Fréttir

Fengu sér humar við opnun starfsstöðvar á Höfn

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Árni Mathiesen fjármálaráðherra opnaði með formlegum hætti starfsstöð Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og Humarhótel á Höfn í Hornafirði í dag. Við opnunina fengu ráðherra og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís að gæða sér á ferskum leturhumri frá Humarhótelinu.

Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís sagði við opnunina að markmiðið með starfsstöð á Höfn væri að efla rannsóknastarf, skapa aðstöðu og vettvang til aukins samstarfs við atvinnulíf og stuðla að verðmætasköpun í samvinnu við matvælafyrirtæki á svæðinu.

Starfsstod_Matis_a_Hofn_1

Þá sagði Hjalti Vignisson bæjarstjóri á Höfn það mikilvægt fyrir svæðið að fá matvælarannsóknafyrirtæki eins og Matís til þess að efla þróunarstarf og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi.

Hofn

Á Humarhótelinu, sem er samvinnuverkefni Matís, Frumkvöðlaseturs Austurlands, Sæplasts, Hafrannsóknarstofnunar og Skinney Þinganess, er hægt að geyma lifandi leturhumar sem er veiddur úti á Hornafjarðardýpi. Humarinn er fluttur lifandi á hótelið þar sem hann er geymdur við kældar aðstæður. Hann er svo fluttur lifandi á markað erlendis. Tilraunaverkefni um útflutning á lifandi leturhumri hefur staðið yfir undanfarin misseri og hefur humarinn nú þegar verið fluttur til Belgíu.

Hofn2

Verkefnið hefur því gengið afar vel en tekist hefur að fá allt að því þriðjung hærra verð fyrir lifandi humar frá Höfn heldur en frystan humar.

Mynd 1: Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís smakka á ferskum humri frá Humarhótelinu við opnun starfsstöðvar Matís á Höfn.

Mynd 2: Friðrik Friðriksson stjórnarformaður Matís og Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

Mynd 3: Hjalti Vignisson bæjarstjóri á Höfn og Ari Þorsteinsson framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Austurlands.