Fréttir

Lagarlíf – ráðstefna um eldi og ræktun

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Mikill uppgangur er í íslensku fiskeldi og var útflutningsverðmæti greinarinnar í fyrra yfir 30 milljarðar króna, og um 11,5  milljarðar króna á fyrsta ársfjórðung þessa árs, eða um 9% af heildarútflutningi landsmanna. Ljóst er að mikill vöxtur er í fiskeldi sem þegar er orðin ein af stoðgreinum útflutnings og má búast við innan fárra ára að greinin skili álíka verðmætum og þorskurinn gerir í dag . En bak við þessa velgengni eru mörg  vel borguð störf og umtalsverð afleidd verðmætasköpun. Fiskeldi er mikilvægt fyrir mörg þjónustufyrirtæki sem nú blómstra sem aldrei fyrr. Til viðbótar má bæta því við að fiskeldið hefur byggst upp á stöðum þar sem stöðnun og samdráttur hafði verið um áratuga skeið, og snúið byggðaþróun rækilega við á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ræktun í legi er talin lausn framtíðar fyrir matvælabúskap jarðarbúa og mikil tækifæri í áframhaldandi þróun atvinnugreinarinnar.

Við slíkar aðstæður er spennandi að reka ráðstefnu eldis- og ræktunargreina „Strandbúnað“ sem vonandi mun blómstra og dafna við vaxandi velgengni greinarinnar. Það er einmitt við slíkar aðstæður að ráðstefnan hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga, orðin fimm ára gömul, og hafa eigendur og stjórn verið samstíga í þeirri þróun. Nýtt nafn hefur verið tekið upp fyrir Strandbúnað, sem nú heitir Lagarlíf og jafnframt skipt um vörumerki og útlit kynningarefnis. Lögur er gamalt og gott íslenskt orð  og nær utan um hvortveggja eldi og ræktun. Enska heiti ráðstefnunnar er Aqua-Ice, en aqua er einmitt enska orðið yfir lögur. Við höfum skilgreint eldi þar sem fiskar eru fóðraðir en ræktun er þar sem sjávardýr eru fóðruð af næringarefnum sem þegar eru fyrir hendi í sjónum. Lagarlíf er fallegt íslenskt nafn og lýsir því vel þeirri starfsemi sem atvinnugreinarnar á bak við ráðstefnuna standa fyrir. Enska heiti ráðstefnunnar er og hefur verið Aqua-Ice.

Ráðstefnan féll niður í fyrra vegna Covid 19 en var frestað til 28 – 29 október í ár. Með því var vonast til að Íslendingar hefðu náð þannig tökum á kórónaveirunni að mögulegt væri að halda fjölmenna ráðstefnu. Lagarlíf verður haldin á Grand Hótel í Reykjavík.

Á Lagarlífi verður boðið upp á fyrirlestra um eldi og ræktun, sagt frá því nýjasta sem er að gerast ásamt því að kynna atvinnugreinina út á við. Slík ráðstefna er jafnframt mikilvæg fyrir starfsmenn og stjórnendur að hittast, bera saman bækur sínar og afla sér nýrrar þekkingar. Ráðstefnan er ekki síður mikilvæg fyrir atvinnugreinar sem þjóna eldis- og ræktunargreinum, kynna þjónustu sína, hitta framleiðendur og mynda tengslabönd. Eitt af markmiðum ráðstefnunnar er að hún komist á dagatöl framleiðanda og þjónustuaðila og verði þannig tilefni til að hittast, skiptast á skoðunum og kynna þarfir og lausnir til að auka veg vaxandi útflutningsgreinar.

Í tengslum við Lagarlíf í haust munu framleiðendur standa fyrir vinnufundi norrænna sérfræðinga í laxeldi 27. október n.k. Vinnufundurinn „Nordic Salmon“ verður haldinn í húsnæði Matíss að Vínlandsleið 12. Viðfangsefni fundarins verða laxalús, ræktun á stórseiðum og fiskafóður framtíðar. Sérfræðingar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum og Íslandi munu halda fyrirlestra um allt það nýjasta sem er að gerast á þessum sviðum. Laxalúsin er mikið vandamál og kostar eldið háar fjárhæðir á hverju ári, bæði sem tjón og eins við fyrirbyggjandi ráðstafanir. Ein af hugmyndum framtíðar er að stækka seiðin áður en þeim er sleppt í sjókví, og stytta þannig tímann sem laxinn er í sjókví. Seiðaeldi er strandeldi sem kallar á miklar áskoranir og kostnað en býður upp á mikil tækfæri til frekari verðmætasköpunar til framtíðar. Vinnufundurinn er styrktur af AG Fisk.

Yfir 90% af kolefnaspori framleiðslu á laxi kemur frá fóðrinu, ekki vegna flutnings þess, heldur vegna ruðningsáhrifa við ræktun á soyabaunum sem er uppistaða í fóðurframleiðslu. Þó fiskeldi sé umhverfisvænasta matvælaframleiðsla samtímans, er enn hægt að gera betur og mikið af spennandi tækifærum fram undan. Ræktun á skelfiski og þörungum vinnur hins vegar með umhverfinu og skilar jákvæðum umhverfisáhrifum. Margir sjá slíka ræktun sem framtíðarlausn fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu framtíðar fyrir mannkynið.

Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri

Halldór Halldórsson, stjórnarformaður

Fréttir

Matur, orka, vatn: Leiðin að sjálfbærni

Hugsaðu stórt, hugsaðu grænt, er yfirskrift vefstofu (netfundar) sem Eimur stendur fyrir, ásamt Nýsköpun í Norðri, SSNE, SSNV og Hacking Hekla. Vefstofan verður haldin næsta fimmtudag frá kl. 14:00 til 16:00. Fundurinn er öllum opinn, og verður streymt á Facebook síðum Eims og sérstakri síðu viðburðarins.

Markmið fundarins er að hvetja fólk til að hugsa um það hvernig við getum nýtt auðlindir Norðurlands með sjálfbærum hætti til framtíðar. Þemað er orka-matur-vatn, heilög þrenning í sjálfbærni. Þessar auðlindir tengjast órjúfanlegum böndum og þannig getur verið gagnlegt að hugsa um þær saman. Þetta eru auðlindir sem við erum rík af, og auðlindir sem við bruðlum með. Hvernig getum við verið sjálfbær og til fyrirmyndar á heimsvísu? Við höfum sannarlega efnin og tækifæri til þess.

Við erum stolt af dagskránni, sem okkur þykir glæsileg, en þar koma saman ráðherra, listafólk, vísindafólk og fólk úr orku- og nýsköpunargeiranum og ræða sín hugðarefni. Sérstaklega verður spennandi að heyra af niðurstöðum nýrrar skýrslu sem gerð var um fýsileikann á stórsókn í ylrækt á Íslandi!

Dagskrána má nálgast hér.

Fréttir

Hvers virði eru skynmats- og neytendafræði?„Gagnvirk“ ráðstefna á netinu 27.-28. apríl 2021

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Yfirskrift ráðstefnunnar er „What is the Added Value of Sensory and Consumer Science?“. Þar verður m.a. fjallað um miðlun upplýsinga sem fást úr skynmati og neytendarannsóknum. Áherslan verður á vísindalegar niðurstöður og notagildi og miðlun þeirra til iðnaðar sem og samfélagsins.

Skoðuð verða dæmi um hvernig skynmat og neytendarannsóknir hafa skipt máli í rannsóknum, í vöruþróun, í sjálfbæru samfélagi, menntun o.fl. Fagfólk og vísindafólk sem vinnur við skynmat, gæðamál og neytendamál á sviði matvæla og annarrar neytendavöru, fá þarna tækifæri til að hittast í netheimum og bera saman bækur sínar. Ráðstefnan er einnig kjörin til að efla tengsl og tækifæri á norrænum slóðum. Skynmat, t.d. mat á gæðum, og neytendamál eru mikilvægur hlekkur í þeirri vinnu sem fer fram i fyrirtækjum sem framleiða og selja neytendavöru.

Nordic Sensory Workshop er norræn ráðstefna sem hefur verið haldin um það bil annað hvert ár. Vegna Covid-19 var ráðstefnunni frestað í fyrra, en til stóð að hún færi fram í Gautaborg í Svíþjóð. Hinsvegar, var ákveðið að ráðist yrði í að halda Nordic Sensory Workshop rafrænt nú í ár, 27.-29. apríl 2021. Að ráðstefnunni standa sérfræðingar á sviði skynmats- og neytendarannsókna á Norðurlöndum og skiptast jafnframt á að halda ráðstefnuna. Í ár er það RISE (The Swedish Research Institute) sem sér um utanumhald með aðstoð frá norrænum samstarfsaðilum á Íslandi (Matís), Noregi (NOFIMA), Danmörku (Teknologisk Institut) og Finnlandi (VTT-Technical Research Centre of Finland).

Hægt er að skrá sig á ráðstefnuna til 15. apríl.

Hér er einblöðungur um ráðstefnuna.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á skráningarsíðu viðburðarins hér.

Frekari upplýsingar veitir Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís (kolbrun@matis.is).

Fréttir

Kynning á styrkjum og möguleikum sjóðakerfis og stuðningi þess við rannsóknir og nýsköpun í matvælaiðnaði

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Á fimmtudaginn, 4. febrúar, fer fram sérstök kynning í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi á styrkjum og möguleikum sjóðakerfis í tengslum við rannsóknir og nýsköpun í matvælaiðnaði.

Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís, heldur kynninguna, en Matís hefur unnið með fjölda fyrirtækja og stofnana að alls kyns nýsköpunarverkefnum og fjármögnun þeirra. Farið verður yfir fjármögnunartækifæri í sjóðum til matvælarþróunar og þá aðstoð sem fyrirtæki geta fengið í ferlinu.

Kynningin fer sem fyrr segir fram í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi, fimmtudaginn 4. febrúar klukkan 12:00. Áhugasamir eru beðnir um að senda staðfestingu á breid@breid.is.

IS