Fréttir

Stykkishólmsbær gerir samkomulag við Matís um aukna verðmætasköpun í Stykkishólmi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Stykkishólmsbær og Matís hafa gert með sér samkomulag um uppbyggingu samstarfs í sveitafélagi Stykkishólms með áherslu á fræðslu, nýsköpun, rannsóknir og atvinnuuppbyggingu innan sveitafélagsins. Báðir aðilar samkomulagsins munu nýta styrkleika sína og innviði viðkomandi aðila eins og kostur er.

Stykkishólmsbær stofnaði til hugarflugsfundar með Matís, KPMG og fulltrúum atvinnulífsins á svæðinu þann 26. nóvember síðastliðinn. Fulltrúar atvinnulífsins fjölmenntu og sköpuðust  líflegar umræður um tækifærin til aukinnar verðmætasköpunar og eflingu atvinnulífsins er varðar sjálfbæra matvælaframleiðslu á svæðinu.

Gróska í atvinnu- og nýsköpunarmálum í Stykkishólmi

Bæjarstjóri heimsótti, ásamt formanni atvinnu- og nýsköpunarnefndar, fyrirtæki í Stykkishólmi í þeim tilgangi að kynnast betur starfsemi fyrirtækja og stofnana í bænum auk fyrirliggjandi áskorana og tækifæra og kanna með hvaða móti Stykkishólmsbær geti betur stutt við hagsmuni atvinnulífs í sinni stefnumótun og hagsmunagæslu.

„Atvinnulífið er grundvöllur byggðar á hverjum stað og lífæð allra samfélaga. Að vera í góðum tengslum við atvinnulífið og skilja þarfir þess er mikilvægt,“ að sögn Jakobs.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skipaði starfshóp um eflingu atvinnulífs í bænum sem vinnur nú að því að greina tækifæri til eflingar atvinnulífsins á grunni svæðisbundinna styrkleika sem mun nýtast við stefnumörkun bæjarins í atvinnumálum. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Byggðastofnun. Þar er m.a. horft til verðmætasköpunar í tengslum við sjálfbæra nýtingu auðlinda Breiðafjarðar. Er samkomulag Matís ohf. og Stykkishólmsbæjar liður í sömu vegferð.

„Með þessu vill Stykkishólmsbær tryggja fyrirtækjum hagstæð skilyrði, vera hreyfiafl góðra verka og styðja við rannsóknir og nýsköpun,“ undirstrikar Jakob.

Samningur undirritaður á hugarflugsfundi í Stykkishólmi

Nokkrir fulltrúar atvinnulífsins í Stykkishólmi áttu, ásamt bæjarstjóra og formanni atvinnu- og nýsköpunarnefndar, hugaflugsfund með fulltrúum frá Matís og KPMG þann 26. nóvember síðastliðinn.

Á fundinum voru til umræðu rannsóknir, nýsköpun, sprotastarfsemi, matvælaframleiðsla og ábyrg nýting auðlinda Breiðafjarðar með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda og aukinni verðmætasköpun á svæðinu. Að loknum fundi rituðu Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri, og Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, undir samkomulag um samstarf Stykkishólmsbæjar og Matís.

Mikil gróska og uppbygging á sér stað á sviði sjálfbærrar afurða- og matvælaframleiðslu í Stykkishólmsbæ og er það markmið Stykkishólmsbæjar og Matís að styðja eftir megni við einstaklinga og fyrirtæki á svæðinu til verðmæta- og nýsköpunar í matvælaiðnaði og frekari vinnslu svæðisbundinna afurða, og þannig stuðla að aukinni hagsæld, fæðuöryggi, matvælaöryggi og bættri lýðheilsu fyrir íslenskt samfélag.