Faghópurinn vinnur að rannsóknum, greiningum og þjónustu sem styðja við matvælaöryggi, gæði, sjálfbæra nýtingu lífauðlinda og aukna verðmætasköpun í íslenskum matvælaiðnaði. Notast er við efna- og örverumælingar, lífmassagreiningar og þróun mæliaðferða sem nýtast bæði í rannsóknum og opinberu eftirliti.
Starfsemin byggir á mikilli reynslu á matvælaframleiðslu sem og rannsóknarþekkingu í greiningu hráefna og afurða úr sjávarútvegi, fiskeldi, landbúnaði og matvælaiðnaði almennt. Faghópurinn sinnir mælingum á efnasamsetningu, næringargildi, örveruástandi og stöðugleika hráefna og afurða, ásamt mati á vinnsluferlum, geymslu og nýtingu hliðarafurða.
Faghópurinn sinnir jafnframt rannsóknum á lífmassa með áherslu á vinnslueiginleika, efnainnihald og mögulega verðmætasköpun. Sérstök áhersla er lögð á hagnýtingu vannýttra hráefna og hliðarstrauma í anda hringrásarhagkerfis.
Lífmassi og mælingar styður við nýsköpun og atvinnulíf með þróun og ráðgjöf í nánu samstarfi við matvælaiðnaðinn sem og stjórnvöld.
Sérþekking fagsviðsins nær meðal annars yfir:
• Efna- og næringargreiningar
• Örverumælingar
• Greiningu á vinnslu- og stöðugleikaeiginleikum hráefna og afurða
• Mat á nýtingarmöguleikum hliðarafurða

