Fréttir

Hægt er að auka verðmæti karfaflaka með bættum vinnsluaðferðum

Reynsla síðasta ártugar sýnir að þekking er eitt verðmætasta verkfærið sem íslenskur sjávarútvegur hefur til umráða til að auka nýtingu og verðmæti sjávarafurða. Farsælt samstarf rannsóknaraðila og sjávarútvegsfyrirtækja hefur skilað sér í umtalsverði verðmætaaukningu og bættum gæðum íslensks sjávarfangs.

Sérfræðingar Matís hafa í nánu samstarfi við fyrirtæki unnið að því efla þekkingu á íslensku sjávarfangi með það að leiðarljósi að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi. HB Grandi er eitt þeirra fjölda fyrirtækja sem Matís hefur átt farsælt samstarf með. Reynsla og þekking í nýtingu auðlindar og framleiðslu sjávarafurða endurspeglast í starfi HB Granda þar sem lögð er rík áhersla á háþróaða tækni við veiðar og vinnslu og stöðuga framþróun framleiðslunnar. „Kæling karfa í vinnslu og flutningi“ er eitt af þeim rannsóknarverkefnum sem Matís og HB Grandi hafa unnið að. Markmið þessa verkefnis var að setja fram endurbætur á verklagi og meðhöndlun í vinnslu- og flutningsferlum karfa til að tryggja framleiðslu öruggrar hágæðavöru.

Rannsóknir á karfa hafa hingað til verið að skornum skammti hvað varðar vinnslueiginleika, gæði og nýtingu. Ekki er hægt að yfirfæra fengna vitneskju um vinnslumöguleika t.d. þorsks beint yfir á karfann vegna mismunar í efnasamsetningu vöðva, stærðar fisks, lifnaðarhátta og fleiri þátta. Vegna þessa mismunar er mikilvægt að greina og bæta veikustu hlekkina í virðiskeðju karfans á leið sinni frá veiðum gegnum vinnslu og til neytanda.

Útflutningur á ferskum karfaflökum hefur nær eingöngu farið fram með flugi þar sem ekki hefur tekist að tryggja  nægilega langt geymsluþol til að nýta aðrar flutningaleiðir eins og skipaflutning. Lengra geymsluþol má m.a. öðlast með bættri meðhöndlun um borð, bættri kælingu um borð og við vinnslu, ofurkælingu við geymslu og notkun á loftskiptum pakkningum. Með auknum rannsóknum á geymsluþoli og meðhöndlun við framleiðslu ferskra karfaflaka, sem gefur hvað hæst verð á mörkuðum, má auka það magn sem flutt er út af ferskum flökum og þannig auka verðmæti karfaframleiðslu. Rannsóknir sýna að lengja megi geymsluþol á ferskum fiski með loftskiptum geymsluaðstæðum og góðri hitastýringu við geymslu og flutning ferskra fiskafurða.

Í samstarfsverkefni Matís og HB Granda var þessi leið til lengingar á geymsluþoli ferskra karfaafurða einstaklega áhugaverð. Í því ljósi voru rannsakaðar margar útfærslur á geymsluaðstæðum í samhengi við aðra áhrifaþætti við vinnslu á karfa. Auk mikilvægi stöðugrar kælingar þá gáfu niðurstöðurnar til kynna að hægt er að ná allt að 3 daga lengra geymsluþoli með loftskiptum umbúðum. Með 2-3 daga aukningu á geymsluþoli eykst afurðaverðið beint, þar sem erlendir kaupendur geta þá haft vöruna í lengur í sölu og eru þar af leiðandi tilbúnir að greiða hærra afurðaverð.

Þetta verkefni hefur gefið okkur aukna þekkingu á vinnsluáhrifum og annarrar meðhöndlunar karfa í gegnum alla virðiskeðjuna á lokagæði sem mun stuðla að auknu verðmæti íslenskra karfaafurða. Þekkingin sem hefur skapast í þessu verkefni mun auk þess styðja undir frekari rannsóknir og stuðla að bættum gæðum fiskafurða.

Með loftskiptum umbúðum er átt við að samsetningu
loftsins er breytt m.v. venjulegt andrúmsloft. Með þessu
móti má minnka og breyta þeirri örveruflóru sem þrífst
í fiskinum auk þess sem heft aðgengi súrefnis leiðir til
hægari þránun fitu.

Nánari upplýsingar veitir Magnea G. Karlsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Mikið fagnaðarefni í huga rektors Háskóla Íslands

Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag fagnar Kristín Ingólfsdóttir því að Háskóli Íslands skuli vera á lista yfir 400 bestu háskóla heimsins. Þar er HÍ í 251.-275. sæti ásamt fleiri háskólum. Gaman er frá því að segja að í viðtalinu nefnir rektor nokkra samstarfsaðila sem hún telur að eigi mikið í þessum árangri. Matís er þar á meðal.

Viðtalið á Morgunblaðinu, sem Hjörtur J. Guðmundsson tók, má finna hér.

Um samstarf HÍ og Matís

Háskóli Íslands og Matís hafa átt í farsælu samstarfi um langt skeið um kennslu en starfsmenn Matís hafa í gegnum tíðina kennt við HÍ og munu gera það áfram. Báðir aðilar hafa byggt upp mikla þekkingu á  matvælafræði, líftækni, erfðafræði og fleiri greinum. Sem dæmi þá hafa starfsmenn sem starfa bæði hjá Matís og HÍ birt tæplega 90 vísindagreinar í ritrýndum tímaritum á sl. þremur árum og á sama tímabili hafa 10 nemendur varið doktorsritgerðir sínar og 15 meistaranemendur útskrifast þar sem verkefnin hafa verið unnin í samstarfi Matís og Háskóla Íslands. Í dag eru átta doktorsnemendur og 19 nemendur í meistaranámi við HÍ að vinna sín rannsóknaverkefni með Matís. Auk þess hafa Matís og HÍ sótt um og eru saman í nokkrum alþjóðlegum verkefnum.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri á sviðinu Menntun og matvælaframleiðsla.

Fréttir

Þurrkun fiskhryggja í færibandaþurrkara

Magnús Kári Ingvarssson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í vélaverkfræði. Verkefnið ber heitið Airflow and energy analysis in geothermally heated conveyor drying of fishbone. 

Hvenær hefst þessi viðburður:  2. október 2014 – 15:30

Staðsetning viðburðar: Askja

Nánari staðsetning: N-129

Magnús Kári Ingvarssson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í vélaverkfræði. Verkefnið ber heitið Airflow and energy analysis in geothermally heated conveyor drying of fishbone. 

Í verkefninu er tekin til skoðunar þurrkun fiskhryggja í færibandaþurrkara. Frumgerð þurrkarans var smíðuð árið 1981 eftir hönnun Sigurjóns Arasonar, en þurrkarinn nýtir jarðvarma til hitunar á lofti sem notað er til þurrkunarinnar. Frá smíði frumgerðarinnar hafa litlar breytingar verið gerðar á hönnuninni, aðrar en þær að stærð þurrkarans hefur verið sköluð upp til að auka afkastagetu.

Tilgangur verkefnisins er að nota mælingar og aðferðir massa- og orkubókhalds til að auka skilning og þekkingu á virkni þurrkarans, svo bæði framleiðendur og notendur tækisins geti bætt sína framleiðsluvöru. Mælingar eru gerðar á eiginleikum loftflæðis þurrkarans (flæði, þrýstingi, hita- og rakastigi) og vatnsinnihaldi afurðarinnar. Niðurstöður mælinga eru notaðar til að reikna helstu kennistærðir þurrkarans og fundið hefur verið að óvermin nýtni þurrkarans er 50,5%, hlutfallsleg hringrásun lofts er 64% og orkuþörf til að gufa upp hverju kílógrammi af vatni er 5500 kJ. Þá er heildar orkunotkun metin sem 919 kW fyrir framleiðslugetu sem samsvarar 800 kílógrömmum hráefnis á klukkustund. Niðurstöður benda til þess að nýtni loftflæðisins sé ábótavant hvað varðar þrýstifall og vatnsupptöku. Mælingar á vatnsinnihaldi vörunnar gefa til kynna að þurrkferlinu sé ekki rétt stýrt, verklagi sé ábótavant og tækifæri sé til þess að tvöfalda afköst.

Leiðbeinendur:

Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla og næringarfræðideild,Halldór Pálsson, dósent við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild.

Prófdómari:

Sveinn Víkingur Árnason, framkvæmdastjóri hjá ÁTVR.

Fréttir

Líf og fjör á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi

Sjávarútvegssýningin er nú í fullum gangi. Matís er þátttakandi og ekki bara á sýningunni heldur tók Matís auk þess þátt í ráðstefnu um fullnýtingu fisks en ráðstefnan fór fram í gær. Matís heldur auk þess utan um ráðstefnu um sjávarbyggðir, smábátaveiðar og byggðaþróun við N-Atlantshaf sem fram fer á morgun.

Á bás Matís, C50, var í gær boðið upp á krabbaborgara frá fyrirtækinu Walk the plank. Óhætt er að segja að borgarinn hafi slegið í gegn á meðal þeirra fjölmörgu sem smökkuðu.

Í dag kl. 14 verður svo boði upp á ómega-3 bættan plokkfisk a la Grímur kokkur. Grímur kokkur er landsþekktur framleiðandi hollustu úr hafinu og ætti enginn að missa af þessari kynningu.

Fréttir

Krabbaborgari frá „Walk the Plank“ genginu

Matís tekur þátt í Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi 25.-24. sept. nk. Á bás Matís, nr. C50, verður margt um að vera og má þar nefna kynningu á krabbaborgurum, kynningu frá Grími kokk og kynningu á ómega-3 majónesi. 

Dagskrá kynninga hjá Matís, bás C50, er eftirfarandi:

  • Fimmtudagur 25. sept. kl. 13:30-15:00: Krabbaborgarasmakk | „Walk the plank“.
  • Föstudagur 26. sept. kl. 14:00-16:00: ómega-3 ríkur fiskur í brokkólí | Grímur kokkur
  • Laugardagur 27. sept. kl. 12:00-14:00: ómega-3 majónes | Marinox

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2014

Ert þú með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar?

Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnulegum nýsköpunarhugmyndum, sem veita á viðurkenningu fyrir á næstu ráðstefnu vettvangsins þann 20.-21. nóvember á Grand hótel. Markmiðið er að hugmyndirnar séu framsæknar og frumlegar og skapi umræðugrundvöll eða nýja hugsun.

Það sem þarf að hafa í huga

Framúrstefnuhugmynd skal setja fram á hnitmiðaðan hátt þar sem fram kemur lýsing á hugmynd, tillaga að framkvæmd, væntanlegur afrakstur og áhrif til góðs fyrir ímynd íslenskra afurða (hámark 2 bls). Allir geta sent inn hugmyndir. Nánari upplýsingar er að finna hér.

Tímafrestur

Frestur til að skila inn umsóknum er 15. október 2014. 

Fréttir

Nýting Íslendinga á þorski vekur athygli hjá FAO

Í nýútkomnu riti FAO (Matvæla-og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna) sem ber heitið The State of World Fisheries and Aquaculture (SOFIA) er staðfest að Íslendingar séu ein af helstu fiskveiði þjóðum heims.

Ritið birtir lista yfir þær 18 þjóðir sem veiddu mest af fiski árið 2012. Efst á listanum er Kína með 13.869.604 tonn veidd. Næst kemur Indónesía með 5.420.247 tonn og í þriðja sæti eru Bandaríkin með 5.107.559 tonn. Ísland er í 17. sæti á listanum með samtals 1.449.452 tonn af fiski. Aðeins eitt annað Evrópuland kemst á listann en það er Noregur, sem vermir 11. sætið með 2.149.802 tonn veidd árið 2012.

Íslendingar eru leiðandi í nýsköpun

Í ritinu er kastljósinu einnig beint að mikilvægi rekjanleika fisks með það að markmiði að stuðla að fæðuöryggi og koma í veg fyrir svindl með matvæli. Þar eru rannsóknir Íslendinga sem Matís hefur komið að, nefnt sem dæmi um árangursrík verkefni af þessu tagi. Þá er talið að ekki sé hægt að rekja uppruna fisks á Evrópumarkiði í 25 – 50% tilfella.

Fullnýting Íslendinga á þorski er einnig umfjöllunarefni í ritinu, þar sem fjallað er um möguleikana á að nýta aukaafurðir fisks til manneldis. Fram kemur að Íslendingar hafi flutt út 11.540 tonn af þurrkuðum þorskhausum til Afríku árið 2011. Greint er frá því að auk hausa séu hrognin og lifrin nýtt til manneldis en afgangurinn fari mestmegins í fóður.

Ritið sem hér um ræðir er viðamesta útgáfa FAO og kemur út á tveggja ára fresti. Markmiðið með útgáfunni er að veita stefnumarkandi og opinberum aðilum auk þeirra sem þurfa að treysta á fiskiðnaðinn alhliða og hlutlausar upplýsingar um stöðu mála á heimsvísu og gefa hugmyndir um hvernig megi bregðast við þeim áskorunum sem fyrir eru. Hér má lesa nýjustu útgáfuna af SOFIA.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.

Fréttir

Plastið burt úr höfunum

Umhverfisstofnun stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um plast í hafi í Hörpu þann 24. september 2014. Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís flytur erindi á ráðstefnunni og ber það heitið „Sewage treatment plants as sources for marine microlitter.“

Vertu með í að HREINSA PLASTIРúr heimshöfunum!


Ráðstefna í Hörpu, 24. september

Umhverfisstofnun stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um plast í hafi í Hörpu þann 24. september 2014. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að leggja til aðgerðir til að draga úr plastúrgangi í hafinu.

Taktu daginn frá!

Smelltu á tengilinn fyrir nánari upplýsingar (pdf). Einnig er hægt að setja sig í samband við Hrönn Ólínu Jörundsdóttur hjá Matís.

Fréttir

Rekjanleiki skilar sér í hærra vöruverði

Kröfur um rekjanleika matvæla aukast með degi hverjum, hvort sem um ræðir kjöt, fisk, grænmeti eða ávexti. Matís vinnur nú að verkefnum sem eiga að nýtast við rekjanleikaskráningu og tryggja þannig að hægt sé að staðfesta uppruna og vinnsluferli matvæla á markaði. Í fyrstu er kastljósinu beint að fiskafurðum.

Mikil vitundarvakning hefur orðið á síðust árum um mikilvægi þess að þekkja uppruna og vinnsluferli þeirra matvæla sem koma á markað. Á það ekki hvað síst við um þá markaði sem Íslendingar flytja hvað mestan fisk út til.

Matís vinnur nú að þrem verkefnum sem tengjast mikilvægi rekjanleika fisks og forvörnum gagnvart svikum í matvælaiðnaði.

Í tengslum við verkefnið WhiteFish hefur verið þróaður staðall sem gerir fyrirtækjum kleift að skrá og halda utanum upplýsingar um umhverfisáhrif framleiðslu sinnar. En með því að geta sýnt fram á umhverfisálag vörunnar og skipt því niður á lotur munu niðurstöður verkefnisins nýtast til að skapa framleiðendum þorsk- og ýsuafurða möguleika á að aðgreina sig á mörkuðum þar sem umhverfisáhrif veiða, vinnslu og flutnings skipta máli.

Í verkefninu WhiteFishMall hefur verið unnið að því að kanna hvaða upplýsingar geti nýst til að auka sölu á fiskafurðum úr N-Atlantshafi. Markaðskannanir leiddu í ljós að neytendur í Bretlandi vilja fá betri upplýsingar um hvaðan fiskurinn er að koma, hvort að hann sé veiddur á umhverfisvænan hátt, hvort stofnarnir séu sjálfvært nýttir, næringarinnihald og jákvæð jákvæð áhrif fiskneyslu á heilsu, uppskriftir o.s.frv. Til að uppfylla þessar kröfur neytenda hefur WhitFishMall verkefnið hannað veflausn sem getur mætt þessum kröfum. Útlit, uppsetning, gagnatekja og utanumhald um gögnin hefur verið sannreynd í nokkrum virðiskeðjum og hafur launin verið prófuð í nokkrum verslunum í Bretlandi.

Verkefnið Food Integrity eða Matar heilindi, sem hófst í byrjun árs 2014, miðar að því að nýta rannsóknir til að tryggja falsleysi evrópskra matvæla og þróa aðferðir til að greina og hindra svik í evrópskum matvælaiðnaði.

Rétt meðhöndlun og geymsla í gegnum allt framleiðsluferlið er undirstaða þess að matvælin séu hæf til manneldis, en við framleiðslu á matvælum vaknar ávalt spurningin um öryggi matvælanna gagnvart neytandanum, þar af leiðandi hafa kröfur um hreinlæti, góða framleiðsluhætti og rekjanleika aukist gífurlega hjá flestum þeim sem koma að virðiskeðju matvæla.


Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Ráðstefna um sjávarbyggðir, smábátaveiðar og byggðaþróun við N-Atlantshaf

Í tengslum við Íslensku sjávarútvegssýninguna sem fram fer í Kópavogi í lok september  verður blásið til alþjóðlegrar ráðstefnu þar sem ræða á stöðu sjávarbyggða, smábátaveiða og byggðarþróun við N-Atlantshaf.

Samfélög í sjávarbyggðum og smábátaútgerð tengjast sterkum böndum í þeim löndum sem liggja að N-Atlantshafi. Víðast hvar á svæðinu eiga sjávarbyggðir undir högg að sækja og smábátaútgerðir eiga í rekstrarvanda, ásamt því sem endurnýjun í greininni er takmörkuð. Þessar áskoranir, ásamt fleiri viðfangsefnum, verða rædd á ráðstefnunni og leitast við að greina framtíðarmöguleika sjávarbyggða við N-Atlantshaf.

Ráðstefnan er þannig uppbyggð að fyrst munu fulltrúar frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Nýfundnalandi flytja stutta fyrirlestra um stöðu þessara mála í þeirra löndum. Þá verður kynnt rannsóknarverkefni þar sem afkoma og laun smábátaútgerða í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi er greind og borið saman við aðrar atvinnugreinar. Þá munu íslenskir eigendur smábátaútgerðar í Noregi greina frá rekstrarumhverfi smábáta í Noregi, og bera það saman við Ísland; og loks mun stjórnarformaður Byggðarstofnunar greina frá starfi og stefnu stofnunarinnar, en Byggðastofnun hefur nýlega tekið til endurskoðunar aðferðafræði stofnunarinnar til að sinna sínu hlutverki betur.

Ráðstefnan fer fram í Smáranum (fundarsalur á efri hæð byggingar sem tengir Smárann og Fífuna) laugardaginn 27. September kl 10:15-14:00.  Ráðstefnan fer fram á ensku, aðgangur er gjaldfrjáls og opinn öllum, en fólk er þó beðið um að skrá sig með því að senda póst á jonas@matis.is.

Nánari upplýsingar er að finna á www.coastalfisheries.net eða hjá Jónasi R. Viðarssyni hjá Matís.

IS