Fréttir

Saltfiskur fyrr og nú

Kolbrún Sveinsdóttir verkefnastjóri hjá Matís er gestur í Matvælinu, hlaðvarpsþætti Matís. Í þættinum er farið um víðan völl þegar kemur að saltfiski, sögu hans og menningu.

Kolbrún segir okkur frá þeim verkefnum sem Matís hefur unnið að í tengslum við saltfiskinn og hvað vakti áhuga hennar á þeirri vinnu. Farið er yfir algengan misskilning um að saltfiskur eigi að vera mjög saltur og spáð er í því afhverju fullsaltaðar fiskiafurðir séu ein af verðmætustu útflutningsvörum okkar Íslendinga, en þó nýtur saltfiskurinn ekki vinsælda hér heima.

Ætti saltfiskurinn að vera Íslendingum líkt og parmaskinka er Ítölum og hvað þarf að gerast til að saltfiskinum sé gert hærra undir höfði hjá landsmönnum?

Ekki láta þennan þátt framhjá þér fara. Hlustaðu í þáttinn í heild sinni hér:

Þáttastjórnandi: Hildur Ýr Þráinsdóttir

Samstarfsaðilar verkefnisins eru: Íslandsstofa, Íslenskir saltfiskframleiðendur, Klúbbur matreiðslumeistara, Møreforsking AS.

Verkefnið er styrkt af: AG-Fisk (Arbejdsgruppen for Fiskerisamarbejdet) á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, AVS Rannsóknasjóður.

Fréttir

Skítamix! Sjálfbær áburðarframleiðsla

Jónas Baldursson verkefnastjóri hjá Matís og Eva Margrét Jónudóttir sérfræðingur hjá Matís ræða hér verkefnið Sjálfbær áburðarframleiðsla, heildstæð nálgun á hringrásarhagkerfið.

Rætt er um næringarefni áburðar, frumniðurstöður tilrauna og hvort að verkefnið hefði í raun átt að heita Skítamix.  Farið er yfir sjálfbærni ferla með því að nýta aukaafurði úr ýmsum iðnaði, meðal annars moltu, kjötmjöl, kúamykju, fiskeldiseyru, kjúklingaskít og mannaseyru.

Við fáum að heyra hvað kom á óvart og mikilvægi þess að gera áburðarframleiðslu sjálfbæra.

Ekki láta þennan þátt framhjá þér fara. Hlustaðu í þáttinn í heild sinni hér:

Þáttastjórnandi: Hildur Ýr Þráinsdóttir

Samstarfsaðilar verkefnisins eru: Atmonia, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hafrannsóknastofnun, Landgræðslan og Landsvirkjun.

Verkefnið er styrkt af: Markáætlun Rannís

Fréttir

Erfðabreytingar á örverum

Gestir hlaðvarpsþáttarins Matvælið að þessu sinni eru þeir Björn Þór Aðalsteinsson, verkefnastjóri hjá Matís og Tryggvi Stefánsson, aðstoðarframkvæmdarstjóri hjá Algalíf. Í þættinum fara þeir yfir markaðsleg og rannsóknarleg sjónarmið í tengslum við erfðabreytingar á örverum.

Björn Þór segir okkur allt frá verkefninu Thermo-Tools sem líftæknihópur Matís hefur verið að vinna að síðastliðin ár. Thermo Tools verkefnið miðar að því að þróa ný tæki til að erfðabreyta hitakærum örverum. Ísland hefur þá sérstöðu að vera með mikið magn af heitum hverum og þar að leiðandi mjög gott aðgengi að hitakærum örverum. Hitakærar örverur lifa við mjög hátt hitastig, allt frá 50-121°C, og liggur vandamálið í því að þau tæki og tól sem alla jafna eru notuð við erfðabreytingar virka ekki við svo hátt hitastig.

Tryggvi Stefánsson hjá Algalíf segir okkur frá framleiðslu þeirra á Astaxanthin og hvernig markaðurinn sem Algalíf starfar á, setur skýra stefnu gegn erfðabreytingum og mikilvægi þess að þeir séu með non-GMO vottun í þeirra framleiðslu.

Hlustaðu á þáttinn í heild sinni hér að neðan:

Þáttastjórnandi er Ísey Dísa Hávarsdóttir

Fréttir

Rannsóknir á hrossakjöti

Hrossakjöt er takmörkuð auðlind og mikil gæðavara. Liggja hér tækifæri í vöruþróun og markaðsetningu sem ekki er verið að nýta?

Í þessum þætti heyrum við í Evu Margréti Jónudóttur sem er sérfræðingur hjá Matís, en hún hefur gert fjölbreyttar rannsóknir á hrossakjöti. Eva hefur meðal annars kannað viðhorf og kauphegðun íslenskra neytanda og rannsakað kjötgæði í folaldakjöti. Eva segir skemmtilega frá niðurstöðum þeirra rannsókna og það er einstaklega áhugavert að heyra hana greina frá niðurstöðum gæða og geymsluþols hrossakjöts.

Hlustaðu á þáttinn í heild sinni hér að neðan:

Þáttastjórnandi er Ísey Dísa Hávarsdóttir

Fréttir

Matvælið – nýtt hlaðvarp Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu

Tengiliður

Ísey Dísa Hávarsdóttir

Sérfræðingur í miðlun

isey@matis.is

Nýsköpun með verðmætaaukningu, matvælaöryggi, lýðheilsu og sjálfbærni í fyrirrúmi er helsta viðfangsefni Matís og fjölbreytt sjónarhorn á þessa þætti verða umfjöllunarefni í nýjum hlaðvarpsþáttum sem bera heitið Matvælið – Hlaðvarp Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á þessa þætti. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur og frumkvöðla, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti koma að matvælaiðnaði. Til þess að fólk og fyrirtæki geti nýtt þjónustu og starfsemi Matís sér í hag er þörf á að miðla upplýsingum um starfsemi fyrirtækisins með fjölbreyttum hætti svo þær nái bæði augum og eyrum landans.

Nú þegar er vefsíða og samfélagsmiðlar Matís nýttir í þessum tilgangi, en hlaðvarp er nýjasti miðillinn sem tekinn hefur verið í gagnið svo fólk geti á einfaldan og þægilegan hátt kynnst þeim viðfangsefnum sem fengist er við hjá Matís hverju sinni.

Í þáttunum verður rætt við verkefnastjóra og starfsfólk um þeirra verkefni eða tengd mál en einnig við ýmsa samstarfsaðila, svo sem úr frumkvöðlaheiminum, matvælaiðnaðinum, viðskiptalífinu og frá háskólum landsins. Stefnan er að varpa ljósi á fagið og fólkið fremur en á fyrirtækið sem slíkt.

Í fyrsta þætti hlaðvarpsins er sem dæmi rætt við Birgi Örn Smárason, verkefnastjóra hjá Matís og Búa Bjarmar Aðalsteinsson sem hefur bakgrunn úr Listaháskólanum, vöruþróun, matvælaframleiðslu og ýmiss konar frumkvöðlastarfsemi. Þeir hafa ólíka aðkomu að viðfangsefni þáttarins, sem er próteingjafar framtíðarinnar og sjálfbær matvælaframleiðsla, og skapast því umræður um fjölbreytta vinkla á efnið.

Tveir þættir eru þegar komnir inn á vefsíðu Matís, Hlöðuna, hlaðvarpsvettvang Bændablaðsins og á allar helstu hlaðvarpsveitur, svo sem á Spotify og önnur þar til gerð smáforrit.

Þættirnir munu koma út einu sinni í mánuði en í upphafi fylgir stuttur kynningarþáttur sem ber yfirskriftina; Hvað er Matís? og situr Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Matís þar fyrir svörum. Miðlunarteymi Matís hefur umsjón með gerð þáttanna og Ísey Dísa Hávarsdóttir sér um þáttastjórnun.

Hvað er Matís?

Tengiliður

Ísey Dísa Hávarsdóttir

Sérfræðingur í miðlun

isey@matis.is

Hvað er Matís? Fyrir hverja starfar það? Hvernig get ég nýtt mér þjónustu Matís?

Í þessum kynningarþætti af Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu, svarar Hákon Stefánsson stjórnarformaður þessum spurningum og fleirum til.

Þáttastjórnandi er Ísey Dísa Hávarsdóttir.

Próteingjafar framtíðarinnar og sjálfbærni í matvælaframleiðslu

Verða skordýr helstu próteingjafar framtíðarinnar? Eða örþörungar? Eða prótein unnið úr trjám?

Birgir Örn Smárason og Búi Bjarmar Aðalsteinsson velta fyrir sér ýmsum málum sem tengjast próteingjöfum framtíðarinnar og sjálfbærri matvælaframleiðslu. Óhefðbundnir próteingjafar eru þeirra fag og þeir segja reynslusögur af regluverkinu, rannsóknum og framleiðslu í þessu samhengi.

Þáttastjórnandi er Ísey Dísa Hávarsdóttir.

IS