Fréttir

Ný tæki á Rf skapa tækifæri til rannsókna á nýjum sviðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Rf hefur fest kaup á tækjabúnaði sem vonast er til að geti opnað fyrir möguleika á nýjum rannsóknarverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Stefnt er að því að byggja upp nýtt rannsóknarsvið á Rf í kringum tækjabúnaðinn og hefur erlendur sérfræðingur verið ráðinn til að leiða það starf.

Um er að ræða tvö ný tæki, þ.e.a.s. Inductively Coupled Plasma Mass Spectrometer (ICP-MS) tæki og vökvagreini (HPLC ) sem hægt er að nota sitt í hvoru lagi. ICP-MS tækið verður m.a. notað til að mæla ólífræn snefilefni og hefur tækið ýmsa kosti fram yfir eldri aðferðir, eins og t.d. mælingar á atómgleypni (AA) með logatæki og grafítofni. Nýja tækið býður upp á mun fljótvirkari aðferð þegar skoða á mörg efni í hverju sýni og með þessari aðferð eru greiningarmörk snefilefnanna almennt mun lægri en hjá eldri aðferðum.  

Hægt er að tengja vökvagreini (HPLC) framan við ICP-MS tækið og er þá komin HPLC-ICP-MS tækjasamstæða.

Að sögn Helgu Gunnlaugsdóttur, deildarstjóra á Rannsóknarsviði Rf, er markmiðið að byggja upp nýtt rannsóknarsvið innan ólífrænna snefilefnagreininga, sem felst í rannsóknum og mælingum á formgreiningu mismunandi efnaforma málma í matvælum og verður HPLC-ICP-MS tæknin m.a. notuð í þessum rannsóknum. Ástæða þess að formgreining málma telst sérstakt rannsóknarsvið er sú að mismunandi efnaform málma hafa mismunandi eiturvirkni. Það sem drífur framþróun á þessu sviði snefilefnagreininga áfram tengist áhyggjum yfirvalda af eiturvirkni  tiltekinna efnaforma málma í matvælum og áhrifum  þeirra á heilsu manna.

Í mars s.l. var ráðinn sérfræðingur, Dr Ernst Schmeisser frá Austurríki, og mun hann leiða uppbygginguna á þessu nýja rannsóknarsviði hjá Rf. Dr Schmeisser hefur áður fengist við  fromgreiningar t.d. á arseni með HPLC-ICP-MS  í lífrænum sýnum.

Hér má lesa nánar um ICP-MS tækið