Fréttir

Lyktina burt

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Notkun ósons við þurrkun á fiski minnkar verulega lykt frá þurrkverksmiðjum, en hjá Matís er unnið að því að gera tilraunir með notkun ósons í samstarfi við Laugafisk á Akranesi.

Markmið verkefnisins er að minnka lykt við framleiðslu þurrkaðra afurða úr bolfiskvinnslu með aukinni stýringu á þurrkferlinu. Vegna aukinna krafna um lyktarminni framleiðslu er nauðsynlegt að vinna að lausnum til úrbóta fyrir framleiðslu á þurrkuðum afurðum úr aukahráefni.

Ýmsar lausnir og hreinsibúnaður geta dregið úr lykt sem myndast við hausaþurrkun, m.a. notkun á ósoni. Óson er mjög hvarfgjarnt efni og oxar allt sem það kemst í snertingu við. Því var brýnt að skoða áhrif ósons á umhverfi og afurðir. Ósonið drepur örverur, það eyðist fljótt og skilur ekki eftir neinar leifar eða aukabragð, líkt og klór.

Keyptur hefur verið búnaður til framleiðslu á ósoni, og hann notaður við rannsóknir í þurrklefa Matís á lyktarmyndun við þurrkun þorskhausa. Fyrstu niðurstöður sýndu að með því að dæla ósoni í þurrklefann minnkaði lyktarmyndun af völdum niðurbrotsefna umtalsvert.

Lyktarefni graf

Línuritið sýnir styrk lyktarefna í þurrklefa Matís, fyrir og eftir meðhöndlun með ósoni. Notaður var gasskynjari (FreshSence II) til greiningar á lyktarefnum. Helstu lyktarefnin sem búnaðurinn skynjar eru kolmónoxíð (CO), ammoníak (NH3) og brennisteinsdíoxíð (SO2).

Á næstunni er ætlunin að gera tilraunir með ósonbúnaðinn í sérsmíðuðum tilraunaklefa hjá Laugafisk á Akranesi. Þurrklofti verður safnað í sérstakan gám sem staðsettur er ofan á þurrklefanum og það meðhöndlað með ósoni. Áhrif ósons á gæði afurða verða einnig skoðuð.