Í þessari skýrslu er greint frá framgangi og helstu niðurstöðum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnisins „Verðmætasköpun í íslensku fiskeldi“ sem að hluta var fjármagnað af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi/Matvælasjóði. Í þessu verkefni var leitast við að lækka kostnað og auka verðmæti við meltuframleiðslu úr hliðarstraumum fiskeldis, þar sem einkum var horft til þess að lækka flutningskostnað, með því að vinna meltuna meira, taka úr henni lýsi og vatn, sem minnkar umfang og vigt við flutning og gefur tækifæri á að vinna hana í dýrari afurðir.
Laxeldi við Ísland er í örum vexti og ef allar áætlanir ganga eftir mun eldi á laxi í sjó vera komið upp í 90 þúsund tonn innan fárra ára. Hliðarstraumar sem til falla gætu því orðið yfir 20 þúsund tonn á ári. Þá er ótalið landeldi á Íslandi, en miklar áætlanir eru í gangi í Ölfusi, Vestmannaeyjum og Reykjanesi, þar sem rætt er um framleiðslu á yfir 100 þúsund tonnum af laxi.
Hliðarstraumum í fiskeldi er að mestu skipt í tvo flokka, þ.e. K2 sem er sjálfdauður fiskur sem drepst í kvíum, og K3 sem er slóg sem fellur til við slátrun, auk hausa, hryggja og afskurðar sem fellur til við fullvinnslu. Ekki má vinna hráefni frá K2 til manneldis né í fóður fyrir dýr sem ræktuð eru til manneldis, og því þarf að líta til markaða fyrir gælu- eða loðdýr. K3 getur hins vegar farið til framleiðslu til manneldis eða í fóður dýra sem neytt er af mönnum.
Með auknu fiskeldi má búast við mikilli aukningu af hliðarhráefni á næstu árum og því mikilvægt að finna leiðir til að tryggja umhverfisvænar vinnsluleiðir og samtímis að bæta verðmætasköpun við vinnslu þessa hliðarstrauma. Í þessu verkefni var í fyrstu litið til framleiðslu á mjöli og lýsi úr þessum hliðarstraumum, en slík vinnsla stóð ekki undir kostnaði. En helsta ástæða þess var hár flutningskostnaður á hráefninu, sem er að mestu leiti vatn, og eins vegna erfiðleika á geymslu vegna fljótvirkra skemmdaferla.
Því var litið til framleiðslu á meltu og skoðaðir möguleikar á að bæta verðmætasköpun og lækkun kostnaðar, sérstaklega við flutning. Melta er verðlítil afurð, en með því að vinna hana frekar, taka lýsi úr henni og síðan eima 60% af vatninu væri hægt að auka verðmæti og lækka kostnað við flutninga á markað.
Niðurstöður verkefnisins benda til að vel sé hægt að vinna meltu á hagkvæman hátt úr hliðarstraumum fiskeldis hér á landi og jafnvel skapa umtalsverð verðmæti með því að vinna meltuna frekar í lokaafurðir.