Fréttir

Aukin sjálfbærni grænmetisgeirans á Íslandi, verðmætasköpun, ný atvinnutækifæri og nýjungar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Bændablaðið birti í vikunni tvær greinar sem fjölluðu um grænmetisverkefni sem unnið hefur verið að hjá Matís síðustu misseri. Annars vegar var fjallað um verkefni sem miðar að því að byggja upp hnitmiðaða þekkingu á valkostum fyrir pökkun á grænmeti og hins vegar verkefni sem sneri að því að fullnýta hliðarafurðir grænmetisframleiðslu og möguleika til vöruþróunar úr þeim hráefnum.

Fyrri greinin sem bar yfirskriftina ,,Vilja leysa grænmetið undan plastfargani” fjallar um verkefnið Áskoranir við pökkun grænmetis sem Ólafur Reykdal, verkefnastjóri hjá Matís hefur stýrt og er unnið í samstarfi við deild garðyrkjubænda í Bændasamtökum Íslands, Sölufélag garðyrkjumanna og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga með styrk frá Matvælasjóði. Vonast er til þess að verkefnið leiði til framfara við pökkun
ýmissa matvæla þó að grænmeti sé séstaklega til rannsóknar hér og greiði einnig leiðina fyrir nýjar tegundir pökkunarefna.
Greinina má lesa í heild sinni á blaðsíðu 16 í Bændablaðinu og hér: Bændablaðið 19. október 2023

Seinni greinin fól í sér viðtal við Evu Margréti Jónudóttur, verkefnastjóra hjá Matís en hún fjallaði um verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða frá garðyrkju sem Rósa Jónsdóttir, fagstjóri lífefna, stýrir. Verkefnið er unnið í samstarfi við Orkídeu og Bændasamtök Íslands með styrk frá Matvælasjóði og miðar að því að koma blómkálsblöðum, spergilkálsblöðum, rósalaufblöðum, tómatblöðum, gúrkublöðum og gulrótargrasi í betri not en nú er gert. Það gera þau með því að rannsaka næringargildi og lífvirkni en einnig þróa vöruhugmyndir úr þessum hráefnum. Verkefnið mun stuðla að sjálfbærni grænmetisgeirans á Íslandi og aðstoða við þróun hans í tengslum við aukna verðmætasköpun, ný atvinnutækifæri og nýjungar. Meginmarkmið verkefnisins er að auka virði grænmetisframleiðslu, bæta nýtingu og auka sjálfbærni.

Í viðtalinu segir Eva meðal annars: ,, það sem standi upp úr eftir þessa vinnu – og vakið helst áhuga hennar – er hversu mörg tækifæri séu til frekari vinnslu á þessu hráefni. „Við höfum verið að sjá töluvert mikla andoxunarvirkni í rósalaufblöðum sem gefur til kynna að afskurður úr rósarækt geti til dæmis verið spennandi hráefni til framleiðslu innihaldsefna í snyrtivörur. Blöð af blóm- og spergilkáli eru síður en svo minna næringarrík en blómið sjálft og engir annmarkar við notkun þeirra
í matvæli”.

Greinina má lesa í heild sinni á blaðsíðum 32 og 33 í Bændablaðinu hér: Bændablaðið 19. október 2023