Fréttir

Heimsókn frá Noregi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hópur nemenda frá Háskólanum í Bodö í Noregi heimsótti Sjávarútvegshúsið eftir hádegi í dag, í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi Rf og Hafrannsóknastofnunarinnar. Heimsóknin er hluti af þéttskipaðri dagsskrá hópsins hér á landi.

Hópurinn, sem eins og áður segir, kemur frá Høgskolen i Bodø (HBO) í Noregi, samanstendur af 6 nemendum og einum kennara, Christel Solberg.  Er þetta annað árið í röð sem hún kemur með nemendur frá HBO hingað til Íslands og er óhætt að segja að þau komi víða við.

Fyrstu tvo dagana heimsóttu þau fyrirtæki og stofnanir á Norðurlandi, þ.á.m. Samherja og Brim á Akureyri, Sæplast á Dalvík, Stofnfisk/Haliotis í Hauganesi og fóðurverksmiðjuna Laxá.  Þá fóru þau út í Hrísey og heimsóttu þar Íslenskt sjávarfang.  Einnig heimsóttu Norðmennirnir Háskólann á Akureyri og loks Hólaskóla áður en þau héldu suður yfir heiðar.

Í morgun voru þau í heimsóknum hjá Optimar og Marel og á morgun lýkur þessari yfirreið með heimsóknum í fyrirtæki á Suðurnesjum.