Fréttir

Dalahvítlaukur í matarsmiðju Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Framleiðsla, sala og dreifing á afurðum Dalahvítlauks er dæmi um árangursríkt ferli þar sem ráðgjöf og aðstaða Matís kemur við sögu. Hér má finna fróðleik og ráð sem gott er að hafa í huga þegar hefja á matvælaframleiðslu.

Hjónin Þórunn Ólafsdóttir og Haraldur Guðjónsson hófu framleiðslu á hvítlauk af fullum krafti sumarið 2023 en ræktun hvítlauks hefst á að setja niður útsæði að hausti og uppskera síðsumars árið eftir. Síðasta sumar fór nær eingöngu í að rækta útsæði og því er von á fyrstu heilu hvítlaukunum í verslanir haustið 2024. Hliðarafurð við útsæðisræktunina eru þó hvítlauksrifin, sem eru of smá sem útsæði og þar hefst þessi saga.

Hjónin leituðu til Matís vegna Matarsmiðjunnar sem starfrækt er hjá Matís í Reykjavík og töldu að starfsemi í fullbúinni matarsmiðju sem þegar er í rekstri myndi nægja til að hefja framleiðslu á matvælum, pökkun, sölu og dreifingu. Annað kom þó á daginn. Ræktun og sala á heilum hvítlauk þarfnast ekki sérstakra leyfa þar sem um er að ræða frumframleiðslu. Ef vinna á laukinn frekar, s.s. aðskilja rifin í lauknum, afhýða, hreinsa eða vinna þau áfram, þá telst það matvælavinnsla.

Matvælavinnsla, hverju nafni sem hún nefnist, er leyfisskyld. Sækja þarf um starfsleyfi til þeirra sem það veita. Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga eða Matvælastofnunnar, allt eftir eðli starfseminnar. Í þessu tilfelli var það Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem þurfti að veita leyfið.

Þar sem nokkuð var liðið frá því hvítlaukurinn var tekinn upp þá var hann að byrja að tapa gæðum og þurfti því snar handtök í að útvega starfsleyfi.

Fyrsta skrefið er að gera gæðahandbók. Í gæðahandbók skal koma fram hvað á að framleiða, úr hvaða hráefni, hver framleiðir, hvar og hvernig framleiðslan fer fram. Einnig þarf upplýsingar um næringarinnihald og hugsanlega óþolsvalda. Sýna þarf fram á að viðkomandi kunni skil á þeim reglum sem matvælaframleiðendur hlýta, gera þarf grein fyrir geymsluþoli vörunnar, skýra út hvaða umbúðir verða notaðar og fá staðfestingu á að þær séu ætlaðar fyrir matvæli. Síðan þarf að kunna skil á persónlegu hreinlæti og almennri meðferð matvæla t.d. mögulegri krossmengun og þá hvernig er komið í veg fyrir hana en það er gert með áhættugreiningu.

Strax og ósk kom fram um að Matís veitti ráðgjöf við gerð gæðahandbókar, var farið af stað. Sólarhring síðar var tilbúin nothæf gæðahandbók sem hægt var að framvísa til heilbrigðiseftirlits og jafnframt var þá mögulegt að óska eftir starfsleyfi. Leyfið fékkst að tveimur sólarhringum liðnum og þá hófst framleiðsla á hvítlaukssalti, en það er fyrsta varan sem kom á markað úr Dalahvítlauk, framleidd í Matarsmiðju Matís að Vínlandsleið 12.

Hægt er að fylgjast með skemmtilegum færslum um ræktunina og vörurnar á facebooksíðu Dalahvítlauks hér: Dalahvítlaukur.

Hafðu samband

Hér má nálgast upplýsingar fyrir nýja matvælaframleiðendur, svo sem leiðbeiningar til að hefja framleiðslu, dreifingu og sölu: