Viggó var einstakur vísindamaður sem skilur eftir sig djúp spor á sviði örveru- og matvælarannsókna og í hjörtum okkar sem störfuðum með honum. Verkefnin hans einkenndust af brennandi áhuga og forvitni og hann leitaðist stöðugt við að brúa bilið milli vísinda og hagnýtingar; til að þekkingin nýttist og skilaði raunverulegum umbótum.
Viggó var hluti af þeim kjarna sem byggði upp Matís og átti stóran þátt í að móta það sterka rannsókna- og þekkingarfyrirtæki sem Matís er í dag. Samhliða starfinu hjá Matís gegndi hann prófessorsstöðu við Háskóla Íslands, var gestaprófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og kennari við GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu. Hann lagði mikið upp úr fagmennsku og heiðarleika í vinnubrögðum og var fyrirmynd í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann leiddi fjölmörg innlend og alþjóðleg rannsóknaverkefni af alúð og metnaði og hlaut á ferli sínum margvíslegar viðurkenningar fyrir framlag sitt til vísinda og atvinnulífs.
Örverurannsóknir voru hans sérsvið og hann stundaði bæði grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir í samvinnu við íslenska og erlenda rannsóknahópa. Hann lærði líffræði við Háskóla Íslands, lauk þar BS-prófi og hélt svo til Frakklands í framhaldsnám þar sem hann varði doktorsritgerð sína við Université de Bretagne Occidentale í ársbyrjun 1997. Viðfangsefni hans voru jaðarörverur sem vaxa við mjög háan hita og þrýsting í og við djúpsjávarhveri. Eftir nám sitt í Frakklandi hélt Viggó góðu samstarfi við franskt vísindasamfélag. Þessi sterku tengsl leiddu til þess að fjölmargir franskir stúdentar komu til Íslands og unnu hér að meistara- eða doktorsverkefnum hjá Matís. Viggó var sæmdur orðu frá franska sendiráðinu árið 2021 fyrir þetta gæfuríka samstarf þjóðanna á sviði raunvísinda.
Arfleifð hans lifir áfram; í rannsóknum, í skýrslum og vísindagreinum, í verkefnum nemenda hans og ekki síst í hjörtum okkar sem fengum að kynnast honum. Hann var ljúfur, hlýr, skemmtilegur og hjálpsamur. Hann var góður hlustandi og leiðbeinandi. Hann gaf mikið af sér og tók sér alltaf tíma fyrir aðra, ávallt boðinn og búinn þegar leitað var til hans. Hann átti þátt í að efla alþjóðlegt samstarf, opna dyr fyrir unga vísindamenn og byggja upp traust og vináttu yfir landamæri. Minning Viggós mun lifa um ókomna tíð í verkum og framlagi hans til samfélagsins.
Innilegar samúðarkveðjur til Þórhildar, fjölskyldunnar og allra sem syrgja hér mætan mann.
Við kveðjum okkar kæra samstarfsfélaga með þakklæti og söknuði.