rannsóknastofnanir á Íslandi, hefur sett á fót yfirgripsmikið nám fyrir erlenda stjórnendur og sérfræðinga í sjávarútvegi. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís skrifuðu undir samstarfssamning um stofnun Iceland School of Fisheries í HR í gær.

Matis_undirskrift_HR_web
Sandra Kr. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri ISF hjá Opna háskólanum í HR, Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR, Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Páll Jensson, prófessor við tækni- og verkfræðideild HR, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Páll Gunnar Pálsson, verkefnastjóri hjá Matís og Kristján Vigfússon, forstöðumaður MBA náms í HR.

Íslenskur sjávarútvegur er þekktur fyrir hágæðaafurðir og ábyrgar fiskveiðar. Í Iceland School of Fisheries er markmiðið að miðla dýrmætri þekkingu íslenskra sérfræðinga á þessu sviði. Í náminu verður m.a. fjallað um stjórnun í sjávarútvegi, vinnslu sjávarafurða, markaðssetningu og nýjustu þróun í tækni og nýsköpun í fiskiðnaði. Ennfremur verður fjallað um fiskveiðistjórnun, regluverk, rannsóknir og eftirlit í sjávarútvegi.

„Í Háskólanum í Reykjavík höfum við mikla reynslu af uppbyggingu alþjóðlegs náms á sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérþekkingu. Í uppbyggingu á slíku námi skiptir samstarf við leiðandi íslensk fyrirtæki og stofnanir mjög miklu máli og við erum þess vegna mjög ánægð með þennan samning við Matís,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR. „Við höfum þegar fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá og við vonumst líka til þess að íslensk fyrirtæki sjái sér hag í því að bjóða erlendum viðskiptavinum og samstarfsaðilum á námskeið Iceland School of Fisheries til að sækja sér sérfræðiþekkingu um öflugan og sjálfbæran sjávarútveg.“

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, leggur áherslu á að samstarfsvettvangur Matís og Háskólans í Reykjavík falli mjög vel að starfsemi Matís enda sé eitt markmiða Matís að koma að menntun aðila innan sjávarútvegsins hvort heldur sem er á Íslandi eða erlendis. Undanfarin ár hefur Matís tekið stór skref í auknu erlendu samstarf og því sé það mikið tilhlökkunarefni að taka þátt í með HR að byggja upp alþjóðlegt, öflugt stjórnendanám, fyrir aðila í sjávarútvegi. „Með þessu eflum við þekkingu þeirra sem fara höndum um hið mikilvæga hráefni sem fiskurinn er og tryggjum þannig aukin gæði sem skila sér í hærra verði til þeirra þjóða sem veiðarnar stunda,“ segir Sveinn. 

Í Iceland School of Fisheries verða í haust kennd þrjú vikulöng námskeið og koma leiðbeinendur úr íslensku atvinnulífi og akademíu. Meðal fyrirlesara má nefna Svein Margeirsson, forstjóra Matís; Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra  Sjávarklasans; Guðbjörgu H Guðmundsdóttur, verkefnastjóra nýsköpunar hjá Marel; Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóra Granda; Daða Má Kristófersson, forseta félagsvísindasviðs HÍ og Bjarna Má Magnússon, lektor við Lagadeild HR. Einnig verður farið í heimsóknir til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og stofnana sem starfa á sviði sjávarútvegs.

Nánari upplýsingar veita:

  • Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá HR  í síma 859 5117, netfang eirikursig@hr.is
  • Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís í síma 858 5111, netfang steinar@matis.is

Fréttir

Ert þú með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar?

Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar. Verðlaunafé upp á kr. 500 þúsund er í boði.

Ef þú ert hugmyndsmiður, hugsar út fyrir boxið, endilega sendu þá inn framúrstefnuhugmynd. Einstaklingar og/eða fyrirtæki geta sent inn hugmyndir eða tilnefnt aðra.
Gott tækifæri til að koma á framfæri góðum hugmyndum og eftirtalin verðlaun eru veitt:

  • Veitt verður verðlaunafé að upphæð kr. 500 þús.
  • Þrjár bestu hugmyndirnar fá kynningu og sérstaka viðurkenningu á Sjávarútvegsráðstefnunni.
  • Þjár bestu hugmyndirnar fá sýningarbás á ráðstefnunni til að kynna sínar hugmyndir.
  • Fleiri hugmyndirnar fá síðan sérstaka kynningu í veglegu ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar.
  • 10 bestu hugmyndasmiðirnir fá frítt fyrir einn á ráðstefnuna.

Á Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 verða fimm erindi þar sem kynntar verða eldri framúrstefnuhugmyndir og m.a. sagt frá því hve langt þær eru komnar í þróunni.

Frestur til að skila inn umsóknum er 1. október nk.
 
Nánar upplýsingar á vef ráðstefnunnar undir liðnum VERÐLAUN

Fréttir

World Seafood Congress verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017

World Seafood Congress (WSC) 2015 er rétt að ljúka en ráðstefnan er haldin að þessu sinni í Grimsby á Englandi. Í lok hverrar ráðstefnu er tilkynnt hverjir halda þá næstu og tilkynnt var rétt í þessu að WSC 2017 verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017.

Mikill heiður fylgir því að fá að halda WSC en ráðstefnan er mjög stór og dregur að borðinu fólk úr öllum hornum sjávarútvegs og fiskveiða, frá villtum veiðum til fiskeldis og allt þar á milli. Á ráðstefnuna koma aðilar frá útgerðum, fiskvinnslum, innflutningsaðilum, útflutningsaðilum, fólki úr menntastofnunum, fyrirtækjum og ríkisreknum stofnunum úti um allan heim.

WSC_2017

Meginþema

Meginþema ráðstefnunnar 2017 er vöxtur í bláa lífhagkerfinu en bláa lífhagkerfið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi.

Áhersluatriði:

  • Nýsköpun í sjávarútvegi – nýjar vörur og möguleikar til fjárfestinga
  • Matvælaöryggi – forsenda nýsköpunar í matvælaframleiðslu og alþjóðlegrar verslunar með mat
  • Matar heilindi – baráttan gegn svikum í matvælaframleiðslu og –sölu á tímum netverslunar, matartengdar ferðaþjónustu og ósk neytenda um rekjanleika í matvælaframleiðslu

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir (858-5113) eða Steinar B. Aðalbjörnsson (858-5111).

Heimasíða ráðstefnunnar: www.wsc2017.com
Twitter: @WSC_2017
Facebook: World Seafood Congress

IS