Fréttir

Áhrif innrásar Rússa í Úkraínu og sjálfbærni í matvælaframleiðslu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Birgir Örn Smárason, umhverfis- og auðlindafræðingur og fagstjóri hjá Matís á Akureyri var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í vikunni ásamt Jóni Bjarka Bentssyni aðalhagfræðingi Íslandsbanka.

Umræðuefni þeirra var áhrif innrásar Rússa í Úkraínu á efnahag og matvælaiðnaðinn á Íslandi hingað til auk þess sem þeir spáðu í hver áhrifin gætu orðið til lengri tíma.

Birgir fjallaði um að stríðið myndi að öllum líkindum hafa mikil áhrif á framboð og verð matvæla á heimsvísu vegna þess að um þessar mundir er að koma að gríðarlega mikilvægum tíma í matvælaframleiðslu á norðurhveli jarðar. Þar á hann við tíma vorverka í landbúnaði sem aðstæður í Rússlandi og Úkraínu hafa óhjákvæmilega neikvæð áhrif á. Bæði Úkraína og Rússland eru meðal stærstu útflytjenda heims á ýmsum landbúnaðarvörum svo sem matvælum, t.d. korni, maís, hrísgrjónum og grænmetisolíu en einnig áburði. Löndin tvö eru að auki stórir útflutningsaðilar á olíu, gasi og fleiru sem mikilvægt er svo vörur komist milli landa. Vegna innrásarinnar og viðskiptaþvingana í kjölfar hennar má því gera ráð fyrir að matvælaverð muni hækka töluvert á næstu misserum.

Þeir Jón Bjarki og Birgir fjölluðu einnig um að  þó svo að íslensk matvælaframleiðsla sé að mörgu leyti ennþá háð influttum vörum eins og áburði, olíu og hveiti þá séu einnig ýmis tækifæri sem blasa við og möguleikar á því að gera innlenda matvælaframleiðslu sjálfbærari. Birgir nefndi dæmi um verkefni sem unnin hafa verið að hjá Matís undanfarna mánuði og ár á borð við þróun á lífrænum, umhverfisvænum áburði úr vannýttum auðlindum og framleiðslu á skordýrum, einfrumupróteini úr hliðarafurðum íslenskra skóga og örþörungum. Auk þess benti hann á að hér væru enn ýmis tækifæri í ræktun á grænmeti og korni og nýtingu á þangi og þara.  

Viðtalið má hlusta á í heild sinni á vef Rásar 2 hér: Morgunútvarpið. Viðtalið við Birgi og Jón Bjarka hefst á mínútu 01:07:00